Færslur: 2012 September

29.09.2012 13:05

Morgunstund gefur......heilmikið



Hvað ertu að gera kelling ???????



Klukkan er ekki orðin hálf ellefu og þú vaktir mig...............



Þú hefur samt ekki af mér morgun sopann, það er á hreinu.



Þá er það morgun nuddið hjá okkur múttu.................



Og nennir hún svo ekki meiru....................oooooooooo.

Já ég fór í morgun í heimsókn til Karúnar og Leiks litla Spunasonar þar sem þau voru að kroppa fyrir utan læk. Þau kunnu greinilega vel að meta sólskinið og lognið sem nú er í Hlíðinni. Leikur er hálf bangsalegur og svo sannalega kominn í vetrarfrakkann.

Við renndum uppí Borgarfjörð og skoðuðum Kát Auðsson bróðir hans sem hefur dvalið þar í sumar.
Nú er Kátur að fara á fjórða vetur og verður tekinn heim fljóttlega og byrðja að temja hann og þjálfa. Kátur er undan Karúnu og Auði frá Lundum.

Þegar Leikur var mjög ungur fór Karún undir Arion frá Eystra-Fróðholti og kom heim fylfull fyrir stutt. Þannig að Leikur hefur ekki haft mikið af mannfólkinum að segja. Þrátt fyrir það er hann spakur og svo öruggur með sig að sumum þykir nóg um.
Kannske hef ég það af að mynda kappann á hreyfingu einhvern daginn, hann er nefninlega bara nokkuð ,,smart,, þó ég segji sjálf frá.

27.09.2012 22:11

Allt að róast........í bili



Nú er allt að róast eftir réttarstússið og tími til að líta við hjá tryppunum og taka stöðuna.
Þessi höfðu það gott og máttu ekkert vera að því að ,,tala,, við mig og stilla sér upp fyrir myndatöku.
Folaldshryssurnar notuðu tækifærið og stungu af langt uppí fjall á meðan við vorum að smala og rétta. Þær fá að vera í frið enn um sinn í fjallinu en koma svo aftur heim þegar haustar meira.
Og nú eru tamningahrossin komin í vinnuna aftur eftir réttarfríðið, þau sem ekki voru farin heim.
Smalahrossin bíða á ,,kanntinum,, eftir næstu verkefnum sem eru á döfinni fljóttlega.

Ég skráði inn nokkur ný söluhross hér á síðuna, sum hafa fengið af sér mynd en önnur eiga það eftir. Bæti svo fleirum við fljóttlega en mörg söluhross eru í þjálfun núna og ný að bætast við.
Það eru mun fleiri hross til sölu hérna hjá okkur en þau sem eru skráð á síðuna.
 Það er bara ljósmyndari búsins sem er ekki að standa sig. (Taktu þig á Sigrún Ólafsdóttir) :):):)

Gaman væri nú að fá ykkur til að ýta á ,,like,, takkann til að deila síðunni enn frekar á fésinu.

26.09.2012 12:20

Réttarfjörið f.r.h



Þar sem húsfreyjan hefur enn ekki náð öllum áttum eftir réttarfjörið er bara best að halda áfram með myndasöguna úr réttunum.

Þarna eru Astrid og Mummi að byrja fyrstu laglínurnar............



Ungdómurinn var öflugur í söngnum eins og vera ber.



Og fleiri bættust í hópinn.........



Þessar sætu Garðabæjardömur skemmtu sér vel hvort sem var í söngnum eða réttinni.



Þarna eru aðal selskapsdömurnar Erla Guðný, Sigfríð og Rebekka.



Og fleiri selskapsdömur Hildur og Þóra.



Þarna erum við komin á sunnudaginn, sjálfan réttar og kjötsúpudaginn.

