Færslur: 2020 Desember

24.12.2020 14:57

 

 

 

02.12.2020 21:43

Kári er kominn í aðventugírinn.

 

Þegar þetta er skrifað hvín og syngur hér í öllu með tilheyrandi hamagangi.

Já, Kári kallinn er greinilega kominn í aðventugírinn en vonandi verður hann ekki jafn djarfur eins og í fyrra.

Þó svo að haustið hafi verið að mörgu leiti gott þá höfum við alveg fengið að finna fyrir því öðru hvoru.

ÞAð er dásamlegt í svona tíðafari að geta unnið í blíðu inní reiðhöll.

Á fyrstu myndinni eru feðgarnir einmitt að leika sér í vinnunni.

Við erum komin vel af stað og ört hefur fjölgað í hesthúsinu síðustu vikurnar.

Annars hafa nokkur hross flogið á vit nýrra ævintýra og flutt til nýrra eigenda.

En plássin hafa fyllst og ný hross fyllt í þeirra skarð.

Ef að allt fer á besta veg og veiran verður til friðs höfum við skipulagt nokkra viðburði í vetur.

Námskeið, mót og ýmislegt annað skemmtilegt og spennandi.

En númer eitt er að fara öllu með gát og taka stöðuna þegar nær dregur.

 

 

Talandi um góða haustdaga.

Þessi mynd er næstum því eins og hún væri tekin á tunglinu en svo er nú reyndar ekki.

Myndin er tekin með dróna yfir hrossarekstri fyrir sunnan Sandfell einn fagran haustdag.

 

 

Hesthúsið fékk smá upplyftingu eða svona létt ,,makeup,, 

Okkur sem munum tímana tvenna veitir ekkert af því svona öðru hvoru.

Sko, húsfreyjunni og hesthúsinu.

 

 

 

Úr sauðfjárdeildinni er það helst að frétta að heimtur fara að verða þokkalegar.

Þó værum við mjög hamingjusöm með að fá nokkra hausa í viðbót.

Fjárfjöldinn er á sama róli og í fyrra, við ákváðum að halda í horfinu og fækka ekki.

Eins og síðast liðna áratugi höldum við sauðfjárbændur að afkoman geti ekki versnað.

Það er því sjálfgefið að halda áfram og telja sér trú um að allt sé á uppleið og botninum náð.

Hvað gerir maður ekki fyrir gleðina ?

Þríeykið hefur marg oft sagt að við verðum að halda í gleðina þrátt fyrir allt.

 

Myndin hér að ofan er tekin í einni af eftirleitum vetrarins.

 

 

Þetta er hún Krummasvört sem mætti hér heim að pípuhliði einn daginn.

Hún var búin að fá nóg af útiverunni og baðst gistingar með lambið sitt og eina vinkonu sína frá Hraunholtum.

Henni var slétt sama um það þó að hún fengi seint í kladdann.

 

 

Þetta er Rönd hún fær líka seint í kladdann og það er engin afsökun að hafa verið að heimsækja hreppstjórann.

Öðru nær hreppstjórinn var í fullum rétti við handtökuna á henni og dótturinni.

Nú er hrútaskráin aðal lesefnið og fengitíminn handan við hornið.

Búið að gefa öllu fénu ormalyf, setja fullorðinsmerkin í gemlingana og forðastauta í allan flotann.

 

 

 

 
Svona var útsýnið stórbrotið einn morguninn.

.

 

Og ekki síðra þegar leið á og birti.

 

 

Nú er sólin hætt að sjást hjá okkur og byrjar ekki að sjást fyrr en 14 janúar 2021.

Þessa mynd tók ég þegar hún var að kveðja áður en hún skrapp í jólafríið.

Já það verða sko bakaðar pönnukökur þann 14 janúar.

  • 1