13.09.2012 23:18

Gömul saga



Nokkur ár eru nú liðin frá því þessi mynd var tekin af okkur Heimalings-Golsu.

Eins og flestum sauðfjárbændum hefur mér verið hugsað til starfsbræðra minna fyrir norðan síðustu daga. Myndir þar sem verið er að draga fé úr fönn hafa vakið upp minningar frá löngu liðnum atburði sem að aldrei gleymast.
Mér fannst ótrúlega stutt síðan en auðvitað er það bara hversu minningin var slæm sem hún er svona ofarlega í huganum.
Til að staðfesta ár og tíma fór ég og fékk að fletta uppí dagbók Ragnars frænda míns. Það var reyndar alveg óþarfi að lesa dagbækur til að rifja þetta upp, að því komst ég svo sannarlega í gær. Þegar ég fór að minnast á þennan atburð sem ég ætla að segja ykkur aðeins frá opnaðist flóðgátt með upplýsingum um þessa daga hjá þeim systkynum í gamla bænum.

Það var árið 1972 þann 28 október sem var afmælisdagur Hrafnhildar ömmu minnar.

Þann dag gerði hörkubyl með þeim afleiðingum að hátt í 30 kindur fórust í Rögnaá.
Um morguninn þegar veður útlit og veðurspá voru slæm fóru móðurbræður mínir strax að smala. Veðrið versnaði fljótt og upp úr miðjum degi var ljóst að ekki næðist að koma öllu fénu heim. Árnar að verða ófærar,  skyggni lítið sem ekkert og fé farið að leita í skjól hvar sem færi gafst. Mikil hætta skapaðist þegar féð fór að hrekjast undan veðrinu og leita skjóls á stöðum þar sem snjósöfnun var mikil.  Hætta var á að féð mundi hrekjast  í Hlíðarvatn með  skelfilegum afleiðingum. Var því bruggðið á það ráð að safna því fé sem náðst hafði að koma út fyrir árnar saman á stað sem kallast Köst. Þar var staðið yfir því og þess gætt alla nóttina því ekki var viðlit að koma því heim í veðurofsanum. Ég hef oft hugsað um það hvernig það hefur verið að standa yfir fénu í brjáluðum byl heila nótt, eftir að hafa staðið í erfiðri smalamennsku allan daginn.
Og ekki voru kuldagallarnir komnir til sögunnar þá.
 Morguninn eftir slotaði veðrinu svo hægt var að koma þessum hópi heim. Strax var farið af stað eftir svefnlitla eða svefnlausa nótt til að freysta þess að finna fleira fé.
Það var þá sem kom í ljós að stór hópur hafði farist í Rögnaá, drukknað í krapaelg og snjó.
 Ég man vel þegar verið var að leita með löngum stöfum og prikum að kindum sem voru á kafi í sköflum. Sumar komu lifandi og náðu sér en aðrar voru ekki eins heppnar.

Sorgin var mikil hjá sjö ára stelpuskotti þegar í ljós kom að uppáhaldið hún Rössu-Golsa var á meðal þeirra kinda sem höfðu drepist í ánni. Fyrst var reynt að bera sig vel því það gerðu allir en þar kom að það var bara ekki hægt. Tárin fóru að skoppa og þá var ekki aftur snúið, Rössu-Golsa var syrgð með táraflóði og ekkasogum.


Í mínum huga er sagan mun lengri og ítarlegri en hún verður ekki sögð hér.

Mig langaði bara að deila þessu með ykkur því ég hef hugsa svo mikið um þennan atburð síðan hörmungarnar fyrir norðan hófust.

Bændurnir fyrir norðan eiga alla mína samúð og örugglega er einhver ungur sem misst hefur sína ,,Rössu-Golsu,, og saknar sárt.

Ég veit að það eru ekki allir sem skilja það hversu mikið mál þessar hörmungar eru fyrir fólkið þarna. Þetta er ekki bara tilfinningalegt tjón þetta er raunverulegt tekju og eignatjón.
Þegar fólk talar um það með háði að lömbin hafi hvort sem er verið á leið í dauðann fýkur í mig. Hvað geta menn verið heimskir ? Skylur fólk ekki að þetta er lífsafkoman hjá bændunum?
Auðvitað eru samt fleiri sem vita um hvað málið snýst og skylja að þetta eru náttúruhamfarir.

Ég sendi mína bestu straum til bændanna og allra þeirra sem koma að björguninni.
Megi ykkur ganga sem allra best í erfiðum aðstæðum.





11.09.2012 22:24

Réttar......dagsetningarnar 2012



Hér er þrumað ,,rollurokk,,  með kindalegu ívafi sem án nokkurs undirbúnings getur þróast í jass, hipphopp nú eða hvað sem er. Nú er að rifja upp og vera klár í réttarsönginn góða.
Það styttist nefninlega ótæpilega í réttirnar með öllu því tilstandi og fjöri sem þeim tilheyrir.