Ég fékk skemmtilega heimsókn norðan úr Skagafirði en hann Jói á Reykjarhóli var mættur í morgunsárið.
Þarna erum við Jói með hann Rík minn sem að hann ræktaði og hefur alla tíð verið minn uppáhalds reiðhestur.
Gaman að fá svona hressan og skemmtilegan næstum níræðan strák í heimsókn.



Þegar við Jói hittumst þá tökum við alltaf eins og eina skál honum Rík mínum til heiðurs.



Kjötsúpan var góð eins og venjulega, þarna eru Astrid, Tóta og Kolbeinn yfir Mýrdalsréttarökumaður að gæða sér á súpunni.



Þessar skvísur voru hressar að vanda Fríða María og Þóranna.



Þarna er hann Jonni umkringdur af meðlimum ,,bleikudeildarinnar,,



Þessir voru líka hressir Mummi, Þórður og Jói á Reykjarhóli.
Þeir hafa pottþétt verið að rífja upp eitthvað skemmtilegt úr Skagafirðinum.



Það var þröngt á þingi í eldhúsinu þarna eru Fransisko, Dúna, Svandís, Rebekka og Stella yfirkokkur.




Þessar voru liðtækar innandyra Gulla, Lóa og Sirrý.




Alltaf hress og kátur þessi :)



Eldhúsæði..................



Þarna eru mæðgurnar mamma og Hrafnhildur systir og Sirrý stendur hjá og brosir.



Eldhressi ungdómurinn.



Erla og Kristín Rut að ganntast við Ragnar eftir kjötsúpuátið mikla.



Jón gefur tóninn ............ og Skúli tekur undir.......
,,Lýsa geislar um grundir, glóir engi og tún,,



Kaffikonurnar að kanna birðirnar, mamma og Lóa.



Iyad og Mummi að ræða málin.



Það er líka ,,rómó,, í réttunum, þessi sætu hjón stilltu sér upp á tröppunum. Tommi og Tóta.



Þessi var duglegur í réttunum og ekki að sjá að þetta væru hans fyrstu réttir.
Þarna er hann með hrút undan honum Grábotna.



Klár fyrir næstu kind.



Kokkurinn við kapisuna..............nei nei kokkurinn í gæða eftirliti í réttunum.



Yfirdyravörðurinn Þóranna brosmild að vanda.



Sæta skvían Fríða María frænka mín.

25.09.2012 11:01

Réttir 2012 kafli eitt

Daglegt réttarblogg var eitthvað sem ekki gekk upp hjá húsfreyjunni og varð hún að játa sig sigraða í þeim efnum strax í upphafi.
En til að gera langa sögu stutta nema í myndum þá gengu smalamennskur og réttir mjög vel að þessu sinni.  Á föstudaginn var samt ansi blautt en við höfðum á að skipa harðsvíruðu liði sem stóð sig með glæsibrag eins og venjulega. Djúpadalsáin var mikil og seinlegt að reka yfir Fossánna en vatnsmagnið þó ekkert í líkingu við það sem var árið 2008.
Á laugardaginn var svo farið í Vörðufellsrétt og fé sótt innað Dunki og Dunkárbakka.
Að vanda var tekin létt réttarsveifla á laugardagskvöldið, rykið dustað af gítarnum og raddböndin strokin. Ungir sem aldnir að sjálfsögðu allir með í fjörinu.
Á sunnudaginn vöknuðu allir sem einn eldhressir og ruku út til að reka inn hér í Hlíðinni.
Vel á annað þúsund fjár var réttað hér heima um 500 ókunnugar kindur keyrðar í Mýrdalsrétt eða sótta af eigendunum. U.þ.b 770 lömb vigtuð og fjörið ekki búið fyrr en um kl 3 aðfaranótt mánudags.
Um hádegið á mánudaginn var svo brunað í Mýrdalsrétt þar sem við fengum rúmlega 30 kindur. Rákum síðan inn lömbin sem sett höfðu verið út um morgininn og tókum síðan á móti ráðunautunum sem komu að líta á hópinn. Hrútar voru stigaðir og gimbrar þukklaðar.
Þetta var samt bara fyrsta skoðun síðar verð gimbrar sónaðar og endalega valið úr hópnum.
Nánar um þetta allt síðar.
Þegar þetta er skrifað eru farin frá okkur 540 lömb sem nú bruna norður til ,,fundar,, við Geirmund á Sauðárkróknum.
Þar sem húsfreyjan er ekki alveg eins fersk eins og æskilegt er til að skrifa eitthvað skynsamlegt kemur hér saga í myndum.

