26.12.2010 23:07

Góð jól


Gleðilega hátíð kæru vinir, vonandi hafið þið haft það eins gott og við hér í Hlíðinni um jólin.
Já þau hafa verið hreint yndisleg með afslöppun og notalegheitum sem voru orðin kærkomin eftir mikið at og stúss síðustu vikurnar.
Takk fyrir allar skemmtilegu jólakveðjurnar svo að maður tali nú ekki um gjafirnar.
Talandi um gjafir já þær voru af ýmsum toga og allar góðar er samt einkar ánægð með hrútadagatalið. Feðgarnir fengu jólagjafir sem eru heldur betur sniðugar en ég þori ekki að segja frá þeim hér á síðunni, svona af einskærri tillitsemi við ykkur.
Jólamyndirnar koma von bráðar inná síðuna flestar eru þær nú af flottri frænku sem að hélt uppi stuðinu fram eftir kvöldi.



Já það er ýmislegt sem maður finnur í myndasafninu frá því herrans ári 2010.
Við fórum alveg heilan dag í frí og tókum okkur bíltúr um Borgarfjarðardali á leiðinni heim komum við að Húsafelli  og reyndum styrk okkar á hellunum góðu.



Það er skemmst frá því að segja að einn fjölskyldumeðlimur náið gripnum á loft en til að hinir njóti vafans þá er ekki birt mynd af því hér.



Þið getið svo bara í eyðurnar........................

Nú er tími hugmynda er varða áramótaheiti, mér persónulega líkar vel að ,,gleyma,, öllu svoleiðis en er samt að hugsa um að strengja eins og eitt um þessi áramót.
Hef bara ekki enn fundið spennandi verkefni sem er þess vert að gera eitthvað með það.
Flestir sem að ég þekki velja eitthvað heilsutengt eins og megrun endalausa hollustu eða eitthvað sem er nærri því víst frá fyrsta degi að þeir geti alls ekki haldið.
Ég lofa því að það er ekkert slíkt í mínum huga. Hef ennþá nokkra daga til að hugsa mig um.

24.12.2010 17:31

Gleðileg jól



Kæru vinir !

Við hér í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með kærum þökkum fyrir það líðna.

Á myndinni er jólakötturinn Salómon svarti að bíða eftir að pakkarnir verið opnaðir.

21.12.2010 23:01

Jólin eru að koma.....



Ég var að rifja upp árið í myndasafninu mínu og fann þessar glaðlegu og hressu dömur þar.
Astrid og Króna, Anne og Freyja, Sandra og Folda.

Nú er Astrid farinn til Danmerkur í jólafrí og Anne væntanleg á milli jóla og nýárs, spurning hvenær Sandra kemur aftur ? :)

Bakstri, þrifum og öðrum skemmtileg heitum er skipt bróðurlega á milli ábúenda svo að innan skamms tökum við undir í jólalaginu.........og syngjum ,,nú mega jólin koma fyrir mér,,
Hefðin er sterk og flestar uppskriftir þær sömu og síðast en þó með smá útúr dúrum.
Þrif og gardínuþvottur á sínum stað því hin hefðbundni vorhreingerningartíminn hentar mér afar illa. Á þeim tíma eru hestamót, dómstörf, sauðburður já og bara vorið og þá hemst ekki húsfreyjan inni við.

Á morgun er það svo jólasveinastarfið sem bíður pakkadreifingar með nettu hangikjötsívafi.

18.12.2010 12:26

Sauðfjárrækt og fundir

Það hefur margt á dagana drifið síðan ég bloggaði síðast og eins og þið hafið séð ekki verið mikill tími til ritsmíða.
Sauðfjárræktin hefur tekið drjúgan tíma,fundir og að sjálfsögðu jólaundirbúningur sem þó er kominn styttra en æskilegt getur talist.  En er maður ekki alltaf á síðustu stundu hvort eð er?

