17.01.2010 22:12
Jæja...........Laxi hvað segir þú í dag ?
Hér er hann Laxi yfirhani í hænsnakofanum í eftirlitsferð......................
Laxi er sko ,,húsbóndi,, í sínum hænsnakofa............ alveg þangað til hann verður hræddur við eitthvað þá laumast hann á bak við hænurnar og sendir karlmennskuna í frí.
Hann er af aðalsættum og rekur uppruna sinn í gamla Borgarhreppinn.
Sönghæfileikar kappans er miklir og óspart notaðir en ég efast reyndar um að hann kunni á klukku. Allavega væri ég að fara á fætur á ansi misjöfnum tíma ef að ég færi að ráðum Tuma sem fer á fætur við fyrsta hanagal..................
Helgin hefur að mestu leiti farið í hestastúss og tamningar þó með smá sauðfjársveiflu.
Svo var tekinn góður skurkur í rakstri undan faxi og nokkrar bumbur látnar fylgja með.
Í gær komu góðir gestir og er á engan hallað þó svo að mér hafi fundist sá (sú) yngsta skemmtilegust hún var örugglega hressust um miðnættið.
Takk fyrir komuna Kristín Eir og fylgdarfólk.
Það hefur verið vorveður og hreint ótrúlegt að koma út á morgnana í 6 stiga hita dag eftir dag, já í janúar. Ég ætla svo sannarlega að njóta þess næstu daga að ríða út í blíðu.
Eins gott að hún verði ekki afturkölluð.
Þegar ég ætlaði að velja hest dagsins vandaðist málið og margir komu til greina.
Held samt að ég velji Roða Blikason sem stóð sig með prýði í dag.
14.01.2010 22:48
Gömul folaldasýning og Fannar farinn.
Þetta eru hryssurnar Fáséð og Sjaldséð Baugsdætur frá Víðinesi að sýna sig á folaldasýningu í Söðulsholti árið 2007. Fáséð er undan Tryggð minni en Sjaldséð er undan Venus frá Magnússkógum, gæðingshryssu sem var hér í tamningu og í framhaldi af því fengum við að halda henni.
Ég var að fara í gegnum gamla myndir og rakst á myndir frá sýningunni og læt hér nokkrar fljóta með til gamans.
Þarna eru Lyftingur, Góðlátur og Vestri á sömu sýningu. Lyftingur er undan Lyftingu og Hlyn frá Lambastöðum, Góðlátur eru undan Bráðlát og Glotta frá Sveinatungu en Vestri er undan Rifu og Óði frá Brún.
Þarna hefur Vestri gefið í og ákveðið að taka stjórnina.
Þetta er hún Hlíð sem er undan Kolskör og Glym frá Skeljabrekku, myndgæðin eru nú ekki sérstök en læt hana fljóta með.
Í gær brunaði ég til Reykjavíkur á stjórnarfund hjá FT ljómandi góður fundur og alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk. Veðrið var svo gott að það jaðraði við helgispjöll að þurfa að rjúka í burtu á miðjum degi. En það var líka gott veður í dag og verður vonandi áfram enn um sinn.
Ég gaf mér tíma til að líta við á velvöldum alltof fáum stöðum sína mig og sjá aðra.
Fannar er nú kominn í Steinsholt til Mumma sem fær nú að hafa leikfangið mitt (sitt) næstu mánuðina. Það er ekki laust við að ég saknu hans heilmikið en þá er bara að snúa sér að litla bróður hans sem lofar góðu. Já við Vörður förum bara að njóta lífsins saman á næstunni.
Margt spennandi framundan nánar um það síðar....................
13.01.2010 10:54
Í mörg horn að líta.

Þarna er Glundroði sonur Frægs frá Flekkudal og Karúnar, ég hef trú á því að hann sé farinn að hafa miklar áhyggjur af því hvort að ekki standi til að taka hann neitt á hús í vetur.
Hann var gerður reiðfær í fyrra þá fjögura vetra en nú bara bíður hann eftir því að húsfreyjan komi og taki til við að mennta hann að nýju.
Vafalaust hefur Hlátur stóri bróðir hans enn meiri áhyggjur því hann er að fara á sjötta vetur og er ekki heldur kominn inn. En hann getur þó verið sáttari kominn mun lengra í tamningunni fer að útskrifast sem fyrirmyndarreiðhestur.
Hann er undan Vetri frá Hallkelsstaðhlíð og Karúnu.
