Færslur: 2013 Ágúst

27.08.2013 14:27

Er að koma haust ???


Nú fer ferðahópunum ört fækkandi þetta sumarið enda styttist óðfluga í haustið.
Já veðurspáin hundleiðinleg og bændur fyrir norðan að leggja af stað í smalamennskur mikið fyrr en áætlað var. Vonandi rætist spáin ekki í þetta sinn en skiljanlega eru bændur smeikir.
Hér fylgjumst við bara náið með spánni og vonum það besta.



Við fengum góða gesti um daginn sem tóku reiðtúr uppí fjall, þarna eru þau við Fossakrókinn.
Lotta okkar sem einu sinn var hér hjá okkur kom í heimsókn með sínu fólki og tók út hesta og menn hér í Hlíðinni.  Takk fyrir komuna, það var gaman að fá ykkur í heimsókn.



Mér finnst haustið alltaf byrja þegar krakkarnir fara í skólann en þó getur verið svo mikið eftir af góðum og skemmtilegum dögum sem tilheyra sumrinu. Svoleiðis verður það núna.
Nú er Astrid farin norður að Hólum en hún er að hefja nám á reiðkennarabraut skólans.
Þarna er hún á Fannari vini sínum en þau kepptu á Bikarmóti vesturlands um daginn með ágætis árangri. Góða ferð í Hjaltadalinn Astrid.



Þessi mynd er líka tekin á Bikarmótinu þegar keppendur í fimmgangi tóku á móti verðlaunum. Mörg svipbrigði í gangi hjá þeim Styrmi í Gufudal, Astrid og Gunnari í Þverholtum.



Þarna eru keppendur í fjórgangi eftir úrslitin, myndin er tekin ofan úr brekku svo sjónarhornið er ekki gott.

Við sóttum Karúnu, Létt og Rák ásamt folöldunum þeirra í síðustu viku en þær hafa eytt sumrinu með gæðingnum Ölnir frá Akranesi. Heimsóknun hefur skilað tilætluðum árangri og voru þær allar sónarskoðaðar með fyli.

Veðrið .....................nei ég ætla ekki að tala um það...................og þó það er bara eitt orð sem þar á við RIGNING................


16.08.2013 22:10

Kolskör komin heim


Kolskör mín er komin heim með 18 daga gamalt fyl undan gæðingnum Hersir frá Lambanesi.
Hersir stóð efstur í flokki 4 vetra stóðhesta á Fjórðungsmótinu á Kaldármelum nú í sumar.
Faðir hans er Forseti frá Vorsabæ og móðir Elding frá Lambanesi.
Hann hlaut m.a 8.63 fyrir hæfileika, 9 fyrir tölt, vilja og geðslag, mikill gæðingur þar á ferð.
Bara spennandi að sjá hvað kemur næsta vor. Litla Hafgola folaldið hennar Kolskarar hefur stækkað mikið og rúllar um á mjúku og fallegu tölti. Hafgola er undan Blæ frá Torfunesi.



