Færslur: 2009 Maí

31.05.2009 23:26

Svartasunna og ýmislegt fleira. 
Þrír gráir.

Þessi mynd er tekin á reiðsýningu Háskólans á Hólum þegar brautskráning fór fram nú um daginn.
Þarna eru eins og þið sjáið þrír gráir, fremstur á myndinni er Sören Madsen sem á þessum degi raðaði inn verðlaunum. Í hans hlut komu Morgunblaðshnakkurinn, Ástundarhesturinn og LH styttan. Þetta er frábær árangur og óskum við Sören innilega til hamingju með þetta. Sannarlega hestamaður með bjarta framtíð. Þið getið lesið nánar um þessi verðlaun og margt fleira á heimasíðu Félags tamningamanna.
Það er tengill inná síðuna hér á forsíðunni FT.

Mummi datt í lukkupottinn í dag þegar Bráðlát hans kastaði brúnu merfolaldi undan Sparisjóði mínum. Hryssan hefur hlotið nafnið Svartasunna og getið þið nú af hverju?

Veðrið var með ágætum í dag og rákum við flest allt féð af túninu og uppí fjall. Ört fækkar inni og eftir morgundaginn verður hægt að fara að birta tölur þar um. Þetta hefur allt gengið þokkalega en heimalingunum fer þó fjölgandi okkur til ama en litlu gestunum til ánægju.

Við höfum smellt inn svolítið af myndum það er svona sitt lítið af hverju endilega skoðið.


30.05.2009 23:16

Góðar stundir og áburðardreifing.Þessi mynd var tekin á útskriftardegi Háskólans á Hólum þarna eru Mummi á Fannari og Franzi á jörpu.

Við áttum frábæran dag með skemmtilegu fólki, fyrst í Lindartungu svo á Rauðamel. Tilefnið var minningarstund um systkinin frá Syðri Rauðamel. Það var svo gaman að rifja upp gamla daga, sjá gömul myndbönd og myndir en síðast en ekki síst hittast og spjalla.

Mummi og Jón Ben byrjuðu að bera á túnin í dag og afrekuðu eins og við var að búast alveg helling. Fara vonandi langt með áburðardreifinguna á morgun ef að veður leyfir.

Ég bíð og bíð eftir fleiri folöldum en án árangurs enn sem komið er. Kolskör mín er samt alveg að springa. Á næstu dögum vindum við okkur svo í að fortemja veturgömlu tryppin pínulítið áður en við sleppum þeim í fjallið. Já og auðvitað gelda það sem gelda á.

Undan farna dag hafa staðið yfir miklar járningar og eru flest hrossin að verða bara nokkuð fín. Dömurnar Astrid og Ansu hafa svo verið að snyrta og pússa.

Bræðurnir Ófeigur og Þorri hafa í ýmsu að snúast þessa dagana, þeir eru svo ljómandi hlýðnir að þeir bíða bara fyrir utan húsið heima þegar að við förum í hesthúsið. En landhelgi  þeirra er nú samt alltaf að stækka pínu lítið. Fyrst fóru þeir ekki út fyrir mölina í hlaðinu, síðan var það radíusinn kringum húsið í passlegri fjarðlægð og núna eru landamærin afleggjarinn heim að húsinu og hins vegar vegurinn. En sumir skreppa stundum í útrás þó svo það hljómi nú ekki vel þessa dagana.
Samkomulagið hjá bræðrunum er svona upp og ofan því þarf gæslumann við matardallinn þegar snæddur er morgunverður í hundalandi. Annars er voðinn vís. Það var góð skemmtun að sjá þá bræður borða pylsur um daginn. Áttæknin var þannig að þeir tóku pylsurnar og borðuðu eins og við spakettí, sogið, rennt niður og tuggið sem minnst.
Við eru bara nokkuð sátt við þá bræður og erum þeirrar skoðunnar að við getum hugsanlega fengið góða smalahunda ef að við klúðrum ekki uppeldinu.
Mikil ábyrgð sjáið þið til.

