08.05.2013 00:42
Sýnishorn úr fjárhúsunum
Ó já ,,það er svo margt að minnast á,, eins og segir í textanum góða en tíminn hefur þotið áfram og því hef ég ekki komið neinu í verk hér á síðunni.
Á myndinni hér fyrir ofan er hún Lene sem er komin frá Kaupmannahöfn til að hjálpa okkur í sauðburðinum. Þarna er hún að þjónusta hana Feru mína sem borin hefur þremur lömbum.
Þó svo að sauðburðurinn sé nú töluvert öðruvísi en síðustu ár þá eigu við okkar góðu tíma. Kella var t.d afar léttstíg þegar hún kom heim úr fjárhúsunum áðan búin að fá bónus lamb (m.v sónartalningu) undan sparikollu og Stera. Fyrir þá sem eru ekki á kafi í sauðfjárræktinni skal tekið fram að við erum ekki farin að sprauta rollurnar með sterum, heldur er þetta nafn á einum aðal kindasjarminum. Steri þessi var á sæðingastöðinni í vetur og var mikið notaður.
Annars fer sauðburðurinn frekar rólega af stað en það á örugglega eftir að breytast.
Lambadrottningarnar þær Vera og Óvera eru að verða unglingar og eiga enga samleið með þessum ,,barnalegu,, lömbum. Bíða bara spenntar eftir grænum grösum og vorblíðu.
Gemlingarnir eru rólegir og ekkert líklegir til að riðja úr sér lömbunum þó margir hafi náð tali.
Þessi mynd sýnir morgunverð í fjárhúsunum og að sjálfsögðu allir á heilsufæði.
Ég setti þessa mynd inná facebook síðuna mín og fékk þá eftirfarandi vísu til baka.
Áðan fór ég út í hlöðu
inn í jötu bar ég töðu.
Sentist inn í sinni glöðu
og setti á facebook þessa stöðu.
Takk fyrir vísuna Valur Óskarsson :)
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
30.04.2013 20:05
Lífið í sveitinni
Astrid og Auðséð á góðri stundu.
Mér varð svo kalt í dag að ekki kom annað til greina en hafa hlýlegar vormyndir hér á blogginu. Enda styttist nú í að hryssurnar fari að koma í köstunarhólfið svo betra verði að fylgjast með þeim. Þær fyrstu eiga að kasta undir miðja maí en sumar eru bráðlátar og flýta sér svo það er gott að vera við öllu búin.
Já það var sultardropaveður í dag sól og blíða að sjá alveg þangað til maður var komin út.
Birrrr...........
Hrossin voru samt kát með blíðuna og báru sig ekki eins illa og húsfreyjan.
Þessar vinkonur hafa báðar stækkað mikið frá því að þessi mynd var tekin enda komin nokkur ár síðan. Daníela frænka mín og Skríttla eru fyrirtaks fyrirsætur og tóku hlutverkið alvarlega.
Hér er allt að verða klárt fyrir sauðburðinn sem hefst um og uppúr helginni næstu.
Lóan, tjaldurinn og endurnar eru komin í Hlíðina svo nú hlýtur að vera vor handan við næturfrostið. Kærkomnir vorboðar alveg þangað til endurnar fara að fæla undan húsfreyjunni. Nú er bara að bíða eftir hrossagauk, spóa og steklnum málglaða.
Þessa skemmtilegu mynd rakst ég á þegar ég var að renna í gegnum gamlar myndir. Þarna eru þeir bræður Ófeigur og Þorri ungir og sætir, núna eru þeir bara sætir.
Eftir þennan texta kemur ekki mynd...... því hún átti að vera af okkur..............er ekki viss um að textinn passaði.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
28.04.2013 22:26
Gleðilegt sumar
Sigurður Heiðar Birgisson hlaut ásetu og reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna.
Gleðilegt sumar kæru lesendur.
Skeifukeppni nemenda Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri fór fram á sumardaginn fyrsta eins og venjulega. Auk þess öttu kappi nemendur Reiðmannsins en það er áfangaskipt tveggja ára nám í hestamennsku við skólann. Voru nemendur verðlaunaðir fyrir árangur vetrarins bæði fyrir tamningar og reiðmennsku. Eins og áður kom fram hlaut Sigurður Heiðar ásetu og reiðmennskuverðlaun FT.
