Færslur: 2014 Október

21.10.2014 22:48

Vetrarstemming

 

Já það koma margir fallegir dagar hér í Hlíðinni þó svo það blási á milli.

Verst er þó hvað úrkoman hefur verið mikil og blaut, leiðindaveður fyrir menn og skepnur.

Eins gott fyrir hestamenna að fylgjast með hrossunum og kanna hnjúska.

Folaldshryssurnar fóru í hausthagann sinn í dag og voru heldur betur kátar með það. Þær litu vel út og folöldin höfðu stækkað og breyst heilmikið frá síðustu heimsókn til þeirra.

Ég fékk mér líka göngutúr og skoðaði tryppin sem verið hafa hér inní hlíð. Hjá þeim voru móttökurnar svo einlægar að ég átti í vök að verjast og var næstum því étin. Næstu daga þarf svo að skoða allt stóðið og fara yfir hvort að allt sé ekki eins og best verður á kosið.

Hópur af spennandi tryppum er komin á hús og nú er bara að fara á fullt þegar kindastússið er farið að minnka. Feður þessara tryppa eru m.a Aldur og Arður frá Brautarholti, Feykir frá Háholti og Sparisjóður minn.

Nokkur söluhross eru einnig í þjálfun og má t.d sjá myndband af einni hryssu inná söluflipanum hér á síðunni.

 

 

Þarna er hún Caroline að spjalla við Kveikju Stimpilsdóttur.

Já hann Siggi á Vatni ætti nú bara að vita hvað Kveikja er flott, gullfallegt folald undan Stimplinum.

 

 

Caroline með Hallkelsstaðahlíð í baksýn, aldeilis gott veður.

 

 

Svona gægðist sólin uppfyrir Klifshálsinn fyrir nokkrum dögum síðan, já það eru mörg listaverkin í náttúrunni þessa dagana.

Þarf svo að smella inn sauðfjársamantekt við fyrsta tækifæri.

 

08.10.2014 21:01

Marie og vinir hennar

 

Þessar eru miklir vinir eftir hátt í tíu mánaða samveru sem senn er að ljúka.

Marie og Snotra hafa brallað margt saman og alveg er víst að Snotra á eftir að sakna vinkonu sinnar.

 

 

Og ekki hafa þessar verið síðri vinir, þarna eru þær saman Marie og Prinsessa heimalingur.

Síðan á réttum hefur Prinsessa verið með öðrum lömbum í girðingu út á Steinholti og þangað hefur Marie brunað með pelann. Já það er munur að vera innundir.

 

 

Prinsessa er myndar gimbur sem missti mömmu sína snemma á sauðburði og var strax í miklu uppáhaldi hjá Marie. Eins og þið sjáið þá er hún komin með rautt merki á kollinn sem þýðir að hún er væntanleg kynbótakind. Alveg ,,óvart,, mætti hún alltaf afganginn þegar verið var að venja undir svo að hennar hlutskipti var að verða heimalingur.

 

 

Kveðjukossinn var sætur eins og við var að búast, spurning hvort að Prinsessa sé á leiðinni til Danmerkur ???

 

 

Hún Fáséð er hinsvegar farin til Danmerkur en þar bíður hennar mikilvægt hlutverk.

Vonandi stendur hún sig vel og verður nýjum eiganda til gæfu og gleði en okkur til sóma.

Takk fyrir samveruna Marie og gangi þér allt í haginn, við hlökkum til að hitta þig aftur.

 

07.10.2014 23:03

Guðdómlegur Hnappadalur enn einu sinni.

 

Kvöldroðinn var dásemdin ein og alveg í stíl við veðrið í dag, ekki slæmt að fá 14 stig hita í október.

Ég fór líka algjöran eðalreiðtúr í dag á gæðingi sem er bara engum líkur.

Sumir dagar eru bara einfaldlega miklu betri en aðrir.

 

 

Það þarf ekki málverk á veggi þegar þetta er útsýnið úr eldhúsinu.

Sparisjóðurinn minn óheppinn að vera ekki við gluggann í þetta skiptið.

 

 

Þessi fíni regnbogi spratt uppúr Kjósinni sennilega til heiðurs okkur Marie fyrir sérstök kartöfluafrek.

Að okkar mati erum við búnar að vera ansi duglegar í garðinum.

 

 

Næstum eins og gos, einstaklega fallegt skrautið hjá okkur þennan daginn.

Haustið getur verið einn fallegasti árstíminn ef að veðrið er til friðs.

 

02.10.2014 12:01

Kveðja frá Holuhrauni

 

Laugardaginn 20 september var útsýnið svona af hlaðinu í Hlíðinni þegar við komum heim úr Vörðufellsréttinni. Sennilega hefur Holuhraunið verði að kasta á okkur kveðjum. Já ekki beint gæða loft í dásamlegri blíðu sem þá var hjá okkur í Hnappadalnum. En rokið og rigningin sem komu daginn eftir sáu alveg um að hreinsa loftið fyrir okkur.

Ég ætla ekki að eyða orðum í tíðarfarið síðustu daga því að auðvitað gæti það verið miklu verra. Úrhellisrigningin gæti verið snjór, brjálaða rokið gæti verið 30 m/sek ekki 20 sko og skítakuldinn gæti örugglega verið frost. Við höfum fullt af eldfjöllum hér í kring sem gætu alveg verið að gjósa og ýmislegt fleira sem hæglega gæti verið slæmt.

Við höfum það fínt og ekki sanngjarnt að vera með neitt væl...........punktur.

Eins og þið hafið séð þá hefur lífið snúist um kindur og aftur kindur síðustu daga. Ég hef stytt mér leið hér á síðunni með því að skella inn myndum en ekki stundað mikla skrifinsku. Það þýðir þó ekki að ég ætli ekki að segja ykkur fréttir allavega svona með.

Við höfum sent 416 lömb í slátrun og vorum bara sátt með útkomuna á þeim hópi. Þar sem ég notast helst við samanburð hér á búinu en er ekki í opinberri typpakeppni ætla ég ekki að svo búnu að birta neinar tölur.

Þær koma sennilega í lok sláturstíðar og í kjölfarið verður boðið uppá eitthvað skemmtilegt til að halda uppá nú eða drekkja sorgum.

Það voru mörg lömb falleg þetta haustið og erfitt verk er fyrir höndum að velja ásetninginn. Góður hópur af hrútum bíður þess að opinberir spekingar líti á þá og leiði mig í allan sannleikann um skynsamleg afdrif þeirra. Svo gerum við það sem við teljum gáfulegt fyrir okkur og budduna.

Eins og undanfarin ár var mjög margt af ókunnugu fé þegar við smöluðum til fyrstu réttar eða vel á sjöunda hundraðið Heimtur hjá okkur eru nokkuð góðar m.v sama tíma síðustu árin.

Síðasta vika var gjöful hvað þær varðar og fengum við kindur alla daga vikunnar.

 

Læt fylgja með hvernig Hraunholt litu út frá okkur þann 20 september 2014.

 

 
  • 1