Með okkur á myndinni er annar garpur sem heitir Sviftingur hann er á fjórða vetri undan Faxa frá Hóli og Tign. Hann hefur það göfuga verkefni í vetur að safna faxi sem hann ákvað að skilja eftir á girðingum og steinum í sumar. Hann er hæðst ánægður með klippinguna en hún er full stutt fyrir minn smekk. Systkyni hans sem öll eru mjög faxprúð fara nú bara hjá sér þegar þau sjá hann og verður eflaust hugsað til vissrar dýrategundar sem byrjar á A.
Annars er það helst að frétta að veðrið hefur verið mjög gott og frábært færi til að ríða út.
Hross koma og fara og alltaf eitthvað að gerast í hesthúsinu en þar var nokkuð gestkvæmt í gær. Það er líka svo gaman að fá í tamningu hross undan þekktum, góðum stóðhestum sem við höfum ekki tamið undan áður.
Í gær fjölgaði líka í fjárhúsunum þegar vaskir menn lögðu til fjalla í Hörðudalnum og fundu tvær kindur frá okkur. Þær fengu klippingu um leið og þær komu í hús og litu svona ljómandi vel út. Það er spurning hvort það er ekki bara vesen að taka inn svona snemma........æi nei hefur víst aldrei talist búmannlegt að gefa á Guð og gaddinn.
10.01.2010 22:32
Folaldasýning í máli og myndum I hluti
Í gær var haldin árleg folaldasýning í Söðulsholti sem eins og undanfarin ár heppnaðist með mikilli prýði. Til leiks voru skráð 78 folöld sem að voru velflest falleg og hreyfingagóð.
Sigurvegari sýningarinnar var hann Dökkvi frá Dalsmynni sonur Vonar frá Söðulsholti og Eldjárns frá Tjaldhólum. Gullfallegur foli með skemmtilegar hreyfingar og hreint ekki klárgengur eins og ég hefði kannske haldið miðað við faðernið, hann var einnig kosinn flottasta folaldið af áhorfendum. Innilega til lukku með gripinn Dalsmynnisræktendur.
Kátur minn sonur Auðs frá Lundum og Karúnar varð svo í öðru sæti, ég var að sjálfsögðu himinnlifandi með það. Þar sem við stóðum og tókum á móti verðlaununum kom það nú samt uppí hugann að það færi nú sennilega betur um Svan en mig þegar kæmi nú að því að setjast á bak.............allavega svona fyrst um sinn eða þangað til eðaltöltið kemur.
Í þriðja sæti var svo Snasi Þóroddsson frá Miðhrauni. Nánari úrslit getið þið séð inná síðunni hjá Söðulsholti sem er tengill hér á síðunni.
Þarna er hún Rjóð okkar í léttri sveiflu hún stóð sig með prýði og komst í úrslit í hryssuflokknum. Hún er undan Sunnu og Feykir Ándvarasyni frá Háholti.
.............vá eins gott að forða sér frá þessu pokadrasli.
Þarna er Kostur minn sonur Tignar frá Meðalfelli og Sparisjóðs frá Hallkelsstaðahlíð.
Það eru nú ekki allar myndirnar góðar sumar hreyfðar en þarna er Kátur sem er litli bróðir Sparisjóðs.
Þetta er Stjarna frá Hallkelsstaðahlíð hún er dóttir Upplyftingar og Feykis frá Háholti.
Passið ykkur...........ég ætla að sleppa.....víví..........ég bara stekk.
Eins og alltaf á viðburðum í Söðulsholti var andinn og mannlífið gott.
Skúli blístrar, Guðjón les, Dúddý hugsar, Mummi glottir og Benni passar kaffið sitt.
Ræktendur voru spenntir að sjá hvað fram færi...............greinilega eitthvað skemmtilegt.
Arnar, Jófríður, Ásdís, Siguroddur og Svanur, Rauðkollsstaðabóndinn leit undan.
Aðrir nýttu tíman vel og kynntu sér upplýsingarnar í sýningaskránni..........já og hölluðu sér og létu fara vel um sig svona eftir matinn.
Þeir voru hressir að vanda þessir strákar Bjarnarhafnabóndinn, Högni Bærings og Diddi Odds.
Þarna eru svo jarlar að vestan Sölvi, Stefán, Friðrik og hún Ásta í Borgarlandi sem kemur alltaf með eitthvað spennandi á svona sýningar. Átti sigurvegarann í hryssuflokknum hana Jódísi.
Þau létu sig ekki vanta fyrrverandi ábúendur í Hrauntúni Dúna og Rögnvaldur.