Hér læt ég fylgja með skipulagið okkar hér í Hlíðinni fyrir þessa fjörugu viku.

Miðvikudagur 19 september smala inní hlíð og útá hlíð.
Fimmtudagur 20 september smala Hlíðarmúla og lauma sér í Oddastaðafjallið.
Föstudagur 21 september aðalsmalamennskan Hlíðar og Hafurstaðaland.
Laugardagur 22 september Vörðufellsrétt á Skógarströnd.
Sunnudagur 23 september Rekið inn kl 9-10 hér í Hlíðinni og réttað.  Vigtað og sláturlömb sett út.
Mánudagur 24 september sláturlömb rekin inn og farið í gegnum hópinn.
Þriðjudagur 25 september lömb fara í sláturhús.
Miðvikudagur 26 september húsfreyjan bíður spennt eftir vigtarseðlinum sem veldur annað hvort gleði eða sorg.

Allir áhugasamir og góðir smalar velkomnir, hlökkum til að sjá ykkur.




Aðferðirnar við leitir eru misjafnar og miserfiðar, t.d þurfa ekki allir að geta þetta sem mæta í fjörið. En það er gott að geta bjargað sér ef á þarf að halda.



................og sumir gripir er líka óþekkari en aðrir þegar að leitum kemur en aðrir eru bara mættír í túnið full tímanlega.........nefnum engin nöfn en fyrstir ,,stafurinn,, er Golsa.

Já nú er það réttar undirbúningurinn sem kominn er á fulla ferð svona að flestu leit.

Ef að allt gengur upp nú í kvöld klárast að koma hánni í plast þetta árið. Þá er bara eftir að keyra heim nokkra tugi af rúllum og að því loknu eru það töðugjöldin.
Nýjustu rúllutölur eru orðnað ásættanlegar og bæði meiri og betri hey heldur en í fyrra.
Það er nú samt þannig að þegar maður heyrir fréttirnar að norðan þá er ekki laust við að stærri rúllustafli væri það sem mig dreymdi um.

Hér hefur verið rokið í skítmokstur þegar ekki hefur viðrað í  háarheyskap og er nú haughúsið í stóru fjárhúsunum orðið nærri tómt. Búið er að bera á flest túnin og búa til stóran haug sem gott verður að dreifa úr í vor. Minni fjárhúsin og svokallað merahús bíða þar til seinna í haust. Það eru mikil verðmæti í skítnum og eins gott að nýta hann eins og kostur er.

Tamningatryppin týnast nú heim hvert af öðru og verða mörg í fríi á meðan við stússum í kindum. En söluhestarnir verða skammt undan og haldið áfram að þjálfa þá, það eru síðan smalahestarnir sem munu eiga annríkt á næstunni.

01.09.2012 22:32

September er það nú ekki full snemmt?



,,Upp, upp, mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með,,

Þessar línur Hallgríms Péturssonar komu uppí hugann þegar ferðahópurinn fetaði sig upp Sneiðina einn blíðviðrisdaginn í sumar. Það er alltaf svo gott að hugsa málið á hestbaki og reyna að láta sér detta eitthvað skynsamlegt í hug. Mér hefur t.d oft dottið i hug að bjóða ríkisstjórninni á bak til að kanna hvort þetta eigi við rök að styðjast.
En þar sem ég bara trúi ekki á kraftaverk þá hef ég alltaf hætt við þau áform.



Nú styttist í smalamennskur og réttir þó svo að mér finnist örstutt síðan við slepptum fénu út. Já það er þorrablótið, sauðburðurinn, landsmót, heyskapur, réttir, fengitíminn og jólin........... meira hvað þessi tími líður.
Þessar kindur sem hvíldu sig á steininum Snorra í blíðunni höfðu engar áhyggjur af því hvað tímanum líður. Enda vita þær ekkert um fjárvís, fjallskil og fjörið sem réttunum fylgir.
Nú er bara að bíða eftir fjárbókinni góðu svo ég geti farið að leika sauðfjárbónda. Það var nú alltaf venjan að forvelja ásetningslömbin eftir bókinni og þeim siði hef ég haldið.
Á næstunni smelli ég inn dagsetningum með skipulagi á fjárragi okkar hér í Hlíðinni.
Get þó allavega sagt að líflegt verður 19-25 sept..............



Við erum afar ánægð með hvað vel tókst til með hestaferðina okkar um daginn og erum sífellt að rifja upp eitthvað skemmtilegt úr ferðinni. Á myndinni hér fyrir ofan er Björg að spjalla við Klamma litla son Hærings frá Kambi og Tignar frá Meðalfelli.
Freyja tamningatryppi fylgjist með og vildi endilega vera með á myndinni líka.
Hrossin fengu þriggja daga frí eftir ferðina en svo var haldið áfram við að temja og þjálfa.

