Færslur: 2019 Janúar

30.01.2019 21:49

Góðir gestir.

 

 

Það er alltaf jafn gaman að fá góða gesti í heimsókn til okkar hér í Hlíðina.

Sumir koma bara til að sýna sig og sjá aðra en flestir sem koma eru annað hvort að skoða hesta nú eða fara á reiðnámskeið.

Hún Kristine okkar kom til að skoða hann Dúr og í hesthúsið. Það fór vel á með þeim Kristine og Dúr eins og sjá má á myndinni.

Dúr er núna á fjórða vetur, faðir hans er Konsert frá Hofi og móðir Snekkja Glotta og Skútudóttir frá Hallkelsstaðahlíð.

 

 

 

Feðginin hress og kát með Dúrinn á milli sín.

 

 

 

Þessi skemmtilegi hópur var hjá okkur í nokkra daga á reiðnámskeiði.

Þau komu hingað gistu í gestahúsunum og fengu kennslu í formi einkatíma.

Að undanförnu hafa komið hingað bæði hópar og einstaklingar í reiðtíma.

Það er frábært að geta boðið uppá kennslu og gistingu í einum pakka.

Ef að ykkur vantar nánari upplýsingar þar um þá endilega hafið samband.

[email protected] nú eða sími 7702025.

 

 

 

Einbeitingin er algjör.............. og mikið er gaman að geta lánað fólki hesta við hæfi hvers og eins.

 

 

 

Og mikið spáð og spekulegrað. 

Hryssan á myndinni heitir Dorrit og er snillingur eins og nafna hennar sem bjó eitt sinn á Bessastöðum.

Já það er ekki slæmt að eiga og hafa afnot af nokkurum afkomendum Gusts gamal frá Hóli þegar kenna þarf breiðum hópi nemenda.

 

 

 

Það var aldeilis gaman að fá þessi heiðurshjón í heimsókn til okkar.

Þau eiga hryssu frá okkur sem hefur reynst okkur afar góður ,,sendiherra,,

Það er gaman að segja frá því að það eru aðeins tvö ár síðan eigandinn hætti í stórum hestum og ákvað að fá sér íslenskan hest.

Þar sem að hann hefur fyllt átta tugi þá var ekki sjálfgefið að kynnast nýju hestakyni og njóta þess að læra nýja hluti.

En allt small saman hjá þeim og hafa þau gert það ansi gott saman m.a mætt á mót og sigrað þónokkuð marga keppinauta.

Það var því afar ánægjulegt að taka á móti þeim hjónum en þau dvökdu hjá okkur í gestahúsunum og hryssueigandinn  kom í marga reiðtíma.

Ekki skemmdi nú fyrir að frúin var um tíma sauðfjárbóndi í Ameríku og hafið mjög gaman af því að skoða í fjárhúsin hjá okkur.

Hún hafði aldrei séð svona marga sauðaliti eins og hér eru og hugsaði sér því gott til glóðarinnar í lopa kaupum.

 

 

 

 

Það var að sjálfsögðu tekinn bíltúr og stóðið skoðað.

Á myndinni má sjá bróðir hryssunar og núverandi eiganda hennar ,,spjalla,, saman.

 

Já heimurinn verður lítill og skemmtilegur þegar sameiginlegt áhugamál kemur fólki saman.

 

 

29.01.2019 21:05

Stelpustuð í sveitinni.

 

Ég laumaðist og tók myndir af einum nemanda í einkatíma um daginn.

Það voru svo sem allir kátir með það og alveg til í smá uppstillingu svona í byrjun.

 

 

Þessar stelpur mættu í sveitina og tóka allar smá gleðistund með honum Fannari.

 

 

 

 

Já hann Fannar er traustsins verður og hefur bara gaman af því að þjónusta flottar dömur.

 

 

 

Og taka þátt í áhættu atriðum.............. í miðri kennslustund hjá Mumma.

 

 

 

Það má vart á milli sjá hvort er glaðara daman eða Fannar.

 

 

 

 

Það þarf líka að hvetja þetta fólk og vera stuðningurinn á bekkjunum.

Í næstu heimsókn verður hún aðal knapinn.......... maður má nú ekki flýta sér um of í hestamennskunni.

 

 

 

Það var nú líka skemmtilegt að sameinast í flottum frænku hittingi í sveitinni.

 

 

 

 

Smá pós fyrir frænku sína.

 

 

 

Þessar eru miklar vinkonur og eru þarna að spjalla í rólegheitunum.

 

 

 

Ófeigur ellismellur var líka kátur með mikla athygli.