Þessir áttu bara eftir að syngja fyrir mig en þetta eru ,,söngbræðurnir,, Ásberg og Öddi.
Þetta var skemmtilegur dagur í Söðulsholti takk fyrir það gestir, bændur og búalið.
06.01.2010 23:04
Hvað er á matseðlinum ?
Traktorinn virkar eins og segull þegar hann kemur brunandi koma hrossin í hvelli til að líta á matseðilinn. Ummmm hey í dag..........kemur á óvart.
Allir að drífa sig svo að ekki verið misst af neinu.............svo eru sumir frekir þannig að það er eins gott að ná í stæði við rúlluna.
Á laugardaginn er folaldasýning í Söðulsholti þannig að það verður að ákveða á morgun hverjir fái nú fararleyfi úr stóðinu. Kannske Kátur minn.....Mói.........Gangskör.....Trilla litla, Rjóð eða Kostur??
Verð að sofa á því í nótt taka svo eina skoðunarferð í stóðið á morgun og finna út hvað skal gera.
Vona bara að það verði annar eins dýrðardagur hvað veður snertir á morgun.
05.01.2010 22:45
.......og þar með var draumurinn búinn.
Þetta er hann Ófeigur minn........alltaf klár í vinnuna þessi elska og mesta átvagl sem ég þekki.
Hann og bróðir hans Þorri fagna eins árs afmælisdegi sínum í lok janúar. Þeir eru mjög áhugasamir og verða vonandi góðir fjárhundar allavega eru þeir efnilegir þessa dagana.
Eftir að þeir unnu sín ,,afrek,, þegar húsbændurnir voru í Laufskálarétt áskotnuðust þeim þessi fínu einbýli öðru nafni búr, við það fækkaði umtalsvert möguleikunum á að framkvæma eitthvað eftirmynnilegt. En eins og þið kannske munið átu þeir úlpu húsfreyjunnar, smökkuðu aðeins á þvottakörfunni, nöguðu dyrastafi og færðu vinnukonunni löpp af dauðri kind við afar lítinn fögnuð hennar. Allt þetta náðu þeir að gera á mjög stuttum tíma og lá því fyrir að annað hvort yrði að fjárfesta í búrum eða róandi fyrir Astrid. Ég valdi búrin lyf eru svo asssskoti dýr.
Það gekk mikið á hjá þjóðinni í dag og allt í einu allir komnir með einhverja skoðun á þjóðmálunum. Ég var ánægð með forsetann fór meira að segja heim úr hesthúsinu til að horfa á fréttatímann. Dreif mig svo að ríða út og hlustaði á útvarpið svona á milli hesta en um kaffileitið var orðið tímabært að slökkva á útvarpinu í hesthúsinu. Maður getur nú ekki boðið hestunum uppá hvað sem er.
Svo er bara að búast við því versta og vona það besta en við verðum samt að muna það að miðað við allar spár þá ættum við að vera löngu komin til fj......
Aftur á móti hef ég meiri áhyggjur af gangi mála hjá bæjarstjórninni í minni sveit eins og þar stendur. Fréttir af þeim málum síðustu daga hafa ekki verið gæfulegar og grunar mig að ekki sé að vænta neinna skemmtitíðinda þaðan á næstunni.
Mig dreymdi það eina nóttina að gamli Kolbeinsstaðahreppur væri enn í hreppa tölu.
Það var góður draumur en svo hringdi síminn...........og þar með var draumurinn búinn.
03.01.2010 22:43
Gleðilegt ár !
Kæru vinir !
Við hér í Hlíðinni sendum ykkur bestu óskir um gleðilegt ár farsæld og frið á nýju ári, með kærum þökkum fyrir það liðna. Sjáumst vonandi sem flest á nýja árinu 2010.
Áramótin hér voru indæl og góð þrátt fyrir að hvorki hafið verið skotið upp flugeldum eða fögur áramótaheiti strengd af minni hálfu. Hér kom saman góður hópur sem meðal annars gleymdi sér við að spila Kollgátuna vel fram eftir nóttu.
Á nýársdag var svo brunað í árlegt nýárskaffi að Bíldhóli þar sem terturnar þekja nokkra fermetra, takk fyrir skemmtilegan dag.
Á leiðinni heim blasti kófdrukkinn máninn við okkur utan frá Múlenda og lýsti svona ljómandi vel upp Þríhellurnar. Það getur stundum verið nauðsynlegt að hafa myndavélina við höndina.