Morgunblaðaskeifuna hlaut Harpa Birgisdóttir, Gunnarsbikarinn hlaut Jónína Lilja Pálmadóttir, og Reynisbikarinn hlaut Jón Óskar Jóhannesson.
Nokkur undanfarin ár hef ég komið að dómstörfum hjá skólanum við þetta tækifæri og svo var einnig nú. Oftast höfum við verðið tvö auk kennara skólans sem höfum dæmt þessar keppnir og í ár var það Þórarinn Eymundsson, tamningameistari FT sem dæmdi auk mín.
Mestan veg og vanda af kennslunni sem varðar hestamennsku við skólann hafa þeir Heimir Gunnarsson og Gunnar Reynisson.
Mér fannst öllu umgjörð og yfirbragð Skeifudagsins til mikillar fyrirmyndar og gaman að fylgjast með þegar nemendur og kennarar kynntu hvað þeir hafa verið að gera í vetur. Greinilegat var að mikið hefur verið lagt uppúr fjölbreyttum vinnubrögðum með áherslu á léttleikanna.
Ágúst Sigurðsson rektor skólans lagði áherslu á það í setningarræðu sinni að menn ættu ekki að gleyma sér í harðri keppni og gleyma gleðinni í hestamennskunni.
Virkilega orð í tíma töluð og þörf áminning til okkar hestamanna.
Ekki spillti svo fyrir að við Astrid fengum báðar folatolla í happadrættinu sem nemendur seldu á staðnum. Astrid fékk toll undir Hvítserk frá Sauðárkróki en ég undir Hróa frá Skeiðháholti og Hákon frá Ragnheiðarstöðum.
Takk fyrir góðan dag.
Það hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum að við íslendingar gengum að kjörborðinu í gær.
Ofurspennandi kosninganótt að baki þar sem húsfreyjan festi ekki blund fyrr en kl 7 um morguninn.
Vaknaði brosandi og hefur átt góðan dag.
Nánar um það síðar en af gefnu tilefni og til upprifjunnar fyrir þá sem fylgjast með pólutískum umræðum á netinu.
Ég hef mjög gaman af stjórnmálum og vangavelltum þar um, en er mjög hugsi eftir síðustu yfirferð um netheima.
Hatursfullar umræður með mannorðsmorðum, dónaskap og svívirðingum segja meira um þá sem þær aðferðir nota en þá sem fyrir þeim verða.
Það sem sagt og gert er á fésinu er sýnilegra en sumir virðast halda.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
24.04.2013 22:26
Í mörg horn að líta
Þessir kappar voru í úrslitum í fimmgangi á íþróttamóti Hestamannafélagsins Glaðs um síðustu helgi. Ámundi Sig, Skjöldur Orri, Mummi, Styrmir í Gufudal og Þórarinn í Hvítadal.
Við smelltum okkur í dalina og Mummi tók þátt í mótinu sem haldið var í fallegu en köldu veðri. Hann og Fannar urðu í þriðja sæti í fimmgangi og sigruðu 100 metra skeiðið.
Skemmtilegt mót og alltaf gaman að koma í dalina.
Verkefni vikunnar hafa verið fjölbreytt, pólutíkinni var sinnt í gærkvöldi en þá var haldinn opinn íbúafundur í Lyngbrekku með fulltrúum framboða í NV kjördæmi.
Ég brá mér í hlutverk fundarstjóra sem að stæðstum hluta var starf tímavarðar þar sem framboðin voru mörg og tíminn naumur. Sumum fannst tíminn sem þeir fengu til að sannfæra kjósendur úr ræðustól naumt skammtaður. Til marks um það er vísa sem ég fékk frá Lárusi Hannessyni vini mínum.
Hér höfum við rætt um net og síma
og höldum, á þótt fölni skíma.
En Sigrúnin mín
svo sæt og fín
því hefur þú fyrir mig svo lítinn tíma.
Í lok fundar kom líka vísa frá Guðbrandi bónda á Staðarhrauni en Össur var honum ofarlega í huga.
