09.09.2009 21:04

Miklubrautardarraðadans, skírn og fleira.



Alltaf eitthvað að bralla..............húsfreyjan og Blika að velta vöngum yfir ævafornum stöngum. Þær eru ekki bara fallegar uppá vegg þær eru líka bráð skemmtilegar uppí hesti.

Það hefur heilmikið á dagana drifið hér í Hlíðinni síðan ég skrifaði síðast á síðuna.
Á mánudaginn fór Mummi norður þar sem hann er að hefja sitt annað námsár við Háskólann á Hólum. Mér sýndist að hann væri bara mjög spenntur og áhugasamur að byrja aftur. Enda ekkert smá spennandi nám sem í boði er og skemmtilegur félagsskapur.
Þegar ég í síðustu skrifum var að telja upp krakkana ,,mína,, sem ég þykist eiga eitthvað í sem eru á Hólum gleymdi ég henni Höllu Maríu. Halla hvernig gat það nú gerst??? Halla var hérna hjá okkur í þó nokkurn tíma og var t.d að vinna hjá okkur heita sumarið fína þegar sem mest var sundriðið í vatninu.
Í gær var svo brunað með fjórfætta Hólanema norður það voru þeir Baltasar sonur Trillu, Vörður sonur Tignar og Fjórðungur sonur Sunnu og allir eru þeir synir Arðs frá Brautarholti.
Nú er bara að vona að bæði krakkarnir og fjórfættlingarnir standi sig vel í náminu á Hólum.
Mummi og Helgi eru sambýlingar á Hólum og þegar við vorum á ferðinni í gær buðu þeir uppá þessa fínu súpu, brauð og kaffi. Koma bara sterkir inn..........húslegir drengirnir og meira að segja með matreiðslubók í sínum fórum. Næstum viss um að ég fæ steik í næstu ferð.

Á sunnudaginn var litla daman þeirra Randiar og Hauks skírð í Reykholtskirkju, hún hlaut nafið Kristín Eir. Þetta var falleg og hátíðleg athöfn og svo glæsilegt kaffihlaðborð í Skáney á eftir. Ég var að rifna úr stolti yfir því að vera skírnarvottur og svo tek ég ,,ömmuhlutverkið,, alvarlega og hef rosalega gaman af því að fylgjast með þessari fallegu dömu.
Takk fyrir skemmtilegan dag og frábærar veitingar, alltaf gott og gaman að koma í Skáney.

Á mánudaginn var stjórnarfundur hjá Félagi tamningamanna sem haldinn var í Reykjavík.
Þegar ég var á leiðinni heim af fundinum hvellsprakk á miðri Miklubrautinni, sem betur fer tók bíllinn ekki af mér völdin og gat ég rennt mér útí kannt. Húsfreyjan hugðist rjúka til og skipta um dekk en áttaði sig þá á því að hún var sko aldeilis ekki á gömlu góðu toyota touring sinni. Upphófst nú heljarinnar basl og verð ég að játa að ekki var nú eingöngu lognmolla í kringum húsfreyjuna þar sem hún og trukkurinn húktu uppá götukannti í brjálaðri umferð.
Á svona stundum er nauðsynlegt öllum konum að eiga eiginmenn sem hægt er að hringja í þó ekki nema til þess að hundskamma þá fyrir að þetta hafi gerst.
Hvort að þeir geti nokkuð að því gert er svo önnur saga. 
Sem sagt í stuttu máli....hringdi í bóndann....öskureið....aðallega af því að ég gat ekki skipt um dekk........veit að það er aulalegt að ná ekki dekkinu undan.
Kvaddi fljótt og skellti á........já ég held að ég hafi kvatt, hringdi í soninn bara til að vita hvort að dekkið losnaði ekki við það og jafnvel varadekkið færi sjálft undir. Þetta var gert þó svo að hann væri norður á Hólum og ég í Reykjavík. Settist aftur inní bíl og áttaði mig þá á því að sennilega væri ég búin að vera í bráðri lífshættu þarna í útjaðri hraðbrautarinnar MIKLUBRAUTAR sem að allir virtust keyra um eins og þeir væru í tímatöku í formúlu eitt.  Meðan á þessu basli stóð ákvað bóndinn að vænlegast væri að fá góða menn húsfreyjunni til bjargar. Þar sem að hann hefur áralanga reynslu að tamningum (stundum á geðvondum hryssum) valdi hann að ræða þá ákvörðun ekkert að sinni við húsfreyjuna heldur láta verkin tala og boða mennina beint á staðinn. Mættu því heiðursfeðgar á staðinn á ótrúlegum tíma.
Ég verð að játa að ég var afar fegin komu þessara góðu manna.
En þó að ljótt sé frá að segja þá leið mér nú svolítið betur að verða vitni af því að þessi dekkjaskipting var helv......basl líka hjá vörubílstjóra og þaulvönum hagleiksmanni.
Já kellur úr fjöllunum geta ekki alltaf allt frekar en ofurkonur úr höfuðborginni.............
Takk fyrir hjálpina drengir bæði andlega og verklega.