Færslur: 2013 Febrúar

25.02.2013 22:13

Glottandi



Þarna eru Astrid og Glottasonurinn góði Glymur frá Hofsstöðum í Garðabæ að leika sér.
Á laugardaginn var sýning hjá annars árs nemum Háskólans á Hólum en þá sýndu þau hrossin sem þau hafa verið að þjálfa að undanförnu. Glymur var í grunnþjálfun hjá Astrid og í miklu uppáhaldi hjá henni, þau stóðu sig með mikilli prýði í prófinum.
Vinir okkar í Garðabænum eiga Glym og eiga þau  örugglega eftir að hafa gaman af gripnum.



Glymur er bara öruggur með sig á ísilögðum vellinum á Hólum en nemendurnir sýndu hrossin bæði úti og inni.
Ég er mikill Glotta aðdáandi og ekki svíkur þessi kappi frekar en við var að búast, bara spennandi.

Astrid kom heim í helgarfrí en brunar svo aftur norður til að klára loka törnina á sínu öðru ári á Hólum. Svo eftir páska er það verknám fram í júní en það tekur hún á góðum stað í Borgarfirðinu. Styttra að skreppa heim þaðan en alla leið frá Hólum.

Ég og aðstoðardömurnar mína skruppum á KB mótaröðina í Borgarnes á laugardaginn.
Alltaf gaman að sjá hross og sjá hvernig staðan er í hestamennskunni.


21.02.2013 22:00

Assan



Þessa skemmtilegu mynd fékk ég um daginn en hún er af Össu ,,okkar,, og Sören Madsen.
Myndin er tekin á Danska meistarmótinu 2001 en þar kepptu þau í tölti með góðum árangri.
Assa var í miklu uppáhaldi hjá Sören enda fyrsti keppnishesturinn hans. Assa var undan Fáfni frá Fagranesi og Trillu en Assa fórst því miður fyrir nokkru síðan.
Á myndinni finnst mér  hún nokkuð lík Skútu systur sinni sem er ein af okkar uppáhalds.
Ég vil benda ykkur á að þið getið skoðað síðuna hjá honum Sören með því að smella á nafnið hans hér í tenglasafninu á síðunni.

Enn er blíða hér í Hlíinni og frábært útreiðaveður sem vel var nýtt í dag eins og reyndar alla síðustu viku. Fyrirmyndarhestur dagsins var Bára litla frá Lambastöðum, dóttir Arðs frá Brautarholti og Tinnu frá Árbakka.


19.02.2013 21:08

Logn



Já veðurblíðan er með ólíkindum þessa dagana eins og sjá má á þessari mynd sem ég tók í gær. Það er engu líkara en Eyjahreppurinn sé kominn í vatnið hjá okkur og munar minnstu að bær aðalbloggarans í þeirri sveit sé þar með talinn.

Það er ekki laust við að manni detti í hug að vorveðrið verði slæmt nú eða Katla kerlingin fari að gjósa. En vonandi er þetta bara himnasending að ofan sem ekki gerir neitt nema gott.

Hún Becky okkar kom hingað í gær og ætlar að vera í nokkrar vikur, svo nú eru þær tvær dömurnar sem aðstoða okkur þessa dagana. Duglegar, skemmtilegar og hláturmildar.

Mikið er nú gaman þegar svona mikið líf er í hesthúsinu og riðið út í góðu veðri dag eftir dag.

Það er ansi fjölbreytt ,,feðrasafnið,, af þeim hrossum sem nú eru í þjálfun hjá okkur, gaman að spá í það fyrir hestadellufólk. Já svona eins og mig en vonandi fleiri.
Svo maður nefni eitthvað Arður frá Brautarholti, Dynur frá Hvammi, Blær frá Torfunesi, Feykir frá Háholti, Hrymur frá Hofi, Auður frá Lundum, Frægur frá Flekkudal, Glymur frá Skeljabrekku, Baugur frá Víðinesi, Hróður frá Refsstöðum, Kraftur frá Bringu, Gustur frá Hóli, Glotti frá Sveinatungu, Adam frá Ásmundarstöðum, Gaumur frá Auðsholtshjáleigu, Sólon frá Skáney og að við bættum ,,okkar,, hestum.

Vonandi verður framhald á góðu veðri þó svo ekki sé nú farið fram á vor.



16.02.2013 22:54

Myrkranna á milli



Síðasta vika var vel nýtt til tamninga og þjálfunnar eða eins og þið sjáið myrkranna á milli.

Já skemmtileg vika í hesthúsinu með góðum reiðtúrum í bland við annað at sem tilheyrir þessu hestastússi. Þess á milli spáð og spekulerað í stóðhestum og öðru gagnlegu.
Það er langt síðan ég hef spáð í hver er fyrirmyndarhestur vikunnar svo það er rétt ég taki smá könnun.
Svarhlutfallið er ca 50% m.v þá sem hafa verið að ríða út í vikunni svo þetta er eins og kannanirnar á fylgi stjórnmálaflokkanna. Hinir svara ekki eða eru óákveðnir.
Hjá mér er það Gangskör Adamsdóttir og hjá Týru verknema er það Sigling Sólonsdóttir

Dalirnir heilluðu í dag og þá var brunað af stað til að skoða stóð og hitta fólk. Eins og venjulega var dagurinn ekki nógu langur til að hitta alla sem maður vildi en þá er bara að taka töku tvö við fyrsta tækifæri.