Össur segir allt í fína
ekki er af baki dottinn.
Hann er að selja kjöt í Kína
og kemur oss í lukkupottinn.
Já þeir eru skemmtilegir kallarnir.
Eftir ljómandi reiðtúra í dag brunaði ég svo suður að Hvanneyri að dæma flotta krakka en Skeifukeppni skólans er á morgun.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
19.04.2013 22:08
Vorið og flottar fyrirsætur
Það kemur ýmislegt í ljós þegar gramsað er í gömlum myndum............eins gott að fyrirsæturnar nái ekki í mig núna. Á myndinni sem notuð var til að auglýsa Stellulopapeysurnar góðu eru Gróa Björg og Mummi með Örlát á milli sín.
Stella prjónar lopapeysur eftir pöntunum, litlar, stórar og allaveganna svo það er bara um að gera að slá á þráðinn ef ykkur vantar peysu.
Takið sérstaklega eftir flottu klippingunni á Mumma :)
Þegar þessar myndatökur fóru fram var mikið hlegið og aldrei að vita nema síðar komi fleiri myndir af öðrum fyrirsætum. Ég þori ekki að birta fleiri myndir að sinni.
Ég held að vorið sé alveg að koma því þegar ég labbaði heim úr hesthúsinu áðan var komið vorhljóð í Múlann. Nú bíð ég bara eftir að heyra í fuglunum sem hér í Hlíðinni eru ljúfir vorboðar.
Já vorið það er tíminn sem kemur þegar allt er orðið ,,tilbúið,, hjá manni, svona eins og á jólunum. Eða það dreymir mig allavega um en sumir draumar eru fjarlægir og því best að halda bara áfram að láta sig dreyma.
Og þó það var bara nokkuð margt sem var tilbúið fyrir vorið þegar að var gáð. Rollubók, lambamerki, hjálpartæki og áhugi voru klár í fjárhúsunum. Sléttjárn, botnar, sílikon og vorstress klárt í hesthúsinu. Sauðburðardressið, keppnisgallinn og girðingagallinn, allt klárt í íbúðarhúsinu.
Lítur bara vel út við fyrstu sýn............eða hvað ???
Girðingarnar fara ekki neitt, kartöflurnar spýra, sauðburðarbaksturinn..........hans tími mun koma og silungurinn syndir í vatninu.
Allt samkvæmt áætlun.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
17.04.2013 11:12
Hann veit nú margt.........
Það hefur blásið ansi hressilega síðustu daga hér í Hlíðinni og lítið lát þar á.
Á myndinni hér að ofan er Mummi á Gangskör minni sem er hryssa á fjórða vetri, undan Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð og Adam frá Ásmundarstöðum. Blásturinn var svo mikill að það er engu líkara en taglið og faxið sé allt fokið af Gangskör minni en hún lét rokið ekkert á sig fá.
Þessi kappi er nú kátur þegar tekinn er reiðtúr út í víðáttuna og spáir hvorki í vindinn né fylgi stjórnmálaflokkanna. Veit þó vel að léttara er yfir húsfreyjunni þegar vel gengur á ákveðnum vígstöðum. Að öðrum hestum ólöstuðum þá er þessi nú svolítið uppáhalds hjá húsfreyjunni og kannske fleirum, enda hefur Mummi skellt sér í reiðtúr þegar ég var ekki heima.
Sparisjóður veit að hann er uppáhalds en fer vel með það.
Já hann veit ýmislegt hann Sparisjóður minn :)
Þó svo að það sé ,,sultardropaveður,, í Hlíðinni þennan daginn gæti það svo sannarlega verið verra. Njótið dagsins.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
14.04.2013 00:25
Bara gaman
Það var blíða í Hlíðinni þennan daginn og þá er nú gaman að vera til og njóta dagsins.
Góðir gestir voru á ferðinni í dag sumir að skoða hestana sína en aðrir bara að líta við og taka stöðuna á okkur hér í Hlíðinni.
Fyrir viku síðan skruppum við í skautahöllina til að sjá glæsta gæðinga etja kappi á ísnum.
