09.01.2013 23:10

Fréttaskot

Síðustu dagar hafa hreinlega verið of stuttir til að hafa allt það af sem ég helst vildi m.a að segja ykkur smá fréttir héðan úr Hlíðinni.

Skúta er ennþá í stríði og ekki útséð með hvernig fer en eftir síðustu heimsókn Hjalta dýralæknis erum við svolítið vonbetri. Allt í jafnvægi en þó afar litlar framfarir svo öruggt sé, verst að geta ekki smellt myndavél inní mallann og skoðað hvernig staðan er.
 Þessi elska lifir að mestu á AB mjólk, olíu og örfáum stráum af há. Svo er lyfjakoktellinn í ábót.
Vaktir ganga hér enn dag og nótt svo að hún er aldrei lengi eftirlitslaus.
Við trúum því að góðir hlutir gerist hægt og því muni Skúta ná heilsu.

Vorveður hefur verið síðustu daga, tamningar og þjálfun í fullum gangi í blíðunni.
Sem sagt gott veður til að gera næstum allt, já vel á minnst........meira að segja heimmta kindur.
Ég ætla samt ekki að nefna það meira tek ekki ábyrgð á að valda mönnum óþægindum. Það er nefninlega þannig að árangur nú eða árangursleysi í smalamennskum getur haft skaðleg áhrif á heilsu manna. Nei ekki orð um kindur og allra síst flökkukindur.

En að mikilvægari málum.
Stórkostlegar lýðræðisumbætur voru gerðar á þorrablótsnefninni þegar síðasti fundur var haldinn. Sögur höfðu farið af því að gamla nefndin ætlaði að segja af sér og tilnefnt yrði í nýja nefnd. Ljóst er að þetta hafa verið Gróusögur því samkvæmt (ó)áræðanlegum heimildum voru einungis samþykktar viðbætur við nefndina. Tvennt gerði það aðallega að verkum að ráðist var í þessar breytingar. Annarsvegar var það til að lækka meðalaldurinn og hinsvegar að breggðast við auknum þrýstingi um jafnan hlut kynjanna.
Aðgerðirnar heppnuðust fullkomlega enda löngu ljóst að í gamala góða Kolbeinsstaðahreppnum gilda ekki endilega sömu lögmál og í hinum ,,Evruríkjunum"
Sjö kallar og ein kona í alvörunefnd endurspeglar svo sannarlega fullkomið jafnrétti, konur eru nefninlega líka menn.
Það er eins gott að nefndin frétti ekki hversu miklar væntingar eru gerðar til hennar.
Það verður örugglega rosalega gaman þann 8 febrúar eða þá er stefnt að blótinu góða.



04.01.2013 23:03

Áramóta.......??



Þó svo að þessi mynd sé ekki í miklum gæðum þá er hún tekin frá svo skemmtilegu sjónarhorni að ég varð að láta hana fljóta hér með.
Myndin er tekin af Múlanum á brúninni fyrir ofan Þrepaganginn.

Það var vorveður í Hlíðnni í dag og ótrúlegt hvað stutt er síðan það var hálfgerður bylur og bölvuð leiðindi. Tamningahrossin kunnu bara vel að meta veðrið og voru spræk. Það er erfitt að gera okkur til hæfis.  Um daginn var vegurinn glerharður og leiðinlegur undir fæti en núna er hann svo mjúkur og blautur að það er til vandræða.

Ég áttaði mig á því í dag að kella telst nú varla viðræðuhæf svona á nýju ári þar sem ég strengdi ekkert áramótaheiti. Já og það sem meira er hef ekki lesið Völvuspánna eða nokkuð annað sem segir mér hvering árið 2013 verður. Er ekki komin í aðhald, hef ekki farið út að hlaupa og skammast mín ekki mikið fyrir lifnaðarháttinn um jól og áramót.
Er reyndar svolítið hugsi yfir því hvernig fólk lætur eða lifir......svona af umræðunni að dæma. Hlusta þónokkuð á útvarp og les blöðin svona þegar færi gefst.
Það er eins og fólk borði aldrei mat nema á jólunum og þá er sektin svo mikil yfir því að það þarf ekki desert. Skömmin er nægileg til að vera bæði ábót og desert.
Vonandi er þetta bara í orði og þetta hræðilega samviskubit bara hugarfluga sem er ,,inn,, að hafa núna. Kannske eitthvað svona ,,hippókúl,, eins og stundum er sagt og ég skil ekki. Þið megið engum segja, það er víst ekki flott að skilja ekki það sem er svoleiðis.
 Ég hugsa til þess með hryllingi ef að fólk maular bara eitthvað óspennandi 360 daga á ári og bíður þess svo ekki bætur að smakka væna flís af feitum sauð um jólin.
Þetta er sama umræðan eins og sprettur alltaf upp í kringum sprengidaginn en þá er eins og landinn sé á barmi glötunnar að borða saltkjöt í eitt skipti. Fjölmiðlarnir hamra endalaust á því hversu hræðilega óhollt sé að smakka saltkjöt og taka viðtöl við fólk sem þorir varla að viðurkenna að það hafi framið glæpinn. Sko borðað saltkjöt.
Athygglivert að hugsa til þess að fyrir nokkrum áratugum þegar landinn borðaði meira af kjöti og fiski var hann grennri. Nú ertu ekki maður með mönnum nema sneiða hjá þessum fæðutegundum en samt verðum við feitari og feitari............af hollustunni.
Já það er ótrúlegt að íslendingar séu ekki löngu útdauðir.

