07.12.2010 23:39

Of langt gengið ????Stundum hellist yfir mann löngun í eitthvað t.d langar mig oft í súkkulaði en í kvöld var það engin spurning. Mig langaði mest af öllu að fara í hestaferð á Löngufjörur helst strax og í góðu veðri eins og myndin sýnir svo vel.
En sennilega er heppilegast að bíða til vors með þetta og í staðinn bara láta sig dreyma.

Já talandi um drauma, ég hef ekki verið sérstaklega áhugasöm um drauma síðan ég var táningur og það er nú svolítið síðan. Man þó að ef að ráðningin var ekki góð í einni draumráðningabók þá var það bara að fara í þá næstu, svo að maður tali nú ekki um þá þriðju. Algengasta ráðningin var þannig að draumurinn boðaði langlífi,dauða, giftingu eða ríkidæmi. Svo var bara að velja ,,réttu,, bókina miðað við aðstæður.
En í nótt dreymdi mig nágranna mína hinu meginn við fjallgarðinn, þau voru í miklu stússi við að smala kálfum og kindum. Og þar sem að mig dreymir svo sjaldan mátti ég til að segja frá draumnum í morgun. En þar sem að ég á enga draumráðningabók þá bara réð ég hann sjálf og ákvað að þetta boðaði það að eitthvað af fénu mínu kæmi í leitirnar. Kannske var þetta nú frekar óskhyggja en ráðning. En viti menn um hádegið er hringt, fjórar kindur fundnar og það var að sjálfsögðu annar granninn sem að mig dreymdi sem fann þær.
Skemmtileg tilviljun og hver veit nema ég fari að trúa ruglinu mínu eftir þetta.
Ætla samt að sofa rótt í nótt og láta ekki draumana trufla mig.

Jólastússið gengur hægt en örugglega hér á bæ, þó eru gamlar hefðir helst í hávegum og húsfreyjan leiðinlega vanaföst í þessum efnum.
Nú í morgun heyrði ég skemmtilegan pistil um Grýlu gömlu í morgunútvarpinu. Þar komu fram margar hugmyndir um það hvernig Grýla í ,,raunveruleikanum,, liti út. Ég fór að rifja upp hvernig hún hefði verið í mínum huga á yngri árum. Myndin var alveg skýr já það var sko mynd af henni í gömlu Vísnabókinni. Hún var ekki sérlega fríð en það var eitt sem að mér fannst spennandi og jafnvel öfundaði hana af á tímabili. Já hún var með hófa.
Hvað ætli ,,hrossasóttin,, geti gengið langt hjá börnum eins og mér????