15.09.2009 22:42

Næstum út í veður og vind........



Ef að þið skoðið vel þá sjáið þið regnbogann þarna rétt við húshornið, ég held að hann þýði örugglega að það verði blíða um réttirnar. Enda búið að vera alveg þokkalegt veður í dag.

Í gær rauk húsfreyjan ásamt fríðu föruneyti úti kálgarð að taka upp kartöflur. Veðrið var nokkuð gott hlýtt en strekkings vindur. Þegar freyjan og föruneytið höfðu hamast þó nokkra stund fór heldur að bæta í vindinn. Loks kom að því að vindurinn og við fórum að togast á um kartöfluföturnar en þar sem við öll töldum okkur hraust og fær í flestan sjó héldum við áfram eins og ekkert væri.  Þegar lengra leið á daginn fór líka að rigna,  já og sko rigna í alvöru. Síðan bætti ennþá meira í vindinn en áfram var haldið af miklu kappi. Skyndilega fór Astrid danska vinnukonan okkar að segja okkur að ef að það væri svona veður í Danmörku þá kæmi maður í sjónvarpið og segði fólki að það ætti að vera heima hjá sér. 
Stuttu eftir þá umræðu fylltist fatan hjá húsfreyjunni og hún stóð upp úr moldarbeðinu og hugðist losa kartöflurnar í poka skammt frá. Kom þá í ljós að sennilega væri þetta vont veður og ekki bara á danskan mælikvarða. Þar sem að húsfreyjan hefur nokkurs konar innbyggð ankeri tókst hún ekki á loft, en litlu mátti muna. En Guði sé lofa að þetta var ekki vinnukonan hún hefur engin ankeri.
Þegar hér var komið við sögu var ákveðið að tímabært væri að taka hlé á kartöflu upptökunni og láta kartöflurnar spretta aðeins meira.
Var það samdóma álit allra viðstaddra að þær mundu spretta alveg ljómandi vel þar til að það kæmi gott veður.

Ég skrapp til Reykjavíkur í morgun á fund þróunarfjárnefndar í Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytinu. Þetta var loka fundurinn hjá okkur í nefndinni en við erum búin að funda í þó nokkur skipti þetta árið. Mörg merkileg mál komu inná borð til okkar og var afar erfitt að gera uppá milli þessara góðu mála þegar kom að úthlutun.
Vonandi verður fjárúthlutun nefndarinnar hestamennskunni til góðs.