 

 

 

Já hann var hreint vaðandi í dömum þennan daginn............... og var svo glaður með það.

 

 

 

Innilit til Lóu og Svenna var lika málið og þá er sjálfsagt að smella mynd.

 

 

Svenni og skvísurnar slá á létta jólastrengi.

Já það er stuð í sveitinni.

 

 

03.01.2019 21:46

Já mörg eru þau tímamótin......

 

 

Gleðilegt ár kæru vinir og hafið þökk fyrir liðin ár.

Árið 2018 var ansi viðburðarríkt hjá okkur í Hlíðinni og einkenndist enn af framkvæmdum  og nægum verkefnum á öllum sviðum.

Draumar urðu að veruleika og margar dásamlegar minningar urðu til heima og heiman.  

Það sem uppúr stendur frá árinu 2018 er sannarlega það hversu gott og gaman er að hafa reiðhöll.

Eftir 26 ár við tamningar í allavega veðrum er dásamlegt að fá stóra inni aðstöðu.

Já alveg draumi líkast.

Ekki það að ég sé að vanþakka 12x14 m2 sem björguðu miklu en....

Vinnuaðstaðan er svo allt önnur að því er ekki saman að jafna.

Þetta er ekki breyting þetta er bylting.

 

Á árinu tókum við í gagnið tvö smáhýsi sem staðsett eru á Steinholtinu við Hlíðarvatn og eru leigð út til ferðamanna, veiðimenna og þeirra sem koma á reiðnámskeið.

Útleigan lofar góðu og verður spennandi að sjá hver framvindan verður. 

Hikið ekki við að hafa samband við okkur ef að þið viljið vita eitthvað meira um húsin nú eða bara skellið ykkur inná Airbnb og skoðið þar.

 

Sauðfjárbúskapurinn er svo sannarlega á tímamótum og umhugsunarvert hvert skal stefnt.

Ekki er endalaust hægt að búast við því versta og vona það besta eins og nokkrar kynslóðir hafa gert.

Á meðan ég set niður staf um áramót skal ég alltaf taka smá rispu um íslenskan landbúnað.

Ekki veitir af.

Fyrir nokkrum árum síðan var gert mikið grín að því þegar fjöldinn allur af tamningamönnum drifu sig uppí flugvél og flugu til fjarlægra landa.

Þangað fóru þeir til að kenna erlendum hestamönnum fræðin um íslenska hestinn og reiðmennsku.

Gjarnan var sagt að Icelandair væri öflugasti ,,framleiðandi,, á reiðkennurum þessa tíma.

Það kom til af því að uppí flugvélina fóru menn misreyndir í hestafræðunum og jafnvel þeir sem mjög litla þekkingu höfðu á málefninu.

En þegar þeir stigu á erlenda grundu voru þeir sprenglærðir með ,,bevís,, uppá allt sem þurfti og snéru heim með fulla vasa fjár.

Margir voru skiljanlega argir útaf þessu og fannst að reiðkennurum væri gefinn puttinn með heldur óskemmtilegum máta.

Sem betur fer hefur þetta breyst og núna eru þeir fáir reiðkennararnir sem mennta sig eingöngu í millilandaflugi.

Þökk sé þeim sem nú útskrifa fjöldann allan af flottum reiðkennurum árlega.

 

En afhverju er ég að hugsa um þetta ??

Ójú þetta kom uppí huga minn þegar ég sat eitt drungalegt kvöldið og náði að horfa á kvöldfréttir RUV.

Karl G. Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalan lýsti þar áhyggjum af auknum innfluttningi á kjöti og öðrum landbúnaðarvörum.

Hann vitnaði í grein sem hann hafði nýlega ritað í Morgunblaði undir heitinu ,,Að fórna meiri hagsmunum fyrir minni,, 

Þar fjallar Karl um sýklalyfjaónæmi og vaxandi vandamál sem fylgja auknum óviðráðanlegum sýkingum í mannfólki um allan heim.

Vitnar Karl í nýbirta grein í læknatímaritinu Lancet þar sem sagt er frá sjúkdómsbyrði af völdum helstu sýklalyfjaónæmu bakteríanna í Evrópu. 

Til að gera langa sögu stutta þá voru niðurstöður þessara vísindarannsókna sláandi og sýndu svo ekki var um villst að Ísland er í fremstu röð hvað varðar hreinleika.

Einnig er landið með lang minnsta sjúkdómsbyrði af völdum helstu sýklalyfjaónæmu bakteríanna í Evrópu. 

Frábært..... en hvað gerum við Íslendingar ???

Jú, jú einmitt flytjum inn kjöt og landbúnaðarvörur í stórum stíl og látum eins og ekkert sé.  Þú ert púkó ef að þú segir eitthvað.