En kæru ættingjar og vinir !
Við hér í Hlíðinni þökkum ykkur kærlega fyrir alla hjálpina, þið eruð okkur hér algjörlega ómetanleg. Fjöldinn allur af fólki sem kemur og hjálpar okkur jafnt við smalamennskur, eldamennsku, tiltekt, akstur og bara allt. Þið eruð frábær. Takk enn og aftur fyrir okkur.



Þessi góði gestur prófaði margt þessa viku sem hann dvaldi hér, klettaklifur, langhlaup, fjárrag og margt fleira. Takk fyrir komuna Iyad það var gaman að fá þig í heimsókn.



Hilmar, Hrannar og Mummi.
Það veitti sko ekkert af því að hafa maraþonhlaupara á okkar snærum þegar kom að því að verja Giljatungurnar. Takk Hilmar.



Hallur og Haukur Skáneyjarbóndi voru hressir að vanda, ómetanlegt að eiga góðan ,,tengdason,, sem er frábær smali ofaná allt hitt.



Hallur, Skúli og Óskar Oddastaðabóndi sem eins og hinir er algjörlega ómissandi inná Djúpadal.



Randi Skáneyjarfrú djúpt sokkin í gestabókina, Mummi og Raganr ræða smalamennskuna.



Dúna, Hrefna Rós og Björg voru í lopapeysufélaginu, Hrannar fékk samt að sitja hjá þeim.



Ingvi Már, Pétur og Hilmar hressir eftir smalafjörið í rigningunni.



Hress og skemmtileg þess,i þau Rebekka, Iyad og Jón yfir Giljatungusmali og skytta.



Hrannar, Mummi og Astrid voru hress í Vörðufellsréttinni eins og venjulega.



Beðið eftir Vörðufellsrétt.



Fullt af fólki..............



Stund milli stríða..............og Pétur á facebook.



Bara brattir kallarnir, Skúli og Sigurður í Hraunholtum.



Frú Þormar Grandkona og Iyad í Vörðufellsrétt.



Dúna, Sirrý og Fríða með ,, bakhjarla,,



Hér sé friður..................amen.
Þetta er að sjálfsögðu ..séra,, Jóngeir, Styrmir er nú sanmt eitthvað efins.



Astrid, Björg, Iyad og Þóra taka smá pásu í Vörðufellsréttinni.



Spekingar spjalla, Sveinbjörn og Sigurður bjarga heiminum..........með bros á vör.



Fjölskyldan á Emmubergi var að sjálfsögðu mætt í réttirnar, með sínu liði.



Þessi var liðtæk enda harðsvíruð sauðburðarkona á ferð..... þarna er Björg í reiðtúr á Flekku.



Bræðurnir og fyrrverandi Skógarstrandarbændur Sigurður og Hjalti Oddssynir.



Frænkurnar Gréta Hallsdóttir og Dúna voru hressar að vanda enda hafa þær oft smalað saman.



Dömurnar úr miðsveitinni vor mættar, Guðrún Sara, Helga og Þóra.



Elín, Sigurður, Jóel og Hjalti................gaman væri nú að hafa þau öll aftur ábúendur á Skógarströndinni...............



Það eru á fleiri stöðum en Kútter Haraldi sem kallarnir eru kátir.
Sigúrður, Sigurður og Hjalti.