Margir góðir hestar komu fram og alltaf eitthvað spennandi að sjá, ekki spillti svo fyrir að ,,okkar,, maður af vestulandinu Jakob í Steinsholti sigraði örugglega.
Á miðvikudaginn fórum við svo í Borgarnesi en þar var einmitt Jakob með sýnikennslu.
Fróðlegt og gaman að sjá vinnubrögðin og fá smá innsýn í það hvernig hann þjálfar hestana.
Aðgöngumiðinn að sýningunni gilti svo sem happadrættismiði og var Mummi svo heppinn að fá folatoll undir Abraham frá Lundum í vinning. Nú verður kappinn að velja sér hryssu til að nýta tollinn góða, enda er Abraham bara spennandi hestur.
Nú er Astrid farin í verknám frá Hólaskóla en það tekur hún hjá þeim Randi og Hauki á Skáney. Hún tók Baltasar Arðsson með sér og ætlar að þjálfa hann með verknáminu.
Við smelltum okkur í heimsókn að Skáney m.a til að skoða nýju reiðhöllina og hesthúsið.
Glæsilegt hús og heldur betur góð aðstaða. Innilega til hamingju Skáneyjarbændur.
Við fengum góða gesti í gær en þar voru á ferðinni hressir hrossaræktendur úr Kjósinni.
Veðrið var ekki sérlega gott þegar þau komu en við lofum betra veðri næst, en eins og þið eflaust vitið þá er næstum alltaf gott veður hjá okkur :):)
Þessi höfðingi lét ekki snjóinn aftra sér frá því að njóta blíðunnar í dag enda er sólin bráholl fyrir hefðarketti.
Hann er klárlega fyrirmyndar köttur dagsins en fyrirmyndarhestur dagsins var Trilla Gaumsdóttir, sem var í miklu stuði :)
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
05.04.2013 21:32
Fullt af fréttum úr Hlíðinni
Það styttist óðum í að hryssurnar fari að kasta svo það er vel við hæfi að koma með mynd því tengdu.
Verð að nýta gamlar myndir á meðan húsfreyjan er myndavélarlaus myndasmiður.
Fyrir viku síðan var brunað á Stóðhestaveislu í Ölfushöllinn, það var sannkölluð veisla og mjög gaman að sjá marga gæðinga og flotta knapa.
Nokkrir hestar heilluðu mig sérstaklega, fyrstan skal telja Arion frá Eystra-Fróðholti sem mér fannst hreint frábær. Óskasteinn frá Íbishóli er ævintýri sem naut sín mun betur en á sýningunni í Borgarnesi þar sem hann var sýndur í ljósgeisla. Gaumur frá Auðsholtshjáleigu var glæsilegur og sýndi ótvírætt hversu góður gæðingur hann er.
Toppur frá Auðsholtshjáleigu, Konsert frá Korpu og Váli frá Efra-Langholti voru líka í feikna stuði.
Knaparnir sem mér eru að öðrum ólöstuðum lang eftirmynnilegastir eru Helga Una Björnsdóttir, Flosi Ólafsson og Þórdís Erla Gunnarsdóttir.
Helga Una og Bikar frá Syðri-Reykjum áttu stórgott atriði, falleg reiðmennska og gott samspil þeirra heilluðu mig. Flosi er einn af mínum uppáhalds ungu knöpum prúð og falleg reiðmennska sem svo sannarlega skilaði árangri á þessu kvöldi eins og oft áður.
Flosi og Möller frá Blesastöðum, já ég er ekkert búin að gleyma þeim.
Þórdís Erla og Gaumurinn eru mér ofarlega í huga eftir þessa kvöldstund og ekki var sýningin hjá henni síðri á Toppi, kraftur, gæði og sjarmi.
Ekki trúi ég öðru en þessir krakkar eigi bjarta framtíð fyrir sér sem úrvalsreiðmenn og þjálfarar. Fáguð reiðmennska sem skilar árangri og síðast en ekki síst falleg og hrokalaus framkoma við samferðafólkið.
Stóðhestaveislan stóð undir nafni gaman að sjá þetta allt saman.
Þulirnir voru frábærir og skiluðu öllum nauðsynlegum upplýsingum til okkar af þekkingu.
