16.09.2009 23:06

Fyrsti í leitum...............



Á þessari mynd er hún Ansu okkar frá Finnlandi að vinna með hest í hringgerðinu, Deila athugar hvort að allt fari ekki vel fram.

Það rigndi mikið í dag og fyrripartinn var það næstum eins og í leitunum í fyrra sem sagt rok í kaupbætir. En föstudagurinn aðal leitardagurinn lítur vel út samkvæmt nýjustu veðurspám.
Annars er ég að spá í að nýta mér speki sem mér var einu sinni sögð en þá í annari merkingu.
Það var þannig að kona nokkur var voða niðurdregin vegna þess að hana hafði dreymt draum sem táknaði eitthvað voðalegt samkvæmt draumráðningabókinni hennar. Þeim sem voru í kringum hana og tóku þátt í þessum dapurlegu umræðum leið ekki vel og reyndu eftir fremsta megni að hughreysta hana. Þá barst þeim þessi góði liðsauki sem var kona á áttræðis aldri sem sagðist hafa fundið góð ráð við svona málum fyrir u.þ.b 50 árum síðan.
Það væri til fullt af draumráðningabókum og ef að draumurinn boðaði illt í einni bók þá væri bara að fara í þá næstu. Draumarnir væru hvort eð er alltaf fyrir giftingu, dauða eða langlífi svo að ef að þér hugnaðist ekki dauðinn þá yrðir þú að velja langlífi eða giftingu.
Þannig að ég les veðurspá á mörgum stöðum og hlusta líka á hana í útvarpinu. Vel svo bara þá bestu og hef gott veður sem oftast.

Það var fyrsti í leitum í dag og við tókum smá upphitun fyrir næstu daga. Ég, Skúli og Astrid fórum af stað og Sveinbjörn veitti faglega ráðgjöf úr bílnum. Við smöluðum það sem við köllum inní hlíð og útá hlíð. Þetta er eina svæðið sem að við smölum ekki á hestum svo að þarna reyndi á lipurð og þol. Allir skiluðu sér heim hressir og kátir svo að við teljumst því vera bara nokkuð spræk. Afraksturinn voru ríflega hundrað kindur.

Í dag komu þær mæðgur Bráðlát og Svartasunna heim eftir dvölina hjá honum Stikli frá Skrúð. Gott fólk tók þær mæðgur með sér áleiðis hingað vestur þar sem við vorum í smalastússi svo að ég hef ekki ennþá fengið að vita hvort að Bráðlát er fengin.
Svartasunna hafði stækkað mikið og var spök og skemmtileg.

16.09.2009 10:49

Flipi með enskri kynningu.


Vildi bara láta ykkur vita að nú er kominn flipi hér fyrir ofan sem heitir ,,english,,  endilega komið því til skila til þeirra sem þurfa á því að halda.
Ég verð að deila því með ykkur hvað er gott að eiga góða að þegar halda á úti svona heimasíðu. Það þarf sko að halda mér við efnið ef að ég fengi nokkru ráði væri ég alltaf úti.

Takk Tommi, Tóta, Hulda Geirsdóttir og  Mummi ,,litli,,

15.09.2009 22:42

Næstum út í veður og vind........



Ef að þið skoðið vel þá sjáið þið regnbogann þarna rétt við húshornið, ég held að hann þýði örugglega að það verði blíða um réttirnar. Enda búið að vera alveg þokkalegt veður í dag.

Í gær rauk húsfreyjan ásamt fríðu föruneyti úti kálgarð að taka upp kartöflur. Veðrið var nokkuð gott hlýtt en strekkings vindur. Þegar freyjan og föruneytið höfðu hamast þó nokkra stund fór heldur að bæta í vindinn. Loks kom að því að vindurinn og við fórum að togast á um kartöfluföturnar en þar sem við öll töldum okkur hraust og fær í flestan sjó héldum við áfram eins og ekkert væri.  Þegar lengra leið á daginn fór líka að rigna,  já og sko rigna í alvöru. Síðan bætti ennþá meira í vindinn en áfram var haldið af miklu kappi. Skyndilega fór Astrid danska vinnukonan okkar að segja okkur að ef að það væri svona veður í Danmörku þá kæmi maður í sjónvarpið og segði fólki að það ætti að vera heima hjá sér. 
Stuttu eftir þá umræðu fylltist fatan hjá húsfreyjunni og hún stóð upp úr moldarbeðinu og hugðist losa kartöflurnar í poka skammt frá. Kom þá í ljós að sennilega væri þetta vont veður og ekki bara á danskan mælikvarða. Þar sem að húsfreyjan hefur nokkurs konar innbyggð ankeri tókst hún ekki á loft, en litlu mátti muna. En Guði sé lofa að þetta var ekki vinnukonan hún hefur engin ankeri.
Þegar hér var komið við sögu var ákveðið að tímabært væri að taka hlé á kartöflu upptökunni og láta kartöflurnar spretta aðeins meira.
Var það samdóma álit allra viðstaddra að þær mundu spretta alveg ljómandi vel þar til að það kæmi gott veður.