En að kjarna málsins og ástæðu þess að ég hóf þessi skrif.

Það næsta sem bar fyrir augun í þessum drungalega fréttatíma RUV var ,,sérfræðingur,, sem mætti í myndverið .

Já.......... ég veit að þið hafið verið fljót að geta ykkur til um hver hann er af hálfu RUV þegar þessi mál eru rædd.

Það kólnar ekki stóllinn hans Ólafs Þ. Stephensen  framkvæmdastjóra félags atvinnurekanda þegar málefni bænda eru rædd hjá RUV.

Þetta er með ólíkindum afhverju er ekki hægt að finna þessa sérfræðinga og prófesórar sem hann stöðugt vitnar í og fá þá svo sem eins og einu sinni í stólinn ???

Nei hann mætir sjálfur og veit ,,allt,, betur en próffessorinn um sýklafræði og bara allt. 

Hvar er fagmennska fréttastofu RUV þegar kemur að þessari umræðu ?

Ég er ekki að biðja um þöggun á vanda bænda en ég bið um fagmennsku við umfjöllun á þessum mikilvægum málum. Þetta mál er svo mikið meira en hjáróma upphrópanir, þetta snertir lýðheilsu þjóðarinnar og fólk á að geta fengið nauðsynlegar upplýsingar til að taka afstöðu.

Ólafur Stephensen og bændur eiga það sameiginlegt að eiga að sitja hjá og hlusta þegar sérfræðingarnir tjá sig. 

Þó svo að þetta snerti óþægilega hagsmuni verslunarinnar og óneitanlega afkomu bænda.

Ég er örugglega ekki ein um það að vilja fá að hlusta á fleiri sérfræðinga ræða þessi mál, mér finnst þau koma okkur öllum við.

Við eigum skilið að fá óháða umfjöllun um þessi mál ekki bara rakalausan eiginhagsmuna barning verslunarmanna.

Það eru til margir sérfræðingar sem geta sagt okkur allt um þessi mál og hversu mikilvæg þau eru fyrir okkur.

 

Ég er allavega ekki tilbúin að gleypa við öllu sem maður með stjórnendanám frá IESE Business School, 
MSc-próf í alþjóðasamskiptum frá London School of Economics og BA-próf í stjórnmálafræði hefur að segja um sýklalyfjaónæmi.

Má ég þá miklu frekar biðja um góðan og skemmtilegan Icelandair reiðkennara.

 

Kæru lesendur hér lýkur þessum tuðkafla.

 

Nú um þessar mundir eru komin 10 ár frá því að við opnuðum þessa heimasíðu.

Margt hefur breyst en annað ekki, það sá ég greinilega þegar ég tók eins og eina kvöldstund í það renna yfir bloggið alveg frá upphafi.

Vá hvað ég fann margar skemmtilegar myndir hér á gömlum bloggsíðum. Þið ættuð nú bara að skoða við tækifæri.

Góðar stundir, minningar um fólk og fénað er aðalsmerkið en þó er líklega sýnileikinn mikilvægastur.

Það er nefninlega mikilvægt að gefa af sér til að njóta enn betri samskipta við gott og skemmtilegt fólk.

Mikið er rætt og ritað um skaðsemi samfélagsmiðla nú á tímum og sýnist sitt hverjum. Eitt er þó ljóst líf ca 90 % þjóðarinnar stjórnast mjög mikið af þeim.

Maður lærir býsna margt þegar svona síðu er haldið úti og  sá lærdómur er kannski mikilvægt innlegg í umræðuna um þessar mundir.

Þegar allt er í blóma og gengur sem best hefur maður um nóg að velja þegar kemur að efnisvali á síðuna. En þegar brekkan er brött og svitadroparnir eru margir þá er valið minna. 

Það breytir þó ekki því að það er gaman að hafa samband við ykkur í gengum þessa síðu og oft á tíðum er það ekki fýla sem veldur ritstíflu heldur tímaleysi húsfreyjunnar.  Já sem betur fer er enn líf í kellu og mörg eru þau áhugamálin sem bíða á kanntinum eða til efri áranna.

Til gamans má geta þess að mér hefur verið heilsað með nafni af ókunnugu fólki og þegar ég hef farið að reyna rifja upp hvaðan ég ætti að þekkja það kemur í ljós að það hefur bara kynnst okkur í gegnum síðuna.

Það er svo skemmtilegt.

Fréttir af snildar tryppum, skemmtilegu fólki og mikilvægum málum bíða enn um sinn.

 

 

03.01.2019 21:42

 
  • 1