19.07.2012 23:16

Ritstopp af verstu gerð

Pennaletin er orðin ófyrirgefanleg en svona er þetta stundum og kannske rætist úr með ,,lækkandi,, sól ?
Ekki bætir úr að netsambandið hér í Hlíðinni er svo dapurt að vandamál er að hlaða inn myndum. Mig dreymir um að fá aðgang að einhverju betra netsambandi en það er sennilega fjarlægur draumur hér í fjöllunum.



Þarna eru Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð og Kolrún dóttir hennar og Arðs frá Brautarholti.



Heyskapurinn hefur gengið vel það sem af er fyrir utan það hversu sprettan á þurrustu túnunum var slök en allt stendur þetta til bóta þar sem rigningin er komin.
Nú bíðum við bara þangað til sprettan er orðin betri og tökum þá seinni hálfleikinn.
Allt er komið í plast á Melunum, Haukatungu, Kolbeinsstöðum, Rauðamel og svo hér á Steinholtinu og heimatúninu svokallaða.



Blíðan hefur verið yndisleg og gott að kæla sig á góðum dögum, þarna eru Astrid og Mummi að kæla bræðurna Fannar og Krapa Gustssyni.

Annríki hefur verið mikið í hestastússinu hjá okkur ferðahópar, sýnikennslur, keppni og síðast en ekki síst mikið að gera í þjálfun og tamningum. Hestar fara og önnur hross koma í staðinn. Nú fer að koma sá tími að maður fer að huga að árlegri síðsumarsferð Ferðafélagsins beint af augum. Þó svo að ferðin sé ekki fyrirhuguð fyrr en í ágúst þá er í góðu lagi að láta sig dreyma. Annars eru það ágæstis hestaferðir sem eru hér í gangi alla daga og stundum riðnar legnri vegalengdir samtals á dag en í nokkuri hestaferða á okkar vegum.