Það skal tekið fram að höfundur borðar ekki eingöngu kjöt og mætti alveg sjá af nokkrum kílóum. Bara svo ykkur líði nú betur kæru lesendur.

Ég er enn að hugleiða hvort áramótaheiti sé eitthvað fyrir mig ?

En að alvarlegri málum, Skúta er ennþá alvarlega veik og ekki ljóst hvernig fer. Hjalti dýralæknir hefur komið reglulega og meðhöndlað hana en við vaktað hana þess á milli.
Vonandi fer þetta vel en erfitt ætlar það að vera.




02.01.2013 21:46

Árið 2012



Við hér í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegs árs með óskum um farsæld, gleði og frið á nýju ári.
Kærar þakkir fyrir það liðna sjáumst vonandi hress og kát á árinu 2013.

Um áramót er við hæfi að líta um öxl og fara yfir það hvernig árið var í raun fyrir bændur og búalið hér í Hlíðinni.

Síðustu klukkustundir ársins og það sem af er þessu nýja ári hafa verið erfiðar fyrir eina af uppáhaldshryssunum okkar. En á gamlársdag veiktist hún Skúta hans Mumma heiftarlega sennilega af hrossasótt. Skúta var ansi langt leidd og mikil heppni að fljótt náðist í dýralæknirinn okkar hann Hjalta sem staddur var í næstu sveit og brást skjótt við og kom.
Hjalti hefur komið þrisvar síðan og gert allt sem í hans valdi er til að bjarga hryssunni, auk þess hefur verið vakað yfir henni allan sólarhringinn. Ekki er enn útséð með það hvernig fer en vonandi hefur Skútan þetta af enda með eindæmum sterk og hraust fyrir.
Á fésbókarsíðunni minni hafa margir sent góðar kveðjur með von um bata sem ég veit að gerir bara gott.
Það er nefninlega þannig að jákvæðini er ótrúlega gott meðal við ýmsum kvillum, jafnt hjá skepnum og mönnum. Ætti að vera miklu meira notað í mannlegum samskiptum.

Ég renndi bæði yfir dagbók og blogg til að rifja upp hvað hefði verið um að vera á árinu 2012.
Margt hefur á dagana drifið og flest af því skemmtilegt og þroskandi.
Mikið hefur verið að gera í tamningum og þjálfun bæði fyrir okkur og ekki síður aðra. Við lauslega yfirferð sýnist mér að hér hafi farið í gegn ca 70 hross auk heimahrossana á árinu 2012.
Margir hestahópar komu við hjá okkur í sumar, nokkrir stoppuðu yfir nótt og aðrir komu bara við. Alltaf gaman að taka á móti hestafólki í hestaferðum.
Mummi útskrifaðist sem reiðkennari frá  Háskólanum á Hólum síðast liðið vor.
Hann dreif sig strax af stað í kennslu og hefur bæði haldið námskeið hér heima og einnig hefur hann farið til Svíþjóðar í nokkur skipti til að halda námskeið. 
Astrid stundar nám á Hólum og er nú á öðru ári, námið hefur gengið vel og nú er hún á lokasprettinum áður en hún fer í verknám.

Ein hryssa í okkar eigu var sýnd á árinu en það var hún Sjaldséð. Hún stóð sig með prýði m.v aldur, menntun og fyrri störf eins og sagt er og er komin í 1 verðlaun.
Mummi var duglegastur af okkur að taka þátt í keppni og sýningum á árinu, keppti m.a.  á Gosa frá Lambastöðum á LM í Reykjavík. Við hin kepptum öll en þó í mun minna mæli.
Sjö folöld fæddust hér á árinu fjórir hestar og þrjár hryssur.
Nokkrir gamlir höfðingjar úr stóðinu voru felldir á árinu og nokkur hross skiptu um eigendur og fluttu í nýja heimahaga.

Sauðfjárbúskapurinn gekk sinn vanagang á árinu, við fengum góða aðstoð við sauðburðinn og ekki var hópurinn sem aðstoðaði okkur við leitir og réttir síðri.
Þó svo að ,,hvítflibbatvöþúsundogsjöliðið,, telji sauðfjárbúskap ónauðsynlegan, hallærislegan og gamaldags þá verð ég alltaf sannfærðari og sannfærðari um nauðsyn hans fyrir land og þjóð. Hans tími mun koma......og ekki skemmir fyrir hvað hann er mannbætandi.