15.08.2013 23:04

Af örnefnum og GPS


Þessi mynd er tekin í júní hér fyrir sunnan Stekkjaborg nánar tiltekið suður á Brúnum og ég stend á Stekkjarsandinum eftir að hafa farið yfir Stekkjartúnið.
Já þau eru mörg örnefnin sem hér eru og hafa haldist við um langt skeið, þökk sé þeim sem hafa haldið þessari vitneskju á lofti. Ábúendur, gamlir kúasmalar og áhugasamir afkomendur.
Eldri kynslóðin lærði öll þessi örnefi þegar kúnum var smalað eða hrossin sótt. 
Þá var auðvellt að segja fólki til þegar farið var til fjalla að smala.
Ég verð að játa að ég tilheyri eldri kynslóðinni, sótti kýr, smalaði kindum og leitaði að hrossum.
Það var nefninlega þannig að til undantekningar heyrði ef að kýrnar voru ekki nokkuð á vísum stað, kindunum var smalað og þá með skipulögðum hætti en hrossin þau gátu verið víða. En það sem þetta stúss átti allt sameiginlegt var að maður lærði örnefni, annað var ekki hægt.
Mér finnst líka að hér áður fyrr hafi verið meira lagt uppúr því að vita hvað staðirnir hétu og væru. Það var smá vottur af manndómi og svolítið fullorðins að kunna mikið af örnefnum. Það var svona eins og með mörkin á kindunum, mikið kappsmál að læra og vera vel að sér í leitum og réttum. Það voru líka skýrar og greinilegar lýsingarnar sem voru sagðar þegar komið var heim úr smalamennskunum og verið að útskýra hvar kindurnar höfðu farið.
Sem dæmi þá er algengt að segja núna ,,ég fór inní Fossakrók,, en hér áður var lýsingin nákvæmari. ,, Ég fór upp með Stekkjarborg, inn Háholt, uppí Dýjadali, fyrir ofan Höggið og kom niður í Selbrekkuna og þá var ég næstum komin í Fossakrókinn,,
Sex örnefni í einni bunu og gætu verði miklu fleiri á þessari leið, en í daglegu tali nú til dags eitt.
Þegar ég var lítil fannst mér gaman að heyra sögur, ekki var verra ef að þær höfðu gerst hér heima eða í nágreninu. Sögur sem tengdust örnefnum gerðu líka það að verkum að maður mundi miklu betur hvar staðirnir voru. 
Auðvitað man ég eftir Grýluhellir í Bæjarkastinu, Gálu í Gálutóftum, hryssunni Druslu sem lenti í drama í Síkinu, hundinum hans Einars sem týndist í Illagilinu og nautunum sem aldrei fundust í Nautaskörðunum.
Sögunni af Þyt sem dó inní Bjargurð, tófunni sem bjó í Sandfellinu og lék alltaf á skyttuna að ógleymdum draugnum á Bæjardalsbrúninni.


Einhverntímann eignast ég kannske GPS en þangað til æfi ég mitt alvöru GPS sem ég geymi í kollinum og passa að ekkert glatist. 


13.08.2013 16:21

Sættir og sitthvað fleira


Þessar tvær eru bestu vinkonur og þarna eru þær að fá sér smá blund í sólinni, Hjaltalín litla dóttir Skútu og Álfarins frá Syðri-Gegnishólum og Hrefna Rós. Ef vel er að gáð sést að ljósmyndaranum er bara gefið hornauga hefur eflaust verið að trufla hvíldina.

Það var líflegt hjá okkur þegar stór hópur hestamanna kom hingað til okkar í gær með hátt í hundrað hross og á þriðja tug fólks í hnakki. Þarna voru amerískar konur á ferðinni undir dyggri stjórn Sigurðar á Stóra- Kálfalæk og hans fólks.
Eftir að hafa þegið veitingar undir berum himni var Mummi með stutta sýnikennslu fyrir hópinn. Að lokum var svo reiðsýning þar sem við sýndum þeim nokkra hesta.
Hópurinn hélt svo ferðinni áfram í dag en þá lá leiðin í Kolviðarnes og síðan út á Löngufjörur.



Tamningarnar halda áfram af fullum krafti en á myndinni eru tveir folar annar undan Faxa frá Hóli og hinn undan Gandálfi frá Selfossi. Bara spennandi gránar þar á ferðinni.



