Færslur: 2016 Maí

31.05.2016 12:13

Já sumarið.

 

Sumarið er tíminn.............

Þessi var alsæl með grænu grösin og hafði sýnilega ekki miklar áhyggjur af snjónum í fjöllunum.

Það höfum við ekki heldur enda er hann nauðsynlegur til að viðhalda góðum skilyrðum bæði í vatnsbúskapnum og gróðurfarinu.

Nú eru bara rétt rúmlega 20 kindur eftir að bera og unnið að því hörðum höndum að marka út og klára sauðburðarstúss.

Það verður kærkomið að kasta kveðju á síðustu kindina um leið og hún fer í gegnum hliði og uppí fjall. Hvenær sem það nú verður.

 

 

Allir voru í sátt og samlyndi að njóta vorsins en Karún mín lætur bíða eftir sér og er ekki ennþá köstuð.

 

 

Litla Snekkjudóttirin sem hefur stillt sér upp í tíma og ótíma var ekki í nokkru stuði til módelstarfa.

Mig grunar að hún vilji ekki myndatökur fyrr en eigandinn hefur fundið á hana gott nafn.

 

 

Sendi mér samt eitt gott blíkk um leið og hún losnaði við mig og myndavélina.

 

 

Við hér í Hlíðinni kunnum alveg að meta blíðuna.

 

 

Svartkolla á draum......................eða kannski drauma.

 

 

.........................um girðingalaust tún.

 

 

Rollan í fjörunni.........................

 

 

Að lokum eru hér myndir sem að ég tók kl 4 í nótt rétt áður en ég fór að sofa.

Þarna er sólin að byrja skína á fjallatoppana hjá nágrönnum okkar í Eyjahreppnum.

 

 

Sólin var líka byrjuð að skína í Hellisdalinn og á Tindadalina.

 

 

Allt var svo kyrrt og hljótt, dásamlegur tími vorið.

Mikið væri gott að þurfa ekkert að sofa á þessum árstíma.

 
 

27.05.2016 13:16

Rigningin maður rigningin.

 

Þó svo að oftast sé nú blíða hér í Hlíðinni eru nú til undantekningar á því.

Það var allavega ekki gott í ,,sjóinn,, þennan morguninn og sennilega hefði sjóveikin tekið öll völd ef lagt hefið verið í ann.

Lambféð stendur í skjóli og freistar þess að bíða af sér veðrið en þegar veðrið hefur staðið í á þriðja sólarhring verður að skjótast á beit.

Bæjarlækurinn er orðinn frekar ljótur og eins gott að engum detti í hug að rjúka yfir hann.

Það jákvæða er að það grænkar og grænkar það er jú draumur bóndans á þessum tíma.

 

 

Það hefur stór hækkað í vatninu síðasta sólarhringinn og hér má sjá mórauðn lit sem gefur til kynna miklar leysingar.

 

 

Öðru hvoru moldskefur vatnið og gusurnar ná langt uppá land.

 

 

Flest er vænt sem vel er grænt...........

Túnin hafa tekið vel við sér og skíturinn sem fór á í apríl er greinilega að vinna heimavinnuna sína.

 

 

Og til að hressa sig aðeins við í rokinu er gott að sjá þessar flottu frænkur sem komu að líta á sauðburðinn.

Moðkarið var staðurinn fyrir fund í bleikudeildinni.

 

 

26.05.2016 12:49

Fyrsta folaldið 2016 hér í Hlíðinni.

 

Aðfaranótt 25 maí þegar bæði var hífandi rok og rigning kom þessi jarpa hryssa í heiminn.

Móðir er Snekkja frá Hallkelsstaðahlíð og faðir Skýr frá Skálakoti.

Ég var nýkomin heim af kvöldvakt og varla vakandi nema á öðru auga þegar mér var litið út og sá að eitthvað hvítt lá fyrir aftan hryssuna.

Þar sem engar líkur voru á ljósu folaldi rauk ég útí bíl og stundaði ofsaakstur út á tún. Sem betur fer stóð hryssan upp í tæka tíð og allt fór vel. Eftir margar stilltar og fallegar vornætur valdi Snekkja þessa skuggalegu nótt.

Eigandinn Mummi hefur ekki enn valið nafn á hryssuna.

 

 

Það er gott að knúsast í vonda veðrinu og fá yl í kroppinn.

