Færslur: 2011 September

29.09.2011 18:04

Hvanneyrarheimsókn.



Við fengum heldur betur góða heimsókn frá Hvanneyri hingað til okkar í Hlíðina.
Þarna voru á ferðinni nemendur á 1 og 2 ári í búfræði við skólann með kennurum sínum.



Föngulegur hópur sem að bætist vonandi í bændastéttina sem allra fyrst.
Gaman að hitta krakkana sem að komu vítt og breytt af landinu.



Kennararnir voru kátir og ánægðir með sitt fólk.



Þarna eru krakkarnir að kynna sig hvert fyrir öðru og fyrir okkur sem að var frábært framtak hjá kennurunum, því þá gat ég áttað mig á mörgum andlitum sem ég þóttist þekkja.
En ykkur að segja svona alveg í trúnaði þá komst ég að því að ég er komin á ,,einhvern aldur,, því ég þekkti miklu fleiri foreldra, ömmur og afa en krakkana.
Ég fer líka aldrei á Kollubar.



Þegar nemendurnir kynntu sig sögðu þau okkur hvernig búsetu og búfjáreign þeirra væri háttað. Það var afar fróðleg upptalning og ýmislegt sem að þau töldu sig eiga sem að verðmæti væri í svo sem sauðfé, kýr, hross og jafnvel Geirmund Valtýrsson.



Mummi var ekki heima þegar að hópurinn kom svo að hann verður bara að taka upp þráðinn á kynningarmálunum og viðskiptahorninu næst þegar hann mætir á Kollubarinn.
Spurning hvort hann selur þá Honduna........???



Þessi strákur sá um aksturinn á hópnum eins og mörgum hópum í gengum tíðina.
Þau voru líka ófá árin sem að hann keyrði lömbin okkar í sláturhús og kom þá gjarnan í kaffi.
Alltaf gaman að sjá þennan hressa og káta kappa.

Já þetta voru skemmtilegir gestir, takk fyrir komuna flottu búfræðingar það var gaman að fá ykkur í heimsókn hingað í Hlíðina.

27.09.2011 21:29

Lofandi Logi og ýmislegt annað......



Þetta er Logi frá Ármóti tveggja vetra stóðhestur undan Glotta frá Sveinatungu og Virðingu frá Hala.
Ég sá hann í fyrra vor þegar ég kom með hesta í girðingu á Kistufelli og varð stórhrifin af hreyfingunum. Ganglagið, mýktin og fasið gerði það að verkum að ég hugsaði strax ,,þennan verð ég að nota,, ekki skemmir fyrir hvað hann er yfirvegaður og skemmtilegur karater.
Þegar ég fór að spyrjast fyrir um hestinn kom í ljós að ættin sem að honum stendur er ekkert slor.
Faðirinn Glotti hefur hlotið 8.64 í aðaleinkun þar af 8.97 fyrir hæfileika hreint ekki slæmt.
Móðirin Virðing hefur hlotið 8.35 í aðaleinkun þar af 8.40 fyrir hæfileika.
Hryssan sem að fór undir Loga og kom heim í dag með 45 daga gömlu fyli er hún Dimma.
Nú er bara að bíða og sjá hvað bætist í hópinn næsta vor.

Í gær komu tvær hryssur heim af suðurlandinu sem að hafa verið hjá stóðhestum. Það voru þær systur Gefn og Tign Fáfnisdætur frá Fagranesi. Gefn var hjá Leikni frá Vakursstöðum en Tign hjá Ugga frá Bergi, báðar hryssurnar eru fyllausar. Gefn var sleppt uppí fjall og mun bíða þar eftir nýju stefnumóti við Leiknir næsta vor. Aldeilis frábær þjónustan hjá Halldóru og fjölskyldu á Vakurstöðum.
Húsfreyjan er hinsvegar í miklum vangavelltum um það hvort að Tignin eigi ekki bara að ,heilsa,, uppá einhvern kappann hér heima. Hún yngist nú ekki blessunin.............frekar en sumir aðrir.



Ég rakst á þetta draumatæki í Þykkvabænum, mundi gefa mikið til að fá það lánað svona hluta úr degi. Við eigum sem sagt eftir að taka upp slatta af kartöflum og í trúnaði sagt er það ekki draumastarfið. En kannske er bara betra að láta vaða með forkinn að vopni og vita hvort þetta tekur ekki fljótt af heldur en væla í ykkur.