Síðustu dagar hafa verið vel nýttir til tamninga bæði hefur veðrið verið gott og svo jólafríið hjá Mumma að klárast svo það var um að gera að leika sér svolítið.
Annars er það að frétta að nú er Mummi farinn til Jakobs og Tórunnar í Steinsholt þar sem að hann verður í verknámi frá Hólaskóla í vetur. Ekki amalegt hlutskipti það fyrir drenginn.
Hér heima er allt að komast í venjulegan gír eftir jólahaldið og daginn farið að lengja sérstaklega finnur maður muninn þegar smá snjóföl er til að lengja birtutímann.
Um eitt hænufet á dag eins og amma sagði alltaf.
Ég hef verið að hugsa um hvernig árið 2009 hefur verið og er bara komin að þeirri niðurstöðu að það hafi verið nokkuð gott þó með nokkrum undantekningum.
En árið 2010 það verður alveg stórfínnt..........eigum við ekki öll að vera sammála um það?
Hér koma að lokum tvær myndir sérstaklega fyrir litla vinkonu mína í Garðabænum sem er sérstakur uppáhalds aðdáandi Salómons og Snotru.
Þarna er Salli jólaköttur að ,,laga,, jólaskreytinguna hann var ekki alveg ánægður með útlitið.
Fer þetta ekki mikið betur svona ?
28.12.2009 23:20
Gaman gaman víííí
Það var ljómandi blíða í Hlíðinni í dag og enn var myndavélin á lofti.
Ég og Fannar fíni vorum aðeins að leika okkur og Mummi og Proffi fengu að fljóta með.
Á þessari mynd dreymir okkur um að komast bráðum á ísinn sem er þarna í baksýn sléttur og fínn. Það styttist óðum ef að frostið heldur svona áfram en það er samt betra að fara varlega vatnið er jú 26 metra djúpt sumstaðar.
Mummi tók þarna skeifnasprettinn á Proffa og það eru bara tvær vikur síðan Fannar fór á járn eftir haustfríið sitt.
Gaman að hafa þetta fína reiðfæri á túninu.
Ummmmm.......... hann er nú alltaf skemmtilegur þessi, það er ekki skrítið þó að ég sé spennt að sjá hvernig bróðir hans Vörður verður. Það eru myndir af honum hér fyrir neðan frá því í gær.
Það er nú venjulega þannig að ég þjálfa þennan og Mummi hinn en ræktandinn verður stundum að fylgjast með gripunum sínum (Fannari)
Og svo að drífa sig heim...........það var nú svolítið kalt í dag.
27.12.2009 22:01
Vörður með væntingum
Þrátt fyrir kulda og nokkura dag ofát rauk ég út með myndavélina í dag þegar Mummi var að ríða út og smelli af nokkrum myndum. Ég tapaði þó af nokkrum góðum tækifærum sem flugu framhjá á meðan ég var að gefa.
Á þessari mynd er hann Vörður minn sem er undan Tign minni og Arði frá Brautarholti, hann er ekki nema rúmlega tveggja mánaða taminn. Kellingin er bara a.....montin af honum.
Þarna koma þeir til baka úr reiðtúrnum en mér og myndavélinni var orðið svolítið kalt eins og sjá má á myndinni.
Þessir voru ,,kaldir á kanntinum,, en ég náði ekki mynd af þeim á ferðinni............ekki núna.
Annars var dagurinn alveg ljómandi góður riðið smávegis út í frostinu, lesið, horft á tónleika, já og auðvitað borðað svolítið. Allir í því efra eins og við köllum það komu í kaffi og svo var bara spjallað og leikið sér.
27.12.2009 00:12
Jólakötturinn.
Eins og þið kannske vitið þá á ég jólaköttinn eina sanna, þarna er hann á ,,tali,, eða mali við einn jólasvein úr fjöllunum. En eins og jólaketti sæmir þá er hann búinn að vera svolítið uppátækjasamur að undanförnu og læt ég fylgja með smá myndasýnishorn og meira kemur síðar.
Kæru vinir! við hér í Hlíðinni þökkum kærlega fyrir okkur við höfum fengið góðar kveðjur og frábærar gjafir. Hér hefur letin verið als ráðandi og við sannarlega notið þess.
Hann var illa forvitinn og var langhrifnastur af pökkum með slaufum og böndum.
.............og hann var sannfærður um að jólakarfan væri bara ætluð honum einum.
Að lokum er ein mynd af flottu frænku minni sem hélt uppi stuðinu í jólaboðinu í gamla bænum. Ég verð svo vonandi aðeins duglegri að setja inn jólamyndirnar næstu dag.
