29.11.2009 22:28

Vetur kallinn kominn.



Þessa fallegu mynd tók hún Astrid út um dyrnar hér heima eitt kvöldið.
Á morgun er síðasti dagur sem að sólin ætti að sjást hér í Hlíðinni á þessu herrans ári.
Hún sem sagt tekur sér frí frá því að ylja köldum Hlíðarbúum alveg þangað til 14 janúar en þá kemur hún aftur blessunin og af því tilefni eru alltaf bakaðar sólarpönnukökur hér á bæ.
Já það geta ekki allir alltaf verið sólarmegin í lífinu.



Þarna er hann Ríkur minn blessaður að viðra sig svona áður en græniliturinn breyttist í hvítt.

Veðrið hefur verið heldur betur vertarlegt hér í Hlíðinni undanfarna daga og erum við aðeins byrjuð að gefa stóðinu. Einn hópurinn hefur þó ekki sé ástæðu til að koma heimundir og unir sér einhversstaðar inní fjalli.
Við erum að bíða eftir að fá gott og bjart veður til að æða til fjalla og finna vonandi fleira fé og auðvita hesta. Annars fóru vaskir sveinar með fullt af græjum og náðu kind úr klettum á föstudaginn. Kindin sú arna fékk slæmt óþekktarkast og stökk í kletta þegar verið var að reyna að ná henni. Því miður var ég ekki með myndavélina þá en allt gekk þetta vel og allir komu heilir heim. Eins og undanfarin ár vantar okkur alltof margt fé af fjalli svo að áfram verður leitað og vonað að eitthvað komi í leitirnar.



Mig vantar í mórusafnið mitt en þarna er smá sýnishorn á leið í klippingu, helstu einkenni þessa stofns er kjötgæði, óþekkt og styggð væru öruggleg góðar í Tálkna. 



Það er alltaf góð tilfinning að sjá hjörðina aftekna á þessum tíma. Þröngt á þingi þar sem að ekki var alveg búið að klippa þegar myndin var tekin.



Að lokum Mórurnar mínar í klippingu hjá Skúla, svona........ kind númer...........sexhundruð og eitthvað. Samt allt búið núna.

26.11.2009 21:54

Annar í Hólum

Í gær fór ég í annað sinn þessa vikuna norður að Hólum þar sem að stjórn Félags tamningamanna var að funda með Hólamönnum og til að fara á verknámssýningu nemenda.
Við áttu góðan fund og sýningin hjá nemendum var ljómandi fróðleg og góð.
Það er alltaf svo gaman að koma í kennslustundir og sjá vinnubrögðin sem nemendur eru að læra og æfa sig í.
Við stjórnarmenn hér sunnan heiða lögðum snemma af stað og vorum komin fyrir hádegi á Hólastað. Þá fórum við og kíktum aðeins inní kennslustund hjá nemendum sem voru að æfa sig í reiðhöllinni og síðan fórum við í hesthúsið.
Hádegismaturinn hjá Óla kokki var góður eins og alltaf, að honum loknum funduðum við.
 Margt nýtt og fróðlegt kom fram á fundinum og alveg ljóst að menntun tamningamanna framtíðarinnar er í góðum farvegi og mikill mettnaður til staðar hjá mannskapnum.
Það er alveg ljóst að það eru virkilega spennandi tímar framundan hjá skólanum og verður gaman að fylgjast með á næstu árum.  Og síðan var það sýningin þar sem að nemendur sýndu margvísleg vinnubrögð og æfingar.
Á leiðinni heim lentum við í ævintýrum þegar ljósin á bílnum hans Marteins dofnuðu hægt og hægt  að lokum var eiginlega orðið svarta myrkur. Við vorum þá stödda við Laugabakka svo að það var bara rennt þar heim. Á vegi okkar varð hjálpsamur herra sem brást skjótt við og í sameiningu leystu hann og Marteinn málið þannig að við dömurnar þurftum ekkert að láta reyna á bifvélavirkjahæfileika okkar................sem betur fer.
Það voru því þreyttir en ánægðir ferðalangar sem voru að mæta heim vel eftir miðnætti.
Myndavélin var með í för en því miður mundi enginn eftir henni fyrr en heim var komið.

