Færslur: 2014 Maí

26.05.2014 14:09

Enn er það Hólaferð til að sjá flott reiðkennaraefni.

 

Það var full ástæða til að fagna þegar hún Astrid okkar útskrifaðist sem Bs reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Þarna fagnar hún með foreldrunum og Mummanum. Fannar óskaði sérstaklega eftir að fá alveöru prófílmynd. Til gamans má geta þess að Astrid er tíundi ,,Hólaneminn,, okkar. Já við erum búin að vera svo heppin að fá að hafa þessa frábæru krakka hjá okkur. Það er ákveðin reynsla sem bæst hefur í reynslubankann við að sjá krakkana fara í gegnum skólann og upplifa stemminguna. Gleði og sorgir sem fylgja ströngu námi er góður skóli fyrir unga fólkið sem oftast kemur bara sterkara til leiks. Ég er ekki í vafa hvað ég mundi gera ef að ég væri ungur hestaáhugamaður í dag. Hólar væri málið en gott væri að hafa hraustan kropp og reynda sál. Frábært nám, fagmennska og fróðleikur en eins og í öllu sem viðkemur tamningum verður að fara vel með sálartetrið bæði hjá hesti og knapa. Innilega til hamingju Astrid og allir þessir flottu krakkar sem voru að ljúka náminu ykkar.

 

Það voru 11 nemendur sem útskrifuðust á laugardaginn.

 

Það er alltaf hátíðleg stund þegar reiðkennaraefnin klæðast FT jakkanum í fyrsta sinn. Þarna bíða þau hvít eins og englar eftir því að formaður FT Sússana Ólafsdóttir klæði þau í jakkann.

 

Formaður FT og gjaldkeri voru mættar til að klæða reiðkennaraefnin í jakkann. Brosmildar að vanda þessar dömur.

 

Astrid komin í jakkann með góðri aðstoð formannsins.

 

Hamingjuknús.

 

Mette yfirreiðkennari á Hólum og Astrid kátar með daginn.

 

Pósað á móti sólinni í Hjaltadalnum.

 

 

Astrid með drengina Fannar og Mumma.

 

Nemendurnir héldu skemmtilega sýningu þar sem þau sýndu brot úr þeim prófum sem þau hafa tekið á síðustu þremur árum. Á myndinni er Fannar að smella sér uppá kassa sem í þessu tilfelli á að vera útsýnisstaður yfir smalasvæðið. Hvergi smeikur og til í allt enda alinn upp í fjöllunum.

 

 

Kíkt á kindurnar í Hjaltadalnum.

 

Góður dagur á Hólum enn fleiri myndir fljóttlega hér á heimasíðunni.

19.05.2014 11:54

Mikið um að vera

 

Þessi tvö Astrid okkar og Fannar frá Hallkelsstaðahlíð stóðu sig vel á föstudaginn þegar þau tóku lokaprófið saman á Hólum. Þarna sjást þau setja lokapunktinn með góðum skeiðspretti. Það verður nú gaman að fá þau heim í næstu viku. Til hamingju með þetta bæði tvö.

Sauðburður er enn í fullum gangi þó svo að aðeins hafi hægt á enda mátti það nú alveg. Tæplega 150 kinur eru eftir að bera svo nú fer þetta að fjara út smá saman. Nóttin í nótt var sú kaldasta í langan tíma og ekki laust við að venjulegt sauðburðarveður væri í boði. Við eru orðin svo góðu vön síðustu vikurnar. Ég held samt að ég hafi ekki markað jafn snemma út í jafn mikið gras og þetta vorið. Það var allavega settur sérstakur kraftur í að klára að slóðadraga um helgina og á næstu dögum er það svo áburðurinn á.

Sveinbjörn frændi minn og Sigurður í Hraunholtum voru að rifja upp góð vor og komust að því að 1964 hefði verið gott en þó mun blautara en þetta vorið. Ég gat ekki blandað mér í þá umræðu þar sem ég var enn í húfuskotti Guðs eins og sagt var.