Ég skrapp til Reykjavíkur í morgun á fund þróunarfjárnefndar í Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytinu. Þetta var loka fundurinn hjá okkur í nefndinni en við erum búin að funda í þó nokkur skipti þetta árið. Mörg merkileg mál komu inná borð til okkar og var afar erfitt að gera uppá milli þessara góðu mála þegar kom að úthlutun.
Vonandi verður fjárúthlutun nefndarinnar hestamennskunni til góðs.



14.09.2009 22:02

Smalar kynntir til leiks..................



Þá er komið að því að kynna væntanlega stórsmala sem mæta til starfa nú í vikunni.

Fyrstan kynni ég til leiks Þorra Káts hann er ungur og efnilegur svolítið undirförull en afar áhugasamur smali. Hann á að baki örlítinn afbrotaferil sem er þó innan skekkjumarka og hægt að heimfæra að helst öllu leiti á aðra, svo sem tjaldbúa og illa staðsettar túnrollur.
Það vill svo illa til að Þorri þarf að stunda bóklegt nám í vikunni og hefur því boðað forföll.



Næstur er kynntur til leiks Ófeigur Káts hann er blíðlindur og svolítið óheppinn klunni sem vill allaf gera vel en með misjöfnum árangri. Hann á engan afbrotaferil að baki og helgast það helst af því að hjartað er frekar lítið og að hans mati mjög óskynsamlegt að vera yfir höfuð að fara að heiman. Helsti kostur hans er að eins strengs rafmagnsgirðing heldur honum alveg eins og ætlast er til með stórgripi eins og hann. Því miður verður hann upptekinn við að gæta hússins svo að hann tekur ekki þátt í smalamennsku að sinn.



Næst kynni ég til leiks íslenska fjára hana Snotru Kubbs hún er lítil, málgefin og afskiptasöm. Snotra hefur mjög mikilvæg hlutverk á heimilinu, vera mjúkur bangsahundur til að knúsa og kjassa og að bera ábyrgð á öllum afglöpum sem bræðurnir Ófeigur og Þorri framkvæma.
Af þessu sjáið þið að hún er þjökuð af vinnuálagi. Snotra vill ef að hún fær að ráða alltaf hafa síðasta orðið. Snotra er vinur vina sinna, vinir Snotru eru allir sem vilja.
Snotra verður ,,talsmaður,, hunda í leitunum.



Síðast en ekki síst er það svo hún Deila Flókadóttir gamla kempan yndislega ljúfur og góður hundur. Hún er algerlega ómissandi í leitirnar og stendur sig alltaf með prýði, verst hvað hún er að eldast. En synirnir tveir koma sterkir inn og verða vonandi búnir með það bóklega næsta haust. Deila er kurteisasti hundur sem að ég hef kynnst og vill alltaf gera manni til geðs. Deila verður yfirsmalahundur búsins eins og mörg undanfarin á.


13.09.2009 21:50

Sparisjóður grasekkill.......og smalafiðringur að auki.



Eins og þið sjáið hér á myndavalinu er kominn smalahugur í húsfreyjuna enda farið að styttast verulega í fjörið. Þessi mynd var tekin 4 september s.l og sýnir Djúpadalsána frekar aumingjalega en eins og þeir muna sem smöluðu með okkur í fyrra þá getur hún orðið ofsafengin og gráðug ef að hún fær til þess vatn. En við vonum bara að hún komist ekki í svoleiðis ham þetta haustið þrátt fyrir vafasama veðurspá.



