Færslur: 2021 Janúar

23.01.2021 00:08

Sveitalífið......................

 

Það var kuldalegt í Hlíðinni þennan daginn og veturinn sannarlega við völd.

Sólin reyndi að gera gott úr þessu öllu saman og yljaði í stuttan tíma.

Ef að þið skoðið myndin vel sjáið þið að frúin var að reka hross en stalst til að taka mynd í leiðinni.

Hrossin voru kát með að fá föstudagsfjörið sitt og tóku vel á því á leiðinni út eftir og undan vindi.

En róðurinn var aðeins þyngri á leiðinni heim með vindinn í fangið og nokkra kílómetra að baki.

Já á fullri ferð því þau voru nú ekkert að spara sig þegar frelsið var framundan.

Við rekum alltaf hrossin í tvennu lagi þ.e.a.s geldinga sér og hryssur sér.

Stóðhestarnir eru síðan teymdir nú eða stundum reknir. 

Allir eiga það sameiginlegt að njóta þess að spretta úr spori og viðra sig.

 

 

Þó svo að það sé gott að geta rekið á svona vetrardögum þá er líka dásamlegt að hafa góða inniaðstöðu.

Þar inni er logn, blíða og sumar þó svo að vindurinn hamist fyrir utan.

Þessi mynd er tekin þegar að Kolrassa mín var að taka fyrstu sporin undir manni.

Mig grunar að þau séu bara asskoti ánægð hvort með annað Mummi og hún.

Kolrassa er undan Spuna frá Vestukoti og Kolskör minni, hún er afrakstur frábærrar afmælisgjafar.

Ljónheppin að hafa átt stórafmæli þarna um árið frúin og eiga svona frændfólk og vini.

Já það er líf og fjör í hesthúsinu og nóg af spennandi verkefnum þar.

 

 

Smalahundakvöldin halda áfram og þarna má sjá þá sem að mættu á kvöld númer tvö.

Næsta smalahundakvöld verður svo n.k þriðjudagskvöld.

Ef að þið viljið einhverjar frekari upplýsingar um þennan viðburð þá hikið ekki við að hafa samband.

 

 

Af sauðfjárbúskapnum er það að frétta að nú er allt með kyrrum kjörum, frið og spekt.

Við erum búin að taka hrútana frá kindunum og setja þá í frí fram að næsta fengitíma.

Þeir eru í þeim hópi sem eru hreint ekki sáttir við styttingu ,,vinnuvikunnar,, og mótmæltu harðlega þegar þeir voru skikkaði í frí.

Á meðfylgjandi mynd er hrúturinn Valberg frá Stóra Vatnshorni og ærnar að njóta síðust samverustundanna þennan veturinn.

Næsti stórviðburður í sauðfjárstússinu er rúningur á snoði og síðan sónarskoðun vegna fóstutalningar.

Ærnar hafa ekki oft verið orðnar svona loðnar á þessum tíma.

Þær minna óneitanlega á okkur hin þegar ekki mátti hafa hárgreiðslustofur opnar fyrr í vetur.

Nema þeim er slétt sama og velta sér ekkert uppúr því þó eitt og eitt grátt hár stingi upp kollinum.

Spá meira í það hvort ekki sé kominn gjafatími.

 

 

Hrútnum Móstjarna voru skaffaðar 40 eðalkollur sem sérvaldar voru fyrir hann.

Það fannst honum ekki nóg og ákvað að líta aðeins á þær hyrndu hinumegin við milligjöriðna.

Hann eins og Valberg vinur hans urðu samt þann 21 janúar að sætta sig við styttingu á vinnuskyldu.

Já það er ekkert grín að vera hrútur.

 

 

Talandi um vinnuskyldu..........................

Þessi harðduglegi hefðarköttur er kominn á samning og tekur það mjög alvarlega.

Hann er sem sagt orðinn áhrifavaldur og á barmi heimsfrægðar.

Á milli þess sem hann sefur fast og laust auglýsir hann Furuflís af miklu kappi.

Já það er ekki um að ræða styttingu vinnuviku í hans fjöruga lífi.

 

 

 

 

 

12.01.2021 10:10

Smalahundakvöld í Hallkelsstaðahlíð með Gísla og Svani.

 

 

Það var létt yfir mannskapnum þegar fyrsta ,,Smalahundakvöldið með Svani og Gísla"  var haldið í kvöld.

Fullbókað var á þetta fyrsta námskeið  og mikill áhugi í gangi. Þið skulið samt ekki örvænta það kemur annar þriðjudagur.