28.05.2009 23:28

Silungur og sauðburðurJæja þá er silungsveiðin byrjuð og fer bara vel af stað þetta sumarið eins og sjá má á myndinni. Bræðurnir Hallur og Hrannar frændur mínir smelltu út neti um síðustu helgi og fengu þennan fína afla. Hallur kannaði hitastigið á vatninu og óð útí með endann á netinu en Hrannar veitti honum andlegan stuðning frá bakkanum. Hallur er ekkert óvanur því að vökna í Hlíðarvatninu svo að honum var ekkert meint af þessu brasi. Aflinn sem náðist á land þessa dagstund voru 16 stykki, bleikja og urriði í bland. Það sem er á myndinni er gott sýnishorn en þess skal getið að þegar myndin er tekin er Hallur stunginn af með allar stóru bleikjurnar. Einn veiðimaður kom hér í dag í rigningunni og sá ástæðu til að koma við eftir tveggja tíma stopp og sýna 4 vænar bleikjur og einn urriða. Sem sagt góð byrjun á veiðisumrinu.

Núna er að færast ró yfir sauðburðinn og þær örfáu kindur sem að eftir eru taka sér góðan tíma til að dreifa burðinum allan sólarhringinn. En það eru ýmsir snúningar eftir og mikil vinna að koma öllum út, marka og númera. Númerin standa núna í 945 og dágóður slatti eftir enn. Þetta er fyrsta árið sem að ég marka allan hópinn og er ég mjög fegin að hafa fengið góða æfingu í æsku við að marka. Það var nefninlega þannig að þegar ég var lítil og engan veginn fær um, dreymdi mig um að fá að marka. Til að róa stelpurófuna tók Lóa frænka mín það til bragðs að klippa út eyru úr pappírnum sem að kom utan um dagblaðið Tímann í gamla daga. Þegar svo þessi fínu eyru voru tilbúin settist ég með spekings svip og klippti öll mörkin á heimilinu samviskusamlega út. Við þetta naut ég leiðsagnar þeirra móðurbræðra minna Ragnars, Einars og Sveinbjörns. Nú hefur þessi gamli draumur ræst og ég marka og marka og marka. Sumir draumar ræstast sjáið þið til.
Tíminn það góða dagblað var til margra hluta nytsamlegur hvort sem var í pólutísku uppeldi eða til landbúnaðarstarfa.

Fjöldinn allur af fólki hefur hjálpað okkur við sauðburðinn og ætla ég ekki að nefna neinn því engum vil ég gleyma. Vil bara þakka öllum kærlega fyrir, án ykkar værum við með ennþá dekkri bauga, miklu hrukkóttari og Guð veit hvað. Takk fyrir alla hjálpina.

26.05.2009 23:55

Flottir Hólakrakkar og Auðssonur.Ég var svo stolt af ,,mínum,, krökkum þegar við mættum í útskrift Háskólans á Hólum síðast liðinn föstudag. Sjáið bara hvað þau eru flott ný útskrifuð, Þórdís og Haukur af þriðja ári sem sagt reiðkennarar og Mummi af fyrsta ári sem hestafræðingur og leiðbeinandi.
Það eru vafalaust einhverjir sem spyrja sig hvað ég eigi í þessum krökkum svo því skal fljót svarað hér. Mummi er eftirlætis einkasonurinn, Þórdís uppáhalds tamningakonan og hann Haukur er eiginlega alvöru tengdasonurinn þó svo að enga eigi ég alvöru dótturina. En hún Randi er nú samt næstum því alveg dóttir mín, allavega þykist ég eiga smá í henni.
Til hamingju krakkar þið voruð flott.

