04.01.2013 23:03

Áramóta.......??



Þó svo að þessi mynd sé ekki í miklum gæðum þá er hún tekin frá svo skemmtilegu sjónarhorni að ég varð að láta hana fljóta hér með.
Myndin er tekin af Múlanum á brúninni fyrir ofan Þrepaganginn.

Það var vorveður í Hlíðnni í dag og ótrúlegt hvað stutt er síðan það var hálfgerður bylur og bölvuð leiðindi. Tamningahrossin kunnu bara vel að meta veðrið og voru spræk. Það er erfitt að gera okkur til hæfis.  Um daginn var vegurinn glerharður og leiðinlegur undir fæti en núna er hann svo mjúkur og blautur að það er til vandræða.

Ég áttaði mig á því í dag að kella telst nú varla viðræðuhæf svona á nýju ári þar sem ég strengdi ekkert áramótaheiti. Já og það sem meira er hef ekki lesið Völvuspánna eða nokkuð annað sem segir mér hvering árið 2013 verður. Er ekki komin í aðhald, hef ekki farið út að hlaupa og skammast mín ekki mikið fyrir lifnaðarháttinn um jól og áramót.
Er reyndar svolítið hugsi yfir því hvernig fólk lætur eða lifir......svona af umræðunni að dæma. Hlusta þónokkuð á útvarp og les blöðin svona þegar færi gefst.
Það er eins og fólk borði aldrei mat nema á jólunum og þá er sektin svo mikil yfir því að það þarf ekki desert. Skömmin er nægileg til að vera bæði ábót og desert.
Vonandi er þetta bara í orði og þetta hræðilega samviskubit bara hugarfluga sem er ,,inn,, að hafa núna. Kannske eitthvað svona ,,hippókúl,, eins og stundum er sagt og ég skil ekki. Þið megið engum segja, það er víst ekki flott að skilja ekki það sem er svoleiðis.
 Ég hugsa til þess með hryllingi ef að fólk maular bara eitthvað óspennandi 360 daga á ári og bíður þess svo ekki bætur að smakka væna flís af feitum sauð um jólin.
Þetta er sama umræðan eins og sprettur alltaf upp í kringum sprengidaginn en þá er eins og landinn sé á barmi glötunnar að borða saltkjöt í eitt skipti. Fjölmiðlarnir hamra endalaust á því hversu hræðilega óhollt sé að smakka saltkjöt og taka viðtöl við fólk sem þorir varla að viðurkenna að það hafi framið glæpinn. Sko borðað saltkjöt.
Athygglivert að hugsa til þess að fyrir nokkrum áratugum þegar landinn borðaði meira af kjöti og fiski var hann grennri. Nú ertu ekki maður með mönnum nema sneiða hjá þessum fæðutegundum en samt verðum við feitari og feitari............af hollustunni.
Já það er ótrúlegt að íslendingar séu ekki löngu útdauðir.

Það skal tekið fram að höfundur borðar ekki eingöngu kjöt og mætti alveg sjá af nokkrum kílóum. Bara svo ykkur líði nú betur kæru lesendur.

Ég er enn að hugleiða hvort áramótaheiti sé eitthvað fyrir mig ?

En að alvarlegri málum, Skúta er ennþá alvarlega veik og ekki ljóst hvernig fer. Hjalti dýralæknir hefur komið reglulega og meðhöndlað hana en við vaktað hana þess á milli.
Vonandi fer þetta vel en erfitt ætlar það að vera.