Þrátt fyrir allt gekk heyskapurinn hér nokkuð vel og var byrjað í seinna lagi að gefa útigangi. En mikið fann maður til með bændunum fyrir norðan sem fengu harðindi alltof snemma í haust. Það er ekkert grín að vera heytæpur og þurfa að byrja gjafir mikið fyrr en venjulega.

Hlíðarættin átti góða daga saman í lok júní þegar haldið var ættarmót í Laugargerði. Mætingin var þokkaleg og mikið var gaman að hitta mannskapinn spjalla og hafa gaman.

Algjört met var slegið í fjölda gönguhópa sem fóru hér um í sumar enda er þriggja vatnaleiðin svokallaða ein vinsælasta gönguleið landsins. Spurning um að fara pússa gönguskónna og finna sér skemmtilega göngufélaga ? Eða ætti ég kannske bara að leggja á og fara frekar ríðandi?

Árið 2012 var nokkuð gott ár og ekki annað sanngjarnt en að þakka fyrir það á meðan maður og manns nánustu eru við þokkalega heilsu. Það er þó einhvernveginn þannig að það verður ekki árið sem ég tárast af sökknuði við að rifja upp.  Var einmitt að hugsa um hvað mér fannst það alltaf sorglegt þegar sungið var ,, Nú árið er líðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka,,  en 2012 var bara orðið gott.

Árið 2013 verður gott ár og ég trúi því staðfastlega að 13 sé happatala, reyndar efast ég ekki um það eitt augnablik.

Hér hef ég aðeins stikklað á stóru hvað viðburði varðar frá síðasta ári, örugglega gleymt mörgu mjög mikilvægu. En síðustu dagar hafa verið svolítið strembnir og því ekki við öðru að búast en eitthvað skolist til.

Uppúr stendur þó hvað við höfum átt góð og ánægjuleg samskipti við fjöldan allan af góðu fólki á árinu. Það er ekki sjálfgefið að njóta þess að hafa fjöldan allan af góðu fólki allt um kring hvort sem það er í leik eða starfi.
Kærar þakkir fyrir samskiptin og ekki síst innlitin hér á síðuna árið 2012.
Góðar stundir.



27.12.2012 22:35

Smá myndaflakk en enginn áramótapistill kominn



Þarna er Mummi að keppa á Skútu frá Hallkelsstaðahlíð sem nú hefur það hlutverk að framleiða vonandi gæðinga fyrir eigandan. Byrjað er að temja tvær dætur Skútu, Snekkju sem er á fimmta vetri undan Glotta frá Sveinatungu og síðan Trillu sem er á fjórða vetri undan Gaumi frá Auðsholtshjáleigu. Næst í röðinni er svo Þjóðhátíð sem er undan Glymi frá Skeljabrekku, þá er það Fleyta undan Stíganda frá Stóra-Hofi og að lokum hestur undan Sparisjóði mínum. Skúta er núna fylfull eftir Álfarinn frá Syðri-Gegnishólum.

Það er ótrúlegt hvað maður getur gleymt sér í gömlum myndum og þar með ekki gert neitt af viti sem maður ætlaði. Í staðinn fyrir að skrifa gáfulegan áramótapistil koma nokkrar myndir héðan og þaðan. Vonandi hafið þið gaman af þeim.



Þarna er hann Kátur minn hann er undan Auði frá Lundum og Karúnu. Kátur er á fjórða vetur og kominn vel af stað í tamningu.



Þetta er Kátur þegar hann var folald alltaf frekar sperrtur þó svo að hann hafi alltaf verið spakur.



Þessi mynd er tekin á folaldasýningu í Söðulsholti fyrir nokkrum árum, þarna eru tvær dætur Baugs frá Víðinesi. Þetta eru hryssurnar Fáséð frá Hallkelsstaðahlíð og Sjaldséð frá Magnússkógum. Sjaldséð var sýnd í vor og er komin í 1 verðlaun við ákváðum að hafa hana gelda í ár en Fáséð er enn ósýnd.
Bráðskemmtilegar hryssur með mikinn persónuleika og ekki skemmir litadýrðin.



Þessi dama er líka komin inn og byrjuð í tamningu en þetta er Stjarna frá Hallkelsstaðahlíð undan Feyki frá Háholti og Upplyftingu frá Hallkelsstaðahlíð.



Stoltur sonur Alvars frá Brautarholti og Tignar minnar er úrvals fyrirsæta og sperrir sig gjarnan fyrir myndatökur.



Það gera reyndar líka þær frænkur Stekkjaborg og Krakaborg, Stoltur á bakvið.
Stekkjaborg er undan Hlyn frá Lambastöðum og Dimmu en Krakaborg er undan Sporði frá Bergi og Þríhellu.



Þessi mynd er tekin fyrir nokkrum árum eða á þeim árum sem Mummi og Dregill voru í Garðabænum að leika sér.



Og að lokum........það er örugglega rosafjör í Finnlandi núna hjá þessum dömum, þá varð ég að smella inn einni mynd frá uppvaskinu í Hallkelsstaðahlíð. Í þá gömlu góðu :)



Og svona voru þessi flottu partýljón á góðum degi, sungið og haft rosagaman.