Það var mjög gaman að vera viðstödd þessa athöfn á Hólum, það er svo hátíðlegur blær yfir því þegar nemendur skólans eru útskrifaðir. Undanfarin tvö ár hef ég verið boðin sem formaður Félags tamningamanna og haft það hlutverk að klæða ný útskrifaða nemendur reiðkennarabrautar í félagsjakka FT. Táknrænt og skemmtilegt að fá tækifæri til að bjóða þesssa glæsilegu framtíðar reiðkennara velkomna í félagið.
Ég tók svolítið af myndum í ferðinni og mun birta þær við fyrsta tækifæri hér á síðunni.

Annars er búið að vera mikið um að vera hjá okkur undanfarið reyndar eins og alltaf. Og ætla ég að vera dugleg að segja ykkur frá því á næstu dögum.
Læt samt fylgja með eina skemmtifrétt hún Karún mín eignaðist brúnan hest undan Auði frá Lundum á föstudaginn. Ég hef enn ekki fundið nafn við hæfi en er að vinna í málinu.

Silungsveiðin er hafin og byrjaði með stæl, meira um það í næsta bloggi..............

19.05.2009 23:18

Vorið góða.............
Þau eru mörg handtökin í sauðburðinum og frábært að hafa á sínum snærum úrvals harðsnúið lið sem hjálpar okkur ómetanlega. Þessi unga dama vildi t.d létta á þrengslunum í fjárhúsunum og taka eitt lamb með sér í Garðabæinn. Ekki mikið mál þegar maður hefur úrvals íslenskan fjárhund við hendina til að smala.
Síðasta vika hefur verið afar fjörug og nú eru einungis 180 kindur eftir að bera. Við höfum verið að marka og setja út síðustu daga og óðum fækkar kindum og lömbum í húsunum.

Eitt folald er fætt og var það hún Snör sem reið á vaðið þetta vorið og eignaðist jarpan hest sem hlotið hefur nafnið Mói. Faðirinn er hann Sparisjóður minn sem stendur stolltur í stíunni sinni. Verst er að ég held að hann viti svo sem ekkert af hverju hann eigi að vera stolltur, afkvæminu eða sjálfum sér. Nú á næstunni er svo von á folöldum m. a undan Auði frá Lundum, Feikir frá Háholti, Arði frá Brautarholti, Gosa frá Lambastöðum og Adam frá Ásmundarstöðum svo eitthvað sé nefnt.

Salómon er störfum hlaðinn þessa dagana og brjálað að gera í fuglaskoðun. Verst hvað þeir eru fljótir að fljúga og erfitt að skoða þá í nærmynd. En hann er vongóður um að einn góðan veðurdag eða nótt geti hann fundið fallega tegund og jafn vel haft ,,kló,, á einum.


12.05.2009 23:27

Sauðburður..................
Undan farnir dagar hafa verið bara nokkuð rólegir og lítið að gerast í sauðburði, en það breyttist heldur betur í dag þegar allt fór á annan endann. Í morgun báru tvílembur hver í kapp við aðra og eftir hádegi byrjuðu þrílemburnar að keppa. Við reynum alltaf að taka eitt lamb af þremur hjá þrílembunum og venja undir einlemburnar ef þess er nokkur kostur. En í dag bar aðeins ein einlemba, ekki nokkurt skipulag á þessum ættleiðingamálum hjá kindunum.
Eftir hádegið fórum við svo með fullorðnu hrútana og geldfé á kerru suður að Hafurstöðum, það gekk allt vel þar til að Claasinn varð of þungur fyrir jörðina og hún gaf sig. En allt gekk þetta nú upp fyrir rest og núna er allt orðið með kyrrum kjörum í fjárhúsunum og Claasinn kominn heim á hlað. Þökk sé góðum granna. Okkur hefur bæst heljar liðsauki bæði utan og innan dyra sem gerir okkur kleift að láta þetta allt ganga. Núna eru bara skipulagðar vaktir allan sólarhringinn.