26.11.2009 20:48

Klippingar.................



Úpps........ertu að taka mynd af mér?
Hér á myndinni er höfðinginn og uppáhaldið mitt hún Karún Orradóttir að njóta veðurblíðunnar.

Það er margt búið að afreka í Hlíðinni síðustu daga og vonandi halda afrekin áfram næstu daga.
Um síðustu helgi var klárað að taka af öllu fénu og því allur hópurinn kominn á gjöf.
Ég var að reyna að sannfæra Skúla um að það borgaði sig sannarlega að taka af sjálfur. Ég setti upp fyrir hann dæmi sem að átti auðveldlega að sanna að ég hefði á réttu að standa. Kallinn fór í klippingu um daginn sem er svo sem ekki í frásögu færandi nema að hann var korter í stólnum og það kostaði litlar 3500 krónur. Og takið eftir hann fékk ekki gel, lit eða glimmer. Mér fannst því sanngjarnt að reikna með því að rollurnar fengju ,,fjölskylduafslátt,, hjá rúningsmanninum og borguðu bara 3000 krónur á stykkið. Þær voru jú að fá alklippingu en ekki bara hausaklippingu. Ef að 700 kindur borga 3000 krónur gerir það 2.100.000- tvær milljónir og eitt hundraðþúsund. Ekki svo slæmt viku kaup það.
Nei þetta er því miður ekki raunveruleikinn nema að litlu leiti og því varð Skúli bara að puða og klippa en ég að finna eitthvað raunverulegra til að sannfæra kallinn.
Öll ullin er farin og vitið þið hvað ? núna er beðið eftir ullinni hjá Ístex því stór hluti þjóðarinnar er farain að prjóna og þá má nú ekki standa á hráefninu.
Ég fékk líka símtal þar sem að fulltrúi sláturleyfishafa á Sauðárkróki var að leita að fleira fé til slátrunnar. Útfluttningur á lambakjöti hefur er mikill í haust og birðir farnar að minnka. Það verður kannske þannig í framtíðinni að erfitt verður fyrir landann að fá lambakjöt?
Það var nokkuð athygglisvert sem ég heyrði í útvarpinu um daginn þar var verið að ræða um hversu mikið vantaði uppá að þjóðir heims ættu nægan mat árið 2020.
Þar kom fram að mikil fækkun er á sauðfé í heiminum og margir sauðfjárbændur viðsvegar um heiminn væru hættir framleiðslu.
Skilaboðin til ykkar eru sem sagt þau njótið á meðan þið hafið tök á því og hugsið nú fallega til okkar sauðfjárbænda ekki veitir af á þessum síðustu og verstu tímum.

Hún Astrid tók fullt af myndum þegar verið var að taka af en þar sem að hún skrapp í menningarreisu þá koma þær inná síðuna seinna.

21.11.2009 21:53

Hólaferðin góða.



Á þessari mynd eru Mummi og hestagullið Katla frá Flagbjarnarholti.

Í gær var brunað norður að Hólum til að líta á menn og málleysingja, tilefnið var ærið tamningatryppin að klára sitt tíu vikna verkefni ,,útskrifast,, og fara til sinna heimkynna.
Það var greinilegt að það var nokkurs konar spennufall hjá nemendum eftir strembna daga.
Mér fannst að þessar tíu vikur síðan tryppin fóru norður hafa liðið mjög hratt og get því trúað því að þær hafi verið eins og örskot hjá nemendunum sem að nú voru að fara í gegnum próf með tryppin. En það var hreint ótrúlegt hvað þetta hefur gengið vel og sýningarnar voru flottar í dag.  Hver nemandi á öðru ári fær úthlutað tveimur tryppum og fær það verkefni að temja þau til prófs í tíu vikur. Nú í ár voru gerðar breytingar á prófunum þannig að nú verða nemendur að mæta til prófs með bæði tryppin en fá ekki að velja í hvaða próf hvert hross fer. Þetta gerir miklar kröfur til nemendanna og verða þau að ná ákveðnum einkunum til að standast prófið. Síðan fá nemendurnir úthlutað tveimur hestum sem eru a.m.k frumtamin og þjálfa þá í ákveðinn tíma. Próf á þeim er svo eftir tvær vikur, þannig að spennan er hvergi nærri búin.
Ég viðurkenni það fúslega að ég er afar stollt af mínum Mumma sem fékk frábærar einkunnir á bæði hrossin sín þau Kötlu og Ötul. Til lukku Mummi minn það var gaman að sjá til þín í dag.
Maður á að leyfa sér að vera ánægður og stolltur þegar vel gengur því þegar á móti blæs kemur maður alltaf niður á jörðina aftur.