Á morgun eigum við von á henni Beký okkar sem var hjá okkur í haust, bar tilhlökkun í gangi á þessum bæ.

14.02.2013 21:16

Folaldasýning og meira til



 Loksins koma smá fréttir frá folaldasýningunni í Söðulsholti sem haldin var s.l laugardag.

Á myndinni hér fyrir ofan er húsfreyjan í Dalsmynni sem átti þann grip sem heillaði flesta áhorfendur á sýningunni. Það var rauðskjótta hryssan Saga frá Dalsmynni sem var valin folald sýningarinnar af áhorfendum. Spennandi hestefni Saga.
 Innilega til hamingju með Söguna þín Guðný Linda.

Eins og venjulega var folaldasýningin hin mesta skemmtun allavega fyrir þá sem hugsa lítið um annað en hross. Margir glæsigripir sem sýndu auk þess stórfína gæðingstakta.



Þessir höfðingjar voru að vonum kátir með árangurinn en þeirra hryssur báru sigur úr bítum í flokki hryssna. Þetta eru þeir Sölvi, Jónas og Einar bóndi í Söðulsholti.



Þetta eru verðlaunahafar í flokki hestfolalda Sigríður, Siguroddur og Bjarni Jónasson.

Öll úrslit eru inná síðunni hjá Söðulsholti sem er í tenglaröðinni hér á síðunni.

Ég læt hér fylgja með mannlífsmyndir frá þessum góða degi sem við áttum í Söðulsholti.



Það er alltaf jafn gaman og gott að koma í Söðulsholt þökk sé þessum höfðingja Einari bónda.



Þessir virðulegu bændur spjölluðu yfir kaffisopanum vafalaust eitthvað spennandi.
Svanur Dalsmynnis bóndi og Jón bóndi í Kolviðarnesi.



Ólafur Tryggvason og Guðný Linda voru hress og kát að vanda.



Hér eru Skúli og tvær hressar Borgarfjarðardömur þær Sæunn á Steinum og Svandís í Höll.
Sennilega hefur verið einhver lögg af ,,þorrablótsvatni,, eftir sem notuð hefur verið í kaffið hjá Sæunni. Að minnsta kosti hallar frúin eitthvað eða er að reyna að fara í felur..........
En talandi um kaffið það var frábært að vandi hjá þeim hjónum á Þverá.
Já reykt nautatunga og skonsur ala Áslaug erum stór partur af árlegri folaldasýningu.



Eins og áður hefur komið fram var þorrablótið á föstudaginn en folaldasýningin á laugardaginn. Á myndinni hér að ofan sést glöggt að Kolhreppingar höfðu ekki náð nægum svefni og var því vel þegið að halla sér í fóðurvagninn svona á milli atriða.
Það var hins vegar meiri galsi í folöldunum sem mættu úr hreppnum en þau henntust á harðastökki um alla reiðhöllina. Örþreyttum eigendum og stuðningsmönnum til lítillar gleði.
Á næsta ári verður heldur skerpt á fóðri forráðamanna en frekar dregið úr fóðrun folaldanna.



Þessi voru nú feskari á föstudaginn en það er skýring á því.................fesk á föstudegi, lekker á laugardegi.   Nema hvað,.?



Hraunholtahjónin báru sig vel þrátt fyrir erilsama þorrablótsnótt enda ýmsu vön eins og við hin.

Samantekt: Glæsileg folöld, skemmtilegt fólk á góðum stað, hvað getur maður beðið um meira daginn eftir þorrablót????

Gömlu höfðingshryssurnar Dimma og Upplyfting fóru í ,,grænu hagana hinumegin,, í dag. Mér finnst alltaf eftirsjá þegar vinir til marga ára flytja sig um set.
En svona er lífið, þær skilja þó eftir sig fullt af góðum minningum og skemmtilegum
afkvæmum.

Brák litla dóttir Rákar og Pilts frá Sperðli flutti svo til nýrra eigenda í dag, bara gaman að því.
Til hamingju með Brák litlu vonandi á hún eftir að reynast vel á nýjum slóðum.

10.02.2013 21:10

Gleðin á þessu þorrablóti ........



Við smelltum okkur á skemmtilegt þorrablót sem haldið var í Lindartungu á föstudaginn.
Þar sem helgin var ansi annasöm og skemmtileg er best að láta myndirnar tala sínu máli.

Á myndinni hér fyrir ofan er Hrannar sauðburðarmaður með meiru að segja eitthvað rosalega gáfulegt. Takið samt eftir svipnum á sessunautunum.



Ekki er annað að sjá en Astrid og Hrannar skemmti sér vel.



