Færslur: 2022 Janúar

03.01.2022 19:44

Gleðilegt ár.

 

Við hér í Hlíðinni sendum ykkur bestu óskir um  gleði, farsæld og frið á nýju ár.

Með kæru þakklæti fyrir það liðna.

Við erum sannfærð um að nýtt ár verði frábært enda er ártalið fallegt 2022.

Á myndinni hér er ungur maður ánægðu með fyrstu jólajöfina sem opnuð var.

Mátti svo sem ekkert vera að því að stilla sér eitthvað upp fyrir myndatökur enda maðurinn í jólafríi.

 

 

Hann lét sig samt hafa það og situr þarna fyrir með foreldrunum.

Græni bíllinn fékk að njóta sín enda glænýr úr jólapakkanum.

 

 

Það er alltaf stutt í glensið hjá þessum manni og endaði því uppstillingin svona.

Mamman komin með límmiða á nefið og garpurinn til í allt.

Já jólin eru tími til að hafa gaman og gera eitthvað mjög skemmtilegt.

Get svo sagt ykkur það í algjörum trúnaði að það að vera amma er bara skemmtilegast.

 

 

Jólaveðrið var gott að mínu mati enginn teljandi snjór og marauðir vegir öllum færir.

Við höfum nú bara verið róleg og eins og flestir vonað að nú færi að birta til í veirumálum.

Svona er ísinn á vatninu búinn að vera síðustu daga spegilslétttur og fallegur.

Ekki er hann samt orðinn hestheldur en mikið sem væri nú gaman að taka þarna sprett.

 

 

Sumarið var nú ekki eins gott og jólaveðrið svona ef að maður metur það í hagstæðu heyskaparveðri.

Oft komu samt góðir dagar en sögulega fáir alveg þurrir.

Það var samt mesta furða hvernig heyskapurinn gekk og að lokum varð rúllustaflinn ásættanlegur.

Var þó býsna sögulegt að síðasta háin náðist í plast í október og vitið þið hvað bara nokkuð nothæf til fóðrunnar.

 

 

Ástarlífið í fjárhúsunum hefur staðið í miklum blóma síðustu vikurnar.

Eitthvað finnst honum Villa vera orðið lítið að gera og kannar stöðuna í næstu kró.

Kannski er einhver tilkippileg þar......................

 

 

Annars virðist vera sama harkið hjá honum Stormi, enga auka vinnu að hafa.

Það má samt horfa og láta sig dreyma.

 

 

Já ef hann væri nú bara hyrndur og gæti stokkið yfir jötuna og í næstu kró.

Nú er næsta mál að bíða eftir fósturtalningu og vona það besta.

 

 

 

 

 

 

  • 1