31.07.2012 23:37

Búinn júlíÞessi litli hestur heitir Leikur frá Hallkelsstaðahlíð, faðir er Spuni frá Vestukoti og móðir Karún frá Hallkelsstaðahlíð. Myndin er tekin í vor nokkrum klukkustundum eftir að hann fæddist, nú er hann með mömmu sinni á suðurlandinu þar sem þau leggja sig fram um að stækka fjölskylduna.

Blíða og aftur blíða er það sem boðið er uppá í veðri hér í Hlíðinni um þessar mundir.
Við erum langt komin með fyrri slátt en vísvitandi erum við að drag það að slá sum stykkin sem hafa sprottið seint. Við erum komin með þó nokkuð af úrvals heyi og höfum svo líka borið á nokkra hektara sem við ætlum að fá svolítið af há.

Aðal áherslan hefur verið á því að ríða út og temja síðustu dagana enda margt á járnum og bara spennandi verkefni í boði. Við erum fjögur að ríða út og veitir ekki af, þyrftum meira að segja að bæta við okkur nú í ágúst. Svo er náttúrulega farið að undirbúa hestaferð og ýmislegt fleira skemmtilegt. Já sumarið líður alltof fljótt.

Við fengum góða gesti frá Noregi í heimsókn sem komu til að skoða hross, spá og spjalla.
Hestahópar og gönguhópar hafa farið hér um í stórum stíl og þó nokkuð hefur verið um að vera á tjaldstæðunum. Veiðin hefur heldur betur glæðst eftir að það fór að rigna og nú stefnir bara í gott veiðisumar ef það heldur svona áfram.
Veiða í þrjá og hálfan tíma og fá 27 stykki er það ekki bara gott?