Fylfullu hryssurnar eru komnar á sinn vanalega köstunarstað sem er hólf við gamla bæinn. Þar er auðvellt að fylgjast með þeim allan sólarhringinn. Karún mín kastar alltaf í fyrra fallinu svo nú eru tíðar heimsóknir til hennar. Hún eins og Skúta, Rák og Létt eiga allar von á afkvæmum undan gæðingnum Ölni frá Akranesi. Kolskör er fylfull eftir Hersi frá Lambanesi sem var einmitt að gera það gott í kynbótasýningu í morgun.

Þríhella er með afkvæmi undan Stimpli frá Vatni, Sjaldséð undan Sólon frá Skáney og Blika undan vini mínum Gosa frá Lambastöðum. Bara spennandi tímar framundan á fæðingadeildinni.

 

15.05.2014 12:45

Það er gott að lúlla

 

Á þessum árstíma er svefn munaður hjá sauðfjárbændum og eins gott að nýta allar stundir sem gefast. Við frænkurnar Fríða María og ég fengum okkur smá kríu eftir matinn. Annars gengur sauðburðurinn bara vel og óbornar kindur innan við 300. Þurrt er það sem af er degi svo að nú verður markatöngin sett á flug. Fyrstu gemlingarnir fóru á Steinholtstúnið í fyrra kvöld og markið er sett á að koma slatta út í dag. Ein af spari kollunum mínum bara fjórum lömbum í gær og tvílemdu gemlingarnir bera hver af öðrum.

 

 

Margir góðir gestir hafa litið við hjá okkur í sauðburðinum t.d þessi fyrrum sauðburðar og tamningakona. Ég laumaðist til að fá þessa fínu mynd að ,,láni,, en þarna er stund milli stíða hjá Hörpu og Móra. Þessi elska var hjá okkur í fyrra vor og sumar en ætlar að sinna flugfreyjustörfum í sumar. Já það er gott að eiga einhvern að í sem flestu atvinnugreinum og mikið held ég að tamningar séu fín reynsla áður en farið er að tjónka við flugdólga.

Hér syngjum við eins og vera ber ,, Ég fell hvork í freistni né gildrur ég fell bara fyrir flugfreyjum,,

Baggalútur er alveg með etta ;)

 

 

14.05.2014 20:25

Júró og sauðburður

 

Kindurnar hafa aldrei byrjað sauðburðinn með þvílíkum krafti og þetta árið. En þegar þetta er skrifað eru lambanúmerin komin hátt á fimmtahundraðið. Það hefur ekki gerst fyrir miðjan maí áður. Við hleytum til rúmlega viku fyrr en venjulega og sennilega hefur myndast ,,múgæsinur,, meðal hópsins. Hverjar verða fyrstar út á græna grasið ??? Það var eins gott að fá góðan mannskap til aðstoðar um síðustu helgi. Þarna eru spekingar að spjalla á jötubandinu Halldór, Hrannar og Sveinbjörn taka stöðuna.

 

 

Þessi kann nú tökin á kústinum, bara betra að vera ekki fyrir. Já hún Þóranna sá til þess að allir Júróaðdáendur og Pollapönkarar gátu horft á keppnina með góðri samviksu.

 

 

Þessi kann nú tökin í sauðburðinum og er bráðefnilegur sauðfjárkvíslari. Þarna er Björg að taka frá óborna tvílembu.

 

 

Ungfrú Hefna Róa var liðtæk við að venja undir og láta lömb drekka hjá geðvondum kindum.

 

 

Maður getur nú orðið þreyttur í sauðburðinum og þá er nú gott að halla sér á kaffistofunni.

 

 

Marie fékk smá aðstoð frá þessum flotta ungherra í hesthúsinu. Hún Marie er heldur betur búin að standa sig frábærlega, dugleg og skemmtilega stelpa. Já svo erum við komin með einn góðan aðstoðarmann og saman hafa þau staðið sig mjög vel. Maí er ekki léttur mánuður hér í Hlíðinni sauðburður á fullu, tamningar og þjálfun einnig á fullu skriði.

Við eru alltaf ótrúlega heppin með þetta góða starfsfólk, það er dýrmætt.