Í gær kom Karún mín heim fylfull eftir Arion frá Eystra-Fróðholti og í síðustu viku sótti ég Snör sem var hjá Leikni frá Vakurstöðum og hana Gefn sem var hjá Frey frá Hvoli.
Gosi vinur minn frá Lambastöðum lauk skyldustörfum í stóðhestagirðingunni hjá okkur í vikunni og er nú farinn í hausthólfið sitt. Gosi er þar í góðum félagsskap þ.a.m er Blika okkar sem fékk að fljóta með þar sem hún var bara búin að vera í stuttan tíma hjá honum.

Heyskapurinn er enn í gangi en við eigum eftir að slá svolítið af há, þokkalega lítur orðið út með heyfeng en almennilegir bændur eru samt aldrei öruggir með að eiga nóg hey.

Og svo er það ,,like,, takkinn kæru fésbókarvinir.



28.08.2012 23:20

Ben Stiller og við hin í Hnappadalnum og Hollywood



Þarna eru tveir vinir að að deila visku, Vörður frá Hallkelsstaðahlíð og Vængur frá Vorsabæ.

Ég hef oft sagt það og stend við það ..............Hnappadalurinn er Guðdómlegur en ekki óraði mig nú samt fyrir því að gamla góða Hollywood pakkaði í töskur og mætti í dalinn.
En það er nú samt orðið að veruleika eða svona næstum því......ekki það að rauðir dreglar renni út við hvert fótmál eins og við mætti búast heldur voru hér í dalnum umferðatafir.
Já við hér í Hnappadalnum þekkjum vart aðrar tafir en holótta og ómokaða vegi ef við brunum af bæ en nú var það ,,ógeðslega,, frægur gæi sem notar gróðursnauðu mela til að búa til  stórmynd.
Datt mér ekki í hug ósnortinn einfaldleikinn er miklu meira virði en við getum ímyndað okkur og það sem meira er við þurfum kall frá gamla Hollywood til að segja okkur það.
Spurning um að finna annan sem hlustað væri á til að segja okkur að drita ekki trjám út um allt. Ekki það að ég sé á móti skógrækt heldur má nú öllu ofgera.
Það var nefninlega þannig að þegar húsfreyjan brunaði heim úr Borgarnesi þá brá henni heldur í brún þegar heljarinnar bílalest stóð í vegkanntinum. Fyrsta hugsun var að eitthvað hefði komi fyrir en svo þegar betur var að gáð kom í ljós að svo var ekki heldur var tökulið frá Ben Stiller stórleikara að störfum. Umferðin var sem sé stoppuð frá báðum áttum í þó nokkra stund á meðan tökur fóru fram. Hópur af fólki þeyttist fram og aftur en kom reglulega til að vita hvort töfin væri óþægileg fyrir mig  eða hvort ég væri nokkuð að tapa glórunni. Ég fullvissaði yfirmáta kurteisan mann um að töfin væri þægileg og glóran löngu farin.  Á meðan ég beið eftir að komast leiðar minnar skemmti ég mér við þá tilhugsun hvað hefði gerst ef að myndatökurnar hefðu farið fram á sunnudaginn.En þá  fórum við ríðandi þessa leið með áttatíu hrossastóð sem var nú ansi fyrirferðarmikið og ekki sérlega sviðsvant.
Þegar svo losnaði um umferðarhnútinn brunaði ég áfram og var svo heppin að berja Stillerinn augum.  
Ég er ekki vel að mér í frægum leikurum en mun nú sennilega þekkja þennan aftur svo nú er það ekki bara Mr Bean og Baltasar Kormákur sem ég kannast við.
Já Hnappadalurinn er staðurinn sem allt gerist sem máli skiptir.

Langar í lokin að benda ykkur á að nú er kominn ,,like,, hnappur frá fésbókinni hér fyrir neðan sem gerir lífið bara skemmtilegra. Takk þið sem smellið á hann ég er að safna lækum.

27.08.2012 00:37

Fjórir fimm og sex



Já Löngufjörur eru engu líkar og ekkert jafnast á við hestaferð í góðra vina hópi.

Við riðum frá Tröðum á fjórða degi hestaferðarinnar og að Hömluholti, veðrið var gott fyrir utan smá strekking sem að skaðaði engan. Við fengum enn fleiri skemmtilega samferðamenn sem gerðu daginn bara skemmtilegri. Á fimmtadegi var riðið frá Hömluholti að Kolbeinsstöðum og á þeim sjötta þ.e.a.s núna í dag var riðið frá Kolbeinsstöðum og hingað heim. Aldrei að vita hvað gerist svo...........