Gamlar myndir eru alltaf í uppáhaldi hjá mér, allavega svona flestar.
Þarna er mynd frá ræktunarbúsýningu Hallkelsstaðahlíðar á Kaldármelum árið 1997.
Húsfreyjan á Jarpi sem var undan Fáfni frá Fagranesi og Jörp frá Hallkelsstaðahlíð.
Mummi á Hring frá Hallkelsstaðahlíð sem var undan Blika og Stjörnu frá Hallkelsstaðahlíð.
Erla Guðný Gylfadóttir þáverandi verknemi frá Hólum á Snör undan Geisla frá Vallarnesi og Jörp frá Hallkelsstaðahlíð. Ragnar frændi minn á Blika sínum sem var undan Fáfni frá Fagranesi og Bliku frá Hallkelsstaðahlíð. Skúli á Dimmu sem var undan Geisla frá Vallanesi og Brúnku frá Hítarnesi.
Takið sérstaklega eftir glottinu á Mumma og hárinu á okkur Erlu Guðnýju :)



Talandi um hár............þarna er ein mynd frá permanettímabilinu en hér er ég með nokkrum góðum vinum á leið á Nesoddamót í Dölunum. Fyrir örstuttu síðan...........
Þetta eru þau Ör frá Stóra-Dal, Íra frá Hallkelsstaðahlíð og Bliki frá Hallkelsstaðahlíð.

Já það getur verið gaman að gramsa í gömlu dóti.

Framhald frá síðasta bloggi.............................við Salómon höfum náð sáttum eða öllu heldur hefur Salómon sannfært mig um að þetta var sannarlega slys sem gerðist hérna hjá okkur. Það var algjört óhapp að fuglinn flaug á tennurnar á honum og þurfti endilega að slasa sig á þeim. Fuglinn var líka fluttur inní hús til þess að betur væri hægt að ,,hlúa,, að honum. 
Það var líka ekki skynsamlegt hjá stórslösuðum fuglinum að fljúga út um allt hús og klístra blóði á veggina. 
Það var líka ekki gáfulegt hjá húsfreyjunni að henda ,,aðalbjargvættinum"  (Salómon) út í miðjum eltingaleiknum. Enda gekk ekki vel að góma fuglinn þar sem nokkrir metrar eru til lofts og húsfreyjan þá haldin þeirri ,,ranghugmynd,, að Salómon hefði eitthvað með þetta að gera. 
Bálreið og tautandi hélt hún því fram að ,,helv... kötturinn hefði veitt fuglinn og komið með hann inn. Hún hefur hugmyndaflug.................kellan...........
En það var líka með ólíkindum að húsfreyjunni kæmi það til hugar að Salómon gerði nokkuð af sér.

Hér sitjum við saman ég og Salómon og reynum að finna góða lausn svona heildarlausn eins og það heitir á fínu máli á öryggismálum fugla. :)

11.08.2013 22:42

Fréttaskot og dálítið af drauma.........


Bara nokkuð góð skref hjá þessum görpum sem eiga það til að taka góða spretti saman.
Annar svitnar meira en hinn og báðum þykir þetta gaman.

Það hefur verið líf og fjör í tamningunum það sem af er sumri og harðsnúið liðið sem komið hefur að þeim með okkur. Og ótrúlegt en satt þetta er alltaf jafn gaman og fjölbreytt.



Þarna er Mummi að hringteyma sprækan fola í hringgerðinu.



Harpa í vinnunni ???.................dottin Harpa ??? 
 Nei, nei bara að bíða eftir því að fara á bak og þá er gott að halla sér í rauðamölina.



Harpan okkar komin á bak með bros á vör, já það er gaman að temja krakkar :)



Nú er Harpa farin og undirbýr sig fyrir námið í Búvísindum á Hvanneyri í vetur
Takk fyrir góða og skemmtilega samveru Harpa, nú vantar okkur brandarakelluna í hesthúsið. Svo sjáumst við auðvitað fljóttlega aftur :)