26.12.2012 21:05

Jólaró og líka jólafjör



Hér eru litlu flottu frænkur mínar að bíða eftir því að borðhaldið hefjist og að sjálfsögðu biðu þær þar sem útsýnið yfir pakkahrúguna var gott.

Já við höfum átt notaleg jól með öllum skemmtilegu hefðunum og ýmsu öðru sem ekki er hefðbundið en gott samt. Eins og venjulega borðuðum við öll saman í gamla bænum og sáum svo fólkið ungt og eldra taka upp gjafirnar. Síðan skelltum við okkur í það ,,neðra,, og tókum upp okkar gjafir. Kvöldið endaði svo með heljarinnar súkkulaði og kökuboði sem renndi stöðum undir það að sennilega er alltaf hægt að borða aðeins meira ef að viljinn er fyrir hendi.



Þessar dömur fengu m.a garn og lopa til að prjóna á hálfa þjóðina en sen betur fer bækur líka til að líta aðeins upp frá prjónaskapnum.



Þessi var ánægður með sínar gjafir en kortið frá nafna og fjölskyldu var samt best.



Daniela og Mummi að ræða eitthvað mjög merkilegt og Snotra reynir að leggja ,,voff,, í belg.



Fjörið getur orðið þreytandi og þá er gott að taka gæðastund með Snotru til að ná þreki fyrir pakkaopnun. Undir borði er bara ágætlega friðsælt.
Þegar litlu frænkurnar eru í heimsókn hér í gamla bænum stingur Snotra okkur af og flytur í gamla bæinn á meðan þær stoppa. Þegar þær fara drattast hún svo heim og gerir sér okkar félagsskap að góðu.



Feðgarnir voru brosleitir að fylgjast með þegar pakkarnir opnuðust einn af öðrum, já það er alltaf gaman að sjá gleðina yfir góðum gjöfum.



Við Salómon tókum eitt gott knús í tilefni jólanna og sættumst á að hann mundi ekki færa mér músasteik í jólamatinn.

Annars hefur margt verið að gerast síðustu vikuna sko annað en jólafjör.
Daginn fyrir Þorláksmessu þegar ég var u.þ.b að bruna af stað inní dali að sækja mér vestfirska eðalskötu fékk ég símtal. Á línunni var Kjartan bóndi á Dunki sem tjáði mér að ég ætti ljóngáfaðar kindur sem hefðu bara stokkið í veg fyrir sæðingamanninn sem átti leið um.
Nei nei þetta eru engin ósannindi, Ásbjörn frændi minn og frjótæknir var sannarlega á ferðinni, kindurnar hlaupandi niður við veg og þurftu á þjónustu að halda. Allt staðreynir sem renna stoðum undir það að kindur eru ekki sauðheimskar.
Þegar ég svo renndi í hlaðið á Dunki voru þeir búnir að smala kindunum heim í fjárhús.
Það var því kát kella sem brunaði heim með fimm kindur og vænan skammt af eðalskötu og hnoðmör. Takk fyrir smölunina Ásbjörn, Kjartan og aðstoðarfólk.
Eftir hádegi í dag annan dag jóla fékk ég svo annað símtal og nú var það Flosi nágranni minn á Emmubergi sem var á línunni. Hann hafði þá verið á ferðinni og séð til kinda, Flosi var ekkert að tvínóna við hlutina og rauk til og smalaði þeim heim að Dunkárbakka. Ekki var hamingjan minni með þessar sex kindur þó svo að engin skata væri sótt í sömu ferð.
Takk fyrir Flosi, eintóm hamingja að fjölga í fjáhúsunum.

Jólafrí er svolítið huglægt í sveitinni það þarf að gera öll útiverkin en þau eru gerð með öðrum hætti þegar maður er í jólafríi. Svo er bara að taka það rólega eins og hægt er og njóta þessa að vera jólakelling nú eða kall.
Mummi flaug til Svíþjóðar í nótt en þar biðu nemendur sem verða á reiðnámskeiði hjá honum fram að áramótum. Ef að allt gengur upp þá lendir hann seinnipartinn á gamlársdag og rétt nær í steikina eins og Astrid sem kemur heim frá Finnlandi sama dag.

Alltaf eitthvað fjör í gangi hér í Hlíðinni.

24.12.2012 14:19

Gleðilega hátíð

23.12.2012 11:10

Reiðnámskeið

Reiðnámskeið

Dagana 25-27 janúar 2013 í Söðulsholti



Kennari: Guðmundur M. Skúlason, reiðkennari FT

Aðalmarkmið námskeiðsins er að auka þekkingu, gleði og ánægju í hestamennskunni.

Janúar er frábær tími til að koma sér í gírinn, fá smá fróðleiksmola og aðstoð um það hvernig skynsamlegt sé að haga þjálfuninni hvort sem fólk ætlar að gera hestinn sinn að betri reiðhesti eða stefnir á keppni.