Takk fyrir skemmtunina allir þeir sem að þessu komu, mig er strax farið að hlakka til næstu veislu.
Það var góður dagur sem við í stjórn Félags tamningamanna áttum í Skagafirði í gær.
Hluti stjórnarinnar er í Skagafirði um þessar mundir svo við hin brunuðum norður til fundar við þau sem haldinn var á Hólum. Góður fundur þar sem mörg mál voru tekin fyrir og rædd.
Þegar við fórum norður komum við að Syðra-Skörðugili til að taka Elvar bónda með okkur á fundinn. Þar beið okkar dýrindis veisla og frábærar móttökur, ekki skemmdi svo fyrir að fá aðeins að líta við í hesthúsinu og skoða gæðingana. Ekki má svo gleyma því að skoða í fjárhúsin þegar að Skörðugili er komið.
Á Hólum var vel tekið á móti okkur eins og ævinlega, Víkingur fræddi okkur um það sem efst er á baugi þessa dagana. Við fylgdumst með í kennslustund, hittum kennara og nemendur.
Þegar maður kemur í Skagafjörðinn er ekki úr vegi að líta við á einhverjum bæjum og sjá hvað er í gangi hjá hestamönnum þar. Hersingin fór að Þúfum og þar fengum við að sjá marga spennandi gripi sem þar eru á járnum. Einnig skoðuðum við reiðhöllina sem Gísli og Mette hafa ný lokið við að byggja, björt og skemmtilega bygging sem alla hestamenn dreymir um. Dagurinn hefði þurft að vera mikið lengri :) Kærar þakkir fyrir góðan dag.
Já í gær.......ekki má nú gleyma því að höfðinginn hann Salómon svarti varð 14 ára gamall.
Hann tók áfanganum með mikilli ró, mætti á réttum tíma í morgunmat, lagði sig og lét ekkert trufla blundinn sem náði því að verða allt í senn morgun, hádegis, miðdegis og síðdegis.
En þessi elska var eldhress og tók á móti mér útí dyrum þegar ég kom úr Skagafirðinum vel eftir miðnættið. Salómon er snillingur af bestu gerð sem hefur skipað þann sess á heimilinu að engum dettur í hug annað en að hann sé konungurinn.
Freyja litla fjárhundur stundar stífar æfingar og telur eigandanum trú um að nú sé þetta allt að koma. Áhuginn er mikill og sennilega verður mesti vandinn að skemma ekki neitt.
Þó svo að kindur séu helsta áhugamálið hjá henni er það enn svo að hún dáist ómælt að köttum. Ég hef samt þá trú að hún sé ,,sumum,, fremri að greind og muni ekki láta hafa sig útí að smala þeim. Enda hefur Freyja ekki sýnt neitt sem bendir til pólutískraskoðunna, Guði sé lof fyrir það.
Samkvæmt nýjustu niðurstöðu hefur ekkert komið út úr rannsókninni sem gerð var á kindahópnum okkar og ég hef áður nefnt hér á síðunni.
Engar vísbendingar hafa komið fram sem geta rímað við eða skýrt hvað hefur gerst.
Rannsóknin heldur áfram en skemmst er frá því að segja að allt er í góðu hjá kindahópnum.
Fyrstu lömbin komu í heiminn 2 apríl en þá voru allri litlu páskagestirnir sem höfðu beðið óþreyjufullir eftir lömbum farnir. Það voru tvær hvítar gimbrar sem komu í heiminn og eru hinar hressustu.
Sauðburðurin hefst hjá okkur þann 5 maí en þá eiga sæðingsrollurnar tal, þann 7 gemlingarnir og síðan fer allt á fullt þann 9 maí.
Það er líf og fjör í hesthúsinu og mikið riðið út í blíðunni að undanförnu.
Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Ábóti frá Brautarholti, sonur Öðu frá Brautarholti og Dyns frá Hvammi.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
27.03.2013 22:42
Í hundunum......
Hundalíf í Hlíðinni gæti þessi mynd heitið en hún var tekin við skemmtilegt tækifæri.
Snotra sú gula, Deila sú gamla, Ófeigur og Þorri hvert eitt með sitt hlutverk í lífinu.
