Færslur: 2012 Júlí

31.07.2012 23:37

Búinn júlí



Þessi litli hestur heitir Leikur frá Hallkelsstaðahlíð, faðir er Spuni frá Vestukoti og móðir Karún frá Hallkelsstaðahlíð. Myndin er tekin í vor nokkrum klukkustundum eftir að hann fæddist, nú er hann með mömmu sinni á suðurlandinu þar sem þau leggja sig fram um að stækka fjölskylduna.

Blíða og aftur blíða er það sem boðið er uppá í veðri hér í Hlíðinni um þessar mundir.
Við erum langt komin með fyrri slátt en vísvitandi erum við að drag það að slá sum stykkin sem hafa sprottið seint. Við erum komin með þó nokkuð af úrvals heyi og höfum svo líka borið á nokkra hektara sem við ætlum að fá svolítið af há.

Aðal áherslan hefur verið á því að ríða út og temja síðustu dagana enda margt á járnum og bara spennandi verkefni í boði. Við erum fjögur að ríða út og veitir ekki af, þyrftum meira að segja að bæta við okkur nú í ágúst. Svo er náttúrulega farið að undirbúa hestaferð og ýmislegt fleira skemmtilegt. Já sumarið líður alltof fljótt.

Við fengum góða gesti frá Noregi í heimsókn sem komu til að skoða hross, spá og spjalla.
Hestahópar og gönguhópar hafa farið hér um í stórum stíl og þó nokkuð hefur verið um að vera á tjaldstæðunum. Veiðin hefur heldur betur glæðst eftir að það fór að rigna og nú stefnir bara í gott veiðisumar ef það heldur svona áfram.
Veiða í þrjá og hálfan tíma og fá 27 stykki er það ekki bara gott?



23.07.2012 20:54

Hamraði aðeins á lyklaborðið



Skriða frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Arður frá Brautarholti, móðir Dimma frá Hallkelsstaðahlíð.



Melkorka frá Steinum, faðir Blær frá Torfunesi, móðir Orka frá Steinum.

Já myndirnar koma þegar netsambandið leyfir...................

Það var kalsalegt í dag ekki ,,nema,, 11 stiga hiti en það þykir nú ekki mikið m.v síðustu vikurnar og 7 stig að kveldi það er ólöglegt.
Við erum sennilega að verða svolítið vandlát og kröfuhörð við veðuryfirvaldið.
Draumavinnuveðrið mitt er það vind og hitastig sem gerir mér kleift að vera í flíspeysu og reiðbuxum án vandræða. Sólbruni og kal eru óvinir hestamannsins og húsfreyjunnar.

Hestaferðahópar og gönguhópar hafa verið hér á ferðinni síðustu daga og nóg um að vera.
Ég samgleðst alltaf hestaferðafólkinu því ég veit hvað er gaman í hestaferðum en að göngufólkinu dáist ég vegna þess að ég hef ekki enn byrjað (nennt) að stunda þá íþrótt nema með kindur eða hross á undan mér. Ég er því algjörlega ófær um að blanda mér í fésbókar umræðurnar þar sem kynsystur mínar keppast við að telja upp fjallatoppana sem þær hafa klifið. Og þó..... ég hef svo sem bröllt heilmikið en ekki með ,,stuðningi,, fésbókarinnar meira svona sauðkindarinnar.

Við fengum skemmtilega heimsókn í síðustu viku þegar Brávallabóndinn og frú birtust hér einn morguninn. Eins og vera ber var spjallað um hesta og margt annað áhugavert efni.
Alltaf svo gaman að spjalla við menn sem þora og geta haft skoðanir á hestamannasamfélaginu án þess að nokkur beri skaða af.
Sendingin sem ég fékk þegar bóndinn var kominn norður aftur var algjörlega óborganleg.
En eitt er víst þegar hann hefur gefið út ævisöguna þá verður hún fljótt komin á náttborðið með stóðhestablaðinu og hrútaskránni..... takk fyrir komuna heiðurshjón Reynir og Margrét.



Freyja litla fjárhundur er ,,mætt,, til vinnu og tekur starf sitt alvarlega túnrollunum til mikillar skelfingar.
Í hennar starfslýsingu eru engin svik, hik eða hangs bara orka, æði og þor.
Eigandinn gerir sitt besta til að halda verkstjórastöðunni en hver veit hvenær valdarán verður framið?




19.07.2012 23:16

Ritstopp af verstu gerð

Pennaletin er orðin ófyrirgefanleg en svona er þetta stundum og kannske rætist úr með ,,lækkandi,, sól ?
Ekki bætir úr að netsambandið hér í Hlíðinni er svo dapurt að vandamál er að hlaða inn myndum. Mig dreymir um að fá aðgang að einhverju betra netsambandi en það er sennilega fjarlægur draumur hér í fjöllunum.



