Færslur: 2016 Ágúst

15.08.2016 21:18

Ég er komin heim..................

Dagur 6.

Eftir góða hvíld í Hömluholti var lagt af stað og stefnan tekin á Kolbeinsstaði.

Þarna er hópurinn einbeittur í meira lagi og ekki laust við að eftirvæntingin fyrir góðum fjöruspretti fylli út í myndina.

F.v Maron, Kristine, Ingi, húsfreyjan, Majbrit og Þorgeir.

 

 

Það þurfti ekki að hvetja reksturinn og hann fylgdi vel þegar lagt var útaf veginum í átt að fjörunum.

 

 

Og leiðin lá yfir holt og niður á fjörur................

 

 

Við vorum eldsnögg að ríða í Kolviðanes og fengum að stoppa í túnfætinum.

Af svipnum að dæma hef ég sennilega borðað sveppi í hádeginu.

 

 

Á þessu augnabliki voru við að horfa á eitthvað merkilegt.... man bara ekki hvað.

 

 

Og þessi horfðu líka...................á eitthvað merkilegt.

 

 

Þarna erum við stopp í Viddalundi en lundurinn sá er nefndur eftir einum ,,geðbesta,, ferðafélaga sem við höfum haft.

Alveg prýðis áningastaður eins og við er að búast.

 

 

Það er skemmtilega reiðleið eftir gamla veginum frá Stóra Hraunsafleggjaranum að Haukatungu.

 

 

Þessi voru hress og kát að vanda.

 

 

Eldborgin er góður bakgrunnur á hestamynd.

 

 

Það var kærkomin hvíldin á Kolbeinsstöðum en þar endaði dagur 6.

 

 

Dagur 7

Eins og þeir sem eru á fésbókinni hafa kannske séð þá var Mummi með myndavél á hjálminum.

Útkoman var m.a þónokkuð langt myndskeið frá fjörureiðinni og einnig heimildarmynd af byltu ferðarinnar.

En þar leika þau Mummi og Rjóð aðalhlutverkin............þegar þau fóru kollhnís með tilþrifum.

Allt fór vel og enginn slasaði sig sem betur fer.

Frá Kolbeinsstöðum var riðið að Rauðamel og upp hjá Höfða framhjá Heiðarbæ og heim.

 

 

Kristine og Fiðla eru flottar saman og þarna brosa þær í kampinn.

 

 

Hrossin fóru aðeins að kanna nýjar slóðir í hrauninu en Andri og Þorgeir voru sprækari og komu þeim á réttar slóðir.

 

 

Hér kemur hersingin frá Heiðarbæ og stefnir á Heydalsveginn.

Flottur forreiðarhópur.

 

 

Og frá Krossi að Oddastöðum............ungfrú Þorbjörg með örugga forustu.

 

 

Hann Þorgeir er frábær smali og það kom einmitt að góðu gagni þegar fjallaþráin greip um sig í hópnum.

 

 

 

 

Síðasti spölurinn heim og frábærri ferð að ljúka...................

 

 

Þau voru heldur betur kát að strika í girðinguna þegar heim var komið hrossin.

 

 

Og reiðmennirnir fylgjast með þeim á loka sprettinum.

 

 

Við fengum líka góða gesti frá Danmörku sem fylgdust með okkur síðasta daginn.

Og ekki má gleyma yfir trússaranum okkar henni Þóru, allir hestahópar þurfa eina Þóru.

 

 

 

Svenni fylgdi okkur stóran hluta af ferðinni og hafði eftirlit með því að allt færi vel fram.

Þessi viku hestaferð heppnaðist frábærlega í alla staði og nú er bara fara skipuleggja þá næstu.

Takk fyrir samfylgdina  kæru ferðafélagar.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

08.08.2016 23:49

Nokkrir dagar...........

 

Nú er komið að því sem að ég lofaði ...............er reyndar nokkrum dögum á eftir áætlun en nú skal úr því bætt.

Dagur tvö hjá okkur í hestaferð var nokkuð sögulegur eins og við var að búast með 100 hesta hóp.

Þetta var fallegur dagur þar sem menn og hestar áttu þess kost að sýna sínar bestu hliðar í blíðunni.

Það er samt stundum þannig að þegar á reynir getur verið erfitt að standa undir væntingum.