24.12.2009 00:04
Kæru vinir !
Við hér í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegra jóla með einlægri ósk um gæfu, farsæld og frið.
Samskiptin við ykkur hér í vefsíðunni okkar hafa verið góð og einstaklega skemmtileg.
Við vonum að þið hafið líka haft gagn og gaman af því sem hér hefur farið fram.
Okkar bestu jólakveðjur.
Sigrún, Skúli og Mummi.
Þessa mynd tók ég af vatninu í dag það væri nú ekki amalegt ef að ísinn yrði svona í nokkrar vikur.
Sléttur sem spegill.
Og útigangurinn spókaði sig í blíðunni.
En máninn var bara hálfur þó það sé Þorlákur.
20.12.2009 22:54
Jóla jóla
Jóla hvað ? eru allir að verða vitlausir veit fólk ekki að jólin koma alltaf einu sinni á ári?
Þarf endilega að klára allt jafnvel það sem aldrei er gert?
Smá grín auðvitað er ég svona rugluð líka en það vill nú samt þannig til að ýmislegt sem þarf að gerast á þessum tíma í sveitinni er bráðnauðsynlegt. Ég er t.d ekki viss um að ég yrði hýr á brá í byrjun maí ef að það færist fyrir að koma hrútunum í kindurnar svona vel fyrir jól.
Hér í Hlíðinni hafðist það af í gær, líka eins gott því að er gamall siður sem haldið er fast í þó svo að yfirleitt sé búið að sæða miklu fyrr.
Við vorum búin að láta sæða um 5o kindur þann 17 des og fyrir þá sem eru útlærðir í hrútaskránni læt ég fylgja með hvaða hrúta við notuðum.
Þeir hyrndu voru Raftur frá Hesti, At frá Hafrafellstungu, Hvellur frá Borgarfelli og Grábotni frá Vogum 2. Þeir kollóttu Kjói frá Sauðadalsá, Bolli frá Miðdalsgröf og Neisti frá Heydalsá.
Karl Phillp forustuhrúturinn flotti frá Sandfellshaga var líka á dagskránni hjá mér en eitthvað klikkaði hjá meistaranum á hrútastöðinni svo að ég fékk ekkert úr honum. Þannig að Pálína mín forustuá verður bara að sætta sig við eitthvað holdugrakyn en forustukyn.
En nú er sem sagt allt með kyrrum kjörum í fjárhúsunum frjálsar ástir og eintóm hamingja.
Reyndar veiktist einn sparihrúturinn heiftarlega rétt áður en við settum þá saman við og er óvíst á hvorn veginn þau veikindi fara. Sá sem veiktist er undan Dökkva frá Hesti og var settur á með fullt af stigum í farteskinu og gerðar miklar væntingar til hans. En svona er þetta stundum ekki á allt kosið.
Í hesthúsinu er líka líflegt þar bættist t.d við ein stórglæsileg moldótt hryssa í dag, spennandi að vera bæði myndarleg og með fallegan lit. Svo er bara að sjá til hvort hún verður ekki líka ljómandi góð.
Hér á bæ var tekinn smá bakara sveifla í dag og bakaðar einar fimm sortir af smákökum og rúllutertur. Fyrir liggur svo að bæta við á morgun og svo er það jólaísinn góði sem ekki má klikka. Síðan eru eftir nokkrar pakkaferðir og kaffiinnlit til vina og kunningja hefðbundið og vonandi illbreytanlegt.
Jólin eru alveg að koma og það er nú bara allt í lagi því þetta hefst allt fyrir rest.
16.12.2009 21:39
Ferningur flytur, fundir og fjör.
Það var aldeilis frábær matur sem við í FT fengum þegar við héldum aðalfund félagsins um daginn. Og það var að sjálfsögðu hann Jonni vert á Kænunni í Hafnarfirði sem galdraði hann fram. Takk fyrir okkur góður matur og frábær andi hjá ykkur á Kænunni.......er svo ekki skötuveislan næst ??? Allir að mæta á Kænuna til Jonna á Þorlák.
Já aðalfundur FT var haldinn föstudaginn 11 des á Kænunni, fundurinn var góður og gagnlegur. Margir góðir gestir komu og umræður og skoðannaskipti voru með líflegasta móti. Ég held að það sé framtíðin að halda fundinn á svona stað, borða saman og gefa félögunum færi á að eyða svolitlum tíma í að rifja upp skemmtilegar minningar og spjalla.
