Færslur: 2015 Maí

27.05.2015 19:06

Sitt lítið...............

 

Sauðburðurinn hefur gengið vel en það sama er ekki að segja um grassprettuna.

Hitastigið er ekki eins og best verður á kosið jafnvel niður undir frostmark á nóttunni og úrkoman ísköld eftir því. Ekki gaman að marka út undir þeim kringumstæðum enda er mikill fjöldi ennþá inni.

Óbornar eru komnar niður undir 50 og stór hluti af þeim gemlingar.

 

Þessar komu til að líta á sauðburðinn já og okkur líka.

Elsa Petra og Svandís Sif fylgjast með burðinum.

 

Litla daman hitti líka ,,séra,, Mókollu sem var heldur ógestrisin og dónaleg.

 

Hann var aftur á mót gestrisinn þessi ungi hestur og sýndi allar sýnar bestu hliðar.

Þetta er bróðir hennar Gangskarar sem er á myndinni hér með síðasta bloggi.

Aldeilis upprennandi uppáhalds undan Kolskör minni og Skýrr frá Skálakoti. Hann kom í heiminn eina nóttina sem bauð uppá krap og kulda. Að sjálfsögðu er gert vel við kappann og hann hefur ekki þurft að híma í ónotunum.

Þríhella kastað brúnni hryssu undan Vita frá Kagaðarhóli, hún hefur hlotið nafnið Brekka frá Hallkelsstaðahlíð. Nafnið á hinum kappanum er ekki komið á hreint en er í vinnslu.

Nú fer einnig að styttast í að þær Snekkja, Létt og Rák komi heim á fæðingablettin.

 

 

Þessi er nú stundum ansi lík nöfnu sinni og ömmu, sérstaklega þegar hún beitir kústinum.

 

 

Ragnar kom að líta á sauðburðinn sem er alltaf hans helsta áhugamál.

Þarna á myndinni eru hann og Þóra að meta fallega Golsu af eðal kyni.

 

Vorverkin eru komin á fullt búið að bera á skít, slóðadraga og valta túnin, næst er það áburðurinn.

Girðingarnar taka líka drjúgan tíma og sérstaklega þegar bæta á við nýjum.

Á myndinni sem tekin var þann dag sem góða veðrið (gluggaveðrið) var má sjá Mumma og Kolbein dekra við gamla, gamla valtarann. Stendur fyrir sínu þó kominn sé á efri ár.

 Annars var Mummi að koma heim eftir vel heppnaða ferð til Danmerkur þar sem hann var að kenna.

Við höfum haft gott fólk okkur til aðstoðar bæði í hesthúsi og sauðburði já það er gott að eiga góða að.

Eftir leiðinda veður er ekki laust við að húsfreyjan sé farin að bíða eftir betri tíð með blómum í haga með mikilli eftirvæntingu.

 

Þessi brosmilda dama hún Jenny ríður út og aðstoðar okkur í hesthúsinu.

Á myndinni er hún sérstaklega brosmild og ánægð með reiðtúrinn á Fannari.

Nú er bara vona að veðrið fari að lagast og grasið að vaxa þá væri nú mikið fengið.

 
 
 

 

18.05.2015 19:04

Það sem léttir lund og snjórinn í fjöllunum.

 
 

Þessi hryssa kemur mér alltaf í gott skap, það er sama hvort ég er í reiðtúr nú eða bara að skoða mynd af henni.

Já Gangskör mín er uppáhalds hjá húsfreyjunni.

Á myndinni eru Gangskör og Mummi að leika sér í Búðardal.

Snillingurinn hann Toni tók myndina, takk fyrir afnotin af myndinni.

Það veitir ekki af að ylja sér við eitthvað notalegt og láta sig dreynma um sól, blíðu og gras.

Síðast liðna nótt var kuldalegt og úrkoman var krap en þegar stytti upp var hitastigið ansi nálægt frostmarkinu. Enn er beðið með að setja lambfé út en þrengslin eru orðin þannig að nú er ekki undankomu auðið.

Burðurinn gengur jafnt og þétt sennilega eru u.þ.b 240 óbornar.

