Færslur: 2008 Desember
31.12.2008 17:48
Gleðilegt ár!
Gleðilegt ár!
Kæru vinir!
Við í Hlíðinni sendum okkar bestu óskir um gleðilegt nýtt ár megi árið 2009 færa ykkur farsæld, frið og hamingju.
Með þökkum fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.
Sjáumst hress og kát í sveitinni.
Allir í Hlíðinni.
29.12.2008 23:11
Rakstursdagurinn mikli og spilamennska.
Dagurinn í dag var skemmtilegur líka spilamennskan í gærkvöldi. Við gerðum innrás í það ,,efra,, í gær þegar við vorum búin að borða kvöldmatinn. Fórum gamla settið og unga settið og starfskrafturinn okkar og spiluðum Kana við þau í ,,efra,, til klukkan rúmlega 2 í nótt. Um miðnættið bættist við óvæntur skemmtikraftur sem átti að vera sofandi en fann það greinilega á sér að eitthvað spennandi var í gangi. Daniella lætur nú ekki svona fram hjá sér fara þó hún sé bara 2 ára.
Í dag var svo rakstursdagurinn mikli, við byrjuðum á því að raka undan faxi og nokkrar bumbur í hesthúsinu. Síðan var haldið í folaldastíurnar og heil 12 stykki fengu áramótaklippinguna. Allt gekk þetta ljómandi vel og ég held að allir hafi bara verið sáttir við útlitið á eftir.
Þegar að við erum að meðhöndla hrossin okkar sem að við þekkjum býsna vel þá er ég alltaf að velta fyrir mér persónuleika og geðslagi. Spá í hvernig þessi eða hin breggst við ólíkum og óvenjulegum aðstæðum.Ég tel það afar mikilvægt að þekkja vel sem flesta eiginleika þeirra hrossa sem við ætlum að nota í ræktun. Þegar við vorum að raka og snyrta í dag þá voru það þrjú systkyni sem voru til fyrirmyndar í hegðun, þau eru öll undan sama hesti en mjög ólíkum hryssum. Þegar klippurnar fóru í gang með miklum hávaða mátti lesa úr látbragði þeirra ,, þetta er í fínu lagi við vitum að þetta verður flott og við treystum ykkur alveg,, jafnvel þó við séum ekki mikið tamin.
Sumum hrossunum fannst þetta algjör óþarfi og reyndu með hæverskum hætti að fá okkur til að sleppa þessu, en í heildina gekk þetta frábærlega.
Það fjölgaði líka i hesthúsinu í dag Proffi minn kom inn, eiginlega ekki með hófa heldur sýnishorn af hófum eftir fríið og Glundroði minn kom líka inn því hann þurfti meðferð útaf stungu sem var að hrella hann.
Salómon svarti.
Ég hef fengið kvartanir vegna þess að ég hafi ekki sett inn mynd af aðal höfðingja heimilisins.
Aðdáendur og einnig þeir sem bera óttablandina virðingu fyrir honum hafa haft samband og spurt hverju þetta sæti. Því er auðsvarað ég varð að bera undir hann hvort að myndbirting af honum á vefnum bryti í bága við friðhelgi einkalífs hans. Hann kvað svo ekki vera og því fylgjir hér með mynd af okkur vinunum.
27.12.2008 23:07
Atvinnuöryggi íslenskra hrúta.
Í dag er 27 desember og í kvöldfréttum sjónvarps kom athygglisverð frétt sem fékk mig til að líta uppúr mikilvægu verkefni. Gísli Einarsson ,,ríkisfréttamaður,, okkar vestlendinga var að segja frá því að fyrirsjáanleg væri ný tegund atvinnuleysis.
Það væri svo sem ekki í frásögu færandi á þessum síðustu og verstu tímum þó atvinnuleysi væri nefnt í kvöldfréttatímanum. En atvinnuleysi íslenskra hrúta hefur ekki oft svo að ég viti verið til umfjöllunnar í fréttum Rúv svo ég sperrti eyrun. Fréttin fjallaði um það að sífellt fleiri íslenskar ær fari í tæknifrjógvun að sjálfögðu með hjálp eigenda sinna og sérmenntaðra sæðingamanna. Í fréttinni kom fram að ríflega 40.000 ær hefðu fengið þessa þjónustu nú í desember og hreint ótrúlega mikið magn sæðisskammta væri tekið úr þeim afburðagripum sem á sæðingastöðvarnar hefðu valist.
,,Heitasti,, gripurinn þetta árið er hann Kveikur frá Hesti.
Ekki er þó hætta á því að íslenskir hrútar þurfi að örvænta því þetta er einungis lítill hluti fjárstofnsins. Og til gamans má geta þess að ekki er árangurinn af sæðingunu alltaf góður, svo að hrútarnir geta vænst þess að einhverjar ær sem fóru í sparimeðferðina þurfi jafnvel þeirra aðstoð á næstu dögum.
26.12.2008 17:56
Jóla jóla
Gleðilega hátíð, vonandi hafa allir átt góða og ánægjulega jóladaga. Hér í Hlíðinni hafa jólin verið afar notaleg og góð, allt í föstum skorðum sem er kostur fyrir vanafasta konu eins og mig. Gamla jólaskrautið fór á gömlu staðina sína og jólahefðirnar í mat og drykk voru þær sömu og undanfarin ár. Við á heimilinu fengum heilan helling af frábærum gjöfum t.d gestaþrautir (uppáhald húsbóndans) hestadót, nokkur eintök af Samspili Benna Líndal og síðan Trivial Pursuit, stelpur á móti strákum. Það var gjöf frá fyrrverandi starfsmanni sem sannreyndi það í sumar að það er ekki sjálfgefið hvernig á að skipta í lið þegar keppnisskapið hefur tekið völdin. Margar útgáfur hafa verið reyndar til að gæta jafnræðis t.d háskólapróf á móti FT prófum, bændur á móti búaliði, smiðir á móti meistarakokkum og ýmislegt fleira. Nú á bara eftir að koma í ljós hvernig stelpur á móti strákum virkar.