Verð fyrir fullorðna kr 17.000.-

Verð fyrir börn, unglinga og ungmenni kr 12.000.-


Innifalið í verði eru fimm reiðtímar, hesthúspláss, súpa og brauð í hádegi laugardag og sunnudag.

Greiða þarf kr 5000.- staðfestingagjald við skráningu.

Skráning og nánari upplýsingar gefur Guðmundur M Skúlason í síma 7702025 eða á netfangi: [email protected]

Einnig er hægt að kaupa gjafabréf í jólapakkann sem gildir á námskeiðið.

15.12.2012 00:14

Ritstíflan tekin föstum tökum



Sunna litla dóttir Frakks frá Langholti og Léttar frá Hallkelsstaðahlíð að njóta blíðunnar.

Nú er kella risin eftir heldur slæma orustu við barkabólgu og leiðindar ,,kokka,, brettir upp ermar og gerir næstum allllllllttttt:) Og síðast en ekki síst vonar að aftur líði ca 30 ár þangað til næsta pest leggst á húsfreyjuna.  En ekkert væl.......upp með sokkana.

Það er alveg ljóst að ,,eftirlitsiðnaðurinn,, lifir góðu lífi og herjar á marga í þessu þjóðfélgi.
Ég er t.d ein að þeim sem þarf greinilega aukið eftirlit og því gott til þess að vita að góðir menn handan við Breiðafjörðinn hugsa til mín. Það er því eftir ,,tiltal,, frá einum slíkum sem ég gat ekki sofnað róleg í kvöld án þess að smella einhverju inná síðuna.
Bestu kveðjur á Brjánslækinn góða.

Hesthúsið er að fyllast af spennandi unghrossum svo nú eru allir dagar eins og þegar verið er að opna jólapakkana.
Eins gott að jafnréttismálaráðherra sé ekkert að þvælast þar á næstunni því kynja hlutfallið er eins og á feministafundi. Flest kvenkyns og þeim fáu sem eru karlkyns er varla vært fyrir glósum um að þeir ættu nú bara að drífa sig annað.
Stóðhestarnir eru þó undantekning og fá alla þá þjónustu og dekur sem þeim sæmir.
Stutt er síðan við fórum að gefa útigangi en nú er stóðinu gefið í þremur hópum, folaldshryssur, ungdómurinn og almúginn. Allt eftir settum reglum hverju sinni.



Þessi dama var nú heldur betur að standa sig vel í prófunum á Hólum núna í vikunni.
Skilaði þessu vandasama þjálfunarverkefni með glæsibrag og góðum einkunum.
Innilega til hamingju Astrid aldeilis flott hjá þér :)

Mummi átti góða daga í Svíþjóð um daginn þar sem hann var að kenna. Áhugasamir og góðir nemendur sem að hann hittir mjög fljóttlega aftur.

Nóg er atið í sauðfjárræktinni þessa dagana, búið að gefa öllum ormalyf og nú stendur yfir mikið at við að flokka og raða undir hrútana sem hefja störf innan nokkurra daga.
Eftir mikla yfirlegu á hrútaskrá og öðrum rolluvísindum var rokið í það að sæða svolítið.
Fyrri hálfleikur er gengi yfir en sá síðari fyrirhugaður á morgun.
Hrútar sem búið er að nota eru Steri frá Árbæ (ég sá svo flott lömb undan honum hjá Kjartani og Guðrúnu á Dunki). Soffi frá Garði, Gaur frá Bergstöðum, Kjarkur frá Ytri-Skógum og  Kvistur frá Klifmýri. Á morgun verða það svo enn fleiri Steradropar og Knapi frá Hagalandi.
Og ekki má nú gleyma gæluverkefninu henni Pálínu hún var að sjálfsögðu sædd við honum Jóakim frá Bjarnastöðum.
Það eru mörg ár síðan svona fáir fullorðnir hrútar hafa verið hér á bæ en þeim mun fleiri lambhrútar. Nú er bara að vona að allir standi sig eins og til er ætlast þegar á reynir.

Þið megið endilega halda að ég hafi verið svona löt að skrifa þar sem að ég hafi öllu stundum verið að atast í jólaundirbúiningi. Núna gæti t.d verið fullt búr af bakkelsi, Ajaxylmur um allt hús, pakkarnir tilbúnir og frúin að strauja jólakjólinn....................
Já já þetta er næstum því svona en þó finnst mér vanta svolítið uppá ........sko ennþá.
En það er nú svolítið í jólin svo rétt er að taka smá sveiflu í fjárhúsunum og njóta lífsins.

24.11.2012 23:03

Lopi í ýmsum myndum



Stellupeysa af bestu gerð og fyrirsætan glæsileg að vanda.