Fyrirmyndarhestar dagsins voru allir hestarnir í hesthúsinu sem tóku því með jafnaðargeði að við vorum meira og minna í fjárhúsunum í dag. En eins og áður hefur komið fram þá erum við komin með harðsnúið lið sem nú er á vöktum allan sólarhringinn. Svo að við getum snúið okkur að hestunum á morgun.

Mikið af myndum bíður þess að húsfreyjan hafi tíma til að smella þeim hér inn við fyrsta tækifæri.

08.05.2009 22:44

Vonandi verður þetta snjóléttur sauðburður.
Voff, voff... hættu, hættu Gosi þú verður skítugur þetta er alveg bannað.................

Ég verð nú að játa að snjórinn sem var á jörðinni í morgun vakti ekki sérstaka lukku í Hlíðinni. Og því síður rokið og kuldinn sem var í allan dag, en þar sem ég er í eðli mínu óhóflega bjarsýn settist ég niður í ,,hugsistólinn,, minn og fór yfir allt það jákvæða sem væri í vændum. Gott veður, fullt af lömbum, glæsileg folöld, mikil spretta, ný ríkisstjórn? Aaaa er svolítið efins um að það síðasta verði jákvætt. En best að vera til friðs og vona það besta.

Ferðin norður að Hólum hjá okkur í stjórn Félags tamningamanna heppnaðist vel og fundurinn var góður. Við skoðuðum aðeins hvað nemendurnir voru að gera og sáum að það voru allir að setja sig í gírinn fyrir lokaprófin í næstu viku. Mummi smellti sér aðeins á bak Þríhellu fyrir mig og leist mér bara vel á hana. Hún er öll að koma til og vonandi að meðferðin hjá Sússí dýralækni virki vel.

Það voru mörg hross járnuð í Hlíðinni í dag og þó nokkuð riðið ,,út,, inni og reyndar aðeins úti líka. Verð samt að játa að skilyrðin til þess voru ekki góð og á köflum varasöm.
Fyrirmyndarhestur dagsins var skemmtilegur Hróðssonur sem er algjör töffari en með afar lítið hjarta. Hann er rétt að byrja sinn tamningatíma en lofar mjög góðu og verður flottur ef að vel tekst til.
Við erum farin að fylgjast vel með hryssunum og bíðum spennt eftir fyrsta folaldinu.
Sauðburðurinn fer örugglega að bresta á af fullum þunga svo það er skynsamlegt að fara að halla sér.

Á morgun verður vonandi betra veður og allt í blóma.


05.05.2009 21:41

Vorið er ekki alveg visst.


Þetta vor er nú ekki alveg sannfærandi, allavega var rigningin ekki alveg viss hvort hún ætti að vera rigning eða kannske bara snjór. Ég hugsaði til orða sem eitt sinn voru sögð hér í Hnappadalnum ,,líklega er áburður í maísnjónum,, og hresstist mikið við það.
Það er stund milli stríða í sauðburðinum núna, rollurnar sem voru sædda eru bornar og ekki alveg komið að hinum. Reyndar er ég ekki ánægð með hversu margar rollur sem voru sæddar hafa ekki haldið. Alvöru fjörið hefst svo um og upp úr næstu helgi.
Það fæddist upprennandi kynbótahrútur í gær hann er undan sjarmatröllinu Kveik og henni Sparisvört sem hefur nærri því allt til að bera sem hæfir ofurkind. Það skal sérstaklega tekið fram að hann mun ekki hljóta nafnið Steingrímur. En nafnið Sindri kemur sterkt til greina.
Einnig er fæddur mókollóttur sjarmur sem kemur nú bara nokkuð sterkur inn þegar hugsað er til frekari kynbótaafreka.