Eins og þeir sem til þekkja vita er Salómon svarti óaðfinnanlegur draumaprins í augum húsfreyjunnar. Salómon gerir aldrei neitt af sér og ef að einhverjum svo mikið sem dettur það í hug að ætla honum eitthvað misjafnt er sá misskilningur leiðréttur umsvifalaust af húsfreyjunni. Salómon bítur ekki en hugsanlega geta einhverjir rekið sig í tennurnar á honum ef að þeir koma of nálægt. Sá misskilningur gengur fjöllunum hærra hér á heimilinu að ef einhver geti stjórnað húsfreyjunni þá sé það Salómon svarti. Salómon stjórnar ekki, hann biður fallega en er meira fyrir það að honum sé hlítt sem fyrst.
Dagleg samskipti ganga oftast vel, það á að vakna áður en vekjaraklukkan byrjar að vekja, morgunmaturinn fyrstur á diskinn hans (kjötbollur með sósu),opna glugga og hurðir eftir þörfum og leyfi til að leggjast á lyklaborði á tölvunni..............................
En í dag sauð uppúr...................................nánar um það síðar.................



04.08.2013 22:08

Rok


Á myndinni er Mummi að teyma Karúnu mína og litla Símon Arionsson uppá kerru en þau fóru í girðingu til hans Ölnirs frá Akranesi,.

Rokið hefur farið frekar illa með okkur hér í Hlíðinni síðustu daga en við vorum bjartsýn og slógum mikið hér heima. Ekki vantaði þurrkinn blástur, sól og blíða. En Adam var ekki lengi í paradís því blásturinn varð að roki sem staðið hefur látlaust í rúma tvo sólarhringa.
Gerðar hafa verið nokkrar tilraunir til að rúlla en útkoman hefur ekki verið góð og einungis tekist að rúlla um 50 rúllur. Mikið af heyi er fokið út í veður og vind en slatti hefur stoppað í skurðum og lægðum.
Nú er bara að skoða veðurspárnar einu sinn enn og vona að verðurfræðingarnir fari að segja satt þar sem verslunarmannahelgin er að líða. 
Um leið og ég skoða spána ætla ég að hlusta á lagið góða ........,,veðurfræðingar ljúga,,

Það þarf að fara mörg ár aftur í tímann til að rifja upp verslunarmannahelgi með svo fáa gesti á tjaldstæðinu. Reyndar ekki skrítið þar sem vindstigin hafa verið ófá og þeir sem komið hafa flestir verið komnir í heimferðargírinn. Við verðum bara að vona að útileguþörf landans sé ekki búin þetta árið og gestirnir mæti galvaskir næstu helgar.






01.08.2013 23:10

Mette er FT meistari




Ég átti góðan dag með þessum snillingum en í dag þreytti hún Mette Mannseth meistarapróf Félags tamningamanna sem er æðsta prófgráða í reiðmennsku á Íslandi.
 Prófið fór fram á Hólum í Hjaltadal, prófdómarar voru Anton Páll Níelsson, Eyjólfur Ísólfsson og Benedikt Líndal.  Það var gaman að fá að verða vitni af þessum merka áfanga í sögu Félags tamningamanna þegar sjötti meistarinn bættist í hópinn. Og ekki skemmdi það fyrir að Mette er fyrsta konan sem þreytir þetta erfiða próf. 
Þeir sem fyrir eru meistarar FT Reynir heitinn Aðalsteinsson, Eyjólfur Ísólfsson, Benedikt Líndal, Sigurbjörn Bárðarson og Þórarinn Eymundsson.
Innilega til hamingju með árangurinn Mette.



Þau voru að vonum kát hjúin í Þúfum enda full ástæða til, Háttur frá Þúfum einn af þremur prófhestunum fékk að vera með á myndinni. 
Mette notaði þrjú hross úr ræktun þeirra Gísla í prófið, Hátt, Hnokka og Ró öll frá Þúfum.

Það er alltaf gaman að koma í Skagafjörðin fagra og í þetta skiptið nutum við FT fulltrúar gestrisni þeirra Skörðugilshjóna Elvars og Fjólu. En þau tóku á móti okkur í gær létu okkur í té frábæra fundaraðstöðu og gistingu. 
Kærar þakkir fyrir höfðinglegar mótttökur rétt eins og fyrri daginn.
  • 1