,,Kæri himnafaðir,, nú eða bara kæri húsbóndi hvað getum við gert fyrir þig í dag ???
Góðir dagar að baki með blíðu til tamninga og annara verka hér í Hlíðnni.
Við höfum verið svo heppin að hafa góðar aðstoðarkonur hér með okkur síðustu daga sem hafa heldur betur verið liðtækar. Ekki er svo verra að vera orðin ,,góðkunningi,, lögreglunar sem hefur riðið út með okkur síðustu daga. Já það gerist ýmislegt skemmtilegt í sveitinni.
Um síðustu helgi var svo brunað á sýningu vestlenskra hestamanna í Borgarnesi.
Skemmtileg sýning með mörgum góðum hrossum og flottum knöpum en var kannske fulllöng fyrir venjulegt fólk. En fyrir dellu fólk eins og mig sem skemmtir sér alltaf vel við að horfa á hross var þetta bara fínt. Nokkur hross eru mér sérstaklega eftirmynnileg og einnig var gaman að sjá nokkra knapa sem skáru sig úr annars góðum hópi knapa með fyrirmyndarreiðmennsku.
Framundan eru góðir páskadagar með vonandi mörgum góðum stundum.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
23.03.2013 13:18
Af gefnu tilefni
Þögn er gulls ígildi en þögnin mín hér á síðunni var ekkert tengd gulli öðru nær.
Hún er þannig til komin að ég hafði ekkert að segja í nokkra daga eftir að við sónarskoðuðum fjárstofnin hjá okkur. Með öðrum orðum rúmlega tvö hundruð kindur sónuðust tómar.
Eins og gefur að skilja er mikið búið að velta fyrir sér hvað veldur en ekkert augljóst hefur komið í ljós hvorki frá okkar hendi eða dýralæknanna. Sextíu kindur voru sendar í sláturhús en þar átti að taka úr þeim sýni og freista þess að komast að því hvað er að valda þessu.
Það skal tekið fram að útkoman úr gemlingahópnum er góð þ.e.a.s rúmlega lamb á gemling.
Margar spurningar hafa komið uppí hugann.
Dýralæknarnir telja ekkert sem bendir til þess að þetta sé smitandi þar sem að einn árgangur sleppur svona vel, en aðgát skal höfð. Eins ef að ég tek sama fjölda og var geldur í fyrra og reikna með fengnum kindum núna þá er frjósemin góð í þeim hópi.
Þessar geldu kindur eru á mismunandi aldri, voru hjá 15 hrútum, átu af 6 jötum, voru í 12 króm drukku úr 12 vatnsrörum, fegnu engan fóðurbætir, ekkert ormalyf eða aðra meðhöndlun á þessum tíma.
Tveir kettir eru í húsunum en þeir halda sig mest í jötunni hjá gemlingunum sem komu best út.
Sjaldan eða aldrei verið gefið betra hey, ekki gefið úr sömu rúllunni á allar jöturnar.
Og af gefnu tilefni sumar fengu síld en aðrar ekki og þar á er enginn munur nema síður sé.
Nú bíðum við bara eftir því að fá niðurstöðurnar úr sýnatökunni og vona að eitthvað komi í ljós svo hægt sé að varast þessum leiðindum á næstu árum.
Eins og fram hefur komið ætlaði ég ekki að koma þessum upplýsingum á framfæri hér á síðunni. Ég hef það að leiðarljósi að reyna eftir fremsta megni að íþyngja ekki fólki með neikvæðu rausi aðrir geta séð um það.
En þegar vinir og kunningjar voru farnir að hafa samband og spyrja mig hvort virkilega væri búið að skera allan bústofninn ? Hvort nokkuð lamb mundi fæðast að vori ?
Hvort allt væri að fara fjandans til af síldargjöf ?
Þá sá ég mig tilneydda til að smella hér inn smá upplýsingum.
Bústofn og mannskapur hér í Hlíðinni hafa það gott eftir efnum og ástæðum í það minnsta fögnum við vorkomu þrátt fyrir allt.