Við mættum tímalega í Kolbeinsstaði þar sem að hestarnir höfðu notið hvíldar og góðra veitinga um nóttina.

Þegar þangað var komið fréttum við af stórum hestahópum sem voru að koma sömu leið og við ætluðum að fara.

Við biðum því átekta svo að allt gæti gengið sem best fyrir sig.

Síðan var lagt af stað niður veg, allt gekk nokkuð vel fyrst um sinn en þegar niður á flóann var komið brutust út mótmæli.

Já þetta voru afar kröftug mótmæli og þegar mótmælendurnir eru 100 og úr mörgum ,,flokkum.. þá er ekki von á góðu.

Upphófst þá mikil gandreið með kúrekaívafi sem minnti  svolítið á víkingareið fyrri tíma. Kollhnísar og aðrar frískandi æfingar voru framkvæmdar en sem betur fer komu allir heilir frá þeim verknaði.

Nokkrar fótfráar hryssur fetuðu í fótspor okkar og stefndu hraðbyr á Eldborg. Frískir folar fíluðu flóann og afgangurinn reyndi af fremsta megni að gera eitthvað annað en rétt. Nokkrar góðar raddæfingar fóru fram og eins var tekin góð æfing og upprifjun á notkun blótsyrða. Já það er nauðsynlegt að viðhalda góðri íslensku.

Leiknum lauk svo heldur seinna en ætlað var sem gerði það að verkum að ferðaáætlunin var ekki alveg eins og fyrstu hugmyndir gerðu ráð fyrir.  Við riðum því bara í Kolviðarnes og nutum gestrisni Jóns bónda þar.

 

 

Dagur þrjú var svo dagurinn sem að við riðum frá Kolviðarnesi að Stakkhamri.

Þegar við mættum í Kolviðarnes hittum við þennan skemmtilega grís.

Hann leyfði kokkinum að vega sig og meta í þeirri trú að þeir ættu ekki eftir að hittast á einhvejum veitingastaðnum.

 

Þessum varð vel til vina og nú er bara næsta mál að fá þessa í garðinn í Garðabænum.

 

Þessa flottu mynd tók hann Guðbrandur Örn Arnarsson af hluta hópsins ríða í átt að Hausthúsum.

Þegar við lögðum af stað frá Kolviðarnesi var þó nokkur orka í hrossunum og þau alveg til í allt.

Það var því mikill hraði þegar við lögðum í hann og ekki laust við spennu í mannskapnum líka.

Mikil umferð var á fjörunum þennan dag og stutt á milli hópa.

Þegar við komum yfir Núpunesið tekur reksturinn á rás og stefndi á fullri ferð í land.

Á þeim tímapunkti var gott að hafa mikið af sprækum og velríðandi ferðafélögum með.

 

 

Þessi spræki ,,dalaprins,, kom eins og kallaður í fjörið og minnti helst á íþróttaálfinn sem gjarnan kemur fljúgandi þegar vinir eru í vanda.

Hann kom á fleygiferð frá öðrum hópi sem hafði misst einni gæðinginn í átt að landi.

 

 

Og þegar vandinn er leystur flýgur hann á brott.................með gull hattinn á bakinu.

Já þeir eru flottir kallarnir í dölunum.

 
 

Þegar komist var fyrir hópinn á syngjandi ferð og honum snúið til betri vegar lækkaði blóðþrýstingurinn til mikilla muna.

Það er þó alveg ógleymanlegt þegar við náðum að snúa hópnum við hvernig hann sveimaði í stóran hring.

Það var eins og hann væri að búa sig undir lendingu.

Já þetta var sannarlega vígalegasti baugur sem við höfum riðið.

En það er töff að ,,hringteyma,, 80 hross á svona flottu reiðsvæði.

 

Allt gekk síðan vel hjá okkur að Stakkhamri en þar voru hrossin í góðu yfirlæti um nóttina.

 

 

Það var nú meiri happafengurinn að fá hann Þorgeir með okkur í ferðina.

Þarna eru hann og Skúli að hugsa málið.

 

 

Þessar mægður eru alltaf svo flottar.

 

 

Og ekki eru þessar síðri brosa svo fallega með Baltasar vini sínum.

 

 

Þessi fjölskylda er alveg kominn í hópinn og teljast þau fullgildir félagar í ferðafélaginu ,,Beint af augum,,

 

 

Þarna var bara gaman hjá þessum.