Mummi og Ötull frá Hólum í léttri Skagfirskrisveiflu.




Hvað ætli þeir séu að ræða um þessir tamningamaðurinn og eigandinn????
Eitthvað gott og skemmtilegt............. ég veðja á að fyrsti stafurinn sé KATLA.



...............og svo var komið að kveðjustundinni............. þau eru ung og efnileg, vonandi hafa þau bæði haft gagn og gaman af samverunni og brosa bara á móti framtíðinni.



Eins og áður hefur komið fram þá fóru þrír folar frá okkur sem tamningatryppi fyrir nemendur. Þarna er einn þeirra Baltasar sonur Arðs frá Brautarholti og Trillu hans Mumma með tamningamanninum sínum henni Jónu G Magnúsd. Hún hefur tamið hann síðustu tíu vikurnar og sýndi okkur síðan árangurinn af því í dag.  Ég verð að segja að ég var mjög ánægð með Baltasar og samvinnu hans og Jónu. Hann var mjúkur, sáttur og fór fallega svo leit hann rosalega vel út hjá Jónu sem að mér finnst alltaf góður vitnisburður um að verkefninu sé sinnt af alúð. Takk fyrir Jóna ég er mjög sátt. Mér hefur stundum heyrst að það sé ekki sjálfgefið að ég sé það.emoticon



Þarna eru svo kapparnir Fjórðungur undan Arði frá Brautarholti og Sunnu frá Hallkelsstaðahlíð og tamningamaðurinn hans Daníel Smárason. Þeir stóðu sig með prýði á sýningunni í dag eins og þeirra var von og vísa.  Takk fyrir sýninguna Danni ég var sátt.
Þriðji folinn sem að fór norður var hann Vörður undan Arði frá Brautarholti og Tign minni frá Meðafelli, hann varð fyrir smá óhappi og slasaðist og kom heim fyrir hálfum mánuði.
Tamningamaðurinn hans var Inga Dröfn Sváfnisdóttir þeim hafði gengið mjög vel og sem betur fer gat hún fengið vinnu sína með hann metna til prófs. Vörður er allur að jafna sig og bíð ég bara spennt eftir því að halda áfram með hann. Það verður spennandi að sjá hvort að hann verður betri en stóri bróðir hans Fannar sem að hefur verið keppnis og skólahestur Mumma á Hólum. Vörður er allavega stærri. Takk fyrir þinn þátt Inga Dröfn.

Að lokum sýndi Mummi hvað Sparisjóður hafði lært í Hólavistinni og það var nú bara ýmislegt skal ég segja ykkur. En vitið þið hvað???? batteríið var bara búið svo að þið fáið engar myndir af honum núna.

Að lokum var öllum görpunum smellt uppá kerru og brunað heim í Hlíðina.
Kella var ánægð þegar allir voru komnir heim og þá var hamingjan mest að Sparisjóður var kominn á sinn stað í hesthúsinu, hef saknað hans mikið.

20.11.2009 14:47

Annríkið góða........


Annríki, annríki og ennþá meira annríki.

Farin norður að Hólum ferðasaga og myndir eins fljótt og auðið er..................

16.11.2009 22:20

Glotthildur, Léttlindur og tanaðir hrútar.