Hér voru kindur sæddar dagana 15 og 16 desember samtals 55 stykki.
Hrútarnir sem að notaðir voru þetta árið eru: Kveikur frá Hesti, Hukki frá Kjarláksvöllum, Hriflon frá Hriflu, Frosti frá Bjarnastöðum, Borði frá Hesti, Laufi frá Bergsstöðum, Kostur frá Ytri-Skógum, Ás frá Ásgarði, Bogi frá Heydalsá, Bokki frá Dunki og Sómi frá Heydalsá.
Nú stendur yfir mikill vísinda verknaður það er að segja velja samna gripi fyrir heimahrútana sem hafa góðfúslega afþakkað frekari ,,heimilisaðstoð,,
Nánar um það síðar.

Á fimmtudagskvöldið komum við í stjórn Félags tamningamanna saman og skelltum okkur á jólahlaðborð í höfuðborgina.
Skemmtilegt kvöld og mikið spjallað með góðu fólki, aldeilis næg verkefni framundan.
Takk fyrir kvöldið kæru vinir.

Á föstudaginn var svo fundur hjá Fagráði í hrossarækt, langur en góður fundur og mörg málefni rædd. Alltaf nóg um að vera hjá hestamönnum.


12.12.2010 23:46

Skemmtilegur dagur



Formaður Félags hrossabænda og fjallkóngur Kristinn Guðnason hlustar á sitt fólk syngja ,,gordjöss,, sönginn góða í afmælisveislunni í dag.

Það var brunað á suðurlandið í dag en Kristinn í Árbæjarhjáleigu fagnaði þar 60 árum.
Eins og við var að búsast var veislan vegleg og dugði ekkert annað en stórt íþróttahús undir mannskapinn. Já hundrað manns á hver 10 ár, ekki amalegur vinahópur það.
Ágúst rektor á Hvanneyri stjórnaði samkomunni og fórst það afar vel eins og við var að búast. Rifjaði hann upp margar skemmtilegar sögur frá samstarfsárum sínum og Kristins sem að allar voru drepfyndnar. Guðni Ágústsson fór á kostum bæði á sinn kostnað og afmælisbarnsins og margir fleiri lögðu sitt af mörkum til að skemmta afmælisbarninu og veislugestum. Svo er alltaf gaman að hitta hestafólk spá og spjalla að sjálfsögðu um hross.
 Já svo sannalega skemmtileg veisla og veitingarnar frábærar.
Takk fyrir skemmtilegan dag.

Ég lít nú öðru hverju á almanakið og tel dagana til jóla er samt enn róleg enda búin að baka slatta af smákökum. Verkefnalistinn er samt á sínum stað...........og fer ekki neitt.

12.12.2010 00:18

Ýmislegt..............



Sumarslökun...............

Í dag komu þrjú folöld í hús og er þá öll hersingin komin á vetrarstaðinn sinn.
Þau sem að komu inn í dag voru Gróa Glymsdóttir, Þjóðhátíð Glymsdóttir og Jörp Hlynsdóttir.
Viðja var líka tekin inn og nú hefst alvara lífsins hjá henni enda nokkuð ljóst að hún fer ekki í sjálftekið frí eins og í fyrravetur. Já nú var ekkert djamm og flandur í boði fyrir Viðju.
Hrellir sonur hennar dafnar vel og hefur engar áhyggjur af því að faðernið er ekki alveg á hreinu hjá honum.

Nú fer að styttast í að Mummi, Fannar og Gosi fari norður að Hólum í skólann en hann byrjar 12 janúar.
Til að komast í topp aðstöðu til að æfa sig hafa þeir félagar farið út í Söðulsholt og fengið að nota reiðhöllina til æfinga. Við höfum svo tekið önnur hross með og leikið okkur þar á kvöldin. Bæði við og hrossin hafa haft gagn og gaman af enda er þetta skemmtileg tilbreyting.
Takk kærlega fyrir okkur Söðulsholtsbændur.






07.12.2010 23:39

Of langt gengið ????



