28.08.2012 23:20

Ben Stiller og við hin í Hnappadalnum og Hollywood



Þarna eru tveir vinir að að deila visku, Vörður frá Hallkelsstaðahlíð og Vængur frá Vorsabæ.

Ég hef oft sagt það og stend við það ..............Hnappadalurinn er Guðdómlegur en ekki óraði mig nú samt fyrir því að gamla góða Hollywood pakkaði í töskur og mætti í dalinn.
En það er nú samt orðið að veruleika eða svona næstum því......ekki það að rauðir dreglar renni út við hvert fótmál eins og við mætti búast heldur voru hér í dalnum umferðatafir.
Já við hér í Hnappadalnum þekkjum vart aðrar tafir en holótta og ómokaða vegi ef við brunum af bæ en nú var það ,,ógeðslega,, frægur gæi sem notar gróðursnauðu mela til að búa til  stórmynd.
Datt mér ekki í hug ósnortinn einfaldleikinn er miklu meira virði en við getum ímyndað okkur og það sem meira er við þurfum kall frá gamla Hollywood til að segja okkur það.
Spurning um að finna annan sem hlustað væri á til að segja okkur að drita ekki trjám út um allt. Ekki það að ég sé á móti skógrækt heldur má nú öllu ofgera.
Það var nefninlega þannig að þegar húsfreyjan brunaði heim úr Borgarnesi þá brá henni heldur í brún þegar heljarinnar bílalest stóð í vegkanntinum. Fyrsta hugsun var að eitthvað hefði komi fyrir en svo þegar betur var að gáð kom í ljós að svo var ekki heldur var tökulið frá Ben Stiller stórleikara að störfum. Umferðin var sem sé stoppuð frá báðum áttum í þó nokkra stund á meðan tökur fóru fram. Hópur af fólki þeyttist fram og aftur en kom reglulega til að vita hvort töfin væri óþægileg fyrir mig  eða hvort ég væri nokkuð að tapa glórunni. Ég fullvissaði yfirmáta kurteisan mann um að töfin væri þægileg og glóran löngu farin.  Á meðan ég beið eftir að komast leiðar minnar skemmti ég mér við þá tilhugsun hvað hefði gerst ef að myndatökurnar hefðu farið fram á sunnudaginn.En þá  fórum við ríðandi þessa leið með áttatíu hrossastóð sem var nú ansi fyrirferðarmikið og ekki sérlega sviðsvant.
Þegar svo losnaði um umferðarhnútinn brunaði ég áfram og var svo heppin að berja Stillerinn augum.  
Ég er ekki vel að mér í frægum leikurum en mun nú sennilega þekkja þennan aftur svo nú er það ekki bara Mr Bean og Baltasar Kormákur sem ég kannast við.
Já Hnappadalurinn er staðurinn sem allt gerist sem máli skiptir.

Langar í lokin að benda ykkur á að nú er kominn ,,like,, hnappur frá fésbókinni hér fyrir neðan sem gerir lífið bara skemmtilegra. Takk þið sem smellið á hann ég er að safna lækum.