 

 

Fulltrúar Danmerkur voru svolítið spenntir þegar söngvakeppnin var á dagskrá.

 

 

..................og spennan magnast..................

 

 

Það mætti halda að Danmörk hefði unnið...................en þær eru bara svona hressar Astrid og Marie.

 

 

12.05.2014 21:38

Trilla Gaums komin heim og uppá búið tamningafólk

 

Þarna eru þær stöllur Astrid og Trilla Gaums og Skútudóttir, þær hafa verið á Hólum í vetur en nú er Trilla komin heim og Astrid væntanleg eftir tvær vikur. Þjálfunin hefur gengið vel og Trilla er bara bráð efnileg hryssa.

 

 

Þær taka hér flugið enda var sól og blíða í Hjaltadalnum.

 

Smellti svo myndum hér af þessum krúttum.

 

 

Þessi er tekin þegar þau voru á leið á árshátíðina hjá Hólaskóla.

08.05.2014 13:31

Stuðið í Hlíðinni.

 

Það er fátt dásamlegra en að sjá sólina koma upp og það í blíðu og hita. Ekki er svo mikið síðra að sjá hana setjast en það er kannske orðið full mikið af því góða ef að maður sér hana aftur koma upp. Sko á sama ,,deginum,, En stuttar ,,kríur,, að hætti sauðfjárbóndans bæta allt upp og virka jafnvel sem dýrasta fegrunaraðgerð. Þennan sólríka morgun áttum við Salómon svarti góðar stundir við leik og störf í fjárhúsunum. Læt liggja á milli hluta hvort var að leika og hver var að starfa, er ekki stundum sagt að vinnan eigi að vera leikur ?

 

 

Kátir fuglar syntu á vatninu og við fegnum að heyra mörg tóndæmi frá fuglakórnum góða sem æfir nú af miklum mó. Já svona morgnar kosta eða eru allavega gulli dýrmætari.

 

 

Eftir allar annirnar er góður morgunverður nauðsynlegur, það var bara annað okkar sem var myndatöku fært. Hinn aðilinn frekar úfinn og ljótur.

 

 

Þessar stelpur létu sig ekki muna um að tríttla í fjárhúsin og taka stöðuna. Bara hressar og kátar unglingsstúlkur Lóa 84 ára og Maddý 79. Já já aldur er að mestu hugarfar.

 

 

Það er dýrmætt að hafa góðan mannskap þegar hátt í 700 eru á fæðingadeildinni. Marie og Mummi að redda málunum í gemlingakrónni.

 

Þarna er hún Marie með mógolsótta gimbur undan Stera og Golsusyninum Loðmundi.

 

 

Golsuflekkótt krútt að pósa með Marie.

 

 

Þarna eru afkvæmi Grámanns, ég var sérlega ánægð að fá þarna móbotnóttan hrút og gráa gimbur. Þessi hafa fengið viðeigandi merki í númerabókinn.

 

 

Grasið sprettur og því ekki seinna vænna en að klára slóðadráttinn. Í gær fóru fullorðnu hrútarnir í sumarfrí, þeir fóru með ,,nesti og nýja skó,, suður á Hafurstaðatún. Óðum styttist í að lambfé fari útá tún og geldfé hefur gist sína síðustu nótt inni þennan veturinn. Sauðburður byrjaði af fullum krafti mun fyrr en ég átti von á eða kannske var ég bara búin að vonast eftir að þær yrðu rólegri. Allar vaktir sem voru skiplagðar af mikilli nákvæmni fóru úr böndunum og svefninn er núna bara munaður.

Það hefur sko verið nóg að gera fyrir alla alltaf. En það er jákvætt að þetta klárast þá bara fyrr og ekki getum við kvartað yfir gróðurleysi það sem af er.

Sennilega hafa aldrei verið bornar jafn margar kindur í Hlíðinni 8 maí.

02.05.2014 13:46

Kúrekinn í villta vestrinu og smá sauðslegt með.