Stundum hellist yfir mann löngun í eitthvað t.d langar mig oft í súkkulaði en í kvöld var það engin spurning. Mig langaði mest af öllu að fara í hestaferð á Löngufjörur helst strax og í góðu veðri eins og myndin sýnir svo vel.
En sennilega er heppilegast að bíða til vors með þetta og í staðinn bara láta sig dreyma.

Já talandi um drauma, ég hef ekki verið sérstaklega áhugasöm um drauma síðan ég var táningur og það er nú svolítið síðan. Man þó að ef að ráðningin var ekki góð í einni draumráðningabók þá var það bara að fara í þá næstu, svo að maður tali nú ekki um þá þriðju. Algengasta ráðningin var þannig að draumurinn boðaði langlífi,dauða, giftingu eða ríkidæmi. Svo var bara að velja ,,réttu,, bókina miðað við aðstæður.
En í nótt dreymdi mig nágranna mína hinu meginn við fjallgarðinn, þau voru í miklu stússi við að smala kálfum og kindum. Og þar sem að mig dreymir svo sjaldan mátti ég til að segja frá draumnum í morgun. En þar sem að ég á enga draumráðningabók þá bara réð ég hann sjálf og ákvað að þetta boðaði það að eitthvað af fénu mínu kæmi í leitirnar. Kannske var þetta nú frekar óskhyggja en ráðning. En viti menn um hádegið er hringt, fjórar kindur fundnar og það var að sjálfsögðu annar granninn sem að mig dreymdi sem fann þær.
Skemmtileg tilviljun og hver veit nema ég fari að trúa ruglinu mínu eftir þetta.
Ætla samt að sofa rótt í nótt og láta ekki draumana trufla mig.

Jólastússið gengur hægt en örugglega hér á bæ, þó eru gamlar hefðir helst í hávegum og húsfreyjan leiðinlega vanaföst í þessum efnum.
Nú í morgun heyrði ég skemmtilegan pistil um Grýlu gömlu í morgunútvarpinu. Þar komu fram margar hugmyndir um það hvernig Grýla í ,,raunveruleikanum,, liti út. Ég fór að rifja upp hvernig hún hefði verið í mínum huga á yngri árum. Myndin var alveg skýr já það var sko mynd af henni í gömlu Vísnabókinni. Hún var ekki sérlega fríð en það var eitt sem að mér fannst spennandi og jafnvel öfundaði hana af á tímabili. Já hún var með hófa.
Hvað ætli ,,hrossasóttin,, geti gengið langt hjá börnum eins og mér????

05.12.2010 23:23

FT fundur



Víkingur deildastjóri hrossaræktardeildar Hólaskóla, Siggi Sæm Skeiðvallabóndi, Kristinn Hugason ráðuneytismaður og hestaskvísurnar Sússanna og Hrafnhildur.
Á föstudaginn var aðalfundur FT fundurinn var haldinn á Kænunni í Hafnarfirði.
Hér eru nokkrar svipmyndir frá fundinum en fleiri myndir koma í albúmið fljóttlega.



Þjóðólfshagabóndinn var í góðu sambandi og er einbeittur á svipinn hér.



Stund milli stríða, hér er starfsmaðurinn okkar og hægri hönd Hulda Guðfinna Geirsdóttir að gæða sér á veitingunum hjá Jonna Kænukokki.

Fleiri myndir síðar og fréttir á heimasíðu FT sem er tengill hér á síðunni.


02.12.2010 22:51

FT fundur og fleira

Það var fallegt vetrar veður hér í Hlíðinni í dag, örlítið frost, logn og sólin skein í fjöllin.
Já nú sést ekki sólin aftur hér fyrr en 14 jánúar og þá verða sko bakaðar pönnukökur að gömlum sið.
Svo er orðið svo jólalegt þegar við horfum uppí gamla hús, seríur og ljós í öllum gluggum.
Mér sýnist að ég sé nú þegar búin að tapa í fyrirhuguðu stjörnustríði.