Pétur kann vel að meta huggulegt prjónles en þessir slógu öll met, kaldir bjórputtar eru úr sögunni.



Frændur hittust í réttunum, Magnús á Álftá og Raganr spjalla samna á réttarveggnum.



Og fleiri bættust í hópinn, Þorkell á Mel, Magnús, Ragnar og Sveinbjörn.



Þessir sjarmar og ofursmalar voru á hinum réttarveggnum.......yngri deildin sko.
Aron Frey og Sigurður.



Daniela sparifrænka mín að knúsast með mömmu sinni, takið eftir sérhönnuðu Salómonspeysunni hennar.



Jón Zimsen Leitisbóndi, Ragnar og Lárus í Haukatungu ræða málin.

20.09.2012 22:46

Oddastaðasmalamennska



Það var fallegt í morgun glaða sólskin og hægur vindur, Góður dagur til að smala.



Hér eru nokkrir vaskir smalar sem fóru fótgangandi upp Bæjarganginn og uppá Múla.
Þarna eru þau eldhress og ekki létu þau illa af sér í kvöld þrátt fyrir langan dag og nokkuð erfiðan.
Já dagurinn bauð þeim uppá klettaklifur, blíðu, rigningu og óþekkar kindur.



Þessir riðu upp Brúnabrekku og niður að Oddastöðum, hafa allir gert það áður og jafnvel oft.



Og svona var veðrið um miðjan daginn svona áður en fór að rigna á okkur.
Mun fleiri smalar tóku þátt í smalamennskunni en ekki náðust myndir af þeim öllum.
Við fengum á annað hundrað kindur úr þessari smalamennsku sem telst nokkuð gott þar sem búið var að smala hluta af Oddastaðalandi áður..

Nú er bara að búast við góðu veðri á morgun og trúa því að veðurfræðingar geti stundum logið.


19.09.2012 22:26

Fyrsti í smalamennsku



Nú er fjörið byrjað og enn er veðrið fallegt og gott hér í Hlíðinni.

Við fórum og smöluðum inní hlíð og útá hlið eins og við köllum það í dag.
Smalamennskan gekk vel og það er gaman að segja frá því að með okkur voru tveir góðir smalar sem voru að smala í fyrsta sinn á ævinni. Annar smalinn var frá Þýskalandi en hinn frá Ameríku, bara gaman að því og vonandi verður jafn gaman næstu daga.
Í kvöld voru það svo norðurljósin sem heilluðu, já og heilluðu með stórum staf.  Við sem sjáum norðurjósin oft erum greinilega ekki að gera okkur grein fyrir því hvað þetta er merkilegt fyrirbæri.
Þegar þetta er skrifað standa þessir erlendu gestir og stara til himins og dást að ljósunum.
Það er ríkidæmi að ,,eiga,, norðurljós.




Þessi mynd var tekin rétt fyrir sólarlagið en þarna er Mummi að smala Steinholtið.

Á morgun er það svo smalamennska uppá Múla og Oddastöðum.

Vonandi viðrar til myndatöku á morgun :)

18.09.2012 22:00

Mýrdalsrétt





Nei nei þetta er ekki Dressmann auglýsing en þeir kæmu nú samt sterkir inn ef  við færum að gefa út almanak eins og sumir starfsbræður okkar.

Mýrdalsrétt var í dag og þá var þessi mynd tekin af þeim bændum Sigurði í Krossholti, Þorkeli frá Miðgörðum, Albert á Heggstöðum og Jónasi á Jörfa.
Já það var gott veðrið í réttinni í dag, eins og reyndar í fyrra líka. Til að rifja það upp þá er hægt að skoða myndir þaðan undir flipanum myndaalbúm hér á síðunni.



Það voru líka skvísur við réttarvegginn, Kristjana á Skiphyl, Helga í Haukatungu og Dúddý.



Þessi bóndi var að skoða fjárhópinn sinn í góða veðrinu, Brynjúlfur á Brúarlandi.