Mætingin var líka með betra móti svona miðað við undanfarin ár.
Pétur Behrens einn af stofnfélögum FT kom og rifjaði upp brot úr sögu félagsins við góðar undirtektir og vöktu gamlar myndir sem að hann sýndi feiknar kátínu fundarmanna.
Helga á Þingeyrum kom og kynnti knapamerkin og fór yfir ýmiss atriði sem þarft er fyrir reiðkennara að hafa í huga við kennsluna. Á næstunni koma fréttir af fundinum inná heimasíðu FT sem er tengill hér á síðunni.
.....nei nei þetta er ekki kvennfélag en þarna eru fjórar dömur á FT fundi.
Þórdís sæti ritarinn okkar, ég , Helga á Þingeyrum og starfsmaðurinn okkar Hulda Geirsdóttir.
Á sunnudaginn var svo brunað í Skáney erindið að færa litlu ,,ömmustelpunni,, jólagjöfina sína því að daman verður erlendis um jólin. Jólagjöfin var fjórfætt og meira að segja með fjögur horn, Ferningur hefur sem sé skipt um lögheimili og jafnvel nafn líka en nafnið Hreinn er afar vinsælt hrútanafn um þessar mundir. Og svo er bara að syngja hrúturinn Hreinn

Á mánudaginn fór ég svo í verslunarferð með hefðardömum og endaði svo á jólahlaðborði með skemmtilegu fólki. Takk fyrir frábært kvöld stjórnarfólk í FT.
Fundur í Fagráði í hrossarækt var svo á dagskrá þriðjudagsins góður og skemmtilegur fundur.
Dagurinn í dag var líka ljómandi góður langt komið að sortera kindurnar fyrir fjörið sem hefst eftir nokkra daga og ormalyf komið í rúmlega 400 kindur. Vonandi næst að klára það á morgun en þá stendur líka til að fá gervihrút með ,,kaffibrúsa,, í heimsókn.
Hún Astrid okkar fór líka í dag áleiðis til Danmerkur þar sem hún ætlar að eyða jólunum.
Góða ferð Astrid vonandi dreymir þig ekki eintóma sveitadrauma í danaveldi.
Mummi járnar og ríður út af miklum krafti og er það ekki aldeilis ónýtt fyrir okkur að fá hann í svona langt jólafrí. Ég ætti nú að vera duglegri að taka myndir í hesthúsinu og sýna ykkur hér á síðunni á næstu dögum. Svo styttist í að við bætum inn myndum af nýjum söluhestum.
10.12.2009 23:05
Hestastúss í dag aðalfundur FT á morgun.

Mikið var afrekað hér í Hlíðinni í dag hrossarag, járningar og margt fleira. Já það fjölgar ört á járnum núna og það fjölgaði líka mikið í hesthúsinu í dag. Við tókum inn nokkur mjög spennandi tryppi t.d undan Arði frá Brautarholti, Faxa frá Hóli, Pilti gamla frá Sperðli og fleirum. Svo komu nokkrir sparihestar inn Skriða litla, Proffi minn og Fannar. Það verður nú að hafa eitthvað gaman svona á jólunum.
Einn veturgamli folinn okkar hefur verið týndur í þó nokkurn tíma en fannst í dag eftir mikla leit heill á húfi. Það er ekkert grín þegar þessi grey eru að týnast alein hér í fjöllunum.
Á morgun er svo aðalfundur FT sem haldinn verður á Kænunni í Hafnarfirði kl 17.00
Ég vonast til að þessi fundur verði góður og vel sóttur af félagsmönnum, það er jú alltaf gaman að hittast og spjalla í góðum hópi.
09.12.2009 23:48
Mannlíf á ungfolasýningu.
Ég smelli hér inn nokkrum myndum frá ungfolasýningunni í Söðulsholti, þarna eru heiðurshjón úr Borgarnesi að vellta vöngum yfir kynbótagripum framtíðarinnar.
Þarna er Magnús bóndi á Álftá sem kom sunnan af Mýrum að líta á gripina, þarna með sínu fólki.
Snæfellsnessbændur voru líka mættir í Söðulsholt sumir á leið heim úr skólanum.
Annars er það helst að frétta að Mummi kom galvaskur heim úr skólanum í dag , þá er hann kominn í jólafrí. Þannig að nú styttist í að við rekum saman hrossin setjum ormalyfi í hópinn og veljum úr hvað kemur inn fyrir jól. Bara spennandi og kannske verð ég dugleg að taka myndavélina með hver veit?