Þegar ég fór inná fésið í morgun blasti við mér kunnulegur kúreki. Mér fannst við hæfi að fá þessa mynd ,,lánaða,, svona aðallega fyrir ykkur sem hafið verið í vandræðum með að smala saman nautgripunum á haustin. Annars er það helst í fréttum þarna úr Ameríkunni að kúrekinn segir allt gott.

 

 

Það eru hinsvegar nýjar fréttir héðan úr Hlíðinni en í gær bættist við liðsauki í hundasafnið. Já hún Mara litla frá Eysteinseyri kom siglandi yfir Breiðafjörðinn og er hingað komin til að vera. Mara er vonandi upprennandi smalahundur eins og Freyja systir hennar sem tekur miklum framförum í faginu. Fyrst um sinn er samt aðal málið að læra þessa bannsettu ,,mannasiði,, já það er ekkert grín að vera hundur. Mara er sérvalin af sérfræðinum sem tölu nauðsynlegt að velja frekustu tíkina úr gotinu til að hún mundi líkjast nýjum eiganda sem mest. En eins og þið eflaust vitið verður fé jafnan fóstra líkt nú eða eins og í þessu tilviki fóstru líkt. Þetta er sem sagt framtíðar smalahundur húsfreyjunnar. Nei nei Ófeigur og Snotra eru ekki öll en þau hafa tekið að sér mikilvæg sérverkefni. Hann sem heimilishundur með sérstakri áherslu á sauðfjárofnæmi.og rollufælni. Snotra mun sérhæfa sig enn frekar í dekurhundafræðum með sérstakri áherslu á íslenskt gelt. Fyrsta nóttin var nokkuð dramatísk á nýju heimili, mikið vælt og svona til að sína nýju vinkonu sinni fullan stuðnig þá gólaði allt liðið.

 

 

Hún Sýltkolla mín klikkar ekki frekar en venjulega og kom með þessa fínu lambadrottningu í nótt. Ein gimbur var sérpöntun frá húsfreyjunni þar sem að Sýltkolla er komin á eftirlaun og á bara eftir að koma með verðugan arftaka. Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu merkileg þessi kind er í huga kellu. Svo að dæmi sé tekið er hér vinnumaður sem hefur verið hér í tvo sólarhringa innan um tæplega sjöhundruð fjár en hann kom og tilkynnti í morgun að Sýltkolla væri borin. Lykilatriði að læra strax að þekkja sparikindurnar.

 

 

Þessar þrjár svörtu gemlingar eru þrílembingar og ótrúlega skemmtilegar. Þær raða sér oft hlið við hlið á jötuna þrátt fyrir að verða með stórum hóp í kró. Þetta er svona systra matarboð.

 

Mókolla á ekki að bera alveg strax en mikið held ég að hún verði fegin þegar þar að kemur. Ætli það verði þrjár mórauðar gimbrar ?

Garðabæjar-Golsa lét sér fátt um finnsta og smellti bara upp myndasvipnum. Það er ekki nóg með að Golsa sé komin að burði heldur á hún von á nokkrum tugum af ,,ömmubörnum,, Sterasynirnir hennar þeir Loðmundur og Elvar voru harðduglegir í jólaverkunum. Eins gott að Garðabæjarliðið fari að láta sjá sig.

 

Jói sauður stundar matvæla rannsóknir og eins og þið sjáið er hann djúpt sokkinn í fræðin.

01.05.2014 13:03

Blíðan í Hlíðinni.

 

Maí heilsar okkur hér í Hlíðinni með afar notalegum hætti, logn og blíða með drauma hitastigi.

Ameríka hvað ?

 

Geirhnjúkurinn og Djúpidalurinn eru enn ríkir af snjó sem þó er farinn að hopa.

 

 

Öðru hverju dregur fyrir sólina og þá er bara hitamistur eins og í útlöndum. Ég er alveg viss um að ef hann Einar frændi minn væri á lífi hefði hann notað lognið til að leggja silunganetin.

 

 

Svo grænkar og grænkar..................og hvernig væri nú að sleppa maí kuldakastinu einu sinni ?

Þetta veður verður sko notað.

 

  • 1