Þarna eru Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð og Kolrún dóttir hennar og Arðs frá Brautarholti.



Heyskapurinn hefur gengið vel það sem af er fyrir utan það hversu sprettan á þurrustu túnunum var slök en allt stendur þetta til bóta þar sem rigningin er komin.
Nú bíðum við bara þangað til sprettan er orðin betri og tökum þá seinni hálfleikinn.
Allt er komið í plast á Melunum, Haukatungu, Kolbeinsstöðum, Rauðamel og svo hér á Steinholtinu og heimatúninu svokallaða.



Blíðan hefur verið yndisleg og gott að kæla sig á góðum dögum, þarna eru Astrid og Mummi að kæla bræðurna Fannar og Krapa Gustssyni.

Annríki hefur verið mikið í hestastússinu hjá okkur ferðahópar, sýnikennslur, keppni og síðast en ekki síst mikið að gera í þjálfun og tamningum. Hestar fara og önnur hross koma í staðinn. Nú fer að koma sá tími að maður fer að huga að árlegri síðsumarsferð Ferðafélagsins beint af augum. Þó svo að ferðin sé ekki fyrirhuguð fyrr en í ágúst þá er í góðu lagi að láta sig dreyma. Annars eru það ágæstis hestaferðir sem eru hér í gangi alla daga og stundum riðnar legnri vegalengdir samtals á dag en í nokkuri hestaferða á okkar vegum.

06.07.2012 10:30

Fréttir



Dregill frá Magnússkógum, faðir Gustur frá Hóli móðir Kolskör frá Magnússkógum.

Dregill er til sölu og er í þjálfun hjá okkur, frábær hestur sem hentar í keppni og er auk þess yndislegur reiðhestur.
Á myndinni eru Dregill og Mummi að keppa í töltkeppni.

Hjá okkur eru á söluskrá fjöldi hrossa sem mér hefur enn ekki unnist tími til að setja hér inná síðuna.

Frábæru landsmóti er lokið og við komin heim sólbrennd og sæl með hvernig til tókst.
Hestakostur hreint frábær, stemmingin og öll aðstaða fyrir hesta og menn til fyrirmyndar.
Takk fyrir landsmótshaldarar, hestamenn og aðrir sem að þessu móti komu.

Seinna mun ég renna nánar yfir hestakostinn svona með mínum augum og segja ykkur frá en vil þó nefna nokkur hross sem að mér eru eftirmynnilegri en önnur.
Arion frá Eystra-Fróðholti, Hrafn frá Efri-Rauðalæk, Frakkur frá Langholti, Viti frá Kagaðarhóli, Konsert frá Korpu og margir fleiri. Af hryssunum þá eru það Spá frá Eystra-Fróðholti, Kolka frá Hákoti, Mónika frá Miðfelli og margar fleiri.
Nokkur ,,pör,, heilluðu mig mikið en þau sem efst eru í huga núna eru Fláki frá Blesastöðum og Þórður Þorgeirsson, sjarmatröll af bestu gerð báðir tveir, Vesta frá Hellubæ og Olil Amble þvílíkt upplit á þeim drotningunum. Og síðast en ekki síst Kamban frá Húsavík og stjörnuknapinn Glódís Rún Sigurðardóttir.
Já það var gaman á landsmóti.

Fyrir og eftir landsmót höfum við fengið marga góða gesti sem hafa komið hér við í Hlíðinni.
Við fengum hópa frá Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og að sjálfsögðu marga fleiri góða gesti.
Takk fyrir komuna öll það var gaman að fá ykkur.

Stóðhestarnir hér heima eru byrjaðir að taka á mót hryssum, Sparisjóður var byrjaður fyrir landsmót en Gosi fékk aðal hópinn nú í vikunni. Það er alltaf hægt að bæta við inn til þeirra ef að einhver hefur áhuga á því.

Nú eru hryssurnar okkar sem eiga að fara af bæ til stóðhesta farnar eða u.þ.b að fara.
Í gær fóru þrjár, Karún mín fór undir Arion frá Eystra-Fróðholti, Létt fór undir Topp frá Auðsholtshjáleigu og Gefn fór undir Frey frá Hvoli. Í dag fara svo Skúta undir Álfarinn frá Syðri-Gegnishólum og Snör undir Leiknir frá Vakurstöðum. Í fyrradag fór svo Þríhella undir Ugga frá Bergi og í síðasta mánuði fór Kolskör undir Blæ frá Torfunesi.

Það er líflegt á öllum vígstöðum hér í Hlíðinni, tamningahrossin puða, stóðhestar sinna hryssum, ferðahópar fara í gegn og heyvinnutækin bíða á kanntinum.

Ekki má svo gleyma gestunum á tjaldstæðinu og veiðimönnunum sem nú kætast þegar vel veiðist í Hlíðarvatninu.
  • 1