Þórdís okkar Anna kom brunandi alla leið frá Hólum til að ríða með okkur og að öllum góðum ólöstuðum þá gladdi það okkur alveg sérstaklega. Alltaf svo gaman að fá Dísuna sína í heimsókn. Sjáið þið bara hvað yfirtrússinn varð ánægður að sjá hana.



Sæunn kom líka og tók góðan spöl með okkur en verður að hafa hann lengri næst, þarna er frúin að uppfræða Skúla og Proffi minn hlustar af athygli á boðskapinn.



Þessar skvísur lögðu á Arðssynina Vörð og Baltasar frá Hallkelsstaðahlíð  þegar við riðum frá Tröðum. Þær ,,klæddu,, þá bara ansi vel stelpurnar verst að eiga ekki myndir af þeim á fjörunni.




Þetta er nú afar sjaldgæf sjón en þarna er húsfreyjan í símanum...........og takið eftir kella bara komin á snúruna í miðri hestaferð..........



Þessi mynd er tekin í réttinni á Stakkhamarsnesinu, Björg, Hrannar, Skúli, Arnar, Jón Bjarni og Anna Dóra.



Þessi tvö Astrid og Baltasar brostu hringinn og voru voða ánægð með hvort annað.



Þarna er Björg með gripinn sinn Leistur frá Hallkelsstaðahlíð, voða sæta saman finnst ykkur ekki?



Þessar tvær eru vígalegar á ,,Svennabar,, en það er pallinn á trússbílnum sem geymir allt frá járningasteðja til glæsilegustu veitinga.

Þetta var frábær ferð sem heppnaðist með allra besta móti þökk sé fólkinu, hestunum og veðurguðinum sem stóð sig nokkuð vel þó að lognið færi nú full hratt bæði í gær og í dag,

Fleiri myndir koma á næstu dögum en þær skipta hundruðum eftir ferðina.

24.08.2012 00:08

Dagur þrjú



Hjá okkur í Ferðafélaginu beint af augum er reglulega yfirfært vald svona eins og hjá forsetanum. Á myndinni hér fyrir ofan er einmitt svoleiðis athöfn í gangi, þarna skiptast frændurnir Mummi og Arnar á ,,öndvegissúlunum,, sem tákna hver má vera í forreið þennan daginn. Þetta er hátíðleg athöfn en kostar ekki eins mikið og hjá forsetanum.



Já í dag var það dagur númer þrjú í ferðinni góðu en þá riðum við frá Hömluholti að Tröðum.
Ferðin gekk vel þó svo að smá sprettir væru teknir fyrir hross sem að vildu kanna nýjar leiðir. Verðum reyndar að sækja eina hryssu á morgun sem að brá sér í annan og  (að hennar mati) skemmtilegri hóp. Já það getur líka verið misjafn smekkur hrossa.
Skemmtilegt fólk bættist í hópinn svo að fjörið heldur áfram hjá okkur.
Þau eru brosmild þarna húsfreyjan á Bergi og meðreiðarsveinn okkar til tveggja ára.



Við fengum fylgd frá Hömluholti en hún Amanda reið með okkur niður að Skógarnesi.
Þarna erum við að leggja í hann, Astrid með Rebekku, Hrannar með Nótt og Björg og Ríkur kíkja þarna fyrir aftan.



Það er ánægjulegt til þess að vita að hugsað sé til manns jafnvel þó maður standi sig illa í að heimsækja fólk og hafa samband. Þarna erum við Hattur að hugsa um dásamlegu sendinguna sem við fengum í gær.
Kærar þakkir sendum við á viðeigandi staði ef að svona sending toppar ekki matseðilinn í hestaferð hvað þá ????

Í dag tók nýtt skipulag gildi hjá ferðafélaginu en það felur í sér að allir þeir sem að detta af baki eða gera eitthvað sem kallar á nauðsynlegar refsingar verða að baka köku.
Deildar meiningar eru um það hversu agabrotin eða bilturnar skulu vera greinilega útfærðar en þar sem til stendur að bæta við hreingerningarkröfum er ekki líklegt að neinn skorist undan bakstrinum.
Ég veit ekki hvort stefnir í kökuhlaðborð en þær eru allavega orðnar tvær...................

Það voru teknar ca 300 myndir í dag svo að vonandi skilar ljósmyndarinn þeim hér á síðuna við tækifæri.

22.08.2012 21:42

Dagur tvö



Kyrrlát kvöld......... það er dásamleg upplifun með stóran hrossahóp í góðra vina hópi.
Þarna erum við í rökkrinu að kveðja fylgdarfólkið okkar sem reið með okkur niður að Mýrdalsrétt í blíðunni í gær.

