24.08.2012 00:08

Dagur þrjú



Hjá okkur í Ferðafélaginu beint af augum er reglulega yfirfært vald svona eins og hjá forsetanum. Á myndinni hér fyrir ofan er einmitt svoleiðis athöfn í gangi, þarna skiptast frændurnir Mummi og Arnar á ,,öndvegissúlunum,, sem tákna hver má vera í forreið þennan daginn. Þetta er hátíðleg athöfn en kostar ekki eins mikið og hjá forsetanum.



Já í dag var það dagur númer þrjú í ferðinni góðu en þá riðum við frá Hömluholti að Tröðum.
Ferðin gekk vel þó svo að smá sprettir væru teknir fyrir hross sem að vildu kanna nýjar leiðir. Verðum reyndar að sækja eina hryssu á morgun sem að brá sér í annan og  (að hennar mati) skemmtilegri hóp. Já það getur líka verið misjafn smekkur hrossa.
Skemmtilegt fólk bættist í hópinn svo að fjörið heldur áfram hjá okkur.
Þau eru brosmild þarna húsfreyjan á Bergi og meðreiðarsveinn okkar til tveggja ára.



Við fengum fylgd frá Hömluholti en hún Amanda reið með okkur niður að Skógarnesi.
Þarna erum við að leggja í hann, Astrid með Rebekku, Hrannar með Nótt og Björg og Ríkur kíkja þarna fyrir aftan.



Það er ánægjulegt til þess að vita að hugsað sé til manns jafnvel þó maður standi sig illa í að heimsækja fólk og hafa samband. Þarna erum við Hattur að hugsa um dásamlegu sendinguna sem við fengum í gær.
Kærar þakkir sendum við á viðeigandi staði ef að svona sending toppar ekki matseðilinn í hestaferð hvað þá ????

Í dag tók nýtt skipulag gildi hjá ferðafélaginu en það felur í sér að allir þeir sem að detta af baki eða gera eitthvað sem kallar á nauðsynlegar refsingar verða að baka köku.
Deildar meiningar eru um það hversu agabrotin eða bilturnar skulu vera greinilega útfærðar en þar sem til stendur að bæta við hreingerningarkröfum er ekki líklegt að neinn skorist undan bakstrinum.
Ég veit ekki hvort stefnir í kökuhlaðborð en þær eru allavega orðnar tvær...................

Það voru teknar ca 300 myndir í dag svo að vonandi skilar ljósmyndarinn þeim hér á síðuna við tækifæri.