Færslur: 2016 Júlí

27.07.2016 22:55

Sumarsæla í sveitinni.

Við hér í Hlíðinni höfum lang oftast verið ótrúlega heppin með krakkana ,,okkar,,

En í sumar held ég að öll met hafi verið slegin hvað það varðar, þvílíkir snillingar þessar elskur.

Þessi mynd lísir vel stemmingunni sem verið hefur í hópnum, bros og jákvæðni.

Við smelltum þeim í merktar peysur fyrir landsmótið.

Maron og Majbrit komu með okkur þangað en Jacob var bústjóri heima.

Já þegar ég hugsa til þeirra rúmlega 60 sem hafa verið hjá okkur þá get ég ekki gert uppá milli þeirra.

Hvert á sinn hátt hafa verið dásamleg.

 

 

Þarna sýna þau okkur bakhliðina á peysunum með viðeigandi tilþrifum.

 

 

Um tíma bast okkur svo liðsauki en þá kom hún Laura frá Danmörku til okkar.

Hún var einmitt með okkur þegar þessar myndir voru teknar en þá voru við að ganga á Eldborg.

 

 

Það hafði lengi staðið til að fara á Eldborgina og því gott að fá þrýsting frá dönunum okkar að drífa okkur af stað.

Eftir góðan og skemmtilegan laugardag í hestastússi og útreiðum með gestkvæmu ívafi var lagt af stað.

Á leiðinni niður að Eldborg voru ræstir út smalar sem nauðsynlega þurfa að vera í formi þegar haustar.

Ferðin var nokkuð lík svona hrossarekstrarferð, sumir þurftu að hlaupa með.

Dásemdar veður í fallegu umhverfi með skemmtilegu fólki, hvað þarf meira ?

 

 

Eins og sjá má fór tökumaðurinn (konan) ekki alveg fram á brúnina...........

 

 

Jacob var aðeins djarfari..................

 

 

Og þessi hvílir sig á toppnum...............

 
 

 

Þarna eru þær Laura og Majbritt með Tralla og Molla.

 

 

Maron og Gjafar bættust í hópinn.

 

 

Þessi voru voða sæt saman og ánægð með hvort annað.

 

Það hefur verið líflegt hjá okkur undanfarið og nóg að gera á öllum vígstöðum.

Við erum með mjög margt á járnum, bæði tamningahross og ekki síður nokkurn fjölda af söluhrossum.

Það eru hross á mismunandi aldri og tamningastigum. Endilega hafið samband ef að þið eruð í hestaleit.

Einnig hafa komið margir hópar til okkar og umferðin um þær reiðleiðir sem liggja hér um verið mjög mikil.

Til dæmis eru mörg ár síðan svona margir hafa riðið yfir Klifshálinn en það er m.a leiðin frá okkur og yfir í Hítardalinn.

 

 

Nansy vinkona mín frá Ameríku kom um daginn með skemmtilegan hóp með sér.

Hópurinn fór m.a í skoðunarferð uppí fjall og hitti þar stóðið.

Við Proffi minn hittumst og vorum voða kát með hvort annað, vinur okkar frá Ameríku gladdist með okkur.

 

 

Ég hef verið svo heppin að fá að dæma þónokkur hestamannamót í vor og sumar.

Einnig var ég þulur á Íslandsmóti baran og unglinga í Borgarnesi.

Frábært að fá tækifæri til að fylgjast með og sjá flotta hesta og knapa spreyta sig.

 

 

Eftir landsmót var tekin létt málningarsveifla í hesthúsinu.

Menn og hestar eru ánægðir með árangurinn.

Á myndinni er séð fyrir endann á verkinu, þetta gula á gólfinu er ekki málningapensill.

Þetta er hún Snota mín sem hafði sérstakt eftirlit með herlegheitunum.

Ekkert fer framhjá hennar vökulu augum.

 

 

Heyskapurinn hefur gengið nokkuð vel og náðst hafa þurr og góð hey.

Þegar þetta er skrifað er verið að rúlla síðustu stykkjunum af fyrri slætti.

Margir bændur hafa lagt Krabbameinsfélaginu lið með því að kaupa bleikt rúlluplast.

Í mínum huga eru þessar rúllur til heiðurs mömmu minni og öðrum þeim hetjum sem standa í ströngu þessa dagana.

 

 
 
 
 

 

Veiðin hefur verið aldeilis góð í HLíðarvatni þetta sumarið.

Á myndinni er einn afbragðs veiðimaður með aflann sinn.

Myndinni var stoðið af fésbókasíðunni hans vonandi með góðfúslegu leyfi svona eftir á.

 

 

Þessir garpar veiddu líka vel og voru stolltir af því.

Eins og fyrr er þessi mynd illa fengin af fésbókinni þeirra.

 

Nýtingin á tjaldstæðunum hefur líka verið góð þar sem blíðan í sumar hefur verið alveg sérstök.

Núna búum við okkur undir að taka á móti gestum á tjaldstæðið um helgina en þá verður líf og fjör.

Svona til frekari fróðleiks fyrir nýja lesendur þá bjóðum við uppá tjaldstæði, veiðileyfi, reiðkennslu og hestaleigu.

Verið velkomin í Hlíðina.

 
 

 

 
 
 
 
 
 
 
  • 1