Aðalfundur Félags tamningamanna er á morgun og verður haldinn á Kænunni í Hafnarfirði og hefst kl 18.oo
Auk venjulegra aðalfundastarfa mun Víkingur Gunnarsson deildarstjóri hrossaræktardeildar Hólaskóla kynna nýtt BS nám við skólann.
Kvöldverður í boði félagsins, vonandi sjá sér sem flestir fært að mæta og taka þátt í starfinu.

Nákvæmar hestafréttir bíða betri tíma en nú er heldur betur að lifna yfir hesthúsinu.
Ég held að besti hesturinn í dag hafi verið uppáhalds hesturinn minn.......................allavega sá næst besti.

29.11.2010 23:11

Aðventuannir..........



Eins og þið sjáið þá er jólaundirbúningur hafinn hér á bæ og þar sem að húsfreyjan hefur verið þó nokkuð upptekin að undan förnu, réð hún starfskraft í verkið.
Salómon svarti er liðtækur í margt.
Það er spurning hvort það var af nærsýni eða vandvirkni sem að kappinn var svona staðsettur við ,,vinnuna,, en allavega var áhuginn nægur.
Þegar vel liggur á okkur Salómon og rittíminn nægur ætlum við að deila með ykkur lífsreynslusögu.
Sagan er dramatísk, spennandi og með hrollvekjuívafi enda komumst við svo sannarlega í hann krappan.  Og erum við þó engir ,,kettlingar,,
Já njósnir, eftirför, flótti, neyðarkall og jafnvel enn alvarlegri mál koma fram í sögunni.........
Bíðið þið bara.............

Í dag var kíkt í ,,jólapakkana,, eins og það er kallað hér á bæ en það er  þegar Edda dýralæknir mætir á svæðið og sónar hryssurnar. Það er skemmst frá því að segja að allar hryssurnar sem að sónaðar voru og til stóð að væru fylfullar stóðust prófið.
Ég ætti nú að vera dugleg einhvern daginn og smella inn myndum af hryssunum og stóðhestunum sem eiga von á afkvæmum næsta vor.

Nú er hrútaskráin komin á náttborðið með gleraugun ofaná, svo að nú fara hlutirnir að gerast




29.11.2010 01:42

Örfréttir.

Góð helgi að baki þar sem farið var í skemmtilegt afmæli, árshátíð og matarboð.
Já alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk.
Afmælisveislan var hjá sextugum Svani sem að sló upp glæsilegri veislu með frábærum veitingum að hætti Kela verts á Görðum. Fyrrverandi borgarstjóri stjórnaði veislunni og fórst það afar vel, hagyrðingar fóru á kostum og múrarakórinn var flottur.
Virkilega gaman takk fyrir skemmtilega kvöldstund.

Flottar frænkur mættu líka í heimsókn um helgina ,,Hildirnar,, eins og ég kalla þær, hljómar samt ekki vel. En meiningin góð Hildur, E.Hildur, Ásthildur og Matthildur.
Nýbakað og flott af því tilefni í því efra.

Matarboð hjá yngra settinu í Skáney klikkar ekki, áttum skemmtilega kvöldstund þar með frábærum veitingum. Litli skemmtikrafturinn stóð sig líka vel og kunni vel að meta hversu auðvellt var að láta gestina hlæja eftir pöntun.

Skítmokstur var drifinn af föstudaginn og laugardaginn með góðri aðstoð ,,okkar,, manna.
Notaleg tilfinning þegar svona verkefni eru frá.

23.11.2010 22:46

Sparisjóður og vindurinn sem blæs............



