01.11.2012 22:32

Veturinn kominn ??



Á svona dögum er eins gott að ylja sér við eitthvað skemmtilegt og helst frá einhverjum góðviðrisdeginum.
Þessa mynd tók hún Ansú okkar frá Finnlandi þegar hún kom í heimsókn eftir landsmótið í sumar. Þarna erum við Auðséð að spjalla saman og leggja drög að einhverju sniðugu saman.
Auðséð er tveggja vetra undan Karúnu minni frá Hallkelsstaðahlíð og Sporði frá Bergi.
Hún Auðséð er spök og skemmtileg, tekur alltaf svo vel á móti mér þegar ég kem og skoða hana í haganum. Svona uppáhalds :)



Svona var hinsvegar umhorfs hér í Hlíðinni um miðjan daginn í dag en undir kvöld var komið enn meira rok og snjókoma. Hreinlega öskubylur.
Þær voru heldur kuldalegar folaldshryssurnar sem kíktu uppfyrir börðin og athuguðu hvort að ekki væri nú tímabært að fá rúllur.  Hafa sennilega orðið fyrir sárum vonbrigðum þegar þær sáu að við voru bara að smala kindum.



Kindurnar sem síðastar voru í hús nú undir kvöldið voru ansi vel uppfenntar og eins gott að vel hafi smalast hér á túninu.
Við erum búin að hýsa lömbin í nokkrar vikur og til stóð að hafa fé úti a.m.k. hálfan mánuð í viðbót. En í dag var tekin sú ákvörðun að byrja að taka af og þá voru það veturgömlu ærnar sem fyrstar fengu klippingu og að auki nokkrar spari kindur.


Gamla Grákolla var kát með að vera komin inn enda ekki veður fyrir eldri hefðarkindur.

Það er alveg saman hvenær veturinn kemur maður er aldrei tilbúinn, ýmislegt ógert sem átti svo sannarlega ekki að sitja á hakanum. Hugga mig samt við viskuna sem góður maður sagði við mig um daginn ,, veistu Sigrún ef þú verður einhverntímann búin að öllu þá ertu ekki lengur til,, ...........og ég er til og á helling eftir að gera Guði sé lof.