Svo að því sé haldið til haga þá fengum við 33 kindur úr Bakkamúlanum en engin var það Evran. Það ætlar ekki að ganga snuðrulaust að ,, innleiða,, þessa Evru frekar en hina.......
Síðar í vikunni verður svo smalað á öðrum slóðum og kannske heimtist eitthvað þar ?

24.09.2011 23:10

Í réttum er þetta helst......



Myndgæðin eru svo sem ekkert sérstök en þessi mynd er tekin ,,bakdyramegin,, í Hlíðinni.

Í dag var það Vörðufellsréttin með fjölda fjár og skemmtilegu mannlífi en myndavélin gleymdist heima svo að þið verðið bara að gera ykkur í hugalund hvað var gaman.

Já við hér í Hlíðinni fengum 140 stykki úr réttinni og Kolhreppingar í heild ja þeir fylltu öll fluttningatæki sem að meðferðis voru. Hvað sem það var nú margt í heildina?
Tölurnar til en ekki birtar nema með ábyrgð sem að ég hef ekki þessa stundina.
Við settum allt féð inn og númeralásum því að húsfreyjunni finnst afar mikilvægt að vita hvar féð kemur fram að hausti. Það eru svona einkavísindi sem að ekki allir skilja en það er sama svona skal það vera.
Í öllum alvöru þáttum er talað um ,,bókina á náttborðinu,, hjá mér er það ekki spurning þessa dagana hvað bók það er ROLLUBÓKIN.
Gróft val hefur farið fram á lömbum sem eiga að fara í lambamælingar og sónarskoðun á næstunni, bara spennandi, hlakka svo til að fá Lárus í heimsókn og ekki væri verra ef að Jón Viðar kæmi líka.
Ég er nú bara nokkuð sátt með meðalvigtina á hópnum sem að fór um daginn og flokkunin var góð.
Svo að ég verð bara að væla yfir einhverju öðru nú eða bara sleppa því og láta öðrum það eftir.

Vaskir menn smöluðu Bakkamúlann í dag og fengu fjölda fjár á morgun verður brunað til hreppsstjórans og okkar hópur sóttur. Spurning hvort að Evra litla verður í þessum hópi?
Eftir næstu helgi verður tímabært að fara að telja í bókinni góðu hvað vantar að kindum og lömbum.

Það væri nú ekki leiðinlegt að vera í Skagafirðinum núna að tjútta í Svaðastaðhöllinni en það bíður bara betri tíma. Sendi fulltrúa sem að vonandi skemmtir sér vel og ég tek það bara hressilega út síðar.





.

21.09.2011 22:32

Enn eru það réttirnar.



Þarna sjáið þið þrjá af okkar góðu smölum smala fram klettana fyrir ofan Hraunholtahlíðina.
Þetta eru Hallur, Þóra og Per sem að kom alla leiðina frá Danmörku til að mæta í réttirnar hjá okkur. 

Í gær var Mýrdalsrétt þar var aldeilis blíða og tók ég fullt af myndum sem eru komnar í myndaalbúmin hér á síðunni. Það eru sem sagt komin þrjú ný albúm á síðuna með nokkur hundruð myndum úr réttunum.



Þær voru nú nokkrar kindurnar með appelsínugulum merkjum sem að litu við í Hlíðinni í sumar............kannske þessir vösku menn séu að hugsa um að koma með í leit á næsta ári emoticon



Þessir voru líka brattir að venju enda ekki ástæða til annars í blíðunni.



Þarna eru svo höfðingjarnir úr eldri deildinni að spjalla við réttarvegginn.
Ragnar í Hlíð, Magnús á Álftá, Sigurður í Hraunholtum og Steinar í Tröð.

Já það var gaman í Mýrdalsrétt þar hittir maður fólkið í sveitinni sem að gerist alltof sjaldan.



20.09.2011 22:58

Örréttafréttir.

Kindur, kindur og aftur kindur.........................

Réttirnar voru skemmtilegar frábært veður, margt fé og heill hópur af góðu fólki sem að hjálpaði okkur ómetanlega.
Takk fyrir elskurnar þetta var snildin ein eins og við var að búast.

Ég hef sett inn nokkur hundruð myndir í tveimur albúmum hér á síðunni.
Fleiri myndir bætast við á næstu dögum m.a skemmtilegar myndir af sveitungunum sem að voru teknar í Mýrdalsrétt í dag.

Ég ætla að  segja ykkur nánari fréttir úr réttunum þegar verkefnum fækkar, af mörgu er að taka............t.d

Verslun og viðskipti......... nýjustu fréttir úr viðskiptahorninu..............sauðfjársala........... málverkamálið mikla.............fjallasögur................fjallasöngur........og margt fleira.