Gísli sá um kennsluna í kvöld og fórst það vel úr hendi eins og við var að búast. Hann mun annast kennsluna fyrst um sinn.

Hundar jafnt sem menn sýndu góð tilþrif og greinilegt að fólk leggur mikið á sig til að eignast góðan fjárhund.

Það er gaman að sjá hversu miklar breytingar til batnaðar verð á hundunum á þessum námskeiðum og auðvita fólkinu líka.

Kindurnar stóðu sig líka með mikilli prýði en á þessu fyrsta kvöldi var notast við tamdar kindur með þó nokkra reynslu.

Fremstar meðal jafningja voru að sjálfsögðu Vaka og Gjalfmild en þær systur stóðu vaktina í allan fyrra vetur.

Nemendurnir komu víða að þar á meðal Borgfirðingar, Mýramenn, Dalamenn og Snæfellingar.

Fyrir ykkur sem hafið áhuga á að fylgjast með og eruð á fésbókinni þá er hópur þar sem heitir Smalahundakvöld í Hallkelsstaðahlíð með Svani og Gísla.

Þeim sem að ekki eru á fésbókinni en hafa áhuga er bent á að hafa samband við okkur í síma 7702025 eða á netfangið [email protected]

 

Hlökkum til að sjá ykkur.

 

 

04.01.2021 21:13

Og jólin breytast.

 

Við hér í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegs árs með kæru þakklæti fyrir það liðna.

Jólahátíðin fór vel með okkur og var einkar ljúf en öðruvísi en venjulega. Það vantaði fleira fólk.

Fyrst skal nú nefna að hér í Hlíðinni hafa móðursystkini mín haldið jólin hátíðleg frá því 1927.

Nú var sem sagt breyting þar á og sú kynslóð fjærri góðu gamni og hélt jólin annars staðar.

Covid gerði það að verkum að bæði Sveinbjörn og Lóa héldu sín jól á Brákarhlíð í Borgarnesi.

Einar móðurbróðir minn sem var elstur 12 systkina og fæddur árið 1927 hélt alltaf sín jól hér.

Það gerðu líka þau systkini sem hér bjuggu um lengri eða skemmri tíma en þau voru fædd frá árinu 1927 til 1945.

Þannig að þessi jól voru öðruvísi og heldur færri sem settust við matarborðið að þessu sinni.

Já tímarnir breytast og mennirnir víst líka með.

Á myndinni hér fyrir ofan eru þau systkinin Lóa og Sveinbjörn saman á Brákarhlíð.

Þau voru hress og bara kát þó svo að þau hefðu viljað komast heim í gamla húsið.

Hún á að baki 90 jól og nærri öll haldin í Hlíðinni og Sveinbjörn 80 sem öll hafa verið haldin þar.

 

 

Okkar lukka var hinsvegar að fá að hafa þessi hér með okkur um jólin.

Litli grallarinn var hress og kátur enda kom mikið af bílum og traktorum úr pökkunum.

 

 

Á jólunum er tíminn til að slaka á og hafa það gott í sófanum, þessi þarna voru bara slök.

Ég er ánægð með að myndin af Snotru minni laumaði sér í sófann líka.

Listakonan Sigríður Ævarsdóttir málaði myndina af Snotru og gerði það líka svona lista vel.

Ef að ykkur vantar málverk þá er hún Sigga klárlega að gera góða hluti.

 

 

Þessi fékk að opna einn pakka svona í ,,forrétt" og viti menn það var þessi fíni Claas.

 

 

Sjónvarpsdagskráin var held ég bara fín um jólin...................

Veit ekki hvort að þessir tveir voru að horfa á barnatímann eða veðurfréttirnar.

Eitthvað var það allavega spennandi sem að þeir sáu.

 

 

Þessi vörpulegi jólasveinn er handverk Mumma þegar að hann var á sama aldri og Atli Lárus.

Hann var unninn við eldhúsborðið hjá henni Ingu sem var dagmamma Mumma í æsku.

Síðan var hann jólagjöf til okkar foreldranna árið 1987, hefur verið vel geymdur en mætir þó í vinnuna á hverju ári.

Klárlega dýrsta jólaskrautið á bænum. Unnin af alúð og mettnaði.

Jólatréð er hinsvegar jólagjöfin hans Atla Lárusar til foreldranna og unnið af nákvæmlega sömu alúðinni.

Nú er bara að vita hvort það stendur af sér 33 jólahátíðir í fullri vinnu.

 

Já, jólin eru okkar það er alveg klárt.

 

 

  • 1