Vonandi kemur blíða einn daginn og þá verða teknar betri myndir.

Nú er hún Karún mín næst á köstunarlistanum svo það er eins gott að vera á vaktinni.

22.05.2016 02:08

Vorið.

Mynd Kolbeinn Sverrisson.

Nú fer að síga á seinni hlutann á sauðburðinum hér í Hlíðinni.

En samkvæmt nýjustu tölum eru rétt rúmlega 100 eftir að bera.

Burður hefur gengið nokkuð jafnt og þétt uppá síðkastið eftir líflega byrjun.

 

Mynd Kolbeinn Sverrisson

Eins og sjá má hefur heldur betur fækkað í réttinni en það var biðstofan á fæðingadeildina.

Hjá alvöru listamönnum heita verkin alltaf eitthvað og það á svo sannarlega við þessar fínu myndir frá honum Kolla.

Sú efri heitir Lausafé og sú neðri Fjáraustur.

 

 

Við höfum verið svo lánsöm að fá vaskan hóp af frábæru aðstoðarfólki til að hjálpa okkur í sauðburðinum.

Þarna eru nokkrir kvenskörungar að halda Kolbeini við efnið.

Það hefur verið eins gott að hafa þetta góða aðstoðarfólk bæði í fjárhúsunum og ekki síður heima við til að fóðra liðið.

Mummi flaug í síðustu viku út í danaveldi að kenna en kemur eftir helgina heim.

Takk fyrir alla hjálpina.

 

 

............og þær eru greinilega ánægðar með hvernig til tókst við verkefnið.

Þær eru öflugar þessar kellur, Þóranna, Björg og Brá.

 

 

Majbritt hafði líka góða aðstoð í hesthúsinu þar sem að Halldór og Emilía fylgdu henni eins og skugginn.

Þarna eru þau með Leik Spunason en Fleyta Stígandadóttir fylgjist með að allt fari vel fram.

 

 

Leikur hafði reyndar sérstakt dálæti á Emilíu og vildi helst fara ofaní vasann til að fá sem mesta athygli.

 

 

Majbritt og Baltasar eru sérstakir vinir og brosa alltaf út í eitt þegar þau hittast.

 

 

Sveinbjörn lítur við til að vita hvað er um að vera í hesthúsinu.

Þarna eru hann og Majbritt að taka stöðuna, sá grái lætur sér fátt um finnast.

 

 

Þessar tvær Snekkja og Karún eru komnar í köstunarhólfið báðar fylfullar eftir Skýr frá Skálakoti.

Þær voru afar ánægðar með steinefnastampinn og skiptu honum bróðurlega á milli sín.

Nú er bara að bíða og vona að allt gangi vel þegar þær fara að kasta.

 

 

Síðustu daga hefur þetta verið verkfærasett húsfreyjunnar og verður svo eitthvað áfram.

Númerabókin, vorbókin, penninn, markatöngin og selenpumpan.

Þó svo að við höfum markað mikið út þá er drjúgur hópur eftir sem sér manni alveg fyrir verkefnum.

Góðar stundir.

 

13.05.2016 14:03

Rollurnar rokka.

 

Þessi fallegi dagur.

Sauðburðarljótan vex hraðar en fylgji nokkurs forsetaframbjóðanda svo það var ekki val um sjálfsmynd hér í upphafi frétta.

Sauðburður er kominn á fulla ferð og sennilega um helmingur borinn þegar þetta er skrifað. Ég hafði háleit markmið um að setja hér inn fréttir daglega en tíminn sem vantar í sólarhringinn var ákkúrat sá tími. Við fengum lömb undan öllu þeim hrútum sem að við notuðum í sæðingunum í vetur. Mörg falleg sæðingslömb fæddust þetta árið m.a undan Kornilíusi, Salamon, Roða og fl.

Fyrstu lömbin voru sett út í gær og fullorðnir hrútar standa nú í rúllu og njóta lífsins áhyggjulausir um sauðburð.

Þeir komast sennilega ekki í félag ábyrgra feðra því einhvern veginn finnst mér þeim vera slétt sama um allt nema desemberfjörið.

 

 

Burðurinn hefur gengið vel en alltaf kemur eitthvað upp sem þarfnast natni og samviskusemi til að allt gangi upp.

Þarna eru Maron og Snotra að sinna nýfæddum og nota til þess afmælisgjöfina frá Þóru sem kom að góðum notum.