Nokkrar hagnýtar upplýsingar:

Héðan fóru 495 lömb í dag svo að nú getið þið ráðið í vigt og flokkun á næstu dögum með því að fylgjast með hvernig liggur á húsfreyjunni.

Þegar lömbin voru vigtuð á fæti voru þau á bilinu 23-60 kg.

Ókunnugt fé sem að keyrt hefur verið héðan úr Hlíðinni síðustu vikuna var 618 stykki.

Nóg í bili meira síðar.

16.09.2011 00:01

Uppsafnaðar fréttir úr Hlíðinni.

Það er búið að vera mikið um að vera síðustu vikuna hér í Hlíðinni og lítill tími til að sitja við skriftir.
Rok og leiðindi gerðu það að verkum að við fórum ekki á fjörurnar eins og til stóð um síðustu helgi, það bíður bara betri tíma.
Hér hefur mestur tíminn farið í undirbúning fyrir réttirnar, gera við girðingar, taka til, baka og stússa. Og nú er næstum allt tilbúið og það sem ekki er tilbúið það bara bíður.

Við fengum heldur betur góðan aðstoðarmann í réttarstússið en það er hann Per okkar frá Danmörku sem að hefur stundum komið hingað til okkar um réttirnar.
Já það skapast skemmtileg kynni í kringum hestaviðskipti.

Hryssurnar Freyja og Erla fluttu til nýrra heimkynna í vikunni, við vonum að allt gangi vel og að þær verði nýjum eigendum til ánægju og yndisauka.

Við smöluðum ,,útá hlíð og inn í hlíð,, þennan daginn og allt gekk vel enda komin með nokkra aðstoðarsmala. Á morgun eru það svo Oddastaðir og þá bæstast enn fleiri í hópinn.
Aðalsmaladagurinn er svo á laugardaginn en þá smölum við Hlíðar og Hafurstaðaland.
Svo er rekið inn á sunnudaginn og réttað, fyrir þá sem að vilja líta við þá er planið að reka inn um kl 9.30

Ég reyni að smella inn fréttum og myndum þegar réttarstemmingin hefst hér í Hlíðinni.

10.09.2011 23:23

Hótel Víkingur í Hnappadalnum.



Ég átti alltaf eftir að sýna ykkur myndirnar sem Gústav Adolf ,,sveitungi,, minn sendi mér og nokkrar aðrar sem að ég hef viðað að mér m.a frá henni Dúu sem að vann á Hótelinu
.
Myndirnar eru af Hótel Víkingi sem að sigldi á Hlíðarvatni árin 1964 og 1965.




Takið sérstaklega eftir gluggunum.



Það var ekki alltaf blíða...................annað en núna þessa áratugina.



Þarna eru skvísurnar í eldhúsinu...................



Og ekki fór nú framhjá neinum að þetta var Hótel Víkingur.


Eins og þið sjáið þá var þetta listafley en sennilega hefur þetta ævintýri verið ca 40 árum á undan tímanum. Hefði passað vel við árið 2007....................
Í vor var innslag í sjónvarpsþættinum Landanum um Hótelið, þið getið horft á þáttinn með því að smella á slóðina hér fyrir neðan. Munið að smella svo á litla flipan sem að á stendur ,,horfa,,

http://www.ruv.is/frett/fljotandi-hotel-a-hlidarvatni

08.09.2011 22:58

Himininn logar.......



Himininn logaði hér í Hlíðinni þegar leið á kvöldið.............hvað sem það nú boðar.

Það er búið að vera kuldalegt í dag og sérstök ástæða til að vera ,,föðurlandsvinur,, þegar útreiðar eru á döfinni.
Rautt nef og kaldir fingur ..............það táknar ekkert annað en að haustið góða sé komið.

Féð hefur hópast niður og er komið heim að girðingu í þeirri von að nú væru komnar réttir og full ástæða til að smakka á hánni. Forustukindin og uppáhaldið Pálína var mætt með bæði lömbin sín heim að hliði.  Það fannst mér ,,sauðörugg,, vísbending um að haustið sé komið, treysti Pálínu betur en Sigga Stormi og hinum snillingunum.

Nú eru allar rúllurnar sem að við áttum niður í sveit komnar hingað heim, bara eftir að flytja frá Vörðufelli. Já heyskapurinn er endalaus þetta árið.

Að lokum smá stolin speki.........

Konur eru englar, en þegar einhver
eyðileggur vængi þeirra,
fljúga þær á kústskafinu.