Er ekki mikið um svona sveigur og beygur þarna á Hólum?
Rétt að æfa sig áður en alvara lífsins hefst svo að maður verði ekki mesti tossinn í bekknum.
Þetta er hann Vörður Arðsson sem núna er á Hólum í háskóla.

Ég verð að játa að ég bíð spennt eftir því að vita hvernig hestarnir þrír sem fóru norður að Hólum komi til með að standa sig í náminuu. Í næstu viku byrjar þetta fyrir alvöru og þá fyrst verður að vænta frétta.

Í dag fór síðasta hryssan heim frá honum Sparisjóði, það var fullorðin hefðardama utan af Nesi sem að vonandi hefur haft bæði gagn og gaman af dvölinni.
Hann var svolítið einmanna en hresstist þegar að hann kom inní hesthús þar sem hann hitti góða félaga. Á morgun fer hann út í nýja girðingu þar sem að hann slappar af eftir annir sumarsins og safnar kröftum fyrir annríki haustsins. Það er annasamt að vera uppáhalds.

Réttin heim við fjárhús fékk aðeins upplyftingu í dag þegar að árleg yfirferð fór fram. Á morgun er það svo girðingin sem á að draga úr líkum á því að allt féð tapist út um allt þegar rekið verður inn á sunnudaginn næsta. Sem sagt undirbúningur í fullum gangi og bráðum hægt að segja eins og gjarnan fyrir jólin ,,bara eftir að kveikja á kertunum,,

11.09.2009 23:14

Mér finnst rigningin góð............í hófi.



Þarna sjáið þið hana Siglingu Sólons og Dimmudóttir hún er fædd árið 2008 .

Þurrkurinn er búinn allavega í bili, hér í Hlíðinni er það bæði jákvætt og neikvætt að mínu mati. Það jákvæða er að þá fer vatnið kannske að ná upp að girðingunum aftur og svo var gróðurinn orðin svolítið þyrstur. Það neikvæða er ef að það rignir fram að leitum þá verður fjallið leiðinlegt yfirferðar á hestum og það þykir slæmt á þessum bæ. Vonandi leysist þetta á jákvæðan hátt og það rignir bara þangað til vatnið hefur vaxið mátulega upp að girðingunum.
Svo sé ég í hyllingum logn, þurrk og passlega heitt í leitum og réttum hér í Hlíðinni.
Já það styttist í leitir nú er bara að krossa fingur og vona að sem flest af liðinu okkar geti mætt og aðstoðað okkur í kringum næstu helgi.

Hér var starfrækt bakarí í dag, já í alvöru meira að segja með tveimur starfsmönnum. Starfsmennirnir voru ég og Astrid, verkaskiptingin var ekki flókin ég subbaði út og hún vaskaði upp. Tegundirnar urðu bara nokkuð margar og uppskriftirnar stórar. Svo smökkuðum við báðar allar afurðirnar og vorum sannfærðar um að ef að við leggðum þetta fyrir okkur væri það ekki spurning við mundum slá í gegn.
Allavega hvor hjá annari.

Eins og þið hafið kannske tekið eftir setti ég inn smá myndasyrpu frá stóðsmöluninni undir takkann ,,albúm,, Ætlaði svo að vera dugleg og setja inn fleiri myndir í kvöld en það hafðist nú ekki en stendur til bóta sem fyrst.
Við höfum líka bætt við nýjum söluhrossum og eigum enn eftir að bæta þar við þegar ég hef verið duglegri að taka myndir.

09.09.2009 21:04

Miklubrautardarraðadans, skírn og fleira.



Alltaf eitthvað að bralla..............húsfreyjan og Blika að velta vöngum yfir ævafornum stöngum. Þær eru ekki bara fallegar uppá vegg þær eru líka bráð skemmtilegar uppí hesti.