Ég hef alveg gleymt að segja ykkur að hún Stella frænka mín er mikil prjónakona og prjónar allt milli himins og jarðar.
Hún selur hestapeysur, barnapeysur, prjónakjóla og hvað eina, já og auðvitað venjulegar lopapeysur líka.
Þegar ég rakst á þessa fínu mynd af forsetafrúnni okkar datt mér í hug að koma með  hugmynd af jólagjöfum fyrir ykkur. Maður þyggur jú alltaf góðar hugmyndir þegar tíminn er naumur.
Myndin var tekin í opinberri heimsókn forsetahjónanna á Snæfellsnesið og það er svo langt síðan að ég var oddviti Kolbeinsstaðahrepps þá. Verst að ná ekki mynd af Ólafi í sinni peysu.




Og við höldum okkur bara við lopann........nú eru það sauðalitirnir.
Þessa mynd tók hann Kolbeinn skábróðir minn í réttunum en þarna bregðum við Jói sauður á leik. Getur verið gott að hafa féð svona meðfærilegt að stærð þegar hlutverk þess er eingöngu að vera til gamans en ekki gagns. Og þó Jói er að sjálfsögðu til gagns í forustuhlutverkinu.
Jói sauður er ,,langræktaður,, forustusauður af kynstofni Jóhanns föðurbróður míns í föðurætt og sonur forustukindarinnar Pálínu sem á ættir sínar að rekja að Haukatungu eins og við Jói. Nú eruð þið alveg búin að tapa þræðinum svo við förum ekki nánar útí þessa sálma.

Gaman að gramsa í myndum þær segja svo margt.

23.11.2012 23:24

Gosi gleður



Þessa mynd fann ég í myndatiltektinni sem nú er í gangi hjá húsfreyjunni.
Þarna eru Mummi og Gosi að keppa, nokkuð einbeittir kapparnir, en fókusinn hjá ljósmyndaranu ekki alveg í lagi. Spurning um að veita þessu myndasmið tiltal?



Og þarna eru þeir í hörðum slag..........á miklu skriði...................

Ég var einmitt að hugsa um hann Gosa þegar ég settist við tölvuna eftir að hafa verið að vinna með afkvæmum hans að undanförnu.
Og ég hugsa sko aldeilis vel til hans Gosa, hann er öðlingur og ekki eru afkvæmin að svíkja.
Yfirvegun og geðprýði eru fyrstu orðin sem koma uppí hugann eftir samskipti við kornung afkvæmi hans. Bara gaman að höndla með svoleiðis tryppi.



Mummi og Astrid að kanna Hlíðarvatnið.

Það var blíða í dag hér í Hlíðinni og engu líkara en það væri að koma sumar.....svona í smá stund. Reyndar er komin himna yfir vatnið svo ekki væri nú gott að taka svona sprett alveg í augnablikinu. En gaman er að rifja upp góða sumardaga og láta sig dreyma um sól og sumar.

Ég er að mana mig uppí að segja ykkur sögu sem þið megið ekki fara lengar með.......
Hún er neyðarlega fyrir húsfreyjuna svo það tekur tíma að safna kjarki til að koma henni hér á ,,blað,, en það kemur að því :) Þið hafið það hjá ykkur:)

22.11.2012 22:31

Gaman að gömlum myndum


Það er alltaf svo gaman að skoða gamlar myndir maður finnur alltaf eitthvað skemmtilegt.
Þarna er Mummi að spekja Mósart Otursson og ekki að sjá annað en það fari vel á með þeim.



Það voru margir ungir knapar sem nutu þess að þjálfa Gjóstu gömlu enda var hún vinsæl og notadrjúg. Þessi mynd segir okkur svo sannarlega að hestamennska er skemmtileg.
Þarna er Mummi að keppa á Gjóstu í barnaflokki á afmælisdaginn sinn þegar hann varð 7 ára.
Knapinn kammpakátur í Dúnupeysu og Nokíastígvélum.

Það hefur verið næðingur og þá er kalt en allt stendur þetta til bóta og nú er bara að bíða eftir næstu blíðu. Og þá skulum við njóta.

Mummi er floginn til Svíþjóðar einu sinni enn og er þar í góðu yfirlæti eins og vant er.
Skemmtilegir nemendur sem eru áhugasamir um að bæta sig í hestamennskunni.
,,Gamla,, leikur lausum hala í hesthúsinu á meðan og skemmtir sér bara ljómandi vel.

Rúningur á kindum er frá en lömbin eru reyndar eftir og er það verkefni húsbóndans næstu daga. Enn eru væntingar í gangi með að finna fleira fé og hlýtur sá draumur að verða að veruleika fyrr en varir.

12.11.2012 22:36

Drama, dekur og dásemd



Svona var útsýnið af brúninni fyrir innan Svaðaganginn einn eftirleitardaginn fyrir stuttu.

Það er ekki af fréttaskorti sem ég hef ekki skrifað hér inn að undanförnu heldur hefur það verið skortur á ritdugnaði.
Veturinn hefur sýnt sig öðru hverju og þá mest með vindi og látum, snjórinn hefur meira verið svona í formi sýnishorns.

