26.12.2010 23:07

Góð jól


Gleðilega hátíð kæru vinir, vonandi hafið þið haft það eins gott og við hér í Hlíðinni um jólin.
Já þau hafa verið hreint yndisleg með afslöppun og notalegheitum sem voru orðin kærkomin eftir mikið at og stúss síðustu vikurnar.
Takk fyrir allar skemmtilegu jólakveðjurnar svo að maður tali nú ekki um gjafirnar.
Talandi um gjafir já þær voru af ýmsum toga og allar góðar er samt einkar ánægð með hrútadagatalið. Feðgarnir fengu jólagjafir sem eru heldur betur sniðugar en ég þori ekki að segja frá þeim hér á síðunni, svona af einskærri tillitsemi við ykkur.
Jólamyndirnar koma von bráðar inná síðuna flestar eru þær nú af flottri frænku sem að hélt uppi stuðinu fram eftir kvöldi.Já það er ýmislegt sem maður finnur í myndasafninu frá því herrans ári 2010.
Við fórum alveg heilan dag í frí og tókum okkur bíltúr um Borgarfjarðardali á leiðinni heim komum við að Húsafelli  og reyndum styrk okkar á hellunum góðu.Það er skemmst frá því að segja að einn fjölskyldumeðlimur náið gripnum á loft en til að hinir njóti vafans þá er ekki birt mynd af því hér.Þið getið svo bara í eyðurnar........................

Nú er tími hugmynda er varða áramótaheiti, mér persónulega líkar vel að ,,gleyma,, öllu svoleiðis en er samt að hugsa um að strengja eins og eitt um þessi áramót.
Hef bara ekki enn fundið spennandi verkefni sem er þess vert að gera eitthvað með það.
Flestir sem að ég þekki velja eitthvað heilsutengt eins og megrun endalausa hollustu eða eitthvað sem er nærri því víst frá fyrsta degi að þeir geti alls ekki haldið.
Ég lofa því að það er ekkert slíkt í mínum huga. Hef ennþá nokkra daga til að hugsa mig um.