Það hefur heilmikið á dagana drifið hér í Hlíðinni síðan ég skrifaði síðast á síðuna.
Á mánudaginn fór Mummi norður þar sem hann er að hefja sitt annað námsár við Háskólann á Hólum. Mér sýndist að hann væri bara mjög spenntur og áhugasamur að byrja aftur. Enda ekkert smá spennandi nám sem í boði er og skemmtilegur félagsskapur.
Þegar ég í síðustu skrifum var að telja upp krakkana ,,mína,, sem ég þykist eiga eitthvað í sem eru á Hólum gleymdi ég henni Höllu Maríu. Halla hvernig gat það nú gerst??? Halla var hérna hjá okkur í þó nokkurn tíma og var t.d að vinna hjá okkur heita sumarið fína þegar sem mest var sundriðið í vatninu.
Í gær var svo brunað með fjórfætta Hólanema norður það voru þeir Baltasar sonur Trillu, Vörður sonur Tignar og Fjórðungur sonur Sunnu og allir eru þeir synir Arðs frá Brautarholti.
Nú er bara að vona að bæði krakkarnir og fjórfættlingarnir standi sig vel í náminu á Hólum.
Mummi og Helgi eru sambýlingar á Hólum og þegar við vorum á ferðinni í gær buðu þeir uppá þessa fínu súpu, brauð og kaffi. Koma bara sterkir inn..........húslegir drengirnir og meira að segja með matreiðslubók í sínum fórum. Næstum viss um að ég fæ steik í næstu ferð.

Á sunnudaginn var litla daman þeirra Randiar og Hauks skírð í Reykholtskirkju, hún hlaut nafið Kristín Eir. Þetta var falleg og hátíðleg athöfn og svo glæsilegt kaffihlaðborð í Skáney á eftir. Ég var að rifna úr stolti yfir því að vera skírnarvottur og svo tek ég ,,ömmuhlutverkið,, alvarlega og hef rosalega gaman af því að fylgjast með þessari fallegu dömu.
Takk fyrir skemmtilegan dag og frábærar veitingar, alltaf gott og gaman að koma í Skáney.

Á mánudaginn var stjórnarfundur hjá Félagi tamningamanna sem haldinn var í Reykjavík.
Þegar ég var á leiðinni heim af fundinum hvellsprakk á miðri Miklubrautinni, sem betur fer tók bíllinn ekki af mér völdin og gat ég rennt mér útí kannt. Húsfreyjan hugðist rjúka til og skipta um dekk en áttaði sig þá á því að hún var sko aldeilis ekki á gömlu góðu toyota touring sinni. Upphófst nú heljarinnar basl og verð ég að játa að ekki var nú eingöngu lognmolla í kringum húsfreyjuna þar sem hún og trukkurinn húktu uppá götukannti í brjálaðri umferð.
Á svona stundum er nauðsynlegt öllum konum að eiga eiginmenn sem hægt er að hringja í þó ekki nema til þess að hundskamma þá fyrir að þetta hafi gerst.
Hvort að þeir geti nokkuð að því gert er svo önnur saga. 
Sem sagt í stuttu máli....hringdi í bóndann....öskureið....aðallega af því að ég gat ekki skipt um dekk........veit að það er aulalegt að ná ekki dekkinu undan.
Kvaddi fljótt og skellti á........já ég held að ég hafi kvatt, hringdi í soninn bara til að vita hvort að dekkið losnaði ekki við það og jafnvel varadekkið færi sjálft undir. Þetta var gert þó svo að hann væri norður á Hólum og ég í Reykjavík. Settist aftur inní bíl og áttaði mig þá á því að sennilega væri ég búin að vera í bráðri lífshættu þarna í útjaðri hraðbrautarinnar MIKLUBRAUTAR sem að allir virtust keyra um eins og þeir væru í tímatöku í formúlu eitt.  Meðan á þessu basli stóð ákvað bóndinn að vænlegast væri að fá góða menn húsfreyjunni til bjargar. Þar sem að hann hefur áralanga reynslu að tamningum (stundum á geðvondum hryssum) valdi hann að ræða þá ákvörðun ekkert að sinni við húsfreyjuna heldur láta verkin tala og boða mennina beint á staðinn. Mættu því heiðursfeðgar á staðinn á ótrúlegum tíma.
Ég verð að játa að ég var afar fegin komu þessara góðu manna.
En þó að ljótt sé frá að segja þá leið mér nú svolítið betur að verða vitni af því að þessi dekkjaskipting var helv......basl líka hjá vörubílstjóra og þaulvönum hagleiksmanni.
Já kellur úr fjöllunum geta ekki alltaf allt frekar en ofurkonur úr höfuðborginni.............
Takk fyrir hjálpina drengir bæði andlega og verklega.