Þetta er hún Glotthildur hún er þarna að kljást við vin sinn, frændi hennar Léttlindur er frekar þreyttur kallinn og geispar bara af lífi og sál.
Glotthildur er undan Glotta frá Sveinatungu og Sunnu en Léttlindur er undan Hróði frá Refsstöðum og Létt frá Hallkelsstaðahlíð sem er dóttir hennar Sunnu. Smá ættfræði.

Við hér í Hlíðinni erum búin að vera í djúpum skít í dag, sko í orðsins fyllstu merkingu. Það er nærri því búið að moka út úr litlu fjárhúsunum og vonandi klárast það á morgun.
Þá eru öll haughús á bænum tóm því Mummi mokaði út úr stóru fjárhúsunum áður en hann fór norður. Góð tilfinning í byrjun vetrar.
Yfirmokarinn mætti í morgun og síðan er allt búið að vera á fullu. Skúli hefur svo rokið öðru hvoru í að taka af og miðar því verki vel rúmlega 450 kindur búnar en svolítið margar eftir samt.
Allt hefur gengið vel en ég verð sennilega að bíða með að sýna ykkur myndir af lambhrútunum..................þeir fóru í smá sturtu. Svona ykkur að segja ekki þrifabað heldur meira svona brúnkumeðferð........................eða þannig.

Nú fer að styttast í að folarnir okkar sem eru á Hólum komi heim, prófin hjá nemendunum eru núna í vikunni og svo sýningin á laugardaginn. Ég bíð spennt eftir að sjá hvernig hefur til tekist. Ætla að mæta og sjá ef að Guð lofar.
En spenntust er ég nú að fá Sparisjóðinn minn heim og sjá hvort að hann hefur lært eitthvað sniðugt í Hólavistinni.

15.11.2009 22:14

Fannar og formið.



Á myndinni er hann Fannar að hugsa.............já Fannar að hugsa það var einmitt það sem ég efaðist um í stutta stund að hann gerði, eftir æsilegan eltingaleik um daginn.
Seinna hef ég komist að því að hann hugsar og er háklassa karlremba þessi elska.
Eins og sönn dekurrófa er hann í ,,sparihaust,, hólfinu sínu með besta vini sínum honum Dregli. Að undanförnu hafa verið að bætast í hópinn gripir sem að honum finnst sennilega vera fyrir neðan sína virðingu og því ákvað hann að stinga af. En hann átti fleiri kvennaðdáendur en hann hefur reiknað með svo að hann gat nú ekkert laumast öðruvísi en með hópinn á eftir sér. Til að gera langa sögu stutta þá sluppu Fannar og dömuhópurinn heim á tún þegar þangað var komið var hlaupið eins og villidýr fram og til baka. Í byrjun hélt ég að það væri nú örugglega á færi virðulegar húsfreyju að koma þeim til baka en fljóttlega kom í ljós að svo var ekki. Ég fór því heim og sótti Astrid og rukum við af stað fullvissar um að hafa sigurinn fljótt. Fannar var ánægður með athygglina og bætti enn í hlaupin, hinsvegar var farið að draga af fylgdardömunum og þær hættar að hafa við honum.
Þegar hér var komið við sögu voru fylgdardömurnar orðnar móðar og másandi en okkur Astrid var helst farið að hittna í hamsi.............jafnvel svo hressilega að ekki voru öll orðin sem fuku útí haustblíðuna falleg. Svo loksins þegar Fannar hafði hlaupið nægju sína og kannað alla króka og kima innan túngirðingar ákvað hann að rjúka sjálfur til baka í girðinguna. Langt á eftir honum í gegn um hliðið komu svo dömurnar hans sveittar og dasaðar. Að lokum komu svo aðrar dömur fúlar, tuðandi og pirraðar. Þá stóð þessi elska rétt fyrir innan hliðið og horfði á bæði hryssur og kellur með samúaðar svip sem sagði.............iss þið eru ekki í neinu formi hafið þið ekki verið á Hólum.

13.11.2009 00:01

Góð kennslusýning í frábærri reiðhöll og smá ,,ömmu,, knús.