Þúsund þakkir fyrir okkur öll.
En að öðru og alvarlegra máli, það eru hræðilegar fréttir sem við höfum heyrt undanfarna daga um veiku hrossin í Mosfellsbæ. Sem hrossaeigandi veit ég að þetta hafa verið erfið og slæm jól fyrir þá sem þarna eiga hross. Það er alltaf hræðilegt þegar að svona kemur upp, bæði er þetta fjárhagslegt tjón en ekki síður tilfinningalegt. Þarna er fólk að missa vini sína og félaga til margra ára og þarf kannski að horfa uppá langt og strangt veikindastríð.
Sendum ykkur alla okkar bestu strauma og óskir um bata hjá hestunum ykkar.
Svona veikindi minna mann enn og aftur á hversu mikilvægt það er að halda okkar íslenska bústofni, hver sem hann er, hestar, kindur, kýr eða hvað annað hreinum og lausum við sem flesta sjúkdóma. Mér hefur fundist á undanförnum misserum að nauðsynlegt sé að vera á verði og slaka aldrei á hvað þessar varnir varðar. Reynum nú einu sinni Íslendingar að gera ekki mistökin fyrst og læra svo.
Ég vil að lokum þakka frábærar móttökur við litla vefglugganum okkar og á næstu dögum munum við vera dugleg að bæta við. Margt er framundan, reka inn stóðið, klippa folöldin og taka fleiri hesta inn.
22.12.2008 23:06
Jólakveðja úr Hlíðinni
Í dag var allt á ,,haus,, hjá mér í jólaundirbúningi. Kláraði að baka, pakka og ýmislegt fleira það er sko í mörg horn að líta. Á morgun er Þorláksmessa og þá er það bara skatan og hangikjötið. Já ilmurinn er indæll og bragðið vonandi eftir því. Veðrið var ekki skemmtilegt í dag slagveður og rigning. Ég vorkenni alltaf útigangshestunum í svona veðri, en þau voru samt bara kát í dag og tóku fagnandi á móti rúllunum þegar traktorinn kom brunandi með þær. Bíð spennt eftir því að taka inn fleiri vini mína á milli jóla og nýárs.
Kæru vinir við í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári með þakklæti fyrir samskiptin á árinu.
21.12.2008 15:24
Verið velkomin!
Komið þið sæl og verið velkomin í litla vefgluggann okkar í Hallkelsstaðahlíð.
Hér mun ég á næstunni fjalla um það sem efst er í huga hverju sinni og reyna með því að gefa ykkur innsýn í lífið í sveitinni hjá okkur og þær vangaveltur sem fram fara.
Hugmyndin um að opna heimasíðu hefur verið lengi að brjótast um í mínum kolli en er nú orðin að veruleika. Við höfum notið frábærrar aðstoðar Tómasar Jónssonar grafísks hönnuðar sem á og rekur fyrirtækið Kviku sem er auglýsinga og hönnunarstofa. Tómas hannaði merkið okkar sem við erum mjög stolt af. Ekki verra fyrir fólk eins og okkur að þau hjónin Tómas og frú eru mikið hestaáhugafólk. Án hans hjálpar værum við örugglega enn að hugsa. Takk Tommi og Tóta.
En að öðru, síðustu vikur hafa verið annasamar í Hlíðinni og í mörg horn að líta. Haustið einkenndist af kindastússi og smalamennskum eins og alltaf en þó allt samtvinnað hestunum.
Í haust hóf Mummi nám á hrossabraut Háskólans á Hólum og þar með hefur engin starfsemi verið í hesthúsinu okkar á Kjóavöllum. Við gamla settið fylgjumst með og reynum að kíkja í bækurnar þegar hann kemur heim í frí. Alltaf svo spennandi að sjá eitthvað nýtt í hestamennskunni.
Um miðjan nóvember rákum við stóðið heim og tókum folaldshryssurnar og settum þær í girðingu heima á túni. Þær fengu sér dekur og var byrjað að gefa þeim fljótlega. Veturgömul tryppi og ,,sparihross,, voru svo sett í annað hólf og litlu síðar var farið að gefa þeim líka. Og nú er byrjað að gefa öllum hestum í Hlíðinni.
Inni voru svo tamningahross og smalahross sem staðið höfðu í ströngu í haust. Í byrjun desember var haldin folaldasýning í Söðulsholti þangað fórum við með nokkur folöld og gerðum bara nokkuð góða ferð. Snekkja litla Glotta og Skútudóttir gerði sér lítið fyrir og vann hryssuflokkinn, einnig völdu áhorfendur hana sem glæsilegasta grip sýningar. Léttlindur Hróðs og Léttarson varð svo í 4-5 sæti í hestaflokknum.
Þessa dagana fjölgar ört í hesthúsinu og allt að fara á fulla ferð þar. Það er alltaf jafn gaman að fá hestana inn, heilsa uppá góða vini og kynnast nýjum sem eru að byrja í sínu námi tamningunni.
11.12.2008 22:50
Allt í vinnslu
Jæja nú er allt á fullu í að klára heimasíðuna. Hér munum við setja inn fréttir og pistla eftir að við opnum síðuna formlega.
- 1