Þessir tóku eftur á móti í nefið og síðan hefur væntanlega komið hressileg hreppstjórasnýta.
Gísli ævinlega hreppstjóri okkar Kolhreppinga og Steinar i Tröð.

Það var gaman að koma í Mýrdalsrétt í dag hitta sveitungana og njóta blíðunnar.

17.09.2012 23:19

Hún er nú bara 95 ára



Það er ekki leiðinlegt að hafa þetta útsýni út um eldhúsgluggann á svona góðviðris dögum.

En hvort við fáum svona veður til að smala í vikunni það er stóra spurningin ??
Til að vera við öllu búin hefur regngallinn verið dreginn fram í von um að það virki letjandi á úrkomuna.
Annars er sjálfsagður staðalbúnaður fyrir réttirnar föðurland, Lóu-ullarsokkar, regngalli og helst Nokia stígvél. Verst að þau eru illfáanleg, eru víst orðin tískuvara í úttttlandinu.
Já það þarf enga tískulöggu í sveitina þar eru bara allir flottir.




Hún var ekki af verri endanum gjöfin sem ég fékk í gær þó hún væri nokkrum áratugum eldri en ég. Enda veit ég fátt skemmtilegra en að fá svona gripi sem helst eru með sögu líka.
Þarna er á ferðinni markaskrá fyrir Snæfellsness og Hnappadalssýslu samin 1917.
Sömu mörkin voru í notkun hér í Hlíðinni þá og eru nú. Helstu breytingar eru sennilega þær að þá mörkuðu bændurnir með hnífum en nú markar húsfreyjan með töng.
Ekki veit ég hvenær farið var að númer lömbin en man að þegar ég var lítil var keyp hönk af állengju sem klippt var niður og tölustafirnir þrikktir á. Þau númer voru svo tekin úr þegar lömbin fóru í slátur eða þegar búið var að nefna lífgimbrarnar á haustin. Fullorðinsnúmer þekktust ekki þá en allar kindur nefndar eins og reyndar er gert hér enn þann dag í dag.
Ekki man ég heldur hvenær byrjað var að setja númer í fullorðna féð en það hefur sennilega verið í kringum 1990.
Hér á bæ eru líka til fjárbækur síðan fyrir fjárskipti og þær eru vel geymdar skal ég segja ykkur.
En aftur að markaskránni góðu sem ég hef verið að skoða, hún hefur að geyma 1226 fjármörk og 44 hrossamörk.
Já þessi markaskrá er góð viðbót við safnið hans Einars heitins frænda míns.
Takk kærlega fyrir þessa góðu gjöf.

Hér nokkrum bloggum neðar getið þið séð skipulagið varðandi réttir og leitirnar í vikunni.


15.09.2012 22:12

Óformlegt fjárstúss



Þessi mynd gæti heitið ,,Sjö á lofti, ein á jörð,, en þarna svífa Vörður Arðs og Tignarson og Snekkja Skútu og Glottadóttir niður brekkuna áleiðis heim að hesthúsi.

Kindastússið er svo sem ekki formlega byrjað hér í Hlíðinni en þrátt fyrir það höfum við verið í fjárfluttningum í allan dag. Það var smalað í Hraunholtum í dag og smá forskot var tekið fyrir innan fjall.  Afraksturinn......í meira lagi m.v undanfarin ár sem hugsanlega þýðir sögulegar tölur í okkar samlamennsku um næstu helgi.  En hver veit ??

Ég smellti gleraugunum á nefið og tók smá yfirlit þegar fé kom í hús svona eins og alvöru fjárbændur eiga að gera. Niðurstaðan eftir þessa skoðun var sú að ef ég væri jákvæð þá væru hér vænir dilkar og vel útlítandi. En ef að ég væri neikvæð þá væru hér ormar sem mundu bara gera ursla í meðalvigtinni.
Ég ákvað að gæta hófs í svartsýni og skynsemi í bjartsýni..........svo ég er bara góð og vona það besta en býst við því versta.