Dagurinn í dag var bjartur og skýr með 15 stiga hita, andvara og sólarskímu af og til.
Getur varla orðið mikið betra svona í hestaferð seinni hluta sumars.
Hrossin voru sæl og róleg þegar við rákum þau saman í girðingunni á Kolbeinsstöðum enda gat nú varla farið betur um þau.
Sverrir frændi minn á úrvalshestahaga með nægu rennandi vatni fyrir þreytt ferðahross.
Svolíðið þurfti að járna og var tíminn sem fór í það nýttur til að ferja bíla fyrir mannskapinn svo að allt yrði nú klárt þegar við kæmum í Hömluholt. Vaskir bílstjórar fóru í það.
Já það verður að skipta liði þegar allir eru í hestaferð til að njóta og nota.
Feðgarnir járnuðu, Arnar og Astrid voru íhaldsfólkið og húsfreyjan tuðaði því auðvitað voru það spari spari gripirnir hennar sem voru járnalausir. Kellu var tilkynnt að ef að hún tuðaði meira þá væri bara eitt í stöðunni og það væri að hún járnaði þessa spariræktun sína sjálf, nú eða hætti þessari ,,undantætingsreið,,  Hvort væri nú betra ???
Samræðurnar snérust því uppí alskynns hrossakaup um járningar í skiptum fyrir eldamennsku eða bakstur. Jafnvel var viðruð sú hugmynd að dregið væri úr potti hver ætti að bera ábyrgð á járningu húsfreyjubleiks.
En allt hafðist þetta og á endann varð allt tilbúið til brottfarar og þá var riði frá Kolbeinsstöðum niður með Hafffjarðará yfir hana og útá fjörurnar við Kolviðarnes.
Það lifnaði  óþarflega mikið yfir hrossahópnum þegar útá fjörurnar var komið en allt gekk vel og þegar Gísli bóndi í Hömluholti kom á móti okkur var stefnan tekin í land.
Í Hömluholti beið hrossana kærkomin hvíld, áður en við fórum heim gáfum við okkur þó tíma til að skoða tryppin hjá Gísla. Þar sem ég er mikill Glottaaðdáandi þá fannst mér gaman að sjá gullgóða Glottadóttir sem Gísli sýndi okkur í reið. Bara spennandi tryppi þar á ferð.
Það er gaman að fylgjast með ungu tryppunum þegar þau fara í sinn fyrsta rekstrartúr. Sum þeirra eyða orkunni í að þjóta fram og til baka en önnur finna sér stað þar sem þau eyða sem minnst af orku og litlar líkur eru á að eldri hrossin taki í þau. Einn upprennandi öðlingur fylgdi okkur sem riðum á undan í dag, gætti þess samt að fara ekki frammúr en var eins og hann væri teymdur við hliðina á hestunum. Ekki minnkaði uppáhaldið á honum hjá mér þegar í áfangastaðina var komið því þá var hann skammt undan, ekki frekur en tilbúinn til að ,,spjalla,, við okkur.

Á morgun er nýr dagur og þá verður haldið í vesturátt og fjörið heldur áfram.

21.08.2012 23:53

Dagur eitt



Nú er komið að því ................................. við erum lögð af stað í árlega hestaferð Ferðafélagsins beint af augum.
Myndin sem hér er fyrir ofan er ,,heimildarmynd,, frá venjubundnum matartíma sem við tökum gjarnan á svona ferðalögum. Þarna voru ber í matinn og  ,,borðhaldið,, hefðbundið.

Síðustu dagar hafa verið vel nýttir til járninga og undirbúnings fyrir ferðina, mér telst til að hér á bæ sé búið að járna á annað hundrað hófa. Hóflegt það eða finnst ykkur það ekki ?
Þó svo að ferðin hafi byrjað formlega í dag þá var Arnar frændi minn og ferðafélagi búinn að taka forskot á sæluna og kom ríðandi til okkar í gær. Já hann missir ekki nokkurn part úr ferðinni kappinn sá. Við fengum svo góða fylgd frá Siggu Jónu og Bjarka í Hraunholtum sem riðu með okkur niður fyrir Mýrdalsrétt.
Já ferðinn byrjaði sem sagt með því að við riðum héðan úr Hlíðinni og niður að Kolbeinsstöðum. Stutt og góð dagleið sem er gott fyrir menn og hesta svona í byrjun þetta er jú bland af fríi og vinnu bæði fyrir okkur og hrossin.
Það er stundum líflegt þegar lagt er af stað með stóran rekstur en það gekk bara vel í dag.
Við vorum sex sem riðum af stað héðan úr Hlíðinni, fjölgaði svo í Hraunholtum og á enn eftir að fjölga í hópnum á morgun. Þá bætist við Borgfirðingur, suðurnesjamaður og jafnvel einhverjir fleiri hver veit.
Ég ætla að reyna segja ykkur frá ferðinni jafnóðum ef að mér endist þolinmæði til að setjast við tölvuna og lemja lyklaborðið á kvöldin. Að sjálfsögðu verða sögurnar sannar nema þegar skemmtanagildi sögunnar skerðist af sannleikanum þá verður við því bruggðist.