Kindunum fjölgar dag frá degi sem fengið hafa haustklippinguna og ekki er langt í að flestar þeirra verið komnar inn og á fulla gjöf. Það er alltaf góð tilfinning þegar allt hefur verið klippt sem til stendur að klippa. Við klippum allt fé á þessum tíma fyrir utan smálömb og lambhrúta.
Lambhrútarnir fá sérstaka ,kallaklippingu,, sem tekin var upp hér á bæ fyrir nokkrum árum og hefur reynst vel. Það var nefninlega þannig að við klipptum lambhrútana nokkur ár í röð og uppskárum bara vandræði og vanhöld. Ég var sannfærð um að þetta hefði eitthvað með karlmennsku að gera og til að kulsækið karlkynið yrði ekki niðurlægt að óþörfu var ekki um annað að gera en hanna klippingu. Klippingin er flott, sítt að aftan, hálsinn bera, bumban rökuð og ,,djásnin,, pössuð sérstaklega vel við raksturinn.
Já lambhrútarnir í Hlíðinni eru sko hátískutöffarar með meiru.
Vonandi get ég sett inn myndir af þeim þegar klippingin er afstaðin.

Eins og áður hefur komið fram eignaðist ég hrút frá Ásbirni bónda og frænda mínum í Haukatungu um daginn.
Þegar ég fór og sótti gripinn og fékk ættir og aðrar nauðsynlegar upplýsingar kom í ljós að nafnavalið yrði auðvelt. Gripurinn var undan hrútnum Seiði og kindinni Ást, þar með var nafnið komið Ástarseiður. Þegar ég svo kom heim himinlifandi með gripinn var nokkuð sjálfsagt að deila hamingjunni með fésbókarvinum mínum.
Ekki eyddi ég miklum tíma né mörgum orðum í að upplýsa vinina og varð stadusinn eitthvað á þessa leið:
,,Ástarseiður kominn í hús,,
Viðbrögðin létu ekki á sér standa og margir vildu fylgjast með ..........og hugmyndirnar um hvað væri á seiði voru margar.
Freyðibað, ástardrykkur, nútímadans, ilmvatn, landi og viagra voru á meðal þess sem fólki datt í hug.

Einn af mínum fésvinum var þó ekki í vafa hvað væri á seiði og sendi mér vísu.

Sigrúnar er gatan greið,
gengur hress að púli.
Er að brugga ástarseið,
svo ekki dofnar Skúli.

Já Kristján Björn Snorrason klikkar ekki:)

En til að fyrirbyggja allan misskilning þá er Ástarseiður hinn hressasti og unir sér vel í hrútastíunni. Hann er safna kröftum fyrir komandi annatíma og getur státað af heljarinnar hornahlaupum. Óumflýgjanlegt að birta mynd við fyrsta tækifæri.



Það stemdi í mikinn drama hér í sauðfjárræktinni um daginn eða öllu heldur sauðfjárræktinni í Garðabænum. En þá sannaðist eins og oft þegar á reynir að það er ekki sama hverjir standa við bakið á manni (kindum) þegar á móti blæs.
Golsa hefur í gengum tíðina safnað að sér mörgum dyggum aðdáendum sem gjarnan heimsækja hana nú eða líta á hana hér á síðunni og rifja upp góðar stundir.
Eitt sinn var Golsa keypt og þá sannaðist nú heldur betur hvers virði hún er því það duggði ekkert minna en nokkurra fermetra málverk fyrir gripinn. Golsa flutti nú samt ekki héðan úr Hlíðinni enda er erilsamt fyrir hefðarkindur að búa í Garaðabænum.
Golsa er snillingur sem sífellt kemur á óvart með ýmsum uppátækjum og skemmtilegheitum.

Á hverju hausti er farið gaumgæfilega yfir allar kindur áður en sett er á veturinn, lambavigt og dómar lesið í þaula. Og það sem mestu máli skiptir júgurskoðun en þar eru gerðar strangar kröfur og allar kindur sem ekki eru í fullkomnu lagi fá ,,farseðilinn,,
Golsa kom galvösk og óhrædd beint í flasið á okkur þegar skoðunin var rétt að byrja.

Obbbobobob nú fór heldur betur um fjárhirðana sem litu hver á annan og hugsuðu sitt.
Til þess að enginn væri nú vafinn á því hvernig ástandið væri var Golsu snúið við og hún skoðuð af mikilli nákvæmni. Kom þá í ljós að hún var með júgurbólgu í öðru júgurinu.
Undir öðrum kringumstæðum hefði hún verið afgreidd með hraði og væri þá sennilega að naga guðdómlegar þúfur í grænu högunum hinumegin. En þar sem ,,baklandið,,  hjá Golsu var gott og Golsa í hópi útvalina ákváðum við að æfa okkur í hjúkrunarstörfum og gefa henni tækifæri. Nokkrar vikur eru liðnar og lítur út fyrir að Golsa verði ,,alheilbrigð,, einspena kind sem vonandi á eftir að skemmta aðdáendum sínum næstu árin.







01.11.2012 22:32

Veturinn kominn ??