Undirbúningur fyrir réttirnar er margvíslegur að vanda hér í Hlíðinni. Sumt er raunhæft að klára fyrir réttir annað er draumsýn ein sem alltaf er samt rifjuð upp af og til.
Fjárhústiltekt, girðingar, réttarviðgerðir og ofaní burður er ,,lögbundið,, hér á staðnum.
Bakstur og matarstúss er tilheyrandi enda er matseðillinn oftast sá sami. Slátur hér, gúllas þar, heimatilbúinar kjötbollur og að sjálfsögðu kjötsúpa með slátri. Nýja kartöflur, rófur og hvítkál. Ekki má nú gleyma heimagerðri rúllupylsu og kæfu. Baksturinn er líka svolítið hefðbundinn, mikið og margar tegundir.
Já það er ýmislegt leyfilegt þessa viku sem smalafjörið stendur sem hæðst.







13.09.2012 23:18

Gömul saga



Nokkur ár eru nú liðin frá því þessi mynd var tekin af okkur Heimalings-Golsu.

Eins og flestum sauðfjárbændum hefur mér verið hugsað til starfsbræðra minna fyrir norðan síðustu daga. Myndir þar sem verið er að draga fé úr fönn hafa vakið upp minningar frá löngu liðnum atburði sem að aldrei gleymast.
Mér fannst ótrúlega stutt síðan en auðvitað er það bara hversu minningin var slæm sem hún er svona ofarlega í huganum.
Til að staðfesta ár og tíma fór ég og fékk að fletta uppí dagbók Ragnars frænda míns. Það var reyndar alveg óþarfi að lesa dagbækur til að rifja þetta upp, að því komst ég svo sannarlega í gær. Þegar ég fór að minnast á þennan atburð sem ég ætla að segja ykkur aðeins frá opnaðist flóðgátt með upplýsingum um þessa daga hjá þeim systkynum í gamla bænum.

Það var árið 1972 þann 28 október sem var afmælisdagur Hrafnhildar ömmu minnar.

Þann dag gerði hörkubyl með þeim afleiðingum að hátt í 30 kindur fórust í Rögnaá.
Um morguninn þegar veður útlit og veðurspá voru slæm fóru móðurbræður mínir strax að smala. Veðrið versnaði fljótt og upp úr miðjum degi var ljóst að ekki næðist að koma öllu fénu heim. Árnar að verða ófærar,  skyggni lítið sem ekkert og fé farið að leita í skjól hvar sem færi gafst. Mikil hætta skapaðist þegar féð fór að hrekjast undan veðrinu og leita skjóls á stöðum þar sem snjósöfnun var mikil.  Hætta var á að féð mundi hrekjast  í Hlíðarvatn með  skelfilegum afleiðingum. Var því bruggðið á það ráð að safna því fé sem náðst hafði að koma út fyrir árnar saman á stað sem kallast Köst. Þar var staðið yfir því og þess gætt alla nóttina því ekki var viðlit að koma því heim í veðurofsanum. Ég hef oft hugsað um það hvernig það hefur verið að standa yfir fénu í brjáluðum byl heila nótt, eftir að hafa staðið í erfiðri smalamennsku allan daginn.
Og ekki voru kuldagallarnir komnir til sögunnar þá.
 Morguninn eftir slotaði veðrinu svo hægt var að koma þessum hópi heim. Strax var farið af stað eftir svefnlitla eða svefnlausa nótt til að freysta þess að finna fleira fé.
Það var þá sem kom í ljós að stór hópur hafði farist í Rögnaá, drukknað í krapaelg og snjó.
 Ég man vel þegar verið var að leita með löngum stöfum og prikum að kindum sem voru á kafi í sköflum. Sumar komu lifandi og náðu sér en aðrar voru ekki eins heppnar.