Á sunnudaginn fór hann Dregill aftur norður að Hólum þar sem hann og Mummi ætla að lesa saman fimmgangsfræði. Nú er að koma að loka sprettinum í náminu á þessum vetri.
Ég ætla að kíkja á þá félagana á morgun þegar að ég skrepp norður með góðum félögum mínum í stjórn Félags tamningamanna. Alltaf spennandi að koma að Hólum.
Í dag var fundur með kynbótadómurum og stjórnarmönnum í Fagráði í hrossarækt fundurinn var haldinn á Miðfossum. Þetta var fínn fundur þar sem rætt var um hvort að færa eigi einhvern hluta af kynbótasýningunum inná hringvöll.

Fyrirmyndarhestur dagsins var Bikar Oddsson (ekki bróðir Davíðs) hann var frábæri í dag.

02.05.2009 22:28

Gosi kominn með farseðil.Þetta var nú góður dagur eins og ég reyndar leyfði mér að vona í morgun líkt og aðra morgna. Rauk á fætur eldsnemma og gaf hrossunum til að keppninsgaurarnir yrðu búnir að borða áður en lagt yrði af stað. Í dag var nefninlega úrtökumót hjá hestamannafélaginu Glaði fyrir Fjórðungsmót í sumar. Gosi kallinn var bara í nokkuð góðu stuði og gerðu þeir félagarnir Skúli og hann sér lítið fyrir og sigruðu B flokkinn. Svo nú er bara að halda dampi vanda sig og æfa næstu vikurnar. Mummi fór líka með Dregillinn í A flokkinn og fékk bara fínar tölur fyrir allt nema skeið. Dregill lenti í 5 sæti sem er varahestasæti svo það borgar sig að halda sér við efnið og smyrja fimmtagírinn.

Þegar við komum heim í dag sá ég að við eigum ekki bara fallega hvolpa heldur líka afburða skynsama. Þannig er að símtækjum er dreift um húsið til að meiri líkur séu á því að ná að svara í símann í tæka tíð. Með öðrum orðum við erum með þráðlaust tæki og svo einn gamlan góðan sem er með snúru í tólið eins og allir símar voru fyrir ótrúlega stuttu síðan. Sá sími er staðsettur í þvottahúsinu við bakinnganginn eins og hvolparnir okkar fínu. Hér í Hlíðinni kemur það oft fyrir að síminn hringjir nær stöðug í langan tíma og við ekki heima. Það hefur sennilega gerst í dag með þeim afleiðingum að Ófeigur og Þorri hafa fengið nóg. Það er afar sjaldan sem að þeir félagarnir eru kallaðir í símann svo að þeir hafa talið óþarft að svar heldur gripið til rótækra aðgerða. Dregið símann niður af hillunni og nagað sundur símasnúruna og viti menn síminn steinþagnað. Ég verð að játa að ég hef örlítið meiri áhyggjur af því ef að þeir fá leið á hljóðinu í þvottavélinni.....................

Sauðburðurinn er aðeins farinn af stað bornar ríflega 20 stykki og bara gengið nokkuð vel ennþá. Verður vonandi svo áfram. Búin að fá mókollótan hrút, svarta og svartbotnóttar kollóttar gimbrar og svarta og svartbotnóttar hyrndar gimbrar. Allt afrakstur sæðinga.

Fyrirmyndarhestur dagsins var að sjálfsögðu Gosi frá Lambastöðum og í örðu sæti Dregill frá Magnússkógum. Einnig er alltaf jafn gaman að sjá vinkonu mína gæðingshryssuna Þernu frá Spágilsstöðum sem var að keppa í dag, úrvals hryssa þar á ferð.

Ég fór og skoðaði fylfullu hryssurnar í fyrradag er farin að hlakka til að fá folöld, fyrsta hryssan getur kastað eftir rúma viku. Alltaf jafn spennandi að sjá hvað kemur úr ,,pökkunum,, verður það hryssa? hvernig á litinn? og verður það fallegt?
Annars er ég niðursokkin í stóðhestblaðið flestar lausar stundir og bölva því stundum að það skuli ekki vera skylda að hafa alla stóðhesta í blaðinu. Það væri mikið hagræði fyrir uppteknar t d húsmæður og fleira gott fólk.


  • 1