 

 

Sigurður Miðhraunsbóndi með einum besta ljósmyndara sem ég kannast við.

 

 

Þorgeir og Sveinbjörn passa uppá að allt fari vel fram í ferðinni.

 

 

Járningar eru helstu áhugamál þessara bræðra...............sko stundum.

 

 
 

Dagur fjögur var líka bjartur og fagur.

Við nutum okkar einhesta á fjörunum eftir að hafa komið stóra hópnum fyrir.

Það var líka gaman að fá góða gesti frá Ameríku sem komu með okkur og tóku góðan reiðtúr á fjörunum.

Við fengum líka skemmtilega heimsókn einmitt frá eigendum Framtíðarsýnar sem gátu nú loksins séð bæinn hennar.

Um kvöldið fór svo allur hópurinn í dekur á Hótel Eldborg en þar var tekið á móti okkur með glæsibrag.

Maturinn var frábær og öll þjónusta til mikillar fyrirmyndar.

Já það er alveg þess virði að fara í mat til hans Óla skal ég segja ykkur.

 

 

Dagur fimm var dagurinn sem við riðum frá Melum og að Hömluholti.

Áfram var blíða og nú gekk allt eins og best var á kosið, hrossin orðin stillt og prúð.

 

Eins og sjá má ....................

 

 

Slökun í áningu.

 

 

Svo er það hópreiðin, við erum rosalega að vanda okkur.............

 

 

Burtreiðar.............

 

 

Jonni.............mig langar svona.............mikið í hestakaup.

Já þó svo að þessir bræður hafi ekki enn verslað í ferðinni þá er það staðfest að a.m.k ein hestakaup hafa farið fram í ferðinni.

 

 

Einbeittir..............

 

 

Ung og flott hestastelpa.

 

Á morgun eru svo nýr dagur með enn fleiri ævintýrum.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

 

 

 
 

 

 
 
 

06.08.2016 10:21

Já það er fjör.

 

Það er boðið uppá blíðu i dag eins og vera ber í hestaferð.

 

 

En bloggið um dag tvö kemur í kvöld...............þó það sé dagur þrjú í dag.

Allt gekk slysalaust en fjörið var vel yfir meðallag.................hjá hrossunum.

Nánar um það síðar.

Einnig urðu tafir hjá bloggaranum þar sem sinna þurfti skemmtanalífinu.

Góður vinur fagnaði tímamótum með þessu líka flottu tónleikum.

 

Dagur tvö og þrjú koma hér á blogginu fyrr en varir...................

 

05.08.2016 00:26

Dagur eitt í hestaferð.

 

Þar kom að því..................dagur eitt í hestaferð er staðreynd.

Eftir söguleg met í járningafjölda og óþarfa skipulagi var lagt af stað.

Hrossahópurinn taldi hvorki meira né minna en 100 hross en mannskapurinn eitthvað færri.

Þetta fyrsta kvöld var riðið frá okkur hér í Hlíðinni og niður að Kolbeinsstöðum.

Ferðin gekk mjög vel en ferðahraðinn var vel í efri mörkum eins og getur gerst þegar spenningurinn er mikill.

 

 

Já spenningurinn.............hann birtist í ótal myndum.

Á meðfylgjandi mynd sjáið þið þrjá kalla frekar spennta.........

 

 

Þeir eru í raun og veru yfir sig spenntir...........................en hvað veldur ????

 

 

Jú krakkar þessar elskur voru að segja tveimur fullfærum bílstjórum til við aksturinn.

Það getur tekið á að stjórna jeppakonum með hestakerrur.

 

 

Það er afar mikilvægt að fá staðgóðan kvöldverð þegar maður er í hestaferð.

Hann klikkaði ekki í kvöld þessi enda bauð hann uppá dýrindi Kænukjötsúpu af betri gerðinni.

Á morgun er kominn nýr dagur og þá verður riðið frá Kolbeinsstöðum að Hömluholti.

Nánar um það ...............á morgun.

 
 
 
 
 

01.08.2016 20:43

Úr ýmsum áttum..............

Um helgina fór fram árleg kvennareið hjá kellunum í sveitinni og öðrum góðum konum.

Þema reiðarinnar var rautt og var því sjálfsagt að gramsa í fataskápnum og reyna að finna eitthvað við hæfi.