07.09.2011 21:38

Ætli haustið sé að koma???



Það er sennilega að koma haust, allavega eru litirnir að verða þess legir þó að veðrið sé gott.

Góðir gestir hafa verið á ferðinni bæði til að sækja hesta úr tamningu og til að skoða söluhross. Alltaf nóg um að vera í hesthúsinu og ekki spillir að hafa gott og milt haustveður.

Létt og Léttstígur litli komu heim í gær eftir góða dvöl hjá honum Frakki frá Langholti. Dvölin hefur borið tilætlaðan árangur því að Létt var með 30 daga gömlu fyli.

Nú eru flestar fjögura vetra hryssurnar okkar komnar í frí, dregið var undan þeim í gær og þeim sleppt uppí fjall. Notalegt haustfrí bíður þeirra í nokkrar vikur á meðan geldingarnir puða heima.

Í gær var enn einn fundur Landsmótsnefndarinnar og var hann haldinn á Hvanneyri.
Léleg mæting var á fundinn en góðar umræður urðu þrátt fyrir það.
Fámennt og góðmennt.

Það varð úr að við heyjuðum á Vörðufelli og var slegið þar á sunnudaginn en rúllað á mánudaginn. Gott útigjafarhey og notaleg tilfinning þegar rúllunum fjölgar í staflanum heima.

Fjallskilaseðillinn fyrir Kolbeinsstaðahreppinn kom í dag alltaf  áhugavert að lesa hann.
Fjártalan sem lagt er á 6366, bæjirnir 13 og dagsverkin 50 talsins.
Ég verð þó að játa að það var meira gaman að sjá fjallskilaseðilinn þegar ég var smástelpa. Þá var það sjálfsögð hefð að fara ríðandi með hann að Heggsstöðum. Hann var bara gerður í tveimur eintökum og þá hét hann líka fjallgangnaboð sem að var miklu virðulegra nafn. Ég var ekki farin að ná niður fyrir blöðkur á hnakknum þegar ég fór ríðandi með í fyrsta sinn. Skemmtilegar ferðir og alltaf kaffi á Heggsstöðum jafnvel löngu áður en að ég byrjaði að drekka kaffi.
Já það var margt skemmtilegt í ,,gamla daga,, sko þegar ég var ......korn...ung.

Það voru mikil umsvif í eldhúsinu hjá húsfreyjunni í dag og ekki laust við að ýmislegt þar minnti frekar á bruggverksmiðju en sveitaeldhús. En afurðin sem að var til í dag er ekki enn orðin áfeng hvað sem verður með tíð og tíma.
Já aðalbláberjasaft með vestfirskuívafi var það heillin og ekki af verri endanum skal ég segja ykkur. Nú skálum við berjablá út að eyrum..................



04.09.2011 23:06

Snögg hringferð með LM nefndinni.



Þessa dagana erum við í Landsmótsnefndinni svokölluðu að ferðast um landið og kynna skýrsluna sem unnin var s.l vetur. Nefndin var skipuð til að fara yfir málefni landsmóta.
Í nefndinni voru auk mín Haraldur Þórarinsson, Laugardælum, Kristinn Guðnason, Árbæjarhjáleigu, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Kópavogi,  Stefán Halraldsson, Húsavík og Birgir Óli, Selfossi. Við vorum fjögur úr nefndinni sem að brunuðum af stað á föstudaginn til þess að mæsta á fyrstu fundina. Ég lagði af stað héðan úr Hlíðinni um hádegið á föstudag og brunaði í bæinn þar sem að við Sveinbjörn hittumst. Síðan var ferðinni heitið austur fyrir fjall að Laugardælum þar sem að Haraldur kom í bílinn til okkar. Þá var að brunað í Árbæjarhjáleigu til að taka formann hrossabænda með okkur en hann var nýkominn heim úr smalamennsku þegar okkur bar að garði. Það á því vel við að fyrsta myndin á blogginu í dag sé af kynbótahrútunum hans. Eftir að hafa drukkið góðan kaffisopa með rjóma og jólaköku var stefnan tekin á Hornafjörð.



Eins og alltaf þegar maður ferðast með fróðum og skemmtilegum ferðafélögum verða sögurnar margar og góðar. Á leiðinni austur rifjaði Haraldur upp þegar nokkrir afreksmenn riðu frá Hornafirði að Selfossi árið 2009 og fóru yfir mörg helstu jökulfljót landsins.
Það fór hrollur um mig þegar hann var að segja frá því þegar þeir riðu yfir ósinn við Jökulsárlón og eins og þessi mynd sýnir þá er nú fátt notalegt við ,,Jökkluna,,



Svona var ósinn þegar við komum niður að staðnum þar sem að Haraldur og félagar riðu út í.