 Já það var sko hægt að segja að hún var fjölbreytt, fróðleg og skemmtileg kennslusýningin sem haldin var í stórglæsilegri nýrri reiðhöll vestlendinga í Borgarnesi.
Þórarinn Eymundsson tamningameistar FT stóð fyllilega undir væntingum og hélt 250 námfúsum nemendum vel við efnið í rúmlega tvo tíma. Þórarinn hafði meðferðis tvær hryssur sem að hann notaði við kennsluna önnur þeirra var gæðingurinn Þóra frá Prestbæ hin ung og efnileg Orradóttir. Að auki fékk hann svo í hendurnar hryssu Hamónu frá Söndum sem að hann hafði ekki áður séð og sýndi hvernig hann vildi vinna með hana og gaf ráð við áframhaldandi þjálfun. Virkilega gaman að fylgjast með vinnubrögðum hans.



Þær heppnuðust nú ekki allar vel myndirnar, svolítið erfitt að fá rétta birtu inní höll.



Þeir kunnu að sko að meta vöfflurnar þessir drengir...............



Það var þétt setið í stúkunni, verst hvað myndirnar eru dökkar. En höllin er alveg stórglæsileg og frábært skipulag og hönnun sérstaklega innandyra. 
Höllin á  örugglega eftir að nýtast vel. Innilega til hamingju allir þeir sem hlut eiga að máli.



Þá er að smella sér norður yfir fjöllin Þórarinn og Þóra ásamt aðstoðarfólkinu þeim Heiðrúnu og Pétri.



Ég og ,,ömmustelpan,, mín vorum líka orðnar þreyttar en urðum samt að knúsast svolítið áður en ég fór heim í Hlíðinna og hún í Reykholtsdalinn. Hún er heldur betur efnileg hestakona búin að skreppa á Hóla og mætir svo á kennslusýningu (svaf reyndar í vagninum sínum þangað til fólkið fór að klappa) en hefur örugglega lært eitthvað.

10.11.2009 22:19

Kennslusýning Þórarinn Eymundsson.... ekki missa af.....


Það hefur verið nóg um að vera hjá mér að undanförnu reyndar eins og stundum áður.
Síðasta föstudag sat ég aðalfund Félags hrossabænda sem haldinn var í Bændahöllinni og á laugardaginn fór ég á ráðstefnuna Hrossarækt 2009. Þetta voru góðir og gagnlegir viðburðir. Á laugardagskvöldið var svo farið á uppskeruhátíð hestamanna og þar var að sjálfsögðu mikið fjör eins og alltaf. Alltaf svo gaman að hitta hestamenn.

Sunnudagurinn var svo nýttur í það að reka inn lömbin og gera allt klárt fyrir aftekningu sem að hófst svo á mánudaginn. Reyndar vorum við svo ljónheppin að vera boðin í mat á sunnudagskvöldið hinumegin við fjallið. Voða notalegt að þurfa ekki að elda á svona kvöldum. Takk fyrir skemmtilega kvöldstund og gestrisni.

Í dag var svo haldið áfram að taka af og miðar verkinu bara vel. Alltaf er að bætast við og heimtast fé úr eftirleitum í gær var það útigenginn veturgamall hrútur, rolla og lamb.
Væri alveg til í að fá þennan fjölda daglega í einhvern tíma.

Á morgun stendur Félag tamningamanna í samstarfi við Hestamannafélagið Skugga fyrir kennslusýningu í nýju reiðhöllinni í Borgarnesi. Þar mun Þórarinn Eymundsson tamningameistari koma og kynna ýmiss vinnubrögð við tamningar og þjálfun.
Sýninginn hefst kl 20.00 og eru allir hjartanlega velkomnir.

sjá nánar á www.tamningamenn.is

05.11.2009 22:19

Sjaldséðir hvítir hrafnar.......



Það er erfitt að halda haus á þessum síðustu og verstu tímum svo það er gott að eiga góða að.