Sorgin var mikil hjá sjö ára stelpuskotti þegar í ljós kom að uppáhaldið hún Rössu-Golsa var á meðal þeirra kinda sem höfðu drepist í ánni. Fyrst var reynt að bera sig vel því það gerðu allir en þar kom að það var bara ekki hægt. Tárin fóru að skoppa og þá var ekki aftur snúið, Rössu-Golsa var syrgð með táraflóði og ekkasogum.


Í mínum huga er sagan mun lengri og ítarlegri en hún verður ekki sögð hér.

Mig langaði bara að deila þessu með ykkur því ég hef hugsa svo mikið um þennan atburð síðan hörmungarnar fyrir norðan hófust.

Bændurnir fyrir norðan eiga alla mína samúð og örugglega er einhver ungur sem misst hefur sína ,,Rössu-Golsu,, og saknar sárt.

Ég veit að það eru ekki allir sem skilja það hversu mikið mál þessar hörmungar eru fyrir fólkið þarna. Þetta er ekki bara tilfinningalegt tjón þetta er raunverulegt tekju og eignatjón.
Þegar fólk talar um það með háði að lömbin hafi hvort sem er verið á leið í dauðann fýkur í mig. Hvað geta menn verið heimskir ? Skylur fólk ekki að þetta er lífsafkoman hjá bændunum?
Auðvitað eru samt fleiri sem vita um hvað málið snýst og skylja að þetta eru náttúruhamfarir.

Ég sendi mína bestu straum til bændanna og allra þeirra sem koma að björguninni.
Megi ykkur ganga sem allra best í erfiðum aðstæðum.





11.09.2012 22:24

Réttar......dagsetningarnar 2012



Hér er þrumað ,,rollurokk,,  með kindalegu ívafi sem án nokkurs undirbúnings getur þróast í jass, hipphopp nú eða hvað sem er. Nú er að rifja upp og vera klár í réttarsönginn góða.
Það styttist nefninlega ótæpilega í réttirnar með öllu því tilstandi og fjöri sem þeim tilheyrir.

Hér læt ég fylgja með skipulagið okkar hér í Hlíðinni fyrir þessa fjörugu viku.

Miðvikudagur 19 september smala inní hlíð og útá hlíð.
Fimmtudagur 20 september smala Hlíðarmúla og lauma sér í Oddastaðafjallið.
Föstudagur 21 september aðalsmalamennskan Hlíðar og Hafurstaðaland.
Laugardagur 22 september Vörðufellsrétt á Skógarströnd.
Sunnudagur 23 september Rekið inn kl 9-10 hér í Hlíðinni og réttað.  Vigtað og sláturlömb sett út.
Mánudagur 24 september sláturlömb rekin inn og farið í gegnum hópinn.
Þriðjudagur 25 september lömb fara í sláturhús.
Miðvikudagur 26 september húsfreyjan bíður spennt eftir vigtarseðlinum sem veldur annað hvort gleði eða sorg.

Allir áhugasamir og góðir smalar velkomnir, hlökkum til að sjá ykkur.




Aðferðirnar við leitir eru misjafnar og miserfiðar, t.d þurfa ekki allir að geta þetta sem mæta í fjörið. En það er gott að geta bjargað sér ef á þarf að halda.



................og sumir gripir er líka óþekkari en aðrir þegar að leitum kemur en aðrir eru bara mættír í túnið full tímanlega.........nefnum engin nöfn en fyrstir ,,stafurinn,, er Golsa.

Já nú er það réttar undirbúningurinn sem kominn er á fulla ferð svona að flestu leit.

Ef að allt gengur upp nú í kvöld klárast að koma hánni í plast þetta árið. Þá er bara eftir að keyra heim nokkra tugi af rúllum og að því loknu eru það töðugjöldin.
Nýjustu rúllutölur eru orðnað ásættanlegar og bæði meiri og betri hey heldur en í fyrra.
Það er nú samt þannig að þegar maður heyrir fréttirnar að norðan þá er ekki laust við að stærri rúllustafli væri það sem mig dreymdi um.

