11.09.2009 23:14

Mér finnst rigningin góð............í hófi.



Þarna sjáið þið hana Siglingu Sólons og Dimmudóttir hún er fædd árið 2008 .

Þurrkurinn er búinn allavega í bili, hér í Hlíðinni er það bæði jákvætt og neikvætt að mínu mati. Það jákvæða er að þá fer vatnið kannske að ná upp að girðingunum aftur og svo var gróðurinn orðin svolítið þyrstur. Það neikvæða er ef að það rignir fram að leitum þá verður fjallið leiðinlegt yfirferðar á hestum og það þykir slæmt á þessum bæ. Vonandi leysist þetta á jákvæðan hátt og það rignir bara þangað til vatnið hefur vaxið mátulega upp að girðingunum.
Svo sé ég í hyllingum logn, þurrk og passlega heitt í leitum og réttum hér í Hlíðinni.
Já það styttist í leitir nú er bara að krossa fingur og vona að sem flest af liðinu okkar geti mætt og aðstoðað okkur í kringum næstu helgi.

Hér var starfrækt bakarí í dag, já í alvöru meira að segja með tveimur starfsmönnum. Starfsmennirnir voru ég og Astrid, verkaskiptingin var ekki flókin ég subbaði út og hún vaskaði upp. Tegundirnar urðu bara nokkuð margar og uppskriftirnar stórar. Svo smökkuðum við báðar allar afurðirnar og vorum sannfærðar um að ef að við leggðum þetta fyrir okkur væri það ekki spurning við mundum slá í gegn.
Allavega hvor hjá annari.

Eins og þið hafið kannske tekið eftir setti ég inn smá myndasyrpu frá stóðsmöluninni undir takkann ,,albúm,, Ætlaði svo að vera dugleg og setja inn fleiri myndir í kvöld en það hafðist nú ekki en stendur til bóta sem fyrst.
Við höfum líka bætt við nýjum söluhrossum og eigum enn eftir að bæta þar við þegar ég hef verið duglegri að taka myndir.