 

 

Það er full mikill snjór á Djúpadalnum svona m.v stöðuna á sauðburðinum.

En þetta snjómagn gerir veiðimennina káta, gott að þessi hvíti gleður einhvern.

 

 

Það væri sennilega betra að vera á skaflajárnuðu ef að ferðinni væri heitið yfir Klifsháls þessa dagana.

En þarna sért hvernig snjórinn er á Hellisdalnum og uppá Klifshálsi.

 

Eftir að hafa skoðað veðurspá flestra miðla og horft á spekingslegan veðurfræðing í sjónvarpinu er sennilega rétt að pússa markatöngina.

 

 

 

 

 

16.05.2015 13:37

Í fréttum er þetta helst......

 

Hamingjan er hér gæti þessi mynd heitið en þarna er hún Kristín Rut að burðast með litla flekku.

Sauðburðurinn byrjaði með stæl og hélt mannskapnum alveg við efnið.

Þegar hvað líflegast var báru 86 á sólarhring og þann næsta urðu þær 72. Það er einum of þegar ekkert var hægt að setja út og plássið ja svona næstum ekkert.

En allt tókst þetta ljómandi vel með hjálp okkar góða fólks eins og svo oft áður. Ég þori varla að segja það en sauðburðurinn hefur gengið vel og ánægjulega fyrir sig.

Nú er bara að telja stráin og bíða eftir því að geta farið að marka út.

 

 

Kindakvíslarinn Björg var himinlifandi með nýju Móru sína og kom brunandi úr bænum til að líta á gripinn.

 

 

Þetta eru aðal pela sérfræðingarnir og standa sig með stakri prýði.

 

 

Þessi hefur tekið næturvaktirnar síðustu nætur og hefur það gengið með glæsibrag.

 

 

Garðabæjar Golsa bara glæsilegum lömbum og að sjálfsögðu kom hennar lið brunandi til að skoða gripina.

Á þessari mynd er Golsa að trúa vinkonum sínum fyrir stóru leyndarmáli.

 

 

Og svo gerast líka ævintýri um sauðburðinn..................

Þetta er hún Dropa kellingin hún kom ekki af fjalli í haust og hefur því verið tekin af lífi í sauðfjárheftinu.

En ljóslifandi stóð hún við rúllustaflann einn morguninn og virtist als ekki vera afturgengin.

Hnakkakert og stollt stóð hún og horfði á þessa aumu smala sem ekki höfðu haft hendur í hári (ull) hennar í haust.

 

 

Eftir líflegan bardaga lögðust þau Maron og Dropa í rúllustaflann og blésu mæðinni.

 

 

Þessi tvö voru á vaktinni þegar ,,gestinn,, bar að garði. Maron og Þóra.

Þarna eru þau sigri hrósandi með aflann.

 

Þessir tóku létt morgunspjall á meðan hasarinn úti stóð sem hæst.

Sigurður Hraunholtabóndi og Sveinbjörn sem mætir galvaskur í eftirlitið kl 6.00 á hverjum morgni.

 

Eins og áður sagði hefur sauðburðurinn gengið vel en hratt og í gær númeraði ég lamb númer 700 en það hefur ekki verið gert svona snemma hér á bæ fyrr. Rólegheit hafa verði í burðinum í nótt og morgun, eflaust eru kindurnar að bíða eftir tunglinu.

Hryssurnar hafa haldið í sér en tvær eru komnar á tíma þær Kolskör og Þríhella. Kolsör er fylfull eftir Skýrr frá Skálakoti en Þríhella eftir Vita frá Kagaðarhóli. Lengra er í Snekkju, Sjaldséð og Létt en Snekkja er fylfull eftir Konsert frá Hofi, Létt eftir Glaum frá Geirmundarstöðum og Sjaldséð eftir Loka frá Selfossi.

Karún mín lét í vetur en hún var fylfull eftir Múla frá Bergi. Nú stendur yfir leitin endalausa hjá húsfreyjunni að hesti sem góður væri fyrir uppáhaldið.

 

 

  • 1