Á morgun er ferðinni heitið í Hömluholt.

16.08.2012 12:01

Sumar og hiti



Mistur og hiti er það veður sem hefur verið í boði hér í Hlíðinni síðustu daga, svolítið sérstakt að fá rúmlega 20 stiga hita en enga sól. En að sjálfsögðu þökkum við fyrir alla góða daga hvernig sem notalegheitin eru tilkomin. Nú er hinsvegar kominn brakandi þurrkur hiti, blástur og sól.

Nýjustu hryssufréttirnar eru þær að nú eru Skúta komin heim fylfull eftir Álfarinn frá Syðri-Gegnishólum, Létt eftir Topp frá Auðsholtshjáleigu og Kolskör eftir Arð frá Brautarholti.
Rák var svo sónuð fyllfull hér heima en hún var hjá honum Gosa frá Lambastöðum.

Ferðahópar hafa verið hér á ferðinni síðustu daga reyndar eins og í allt sumar. Í vikunni kom hingað stór hópur sem var á vegum Íshesta eða þeirra heiðurshjóna Sigga og Ólafar á Stóra-Kálfalæk. Góður hópur í óvissuferð fór hér um síðast liðinn laugardag og reið árnar hér fyrir innan í miklum vatnavöxtum. Og fyrir nokkru riðu sveitungar að vestan hér um og fóru yfir Klifshálsinn og niður í Hítardalinn. Já það er búið að ríða allar helstu reiðleiðir til og frá okkur hér í Hlíðinni þetta sumarið.
Við eigum svo eftir að skella okkur í hestaferðina okkar þ.e.a.s árlega síðsumars og tamningaferð. Eruð þið með???
Hjá okkur í sveitinni er hellingur eftir af sumrinu þó svo að skólarnir séu að byrja og allt að færast í vetrarskorður hjá ,,venjulegu,, fólki. Ég hugsa oft um það hvað sumarið var miklu lengra allavega í kollinum þegar skólarnir byrjuðu í september og fólk gat verið í rólegheitum í ágúst.

07.08.2012 20:40

Ýmislegt.....



,,Horfðu til himins með höfuðið hátt,, sungu  Björn Jörundur og hljómsveitin Ný dönsk í den og allir sem ,, raddböndum,, gátu valdið tóku undir.
Ég held samt að Sparisjóður minn hafi frekar verið að hugsa um ,,nýja hryssu,,  en ,, nýja danska,, þegar þessi mynd var tekin. En hvað veit ég svo sem hvað hann hugsar ?

Á morgun stendur til að sónarskoða frá Gosa og Sparisjóði og færa þá til í aðrar girðingar.
Bara spennandi að sjá hvernig útkoman verður.

Í dag er búinn að vera smá rigningar úði sem telst orðið til tíðinda hér í Hlíðinni en úðinn  bara kætir bændahjörtun og gleður grasið sem þýtur upp í hitanum.
Það er líka ekkert skemmtilegra en að ríða út í hita og mildum úða sem varla bleytir.

Ég var að skoða gamla gestabók í dag og rakst þá á þessa vísu.............frá því 26 janúar 1985.

Beðnir voru að skrifa í bók
bændurnir af fljóði.
Nokkuð mikinn tíma tók
að hnoða saman ljóði.

Bændurnir voru Páll Júlíusson og Sveinbjörn Hallsson.

Alltaf gaman að skoða vísur.



05.08.2012 21:43

Sumarið er tíminn.....



Hann Ríkur minn frá Reykjarhóli var klárlega hestur helgarinnar og hefur enn einu sinni eignast fjölmarga aðdáendur og vini. Ríkur hefur átt erilsama helgi rétt eins og lögreglan í Eyjum en hans verkefni hafa samt bara verið skemmtileg og uppbyggileg.
Ríkur var á ferðinni alla helgina og þar sem ég þekki hann Rík svo vel þá veit ég að hann sendir öllum sínum viðskiptavinum bestu kveðjur með þakklæti fyrir skemmtilegar stundir.



Snotra lét ekki sitt eftir liggja og aðstoðaði Rík og knapana hans við skyldustörfin.
Hér eru Snotra, Ríkur og hún Jéssika vinkona mín frá Portugal sem er dugleg hestakona.
Já það var líflegt um helgina og margir góðir gestir sem komu bæði af tjaldstæðunum og eins þeir sem áttu leið framhjá.



Hrafnhilur systir og Fríða María flotta frænka mín eru hér að skoða prúðleikan á Ríksa mínum. Maður verður nú alltaf að skoða vel það sem til stendur að nota.............