06.09.2009 21:19

Hin heilaga þrenning og stóðsmölun.



Hin heilaga þrenning............................Dregill, Fannar og Proffi í dekurgirðingunni.
Þessir fínu herrar fóru í haustfrí á fimmtudaginn. Dregill og Fannar eru búnir að standa í ströngu alveg frá því í desember í fyrra, vera á Hólum og keppa helling í sumar. Svo að fríið var virkilega kærkomið hjá þeim.  Proffi aftur á móti er eiginlega í sjálfteknu haustfríi í óþökk húsfreyjunnar sem að sannarlega ætlaði að nota hann miklu meira í haust. En klárinn er klár því fann hann bara fínan slagsmálahest og hljóp og tuskaðist við hann þar til báðar fram skeifurnar voru farnar og hófarnir með. Því var fátt annað í stöðunni en frí og hófasöfnun.



Á föstudaginn smöluðum við stóðinu og rákum það heim til þess að taka frá hross sem að eiga að fara að sinna göfugra hlutverki en því að bíta gras uppí fjalli.



Það var hopp og hí og hamagangur................. þarna fer hluti af stóðinu yfir Djúpadalsá.




Urðin mín ákvað að það væri sniðugt að óþekktast svolítið og hljóp á undan út leira.



..............og að lokum voru allir komnir inní gerði.
Þarna er hún Glotthildur Glottadóttir að kljást við Vörð og Léttlindur fylgjist með.



Og Mummi fann Snekkjuna sína sem er alltaf jafn geðgóð og skemmtileg. Muggur gæist inná myndina líka.

02.09.2009 22:14

Hólakrakkar, heimasæta, smölun og síðan á ensku.



Það styttist óðum í að Mummi fari norður að Hólum og hefji sitt annað námsár við skólann.
Eins og þessi heimildarmynd ber með sér þá voru vel flestir mjög áhugasamir um námið.
En það verða fleiri en Mummi á Hólum sem við þykjumst eiga eitthvað í. Alma Gulla okkar góða vinkona já og vinnukona til margra ára er að hefja þar nám. Þegar að hún kom við hjá okkur á leið norður og gisti vorum við að ræða um hvað það væri skrítið hvað tíminn líður alltaf hratt. Samt er flest eins og gerst hafi í gær. Til dæmis finnst mér það mjög stutt síðan hún kom fyrst til okkar en þegar við fórum að hugsa málið þá voru árin orðin ótrúlega mörg.  Hann Helgi okkar ákvað líka að skella sér á Hóla, það er eins með hann mér finnst að hann hafi næstum alltaf verið einn af okkur hér í Hlíðinni. Þannig að þið sjáið að ég get eignað mér fullt af góðum krökkum á Hólum þennan vetur eins og þann síðasta.
Verið þið nú stillt og dugleg elskurnar.emoticon
Já og ekki nóg með það því þrír aðrir nemendur flytja héðan norður í næstu viku og ,,setjast,, á skólabekk. Nánar um það síðar..................smá spenna.

Við fengum mjög skemmtilega heimsókn í gær hér mætti litla Hauks og Randiardóttir heimasæta í Skáney með fríðu föruneyti. Hefur hún stækkað heilmikið síðan ég sá hana síðast og fer örugglega að passa í reiðbuxur fljóttlega. Ég verð að fara að drífa mig við prjónaskapinn áður en daman stækkar mikið meira svo að ég endi ekki með fermingakjól.

Fyrir ykkur sem hafið hagsmuna að gæta þá ætlum við að smala stóðinu á föstudaginn og reka það inn tímasetningin er ekki endanlega ákveðin en hafið þið endilega sambandi.

Að undanförnu hef ég fengið mikið af bréfum erlendis frá fólki sem að skoðar heimasíðuna og er að leita sér upplýsinga um ýmsa hluti er varða hestamennsku og höfum við því ákveðið að breggðast við því.
Um þessar mundir er verið að vinna að því að koma helstu upplýsingum hér á síðunni yfir á ensku og verður það vonandi klárt sem fyrst.

31.08.2009 16:55

Ungfrú Trilla Gaums......