Á svona dögum er eins gott að ylja sér við eitthvað skemmtilegt og helst frá einhverjum góðviðrisdeginum.
Þessa mynd tók hún Ansú okkar frá Finnlandi þegar hún kom í heimsókn eftir landsmótið í sumar. Þarna erum við Auðséð að spjalla saman og leggja drög að einhverju sniðugu saman.
Auðséð er tveggja vetra undan Karúnu minni frá Hallkelsstaðahlíð og Sporði frá Bergi.
Hún Auðséð er spök og skemmtileg, tekur alltaf svo vel á móti mér þegar ég kem og skoða hana í haganum. Svona uppáhalds :)



Svona var hinsvegar umhorfs hér í Hlíðinni um miðjan daginn í dag en undir kvöld var komið enn meira rok og snjókoma. Hreinlega öskubylur.
Þær voru heldur kuldalegar folaldshryssurnar sem kíktu uppfyrir börðin og athuguðu hvort að ekki væri nú tímabært að fá rúllur.  Hafa sennilega orðið fyrir sárum vonbrigðum þegar þær sáu að við voru bara að smala kindum.



Kindurnar sem síðastar voru í hús nú undir kvöldið voru ansi vel uppfenntar og eins gott að vel hafi smalast hér á túninu.
Við erum búin að hýsa lömbin í nokkrar vikur og til stóð að hafa fé úti a.m.k. hálfan mánuð í viðbót. En í dag var tekin sú ákvörðun að byrja að taka af og þá voru það veturgömlu ærnar sem fyrstar fengu klippingu og að auki nokkrar spari kindur.


Gamla Grákolla var kát með að vera komin inn enda ekki veður fyrir eldri hefðarkindur.

Það er alveg saman hvenær veturinn kemur maður er aldrei tilbúinn, ýmislegt ógert sem átti svo sannarlega ekki að sitja á hakanum. Hugga mig samt við viskuna sem góður maður sagði við mig um daginn ,, veistu Sigrún ef þú verður einhverntímann búin að öllu þá ertu ekki lengur til,, ...........og ég er til og á helling eftir að gera Guði sé lof.

28.10.2012 21:17

Heillandi Hjaltadalur



Astrid með tryppin tvö Tuma frá Enni og Gyllingu frá Sveinatungu sem hún hefur tamið á Hólum síðustu vikurnar.

Við brunuðum norður að Hólum í gær til að sjá sýningu annars árs nemenda sem voru að skila af sér tamningatryppunum. Nemendurnir hafa síðust ca 7 vikur frumtamið og þjálfað þrjú hross og nú í vikunni var lokaprófið með þau.
Astrid stóð sig með mikilli prýði og getur svo sannarlega brosað breytt yfir árangrinum.
Það var gaman að koma að Hólum í gær krakkarnir stóðu sig með miklum glæsibrag sýndu tamningatryppin sín vel og andrúmsloftið var gott.
Margir spennandi gripir voru að taka sín fyrstu sýningu og eflaust eru þau mörg sem við eigum eftir að sjá síðar við hátíðleg tækifæri.
Þar er sérstaklega ein brún hryssa sem heillaði mig mikið.



Síðasta knúsið allavega í bili.................



Það er samt ekki öll nótt úti með það að hitta tamningatryppin sín aftur.......
Þarna eru Ötull frá Hólum og Mummi einmitt að rifja upp gömul kynni en Mummi frumtamdi Ötul þegar hann var á öðru ári.



Fann þessa gömlu mynd þegar Ötull og Mummi voru ,,ungir,, yngri.



Eins og þið sjáið var alveg glæra á vellinum en hestar og knapar létu það ekki á sig fá.
Þarna er Astrid með þjálfunarhestinn Hrannar frá Gígjarhóli.



Þarna ræðast þau við Astrid tamningakona og hesteigandinn, ekki annað að sjá en það fari vel á með þeim.



Þau voru brosmild og sæt þessi sem stilltu sér upp með Mumma í hesthúsinu á Hólum.
Einstaklega svipfallegur reiðkennarahópur Steini Björns, Sigvaldi Lárus og Þórdís okkar Anna.
Já það var gaman að koma ,,heim að Hólum,,

19.10.2012 10:13

Örfréttir



Það er nóg um að vera og ekkert lát á því skal ég segja ykkur.

Frábær haustfundur Hestaíþróttadómarafélagsins var haldinn í gær. Hafrún Kristjánsdóttir ,,boltakona,, og sálfræðingur flutti stór gott erindi, síðan var farið yfir ýmiss mál sem tengdust dómsstörfum síðasta árs. Góð stund með skemmtilegu fólki.
Stjórn og fræðslunefnd HÍD'Í á þakkir fyrir gott framtak.

Góðar fréttir af Mummanum í Svíþjóð en í dag hefst mikil helgartörn í kennslu, bara spennandi.

Í dag er það svo Landsþing hestamanna sem nú er haldið í Reykjavík.
Og um helgina er ýmislegt annað á döfinni svo sem hrútasýning, afmælisveisla og margt fleira.