Heimalingar geta verið rosalegir.......... það veit hún Fríða María og þegar hann Vökustaur yfirheimalingur var búinn að drekka úr fullum pela og sýndi samt bara ósæmilega hegðun þá var nóg komið og rétt að grípa til þess ráðs að öskra........af öllum lífs og sálarkröftum.
Eins gott að kappinn hafi tekið sig á í hegðun þegar kemur að göngum og réttum.

Já sumarið er tíminn...............sem flýgur áfram af miklum krafti......því miður..........og þó ??

Það er alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi bæði vetur, sumar, vor og haust...bara njóta lífsins.
 
Ég á mikið af myndum frá þessu sumri sem ég á eftir að deila hér með ykkur á næstunni.



Þetta eru skjóttu vinirnir eins og við köllum þá en þeir heita nú samt Trigger og Arfur.
Þeir komu hér í vor í tamningu og tóku strax saman og var engu líkara en þeir væru sálufélagar og fóstbræður af bestu gerð.
En nú skyldu leiðir í dag þegar Trigger fór aftur heim en Arfur heldur áfram að læra til hests.



Þessi hópur hér sinnir mismunandi verkefnum og tekur þeim líka af mismikilli alvöru.
Ein gengur með væntanlegan kynbótagrip í maganum, önnur reynir að losna við aukakíló rétt eins og meirihluti kvennkynsins en prinsinn hér til vinstri gerir helst það sem hann vill sjálfur. Einn daginn ákveður hann vonandi að verða gæðingur í fremstu röð hver veit ???



Við höfum átt því láni að fagna í gengum árin að hafa frábært aðstoðarfólk og það hefur ekkert breyst.................nema síður sé. Þarna er ég t.d komin með þessa fínu heimilishjálp.



Og ekki er það nú verra að fá aðstoð í eldhúsið.............með grallara í kaupbætir.



Það eru margir í fjölskyldunni sem eiga afmæli í júlí svo það var blásið til veislu og þá var nú stuð hjá mannskapnum hér í Hlíðinni rósakjólar og allt.
Þarna eru aðalskvísurnar í veislunni.



Astrid bakaði afmælistertur af bestu gerð sem voru frábærar í desert eftir góða grillveislu.
Þarna eru litlu frænkur mínar að æfa Mumma og Astrid í því hvernig á að hemja börn í brjáluðum veisluhöldum.............verst að þær voru svo þægar að það reyndi ekkert á þau.

Já sumarið er tíminn..................eins og allt árið................til að njóta lífsins og hafa gaman.

01.08.2012 00:04

Freyja og Flækja í Þýskalandi



Það er alltaf svo gaman að fá fréttir af hestunum sem við höfum selt frá okkur svo ég tali nú ekki um það þegar okkur eru sendar myndir.
Á myndinni er hún Freyja frá Lambastöðum sem að fór út til Þýskalands í fyrra haust fylfull við honum Sparisjóði mínum. Freyja var tamin og þjálfuð af okkur hér í Hlíðinni og var í miklu uppáhaldi.
Þann 13 júlí eignaðist hún svo þessa fallegu hryssu sem hlotið hefur nafnið Flækja.
Við hér í Hlíðinni óskum Heike Drengemann og fjölskyldu innilega til hamingju með folaldið.

31.07.2012 23:37

Búinn júlí



Þessi litli hestur heitir Leikur frá Hallkelsstaðahlíð, faðir er Spuni frá Vestukoti og móðir Karún frá Hallkelsstaðahlíð. Myndin er tekin í vor nokkrum klukkustundum eftir að hann fæddist, nú er hann með mömmu sinni á suðurlandinu þar sem þau leggja sig fram um að stækka fjölskylduna.

Blíða og aftur blíða er það sem boðið er uppá í veðri hér í Hlíðinni um þessar mundir.
Við erum langt komin með fyrri slátt en vísvitandi erum við að drag það að slá sum stykkin sem hafa sprottið seint. Við erum komin með þó nokkuð af úrvals heyi og höfum svo líka borið á nokkra hektara sem við ætlum að fá svolítið af há.

Aðal áherslan hefur verið á því að ríða út og temja síðustu dagana enda margt á járnum og bara spennandi verkefni í boði. Við erum fjögur að ríða út og veitir ekki af, þyrftum meira að segja að bæta við okkur nú í ágúst. Svo er náttúrulega farið að undirbúa hestaferð og ýmislegt fleira skemmtilegt. Já sumarið líður alltof fljótt.