Á þessari mynd sjáið þið hana Trillu litlu Gaums og Skútudóttir, hún fór með mömmu sinni til Glyms frá Skeljabrekku á föstudaginn. Það passaði ljómandi vel fyrir okkur að það var sónað frá höfðingjanum á föstudaginn svo að við komum heim með Létt fylfulla ca 20 daga.
 Trilla litla er bara bráð snoturt folald og sýnir allan gang en fer þó mest um á tölti.
Hún var vandlega skoðuð áður en hún fór uppá kerruna og lét sér það vel líka að fá mikla athyggli. Verður líklega eins og Snekkja systir hennar spök og stillt frá fyrsta degi.

Um helgina var ansi líflegt hjá okkur og margir litu við sumir til að veiða aðrir til að skoða hrossin sín og enn aðrir að skoða okkur og jafnvel heimalingana. Bara gaman að sjá ykkur.

Við vorum líka svo heppin að hún Hildur kom hérna vestur og hélt uppá afmælið sitt svo að við mættum í þessa fínu veislu í því efra á laugardaginn.

Veðrið þessa dagana er nú ekkert sérstakt rok og ansi kalt eins gott að það verði betra um réttirnar eins og ég var víst búin að lofa.

26.08.2009 23:05

Töðugjöd skítmokstur og sónar


Vá nú var blíða í Hlíðinni í dag 15 stiga hiti logn og smá úði öðru hvoru frábært útivistarveður fyrir menn og skepnur.

Það voru eiginlega hálfgerð töðugjöld hér í Hlíðinni í dag þó er ennþá verið að velta vöngum yfir því hvort eigi að slá há á nokkrum stykkjum. Það verður nú að segjast eins og er að heyskapurinn hefur nú oft gengið betur. Endalausar bilanir voru að stríða  okkur og bið eftir varahlutum var löng og ströng. Ég hef sterkan grun um að einhverjir púkar hafi verið hér á sveimi til að tefja fyrir heyskapnum, vona bara að þeir fari að snúa sér að einhverju öðru og jákvæðara verkefni.
En allt hafðist þetta og eitthvað vel á annað þúsund rúllur komnar í stabbann.

Mummi byrjaði að moka út úr haughúsinu undir fjárhúsunum í dag, þannig að hann hefur verið í djúpum skít í orðsins fyllstu merkingu. Nú skal dreift með stæl næstu dagana. Það styttis í að hann fari norður að Hólum í skólann og ég er farin að halda að hann ætli að klára næstum ,,allt,, áður enn hann fer. Ekki slæmt fyrir okkur...............

Í gær var sónað og sónað og sónað.................allavega var hún Edda dýralæknir búin að vera að frá því klukkan 6 í gærmorgun þegar hún kom til okkar kl 24.oo í gær. En allt gekk eins og í sögu og um kl 2 var hún búin að upplýsa allan sannleikan sem var í boði hjá hryssunum hér á bæ. Ég verð að játa að ég var nú orðin syfjuð þó að ég hafi ekki vaknað kl 6 en Edda var eldhress og hreint ekkert syfjuleg að sjá.
Byrjað var að sóna í Hólslandi þar sem að Sporður frá Bergi var búinn að sinna miklum fjölda af hryssum. Útkoman var mjög góð og næstum allar hryssurnar fylfullar.
Frá okkur voru tvær hryssur hjá honum þær Sunna og Karún mín, báðar vor fylfullar.
Svo var líka vinkona mín hún Venus frá Magnússkógum hjá honum og að sjálfsögðu fylfull.
Hér heima sónuðust Skeifa gamla og Upplyfting báðar fylfullar við Gosa og Tign aftur við Sparisjóði auk þess dömur frá öðrum eigendum sem ekki verða taldar upp hér.
Ég er afar ánægð með að Tign er fengin með Sparisjóði því ég er svo ánægð með hann Kost minn þið munið litla stóðhestinn sem ég sýndi ykkur myndir af um daginn.
Ein dama bættist við hjá Sparisjóði í gær.

Trilla litla Gaums og Skútudóttir dafnar vel og nú fer að styttast í að hún fari í sitt fyrsta ferðalag á ævinni. Það verður sennilega á föstudaginn sem hún breggður undir sig betri fætinum eða dekkjunum og leggur í hann. Nánar frá því síðar.......