Er ekki nauðsynlegt að smella inn svona vormyndum öðru hvoru með grænu grasi og blíðu ?
Svo gott fyrir sálina.
Þarna er hann Sparisjóður minn þegar hann var á gelgjualdrinum, alltaf kátur og ljúfur kallinn. Fyrir þá sem að ekki vita þá er Sparisjóður stóðhestur á fimmtavetur undan Gusti frá Hóli og Karúnu frá Hallkelsstaðahlíð. Sparisjóður var taminn þó nokkuð í fyrravetur en veiktist illa í vor og var í fríi í vor og sumar. Nú er hann aftur á móti kominn á járn og bara gaman hjá honum og þjálfaranum. Það eru til nokkur tryppi undan honum og sum bara nokkuð snotur með góðar hreyfingar og skemmtilegt geðslag.

Það er allt komið á fullt í hesthúsinu og það orðið fullt eins og vera ber á þessum tíma. Meðalaldurinn er ekki hár en skemmtanagildið er hátt og margt bara nokkuð spennandi.
Ungu tamningahrossin eru meðal annars undan Glym frá Skeljabrekku, Krafti frá Bringu, Baugi frá Víðinesi, Gosa frá Lambastöðum, Hersveini frá Lækjarbotnum, Blæ frá Hesti og Arði frá Brautarholti. Svo eru það söluhross og þjálfunarhestar sem margir eru undan góðum höfðingjum eins og Gusti frá Hóli, Hróðri frá Refsstöðum, Randver frá Nýja-Bæ, Stæl frá Miðkoti og nokkrum fleirum.

Á næstu dögum verður formlega gengið frá hrútaviðskipum ársins og lofa ég myndum af því tilefni. Eitt skyggir þó á þegar rætt er um hrúta á þessum bæ en Sindri minn Kveiksson er ennþá týndur. Eins gott að snúa útúr og  ,,trúa ekki því versta en vona það besta,,

Ég efast stórlega um að ég hafi greind til að kjósa til stjórnlagaþings svo sómi sé að svo  líklega sleppi ég því bara. Er samt á því að maður eigi alltaf að nota kosningaréttinn sérstaklega ef að maður er kona. Þannig að til þess að vera sjálfri mér samkvæm verð ég að reyna að vitgast stórlega þessa síðustu daga fram að kosningum.
Er reyndar nokkuð viss um að lítið muni koma útúr þessu veseni og finnst að margir frambjóðendur hafi verið orðnir svo æstir að komast í framboð í ,,einhverju,, að þeir hefðu gripið tækifærið óháð málefnum. En vafalaust er þetta allt hið vænsta fólk.
Annars er margt sem að ég ekki skil.................ætla að deila nokkrum atriðum með ykkur.
Í kvöld hlustaði ég á fréttirnar á Ruv þar var rætt við ráðherra sem að taldi það mikla gæfu að flytja málefni fatlaðra til sveitafélaganna. Ekki ætla ég að leggja mat á það en sperrti eyrun þegar hann dásamaði hversu gott það væri að hafa þetta allt í ,,nærumhverfinu,, flytja málefnið ,,heim,, ................eitthvað svo notalegt.
Einhverntímann heyrði ég að nálægðin væri versti óvinur lítilla samfélaga, kannske hef ég bara misskilið.
Annað mál hef ég sennilega líka misskilið...................mér finnst ég oft hafa heyrt fólk tala um það með talsverðu þjósti og í leiðinda tóntegund að eitthvað sé í ríkiseigu.
Svo nefnir þetta sama fólk atriði sem að best væru komin í þjóðareign ( orðið þjóðareign er þá gjarnan sagt lágt og í mjög ljúfum tóni)

Mín niðurstaða er að einhvers misskilnings gæti jafnvel meðal annara en mín.

Ríkiseign og þjóðareign ?????????? 

Nærumhverfi og ,,heima við hjá fólkinu,, ????

Amma sagði stundum ,, svona eins og vindurinn blæs,, góða.

Hvað finnst ykkur?





16.11.2010 22:57

Hún er vinsæl og veit af því



Sumir eru hreinlega vinsælli en aðrir...............hún Golsa á allavega marga vini og aðdáendur.