Björg sauðburðarkona og Tyra hestakona frá Svíþjóð skemmtu sér líka vel, Björg margreynd í þorrablótum en Tyra á sínu fyrsta þorrablóti.



Þessar Hnappdælskuskyttur ræddu um tófur og aftur tófur nema það hafi verið refir og aftur refir. Sveinbjörn eldri refaskytta og Sigurður Jón yngri refaskytta.



Tyra var ekki alveg viss um að maturinn væri í lagi svo hún fór varlega í að smakka þennan skrítna íslenska mat :)



Þessi mynd er sérstaklega fyrir vini Tyru í Svíþjóð sem vilja vita hvað hún var að borða :)



................. þú ættir bara að vita..........ég get svo svarið það..............úlla la...........
Nei nei ekkert svona við Björg vorum bara að skipuleggja sauðburðinn og það fjör allt saman.



Dansinn var svakalegur og söngurinn ekki síðri.........................



Það var samt ekki mörguleiki að toppa þennan þegar hann tók okkur í kennslustund í línudansi. Nema náttúrulega hreppstjórinn okkar sem er óumdeildur línudanskóngur sveitarinnar.



Söngurinn getur nú reynt svolítið á .................en mikið var gaman á þessu þorrablóti.

Eins og áður sagði var þetta annasöm helgi og snemma á laugardaginn var brunað á stað á folaldasýning í Söðulsholti. Nánar um það á morgun netsambandið leyfir ekki frekari myndainnsetningu núna.

06.02.2013 21:59

Kattasmölun og ýmislegt fleira



Almættið bauð uppá listaverk þegar lagt var uppí fyrsta reiðtúr dagsins í morgun.

Já dagurinn var skemmtilegur, blíða og riðið út myrkranna á milli, hrossin skemmtileg og þá er flest gott.  Það er munaður að búa í fjöllunum á svona dögum og reyndar alltaf.

Ég prófaði svo skemmtilegan hest í dag að ég er enn skýjum ofar, já já fyrir ofan þessi rauðu þarna á myndinni. Það er svo gaman að fá svona tilfinningu og svona tilfinningu fær maður ekki nema bæði hestur og knapi séu í stuði. Þegar ég rifjaði upp hvaða hestar sem ég hefði prófað væru bestir fór ég líka að hugsa um það hversu marga hesta ég hefði prófað í lífinu.
Ég komst að því að ég hef ansi marga hesta til að miða við allavega nokkuð mörg hundruð.
Mikið samgleðst ég eigandanum það er ekki sjálfgefið að eignast svona grip.



Það má segja að ólíkt hafist þær að tíkurnar Snotra og Freyja þegar þær eru í fjárhúsunum.
Snotra er sálufélagi Vökustaurs sem er upprennandi kynbótahrútur.



............... og notar öll tækifæri til að játa honum ást sína, knúsa og kjassa.



Freyja er hins vegar eins og ónefndur þingflokkur...................... og hamast við að smala köttum. Hvort kisa er flokksbundin er ekki alveg ljóst en......................



.....................hún gefur ekkert eftir og vill hafa sitt að segja í ,,stjórnar,, samstarfinu.
Sennilega er kominn einhver kostningaskjálfti í liðið nú eða þorrablótstitringur :)

05.02.2013 23:14

Og þorrablótið nálgast



Þeirra bíður ekki gott sem lenda í klóm fréttamanna "Hálf-11-Frétta" á þorrablóti í Lindartungu 8.feb næstkomandi.

Ó nei þessir herrar hafa gengið lausir síðustu daga og ekki víst að allt sem þeir hafa komið nálægt sé í lagiiiiiiiiiii............................
Þeir hafa ruðst inní gripahús, hrekkt húsmæður, hrellt húsbændur og hjú......össssöss.
Þeir eru svakalegir....................
Til að kanna hvað þeir hafa verið að bralla er best fyrir ykkur að mæta á þorrablóðið ef þið þorið :)
Gætu verði nauðsynlegar upplýsingar fyrir burtflutta sveitunga og aðra áhugasama velunnara gamla Kolbeinsstaðahrepps.
Miðapantanir í síma 4356631 meðan birgðir endast.

En að öðru................. hér í Hnappadalnum höfum við verði netsambandslaus í næstum því viku. Mjög þreytandi en vekur mann til umhugsunar um það hversu við erum orðin háð netinu í daglegu lífi.

Í gær kom hún Tyra til okkar en hún kemur frá Svíþjóð og ætlar að vera hjá okkur í verknámi.
Gaman að fá fleiri með okkur í hesthúsið, velkomin Tyra.

Á sunnudaginn smellti Freyja smalahundur sér á hundahitting í Söðulsholti, að sjálfsögðu fékk eigandinn að fara með. Nú er bara að vita hvort ekki verður meira úr tamningu og þjálfun á henni eftir svona hvetjandi hitting. Nægur er áhuginn og þá er bara að beina honum í réttan farveg og búa til gagn og gaman.





  • 1