13.01.2010 10:54

Í mörg horn að líta.



Þarna er Glundroði sonur Frægs frá Flekkudal og Karúnar, ég hef trú á því að hann sé farinn að hafa miklar áhyggjur af því hvort að ekki standi til að taka hann neitt á hús í vetur.
Hann var gerður reiðfær í fyrra þá fjögura vetra en nú bara bíður hann eftir því að húsfreyjan komi og taki til við að mennta hann að nýju.



Vafalaust hefur Hlátur stóri bróðir hans enn meiri áhyggjur því hann er að fara á sjötta vetur og er ekki heldur kominn inn. En hann getur þó verið sáttari kominn mun lengra í tamningunni fer að útskrifast sem fyrirmyndarreiðhestur.
Hann er undan Vetri frá Hallkelsstaðhlíð og Karúnu.
Með okkur á myndinni er annar garpur sem heitir Sviftingur hann er á fjórða vetri undan Faxa frá Hóli og Tign. Hann hefur það göfuga verkefni í vetur að safna faxi sem hann ákvað að skilja eftir á girðingum og steinum í sumar. Hann er hæðst ánægður með klippinguna en hún er full stutt fyrir minn smekk. Systkyni hans sem öll eru mjög faxprúð fara nú bara hjá sér þegar þau sjá hann og verður eflaust hugsað til vissrar dýrategundar sem byrjar á A.

Annars er það helst að frétta að veðrið hefur verið mjög gott og frábært færi til að ríða út.
Hross koma og fara og alltaf eitthvað að gerast í hesthúsinu en þar var nokkuð gestkvæmt í gær. Það er líka svo gaman að fá í tamningu hross undan þekktum, góðum stóðhestum sem við höfum ekki tamið undan áður.

Í gær fjölgaði líka í fjárhúsunum þegar vaskir menn lögðu til fjalla í Hörðudalnum og fundu tvær kindur frá okkur. Þær fengu klippingu um leið og þær komu í hús og litu svona ljómandi vel út. Það er spurning hvort það er ekki bara vesen að taka inn svona snemma........æi nei hefur víst aldrei talist búmannlegt að gefa á Guð og gaddinn.