Hér í Hlíðinni hefur sést grár/hvítur hrafn nokkrum sinnum á síðustu vikum. Ég er sko ekki að tala um sjaldgæfan gest sem að ekki hefur komið í kaffi í langan tíma. Ó nei ekki aldeilis. Þið skulið nú lesa aðeins lengra ég er ekki alveg búin að tapa glórunni. Ég var búin að sjá hann nokkrum sinnum en þar sem að ég er nú enginn sérstakur fuglaspekingur og sé ekki vel þá þorði ég ekki að hafa orð á þessu í nokkra daga. En þegar aðrir hér á bæ fóru að færa þetta varlega í tal við mig örugglega jafn smeikir um glóru missir eins og ég , þá var rokið í nánari fuglaskoðun.
Í ljós kom að þetta er svo sannarlega hrafn og liturinn er grár/hvítur. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur enn ekki tekist að ná mynd af gripnum. Við Astrid erum báðar búnar að gera tilraunir til að mynda gripinn og var Mummi svo virkjaður í málið um síðustu helgi en honum varð ekkert frekar ágengt í málinu. Hrafninn er sem sagt eins og fræga fallega fólkið mikið fyrir að láta elta sig með myndavélina.

Ég var að fá fréttir frá henni Ansu okkar í Finnlandi og þar er sko vetur 30 cm djúpur snjór. Það er sko eins gott að þeir félagarnir Nasi og Pinni eru vanir Íslensku fjallaveðri.
Það er gott fyrir þig Ansu að venja þig við snjó og vetur sérstaklega ef að þú kemur heim til Íslands og ferð í Háskólann á Hólum.emoticon

Í dag var tekinn smá hringur í eftirleit en ekkert fannst nema skruddur sem að höfðu stungið af út af túninu og voru að reyna að laumast til fjalla. Þær eru skrítnar þessar kindur ef að þær eiga að vera uppí fjalli þá koma þær í túnið en ef að þær eiga að vera á túninu þá er sjálfsagt að stinga af.

Það er ýmislegt á döfinni næstu daga en nánar um það síðar.

04.11.2009 22:22

Er nú svolítið löt...........að blogga.



Þarna eru nokkrar af unghryssunum að njóta lífsins og hugsa til þess að það er bara ár þangað til byrjað verður að temja þær. Eins gott að standa sig..............

Ég er búin að vera löt að skrifa fréttir undanfarið en það eru svo sem skýriningar á því.
Verð að deila því með ykkur í trúnaði að það er bara alltaf brjálað að gera hjá húsfreyjunni.
Stundum hugleiði ég hvort að það væri ekki rétt að fara að fækka spennandi verkefnum sem að ég vil og verð að vasast í. En niðurstaðan er alltaf sú sama, ég vil og verð og við það situr.

Rjúpnaveiðarnar hjá okkar mönnum gengu bærilega um síðustu helgi þ.e.a.s þeir löbbuðu í góðu veðri út um allt fjall sáu einstaka rjúpu bregða fyrir og enginn þurfti þyrlufar heim.
En þar sem að þeir hyggjast borða rjúpur á jólunum er alveg víst að þeim veitir ekki af leyfilegum veiðidögum til að bjarga jólahamingju sinna fjölskyldna.

Mummi kom heim um helgina og tókum við dágóðan tíma í að fara yfir og spá í það sem tamningamannsefnin á Hólum hafa verið að læra að undanförnu.
Viðja litla fékk heiðurinn af tilraununum og tók þeim afar vel. Það er alltaf svo gaman að fylgjast með hvað krakkarnir eru að læra á Hólum. Vá hvað væri gaman að vera þar í skólanum.

Á sunnudaginn komu síðustu hryssurnar heim úr stóðhestagirðingum það voru þær Spóla og Tryggð sem að komu heim frá höfðingjanum Hlyni. Þær hafa ekki enn verið sónaðar en við vonum það besta. Hlynur varð eftir með tvær hryssur í girðingunni það var gaman að sjá hann og ástandið á honum var flott eins og við var að búast.

Í dag komu vinkonurnar úr Borgarnesi í sína árlegu heimsókn það er óhætt að segja að það er bæði gagn og gaman að fá þær í heimsókn. Takk fyrir daginn dömur ættum nú að hittast oftar.

Ég er búin að fara á tvo fundi um skólamál í þessari viku og er afar hugsi eftir þá en hef ákveðið að deila þeim hugleiðingum síðar.


