Færslur: 2015 Janúar

27.01.2015 23:01

Gleðilegt ár til ykkar héðan úr Hlíðinni.

Mummi á Káti, Skúli á Gosa og Sigrún á Sparisjóði.

 

Nú er orðið tímabært að óska ykkur öllum gleðilegs ár og friðar á því herrans ári 2015.

Já og kærar þakkir fyrir það liðna. Við hér í Hlíðinni erum bara spræk á nýju ári og hlökkum til að takast á við spennandi ár.

Að vanda eru engin áramóta heit að þvælast fyrir en þó ekki þar með sagt að ekkert sérstakt sé á döfinni.

Krefjandi verkefni hvert sem litið er og þó nokkuð af spennandi uppákomum..........stafrófið dugar varla......

T.d ef að við hugsum um það byrjar á F : Fullt af spennandi fákum. Féð í fullu fjöri (vonandi). Fjárhundum fjölgar. OG....... Frúin fimmtug.

Já já svona verður þetta árið 2015.

 

En nú er það nútíðin en ekki framtíðin og þó........

 

Til að segja ykkur aðeins frá nokkrum tryppum sem verið er að vinna í um þessar mundir læt ég fylgja með folaldsmyndir af þeim.

Ég er ekki enn búin að smella af þeim mynd í fullri aksjón.

 

 

Krakaborg frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Sporður frá Bergi, móðir Þríhella frá Hallkelsstaðahlíð.

Hún er fædd árið 2011, þessi mynd er tekin í janúar 2012.

Myndin er tekin af Iðunni Svans sem vonandi fyrirgefur mér ,,lánið,,

 

 

Stekkjaborg frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Hlynur frá Lambastöðum, móðir Dimma frá Hallkelsstaðahlíð.

Hún er fædd árið 2011 myndin er tekin í janúar 2012.

Myndasmiður Iðunn Svansd.

 

 

Fleyta frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Stígandi frá Stóra-Hofi, móðir Skúta frá Hallkelsstaðahlíð.

Fleyta er fædd í júlí 2011 og þá er þessi mynd tekin.

Hún hefur ekki sparað fínu sporin og fer vel með knapann.

 

 

Randi frá Hallkelsstaðahlíð, faðir er Soldán frá Skáney, móðir Snör frá Hallkelsstaðahlíð.

Hún er fædd í júní 2011 myndin er tekin á um sumarið.

Randi er eitt stæðsta hrossið í hesthúsinu þó svo að hún sé bara á fjórða vetri.

Sveinbjörn frændi minn fylgist spenntur með tamningunni á Randi en hún er í hans eigu.

Þegar hann varð 70 ára komu þau Randi og Haukur í Skáney færandi hendi og gáfu honum folatoll undir Soldán.

Hryssan var að sjálfsögðu nefnd í höfuðið á Randi. Hún er stór og myndarleg og verður vonandi sér og sínum til sóma.

Nánari kynningar á tamningahrossum koma við fyrsta tækifæri.

 

 

 

 

 

 

  • 1