 

 

Garðarbæjar Golsa og Petrína taka því rólega og bíða eftir því að vinir þeirra úr höfuðborinni mæti á svæðið.

 

 

Þoka gamla er hinsvegar orðin frekar þreytt á biðinni eftir lömbunum þremur og er ekki líkleg til langhlaupa eins og er.

 

 

Rellu Rafts er líka farið að lengja eftir sumri og sól með minkandi bumbu.

 

 

Prinsessa biður fyrir kveðjur í danska herinn þar sem að eigandi hennar bíður eftir fréttum af lömbum.

 

 

Þarna er hún Majbritt með litla mógolsu sem er algjört krútt. Það er búið að vera ansi líflegt í fjárhúsunum og mikið að gera.

Krakkarnir þau Majbritt og Maron hafa staðið sig með mikilli prýði og eru frábærir ,,rollubændur,,

 

 

Geldir gemlingar stunda sjálftöku og viðhafa nokkuð góða ,,borðsiði,, við það.

Húsfreyjan er klár með markatöngina í vasanum og nú verður eitthvað að skoða veðurblíðuna í dag.

Njótið dagsins, ég hef fulla trú á að föstudagurinn 13 sé málið.

 

04.05.2016 22:20

Vorið er komið.

Meðfylgjandi mynd sýnir Mumma og Gangskör í léttri sveiflu með vindinn og kuldann sem ferðafélaga.

 

Jæja það er víst floginn einn mánuður eða svo bloggið orðið heldur betur útundan.

Nú er eins gott að halda því fram að eitthvað gagnlegt og gáfulegt hafi verið afrekað þessar vikur.

Það er allavega þannig stemming núna að ekki hefði veitt af svo sem einum mánuði í viðbót þennan veturinn.

Til að byrja einhversstaðar á fréttunum þá gerðum við góða ferð í Búðardal um daginn.

Ferðin var bæði nýtt til að sýna sig og sjá aðra.

Mummi tók þátt í opnu íþróttamóti Glaðs og nældi sér í gull í töltinu. Húsfreyjan var afar kát með það þar sem að hann var á spari Brúnku minni henni Gangskör.  Hann keppti einnig á Fannari í 5 gangi og varð þar í 3 sæti og hafnað í 2 sæti í skeiðinu.

 

 

Á þessari mynd eru það skeiðkapparnir að taka við verðlaunum.

Fannar er að einbeita sér að sirkusæfingum, ein löpp á lofti og eitt eyra útá hlið. Líkamsræktinn alveg að gera sig.

Þórarinn í Hvítadal stóð í ströngu í kuldanum og veitti verðlaun eins og enginn væri morgundaguinn.

 

 

Það er alltaf gaman að koma í dalina og þá sérstaklega þegar mótin eru haldin.

Þessir voru að handsala eitthvað....................sennilega feit hestakaup................allavega búralegir á svip.

Styrmir Gufudalsbóndi og Mummi.

 

 

Það voru margir góðir dagar í apríl þar sem blíðan var með eindæmum.

Einn svoleiðis dag hitti ég þennan sjarm sem var að viðra sig.

Þessi verður tveggja vetra í vor, faðirinn er Ölnir frá Akranesi og móðir Skúta frá Hallkelsstaðahlíð.

Eitt auga dökkt annað með hring, sjarmur.

 

 

Geirhjúkurinn er ekkert orðinn sumarlegur en sólin gerir sitt besta til að bræða kallinn.

 

 

Nú er vorið alveg að koma enda eins gott þessar frænkur voru farnar að bíða fyrir löngu síðan.

Emilía ,,sauðfjárbóndi,, og Lóa sóla sig á meðan sumarið gerir sig klárt.

Eins og staðan er í dag eru 4 kindur bornar, tvær voru sæddar með Salamon ein sædd með Roða og sú fjórða lifði frjálsum ástum hjá Alberti nágranna okkar.

Niðurstöður..... þrjár hvítar gimbrar, einn hvítur hrútur, tvær svartar gimbrar, ein svartbotnótt og einn svartbotnóttur hrútur.

Fallegustu lömbin ???? Fer eftir smekk en ég er svög fyrir Salamonsafkvæmunum undan þeim Dúnu og Randibotnu Útskriftardóttur.

 

  • 1