Ég fékk fyrirspurn um það afhverju væru ekki fleiri myndir af Sparisjóði inná síðunni.
Á því eru tvær haldbærar skýringar önnur er sú að hann verður ekki nægilega oft á vegi mínum þegar ég er vopnuð myndavél. Hinsvegar er hann eins og eigandinn ferkar lítið fyrir að vera þeim megin við myndavélina nema að vel yfirveguðu ráði. Það er ekki gaman að lenda inná mynd ógreiddur, nývaknaður, hrukkóttur eða illa fyrirkallaður.
Svo má ekki gleyma því að stundum geta verið kíló á þvælingi sem hreinlega myndast ekki vel nema þau séu rétt staðsett.

24.08.2009 20:59

Skúta loksins köstuð og smá myndasaga frá vorinu.


Loksins, loksins kastaði hún Skúta hans Mumma brúnni hryssu undan Gaumi frá Auðsholtshjáleigu. Ég var búin að bíða með myndavélina á lofti í allan gærdag því þá var orðið ljóst í hvað stefndi. Mjólkin bunaði úr henni frá því um hádegi í gær. En Skúta var sniðug og ákveðin í því að láta engan ná myndum af þessu svo að hún kastaði í svartamyrkri í nótt.
Hryssan hefur hlotið nafnið Trilla í höfuðið á ömmu sinni.

Á föstudaginn kom hún Rák heim eftir skemmtilega sumardvöl hjá gamla höfðingjanum Pilti frá Sperðli. Hún sónaðist fylfull eins og til var ætlast svo nú er bara að bíða spennt eftir afkvæminu næsta vor.


En vitið þið hvað ????  mér finnst örstutt síðan í sauðburði.................



........þá voru allar stíur fullar af fé og meira að segja á tveimur hæðum sumstaðar.



Þá kom líka Ansu frá Finnlandi að hjálpa okkur.............eins og reyndar fullt af öðru góðu fólki.



.......ég og Hrannar reyndum að hugsa eitthvað gáfulegt..........sem að sjálfsögðu tókst.




Snotra og Astrid voru stundum þreyttar......................




..............................................en Lalli notaði tímann vel og hugleiddi lífið og tilveruna (stelpur eru sko í tilverunni).




Næturvaktin gat verið stembin sérstaklega á daginn...................maður verður samt að fá lit.




...........en þegar sauðburðurinn var búinn urðu sumir hoppandi kátir...............



................því þá fæddust folöld.

Smá leikur að myndum, alltaf skemmtilegt að rifja upp góðar stundir.

Á morgun verða sónaðar fleiri hryssur svo að ég get þá sagt ykkur meiri fréttir.




20.08.2009 22:26

Úti er alltaf að snjóa.........nei sem betur fer bara slydda


Þetta er nú ekki grín...............það gránaði í fjöllin áðan og það er 20 ágúst. Reyndar hefur Geirhnjúkur gránað einu sinni áður í sumar en núna náði þessi grái niður um allt. Hellisdalur, Tindadalir, Skálarhyrnan, Snjó og Þverdalur.............grátt og ekki gaman.
Vona að berin frjósi ekki strax og kuldinn nái ekki í kartöflugarðinn.
Það var allavega ógeðslegt veður í kvöld þegar við smelltum hrossunum inn ekki gott fyrir þau greyin að fá slyddu ofan í svitann. Mér fannst þau bara fegin að fá að vera inni í nótt, smá tilbreyting þar sem þau koma alltaf inn á morgnanna og fara út á kvöldin.

Annars er búið að vera ýmislegt stúss í gangi í dag, ég brunaði eina ferð til Reykjavíkur (að sjálfsögðu á löglegum hraða ) að sækja varahlut. Þessar elskur í Vélfangi voru sneggri en við áttum von á og því allt tilbúið í dag. 
Takk fyrir góða þjónustu nú í þessu bilannafári Vélfangsmenn og Skipanesdrengir.

Á morgun þarf að sækja eina hryssu sem vonandi kemur fylfull heim og ýmislegt fleira er á döfinni. Það er því best að fara bara að skoða koddann.

19.08.2009 22:37

Eins og gerst hafi í gær............og smá golf með.



Fyrsta hrossaeignin mín hún Skjóna þarna með eigandann á baki og folaldið er Litbrá.