Hjá mér var ekki um mikið að moða en eina rauða flíkin var rifin út og að sjálfsögðu smelltum við á okkur varalit við hæfi.

Konurnar riðu frá Minni Borg að Söðulsholti með viðkomu hjá bændunum á Rauðkolsstöðum.

 

 

Það var líka herrareið sama dag en karlarnir voru að ég held ekki með neitt lita þema í gangi.

En ef svo hefur verið eru þeir væntanlega allir litblindir.

Það var heitt í veðri og logn á körlunum þó svo að konurnar hefðu aðra sögu að segja.

Karlarnir riðu frá Mýrdalsrétt í Laugargerði.

Á myndinni sést m.a Svanur bóndi í Dalsmynni svala þorstanum í sólinni.

 

 

Halldór í Söðulsholti og Óli hótel voru hressir að vanda.

 

 

Þessir lögðu sitt af mörku við að bjarga heiminum, þarna eru þeir á lokasprettinum.

Brynjar í Bjarnarhöfn og Jón í Hítarnesi.

Ferðirnar heppnuðust vel og allir komust í kjötsúpu hjá Óla hótelhaldara á Hótel Eldborg.

 
 
 
 

 

Það voru danskir dagar hjá okkur í Hlíðinni um helgina en þá kom hún Dorte að heimsækja okkur.

Ýmislegt var til gaman gert m.a var farið í Gullborgarhella en þar er einmitt þessi mynd tekin.

 

 

Þarna er mannskapurinn kominn upp úr hellinum og baðar sig í sólinni.

 

 

Jacob kvaddi okkur og Ísland í dag eftir tvo mjög stutta mánuði.

Við eigum svo sannarlega eftir að sakan hans mikið en vonum að við sjáum hann sem fyrst aftur.

 

 

Glundroði minn er gestrisinn og kann vel að gera dömum til hæfis.

Enda fór vel á með honum og henni Dorte þegar þau tóku reiðtúr uppí fjall.

 

 

Jacob brá sér líka á hestbak og tók góðan útsýnistúr uppí fjall og þeim samdi líka vel honum og Fannari.

 
 

Takk fyrir samveruna Jacob og Dorte þetta var mjög skemmtilegur tími.

 

Að öðru...........

 

Hryssan Svaðaborg var svo óheppin í vetur að slasa sig illa á fæti.

En það var eitt kvöldið í svarta myrkri og byl þegar Skúli vað að gefa útigangshrossunum að hann tók eftir hryssunni sem stóð álengdar.

Þegar að var gáð kom í ljós að hún hafði skorið sig mikið á afturfæti og tillti ekki í löppina.

Nú voru góð ráð dýr þar sem að hryssan var töluverðan spotta frá vegi, ótamin og ekki sérlega líkleg til samvinnu.

En með þolinmæði og aðstoð góðra manna hafðist þetta allt og hryssan komst í hús.

 

 

Eins og sjá má á þessari mynd var ekki sjálfgefið að þetta færi vel.

Svaðaborg er mjög álitlegt tryppi og því var ákveðið að fella ekki stóra dóm heldur kalla til Hjalta dýralæknir.

Hann kom og skoðaði löppina og ég verð að játa að bjartsýnin skein nú ekki af honum þegar sá herlegheitin.

En eins og hans er von og vísa fór hann í málið þreif upp sárið og bjó um löppina.

Hryssan var svo meðhöndluð í nokkrar vikur og kom Hjalti reglulega til að skipta um umbúðir og fylgjast með.

Það skal sérstaklega tekið fram að við notuðum mikið af rækjuspreyi á sárið með góðum árangri.

 

 

Í dag lítur löppin svona út einungis smá rönd sem minnir á hrakfarirnar.

Hryssan stígur af fullum þunga í löppina og engin hellti eða neitt annað sem háir henni.

Hleypur af miklum krafti upp um holt og hæðir eins og enginn sé morgundagurinn.

 

 

Hún hefur alltaf hreyft sig af krafti og vonandi verður engin breyting þar á.

Þessi mynd er tekin af Svaðaborgu á folaldasýningu í Söðulsholti.

Hún er undan Ugga frá Bergi og Þríhellu frá Hallkelsstaðahlíð.

 

Já stundum gengur vel ....................

 

 

 
  • 1