Við fengum góða gesti frá Noregi í heimsókn sem komu til að skoða hross, spá og spjalla.
Hestahópar og gönguhópar hafa farið hér um í stórum stíl og þó nokkuð hefur verið um að vera á tjaldstæðunum. Veiðin hefur heldur betur glæðst eftir að það fór að rigna og nú stefnir bara í gott veiðisumar ef það heldur svona áfram.
Veiða í þrjá og hálfan tíma og fá 27 stykki er það ekki bara gott?



23.07.2012 20:54

Hamraði aðeins á lyklaborðið



Skriða frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Arður frá Brautarholti, móðir Dimma frá Hallkelsstaðahlíð.



Melkorka frá Steinum, faðir Blær frá Torfunesi, móðir Orka frá Steinum.

Já myndirnar koma þegar netsambandið leyfir...................

Það var kalsalegt í dag ekki ,,nema,, 11 stiga hiti en það þykir nú ekki mikið m.v síðustu vikurnar og 7 stig að kveldi það er ólöglegt.
Við erum sennilega að verða svolítið vandlát og kröfuhörð við veðuryfirvaldið.
Draumavinnuveðrið mitt er það vind og hitastig sem gerir mér kleift að vera í flíspeysu og reiðbuxum án vandræða. Sólbruni og kal eru óvinir hestamannsins og húsfreyjunnar.

Hestaferðahópar og gönguhópar hafa verið hér á ferðinni síðustu daga og nóg um að vera.
Ég samgleðst alltaf hestaferðafólkinu því ég veit hvað er gaman í hestaferðum en að göngufólkinu dáist ég vegna þess að ég hef ekki enn byrjað (nennt) að stunda þá íþrótt nema með kindur eða hross á undan mér. Ég er því algjörlega ófær um að blanda mér í fésbókar umræðurnar þar sem kynsystur mínar keppast við að telja upp fjallatoppana sem þær hafa klifið. Og þó..... ég hef svo sem bröllt heilmikið en ekki með ,,stuðningi,, fésbókarinnar meira svona sauðkindarinnar.

Við fengum skemmtilega heimsókn í síðustu viku þegar Brávallabóndinn og frú birtust hér einn morguninn. Eins og vera ber var spjallað um hesta og margt annað áhugavert efni.
Alltaf svo gaman að spjalla við menn sem þora og geta haft skoðanir á hestamannasamfélaginu án þess að nokkur beri skaða af.
Sendingin sem ég fékk þegar bóndinn var kominn norður aftur var algjörlega óborganleg.
En eitt er víst þegar hann hefur gefið út ævisöguna þá verður hún fljótt komin á náttborðið með stóðhestablaðinu og hrútaskránni..... takk fyrir komuna heiðurshjón Reynir og Margrét.



Freyja litla fjárhundur er ,,mætt,, til vinnu og tekur starf sitt alvarlega túnrollunum til mikillar skelfingar.
Í hennar starfslýsingu eru engin svik, hik eða hangs bara orka, æði og þor.
Eigandinn gerir sitt besta til að halda verkstjórastöðunni en hver veit hvenær valdarán verður framið?




19.07.2012 23:16

Ritstopp af verstu gerð

Pennaletin er orðin ófyrirgefanleg en svona er þetta stundum og kannske rætist úr með ,,lækkandi,, sól ?
Ekki bætir úr að netsambandið hér í Hlíðinni er svo dapurt að vandamál er að hlaða inn myndum. Mig dreymir um að fá aðgang að einhverju betra netsambandi en það er sennilega fjarlægur draumur hér í fjöllunum.



Þarna eru Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð og Kolrún dóttir hennar og Arðs frá Brautarholti.



Heyskapurinn hefur gengið vel það sem af er fyrir utan það hversu sprettan á þurrustu túnunum var slök en allt stendur þetta til bóta þar sem rigningin er komin.
Nú bíðum við bara þangað til sprettan er orðin betri og tökum þá seinni hálfleikinn.
Allt er komið í plast á Melunum, Haukatungu, Kolbeinsstöðum, Rauðamel og svo hér á Steinholtinu og heimatúninu svokallaða.



Blíðan hefur verið yndisleg og gott að kæla sig á góðum dögum, þarna eru Astrid og Mummi að kæla bræðurna Fannar og Krapa Gustssyni.

Annríki hefur verið mikið í hestastússinu hjá okkur ferðahópar, sýnikennslur, keppni og síðast en ekki síst mikið að gera í þjálfun og tamningum. Hestar fara og önnur hross koma í staðinn. Nú fer að koma sá tími að maður fer að huga að árlegri síðsumarsferð Ferðafélagsins beint af augum. Þó svo að ferðin sé ekki fyrirhuguð fyrr en í ágúst þá er í góðu lagi að láta sig dreyma. Annars eru það ágæstis hestaferðir sem eru hér í gangi alla daga og stundum riðnar legnri vegalengdir samtals á dag en í nokkuri hestaferða á okkar vegum.