Eins og gerst hafi í gær.............................eða þannig, þessi mynd var tekin fyrir örfáum árum að mér finnst. En árin eru nú orðin þó nokkuð mörg ég ætla ekki að segja ykkur hvað þau er mörg. Takið eftir þessum flotta bakgrunni á myndinni þessum fínu kusum sem eitt sinn voru til hér í Hlíðinni.
En eitt hefur ekki breyst frá þessum tíma, ég er alltaf jafn veik fyrir skjóttum hrossum það eldist sennilega seint af mér. Núna bíð ég bara spennt eftir því að fá folald undan Andrá minni sem fór undir Þrist frá Feti í sumar. Hulda vinkona mín er sannfærð eins og ég að það verði skjótt hryssa.................og þá kemur nafnið Huldumey sterklega til greina. emoticon 

Veðrið í dag hefur nú verið full haustlegt fyrir minn smekk strekkingur og rigning. Mér finnst alltaf verra að venjast venjulegu haustveðri eftir gott sumar er hreinlega orðin of kröfuhörð.
Hugsa um það daglega hvort að verið verði nú ekki örugglega betra í leitunum en í fyrra.
Er að herða mig uppí að verða sannfærð og fullviss um að það verði ótrúleg blíða samt ekki of heitt fyrir kindur í nýjustu ullartískunni.

Það er alltaf svo spennandi að fá fréttir af hrossum sem við höfum átt. Í gær talaði ég við eina vinkonu mína sem að eignaðist hryssu frá okkur fyrir nokkrum árum. Hryssan var nýbúin að eignast folald og heldur betur lukka með litinn brúnblesótt og ,,bláeygt,, örugglega margir búnir að bíða lengi eftir því að fá svona lit.
Fínn bónus sérstaklega þegar hryssan er bara brún en samt fyrir mestu að fá góðan grip sem vonandi passar í hlutverkið sem honum er ætlað.
Ég er kannske svo skrítin að mér finnst miklu meira gaman að fá svona fréttir og gleðjast með eigandanum en að velta mér uppúr einhverju leiðinda daglegu þrasi sem kannske telst meira fréttnæmt og gáfulegra.

Ófeigur og Þorri eru bara sprækir eftir ,,herraklippinguna,, sem þeir fengu hjá honum Rúnari í fyrradag. Raunar svo sprækir að mér var farið að detta í hug að Skúli og Rúnar hefðu bara farið í golf þennan dag og sleppt öllum klippingum.
Feðgarnir á þessum bæ eru ennþá með töluverða golfdellu og hafa öðru hvoru skroppið af bæ í sumar til að lumbra á kúlunum. Mér finnst frábært hjá þeim að líta uppúr puðinu og breyta til.  Ég hef velt þessu sporti fyrir mér en ekki fengið svo mikið sem snefil af löngun til að spreyta mig. Er samt viðbúin ef að kastið kemur að leggjast niður og láta það líða hjá.


18.08.2009 21:48

Góður Aldur og Viðja týnd



Ef að þessi dama sem er á myndinni yrði reið og vildi reyta hár sitt hefði hún af nógu að taka.
Þetta er hún Skúta sem þarna er í andlegri íhugun.......................og er ekki köstuð ennþá.

Í dag var sónað frá honum Aldri frá Brautarholti sem var í girðingu í Fellsöxl, útkoman var góð og velflestar hryssurnar fylfullar.
Já ég var heldur betur kát þegar ég var búin að fá niðurstöðurnar það voru nefninlega þrjár hryssur sem mér var umhugað um og allar fylfullar. Fyrsta er að telja Kolskör mína sem sónaðist með eins og hálfsmánaðar fyl, þá var það hún Þríhella sem var með hátt í tveggja mánaða fyl og svo Perla Gustsdóttir frá Lambastöðum sem var með mánaðar gamalt fyl.
Ég bíð mjög spennt eftir að sjá þessa gripi næsta vor.

Á meðan ég man...............ef að einhver hér á mínum slóðum rekst á þriggja vetra dökkmósótta hryssu í óskilum þá endilega látið mig vita. Hún Viðja mín er týnd reyndar búin að vera það svolítinn tíma en það gerir ekkert til að vera bjartsýn og kanna málið.