Það þorði enginn nema lögmaðurinn að mynda uppá grjótgarðinum enda er hann ýmsu vanur.
Þar sem að fréttir af óróa í Kötlu höfðu borist okkur til eyrna þá var bara gefið í og brunað beint í Freysnes. Þegar við komum þangað var kominn tími á kvöldmat, ekki var nú þorandi annað en að hafa mannskapinn saddan og sælan svona rétt fyrir fyrsta fund.
Ekki bar á neinum lambakjötsskorti þar og fengum við þessa fínu lambasteik sem að svo sannarlega gladdi hjörtu sauðfjárbændanna í hópnum og hinna líka.
Ekki skemmdi það svo fyrir að desertinn var coktelávexir að hætti ömmu með þeyttum rjóma.



Þær voru ekki amalegar móttökurnar sem að ég fékk í Hornafirðinum og einstaklega gaman að hitta fyrrverandi uppáhalds starfskraft. Hefðum þurft að spjalla miklu meira en vonandi kemur hann fljóttlega í heimsókn svo að við getum spjallað yfir dýrindis kvöldverði sem að sjálfsögðu væri heitt slátur með rófum og uppstúfi. (Sannur einkahúmor)



Fundurinn í Hornafirði var gagnlegur, góður og eins og þið sjáið bara skemmtilegur.
Við gistum svo á Höfn en vorum snemma á fótum morguninn eftir því að næsti fundur var á Egilsstöðum kl 11.00 og þangað er drjúgur akstur.



Þarna erum við á Djúpavogi og eins og þið sjáið þá er það rúmlega tveggja manna verk að taka olíu. Eins gott að Kristinn gat sagt þeim til...............................með kortið.



Það er alltaf gaman að kom að Egilsstöðum, þarna eru Kristinn og Jósef Valgarð að ræða málin.



........................og Haraldur kominn með þeim.



Þarna er hluti fundargesta á Egilsstöðum þau Gunnar, Jónas, Pétur, Marietta, Jósef og Gunnþórunn.
Ágætis fundur með líflegum umræðum en strax að honum loknum var haldið af stað til Akureyrar þar sem að fundur átti að hefjast kl 16.00
Við keyrðum sem leið lá til Akureyrar og um það leiti sem við brunuðum framhjá afleggjaranum að Grímsstöðum á fjöllum tókum við smá æfingu í kínversku............svona til vonar og vara.



Á Akureyri var fundarsókn dræm en umræðurnar góðar og gaman að hitta hestamenn þar, hefði samt verið betra að fá fleiri á fundinn.
Fundinum lauk um kl 18.30 og var þá farið rakleiðis á flugvöllinn til að ná fyrstu ferð í bæinn sem varð reyndar ekki fyrr en kl 20.30
Þetta var skemmtilega ferð góðar og gagnlegar umræður sem að vekja vonandi fólk til umhugsunnar um landsmótsmál. Á næstunni verða svo fleiri kynningarfundir og að lokum verða svo málefni landsmóts tekin fyrir á formannafundi LH í byrjun nóvember.

Það var þreytt og syfjuð kona sem að brunaði úr Reykjavík heim í Hlíðina um miðnættið í gærkveldi, þökk sé Guðna Má á Ruv fyrir að hafa haldið henni vakandi.

01.09.2011 23:10

Vá bara kominn september........



Eins og alvöru íslenskum fjárhundi sæmir er Snotra farin að hugsa um leitir og réttir.
Verða þetta erfiðar leitir með vondum veðrum og basli eða sólríkar sælu stundir í fjallinu?
Spurning hvort að hún ,,ráði,, til sín svarta vini sína af border colleætt til að vaða í verkið?
Kannske ekki svo vitlaust að skoða það mál ?

Margt var afrekað hér í Hlíðinni í dag, bókhald, viðgerðir, girðingavinna, rúllufluttningar og að sjálfsögðu hestastúss og tamningar.

Bláberja atið mikla er hér í fullum gangi etið, sultað, hleypt, niðursoðið og saftað. Já algjör snild að eiga góða ,,berjatínu,, á góðum berjastað.
Og svo er þetta voða..........hollt.............með sykri og rjóma.

Framundan er margt spennandi um  helgina....................vona samt að Katla kerlingin fari nú ekki að gjósa.

  • 1