Nú fer að styttast í að féð verði tekið á hús, hrútarnir komnir inn og hafa fengið þessa fínu herraklippingu og lömbin koma inn á næstu dögum. Síðan fara kindurnar að smá týnast inn og allt að komast í rólega rútínu. Þá verður farið að ríða út af alvöru.

28.10.2009 22:54

Rjúpnavinir og aðrir kunningjar................



Hnappadalurinn hefur uppá margt að bjóða.............................

Það er með ólíkindum hvað ,,kunningjahópurinn,, stækkar rosaleg hér í Hlíðinni þegar rjúpnatíminn nálgast. Síminn hringir, það bætist í pennavinahópinn á netinu og  maður eignast jafnvel nýja kunningja þegar maður fer í búðina. Suma þekkir maður vel aðra svolítið og suma bara ekki neitt. Annars er ég nú ómannglögg svo að þetta er kannske allt saman misskilningur. Ég fékk til dæmis skemmtilegt símtal í kvöld þá hringir í mig maður sem að hafði verið náinn vinur, vinar löngu látins frænda míns. Já þetta hljómar nú ekki mjög  skírt en svona var það nú samt. Hann hafði mikinn áhuga á að endurnýja þessi tengsl og vináttu (sem fyrst allavega fyrir helgi). Ég hef nú alls ekkert á móti því að kynnast nýju fólki nema síður sé en það væri óneytanlega skemmtilegra að dreifa því svona á lengri tíma.
En til að taka af öll tvímæli þá er málum þannig háttað hér í Hlíðinni að sérvaldir og löngu ráðnir vaskir sveinar sjá um öll rjúpnamál hér. Þeir skiptast samviskusamlega á og eru á ferðinni flesta rjúpnadaga. Þetta eru geðprýðismenn en geta orðið viðskotaillir ef að einhverjir eru að þvælast á ,,þeirra,, svæði svo að það er enginn ástæða til að ergja þá að óþörfu. emoticon

27.10.2009 22:47

Eitthvað svo kindalegt.



Hér koma myndir frá rúningskeppninni í Búðardal, þarna er bjartasta von okkar Kolhreppinga í rúningi. Þetta er hann Þórður í Mýrdal sem að varð í öðru sæti í flokknum ,,minna vanir,, svo hér fyrir neðan er næsti ættliður.....................



...................Gísli bóndi í Mýrdal sem varð í öðru sæti í aðal keppninni eftir harða baráttu við Julio Cesar frá Hávarðsstöðum meistarann frá því fyrra.
Það var gaman að fylgjast með þessari keppni og mjög líklegt að fleiri verði með á næsta ári.

Í gær og í dag höfum við skoðað og yfirfarið hverja einustu kind, kannað hvernig lömbum hún hefur skilað og hvort að heilsufarið sé ekki ákjósanlegt. Þetta gerum við alltaf á haustin til að hafa sem besta yfirsýn og ganga úr skugga um að engin kind verði sett á vetur nema hún standist þetta tékk. Einnig er þetta gott tækifæri til að finna út hvaða kindur vantar enn af fjalli. Öll númer eru borin saman við bækurnar og þannig sést hvaða kindur eru óheimtar.
Á morgun fara svo síðustu lömbin og sláturskindurnar norður á Sauðárkrók. Alltaf svo gott þegar allt þetta sláturstúss er afstaðið.
Heimtur eru betri en í fyrra en samt vantar ennþá nokkra tugi af fjalli. Á næstu dögum set ég upp Tigergleraugun og tel saman hvað raunverulega vantar af fjalli.

Loksins er búið að laga ruglið sem var á síðunni en ég á enn eftir að bæta inn tenglum sem að duttu út. Verð að fara að gefa mér tíma til að dekra við síðuna og bæta meiri upplýsingum inn.

26.10.2009 23:03

4x4 eru ekki bara drif heldur líka fjórir ferhyrndir.



Já hann er ekki bara ferhyrndur hann Ferningur það hefur sko komið í ljós að undanförnu.