Hér hefur verið rokið í skítmokstur þegar ekki hefur viðrað í  háarheyskap og er nú haughúsið í stóru fjárhúsunum orðið nærri tómt. Búið er að bera á flest túnin og búa til stóran haug sem gott verður að dreifa úr í vor. Minni fjárhúsin og svokallað merahús bíða þar til seinna í haust. Það eru mikil verðmæti í skítnum og eins gott að nýta hann eins og kostur er.

Tamningatryppin týnast nú heim hvert af öðru og verða mörg í fríi á meðan við stússum í kindum. En söluhestarnir verða skammt undan og haldið áfram að þjálfa þá, það eru síðan smalahestarnir sem munu eiga annríkt á næstunni.

01.09.2012 22:32

September er það nú ekki full snemmt?



,,Upp, upp, mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með,,

Þessar línur Hallgríms Péturssonar komu uppí hugann þegar ferðahópurinn fetaði sig upp Sneiðina einn blíðviðrisdaginn í sumar. Það er alltaf svo gott að hugsa málið á hestbaki og reyna að láta sér detta eitthvað skynsamlegt í hug. Mér hefur t.d oft dottið i hug að bjóða ríkisstjórninni á bak til að kanna hvort þetta eigi við rök að styðjast.
En þar sem ég bara trúi ekki á kraftaverk þá hef ég alltaf hætt við þau áform.



Nú styttist í smalamennskur og réttir þó svo að mér finnist örstutt síðan við slepptum fénu út. Já það er þorrablótið, sauðburðurinn, landsmót, heyskapur, réttir, fengitíminn og jólin........... meira hvað þessi tími líður.
Þessar kindur sem hvíldu sig á steininum Snorra í blíðunni höfðu engar áhyggjur af því hvað tímanum líður. Enda vita þær ekkert um fjárvís, fjallskil og fjörið sem réttunum fylgir.
Nú er bara að bíða eftir fjárbókinni góðu svo ég geti farið að leika sauðfjárbónda. Það var nú alltaf venjan að forvelja ásetningslömbin eftir bókinni og þeim siði hef ég haldið.
Á næstunni smelli ég inn dagsetningum með skipulagi á fjárragi okkar hér í Hlíðinni.
Get þó allavega sagt að líflegt verður 19-25 sept..............



Við erum afar ánægð með hvað vel tókst til með hestaferðina okkar um daginn og erum sífellt að rifja upp eitthvað skemmtilegt úr ferðinni. Á myndinni hér fyrir ofan er Björg að spjalla við Klamma litla son Hærings frá Kambi og Tignar frá Meðalfelli.
Freyja tamningatryppi fylgjist með og vildi endilega vera með á myndinni líka.
Hrossin fengu þriggja daga frí eftir ferðina en svo var haldið áfram við að temja og þjálfa.

Í gær kom Karún mín heim fylfull eftir Arion frá Eystra-Fróðholti og í síðustu viku sótti ég Snör sem var hjá Leikni frá Vakurstöðum og hana Gefn sem var hjá Frey frá Hvoli.
Gosi vinur minn frá Lambastöðum lauk skyldustörfum í stóðhestagirðingunni hjá okkur í vikunni og er nú farinn í hausthólfið sitt. Gosi er þar í góðum félagsskap þ.a.m er Blika okkar sem fékk að fljóta með þar sem hún var bara búin að vera í stuttan tíma hjá honum.

Heyskapurinn er enn í gangi en við eigum eftir að slá svolítið af há, þokkalega lítur orðið út með heyfeng en almennilegir bændur eru samt aldrei öruggir með að eiga nóg hey.

Og svo er það ,,like,, takkinn kæru fésbókarvinir.



  • 1