Um síðustu helgi komu nokkrir af vinum Golsu í heimsókn og í tilefni dagsins fékk hún pela.
Golsa er geðprýðis kind þó svo að hún sé með allt sitt algjörlega á tæru og svona heimsóknir kann hún vel að meta. Það eru aðallega þrengslin í réttunum og svoleiðis óþægindi sem að henni falla ekki vel í geð. Eins geta bæði smalar og smalahundar verið ansi þreytandi að hennar mati enda veit hún alveg hvar helstu nauðsynjar eru og er fullfær um að finna þær.
Þar sem að tími jólaklippinga í fjárhúsunum stendur sem hæst var upplagt að Golsa fengi klippingu á meðan aldáendurnir voru í heimsókn. En fyrst varð hún náttúrulega að fá pela.

Ég smelli nokkurum myndu af viðburðinum og setti þær hér inná síðuna undir myndaalbúm.
Eins eru líka nýjar myndir af þeim Snotru og Badda í myndaalbúminu.

15.11.2010 09:23

Snotra og Baddi frændi



Snotra mín og Baddi frændi úr Garaðabænum............vá hvað þú ert flottur frændi.

Baddi er fæddur hér í Hlíðinni undan gömlu Snotru minni og Rebba sem að lengst af bjó í Hundadal. Baddi flutti í Garðabæinn ungur að árum og hefur átt þar draumaævi hjá Erlu Guðnýju og fjölskyldu.
Hann er samt alltaf kátur að koma í heimsókn á æskuslóðirnar og fá smá útrás.



Og svo smá sirkus á hestasteininum í sólinni.

Ég set inn fleiri myndir af Snotru og Badda við tækifæri.

Við fengum góða heimsókn um helgina og var ýmislegt brallað en það er alveg klárt að Golsa heimalingur var í aðalhlutverkinu.
Myndir frá því koma inn þegar ég hef meiri tíma.

Alltaf nóg um að vera á næstunni stendur til að klára aftekningar, skítmokstur og  fundir eru á döfinni, tamningar og margt fleira.

12.11.2010 21:42

Veturinn er kominn



Æi það hefur verið svo leiðinlegt veður hér í Hlíðinni að undan förnu að mér fannst vel við hæfi að setja inn vormynd.
Þarna eru mæðgurnar Karún og Auðséð Sporðsdóttir að sóla sig og smakka á græna grasinu.

Um síðustu helgi var tekin sú ákvörðun hér á bæ að taka elstu folöldin undan og setja þau inn.
Yngstu folöldin fá að vera lengur með mæðrum sínum hér heima á túni. Ekki er annað að sjá en að allt gangi vel og eru allir að verða nokkuð kátir þó að mæðurnar séu farnar.
Veturgömlu tryppin voru tekin sér og hafa tún og rúllu útaf fyrir sig.
Nú hafa allir hestar hér í Hlíðinni fengið vetrarormalyfið sitt og ættu því að vera í góðum málum.

Síðustu dagar hafa verið járningardagarnir miklu hjá Mumma og nú er allur hópurinn að verða kominn á skafla, ekki veitir af.

Ég hef aðeins verið að ,,spjalla,, við litla vin minn hann Kát Auðsson síðustu daga til að kynnast honum betur. Kátur er styggari en afkvæmi Karúnar hafa verið en viðmótið svipað. Hann er svolítið efins um að ég sé eitthvað áhugaverð og finnst þessar heimsóknir í stíuna hans frekar þreytandi og tilgangslausar. Sennilega hálfgert kellingatuð.

Ég fékk góðar fréttir af Glotthildi sem að nú sprangar um í Svíaríki og hefur það greinilega mjög gott. Gaman af því.

Í dag kom ein af óheimtu kindunum í leitirnar og með í för var lamb sem hafði komið heim fyrr í haust en stungið svo af á vit ævintýranna.
Þá er hægt að skrifa mínus tveir á blaðið góða.
Rúningur potast áfram en slatti reyndist eftir þegar síðasta talning fór fram í dag.