Við fengum lömb undan átta kindum og honum síðast liðið vor, fjölkvænið heldur skorði við nögl út af hornunum fjórum. En útkoman hreint frábær kindurnar allar með tveimur lömbum, þungi og flokkun með ágætum. Einnig voru sónarskoðaðar þrjár gimbrar undan honum og þær komu mjög vel út. Ég tek það skýrt fram að það er ekki stefnan að fjölga ferhyrndum kindum neitt að ráði hér en mér er mikið í mun að viðhalda þessu kyni þar sem það er komið frá föður mínum heitnum. Ekki skemmir því fyrir að þetta séu góðar og gjöfular kindur sem reyndar eru í eigu Mumma. Ég er bara svona faglegur kynbótarolluráðgjafi hjá Mumma og að sjálfsögðu á ofurlaunum hjá honum eins og ráðgjöfum ber.

Ég fór inni Búðardal á laugardaginn að fylgjast með rúningsmönnum etja kappi og einnig til að hitta skemmtilegt fólk. Það tókst svo sannarlega því þarna voru saman komin hátt í 500 manns. Skemmtunin fór fram í nýrri reiðskemmu Glaðsmanna og heppnaðist í alla staði vel.
Það hefur verið frábært að fylgjast með hvernig uppbyggingin á félagssvæði Hestamannafélagsins Glaðs hefur farið fram. Þarna er kominn góður keppnisvöllur og nú reiðskemma. Eftirtektarvert  er að þetta hefur að stórum hluta verið unnið í sjálfboðavinnu.
Já það mættu nú stærri og fjölmennari félög eitthvað læra þarna hjá þeim Glaðsmönnum.
Innilega til hamingju með þennan áfanga Glaðsfélagar og aðrir Dalamenn þetta hús á örugglega eftir að nýtast ykkur vel.

Myndir eru væntanlegar frá þessari fínu hátíð.

Garparnir litlu Léttlindur Hróðsson og Blástur Gustsson voru teknir hér heim um helgina.
Á næstunni verður þeim gefið auga og í framhaldi af því ráðnir í hlutverk við hæfi.
Þyrfti nú að smella á þá mynd svo að þið sæuð þó ekki væri nema litina.

22.10.2009 22:05

Púddufátækt og fleira



Á myndinni er góður höfðingi að njóta veður blíðunnar við húsvegginn hér í Hlíðinni.

Í gær var brunað í bæinn til að fara á kennslusýningu hjá Antoni Páli Níelssyni reiðkennara.
Sýningin var samstarfsverkefni Félags tamningamanna og Hestamannafélagsins Gusts sýningin heppnaðist mjög vel og var aðsóknin góð um 200 manns. Á næstunni verða fleiri svona viðburðir á vegum FT og ýmislegt spennandi framundan.
Eftir sýninguna var svo litið við hjá afmælisbarninu í Garðabænum og þar var náttúrulega þessi fína terta á boðstólnum. Takk fyrir mig Erla mín.

Það var líka rokið til fjalla í eftirleit og árangurinn var bara nokkuð góður rúmlega 20 kindur. Já það var ekki sérstaklega gott færið síðasta laugardag þegar við smöluðum svo það var nauðsynlegt að fara í tiltekt.

Ég hef verið að forvitnast um folana okkar sem eru í námi á Hólum þá Baltasar, Vörð og Fjórðung (sko ekki Mumma og Helga) þeir eru bara að standa sig vel og gera það vonandi áfram. Ég er orðin svolítið spennt að sjá þá og bíð eftir sýningunni.
Svo verður nú gaman að hitta Sjóðinn sinn aftur og sjá hvað hann hefur lært.

Annars er ég í frekar slæmum málum því að hænur búsins eru komnar í verkfall. Ég held að þær séu að mótmæla kreppunni eða ríkisstjórninni og hafi ákveðið að þær væru orðnar alltof gamlar til að verpa. Alltaf þessi æskudýrkun hjá kvennþjóðinni. Ég er orðin svo vön stórum sveitaeggjum með dökkri rauðu að ég fæ næstum klíu og klúðra öllum kökuuppskriftum þegar ég brýt lítil og náföl Bónus egg saman við degið.
Sem sagt mig vantar hænur...............................