Einkunnarorð nýliðins Búnaðarþings voru ,,bændur segja allt gott,, ég hef ákveðið eftir langar og strangar samningaviðræður við sjálfan mig að gera þessi orð á mínum.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
11.03.2013 22:36
Í þá gömlu góðu daga........
Í þá gömlu góðu daga gæti þessi mynd heitið nú eða bláa gengið í skóginum.
Mér finnst samt ekki svo langt síðan hún var tekin og þó ??
Myndin er tekin á síðustu öld, fyrir hjálmamenningu og áður en softsell og skóbuxur tröllriðu öllu fatavali hestamanna.
Tilefnið er ræktunarbússýning okkar í Hlíðinni árið 1992 á Fjórðungsmóti sem haldið var á Kaldármelum.
Talið frá vinnstri:
Neisti undan Leisti frá Álftagerði og Jörp frá Hallkelsstaðahlí, knapi Björn Þorsteinsson.
Jarpur undan Fáfni frá Fagranesi og Jörp frá Hallkelsstaðahlíð, knapi húsfreyjan sjálf.
Máni undan Grána og Jörp frá Hallkelsstaðahlíð, knapi Óskar Sverrisson.
Ágústa undan Otri frá Sauðárkróki og L-Stjörnu frá Hallkelsstaðahlíð, knapi Skúli Skúlason.
Lyfting undan Grána og Sótu frá Hallkelsstaðahlíð, knapi Ragnar Hallsson.
Bliki undan Fáfni frá Fagranesi og Bliku fra Hallkelsstaðahlíð, knapi Ragnar Alfreðsson.
Gaman að svona myndum sem láta mann rifja upp skemmtilega tíma.
Á eftir bylnum sem okkur var boðið uppá um daginn komu góðir dagar með blíðu og notalegheitum. Mikið riðið út og veðrið nýtt til hins ýtrasta enda nokkuð stór hópur á járnum. Ákafinn við að ríða út er svo mikill þessa dagana að sunnudagshryggurinn var borðaður hér á bæ kl 21.30 á mánudagskvöldi.
Eins gott að heimilisfólkið tekur þessu ofurskipulagi húsfreyjunnar með mikilli ró, vita kannske sem er að hún er miklu skárri ef hún fær að ,,ganga úti,, þegar vel viðrar.
Góðir dagar í sveitinni hressa bæta og kæta, rétt eins og Opalið.
Við erum svo heppin að hafa tvær dömur með okkur heimafólkinu núna til að hjálpa okkur í stússinu, það er hún Becký okkar og vinkona hennar hún Fransý.
Hláturmildar dömur sem víla ekki fyrir sér hlutina :)
Nú eru endurmenntunarnámskeið gæðinga og íþróttadómara frá þetta árið allavega hjá okkur hérna megin á landinu. Við Mummi brunuðum í bæinn þegar upprifjun íþróttadómara var haldinn fyrir nokkrum vikum og síðan fór ég suður á sunnudaginn á gæðingadómaraupprifjunina.
Alltaf gaman að hitta mannskapinn á þessum árlegu samhæfinganámskeiðum, spá og spekúlera í dómstörfum og reiðmennsku.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
06.03.2013 22:29
Það Gustar
Það gustaði hressilega um okkur hér í Hlíðinni í dag og gerir enn þegar þetta er skrifað.
Í tilefni af því smellti ég hér inn myndum að fimm sonum Gusts frá Hóli sem er einn af okkar uppáhalds stóðhestum. Þessar myndir eru valdar af miklu handahófi og eru hestarnir á misjöfnum tamningastigum á myndunum. Væri gaman að eiga nýjar myndir af þeim núna.
Sá sem er efstur t.v á myndinni er Fannar frá Hallkelsstaðahlíð sonur Tignar frá Meðalfelli, þá er það Dregill frá Magnússkógum undan Kolskör frá Magnússkógum, Sparisjóður frá Hallkelsstaðahlíð undan Karúnu frá Hallkelsstaðahlíð, Krapi frá Steinum sonur Orku frá Steinum og hér neðstur er Blástur minn sem er undan Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð.
Gaman að rekja eða tengja saman hesta sem eiga eitthvað sameiginlegt en þarna er það faðernið. Svo er Sparisjóður móðurbróðir Blásturs en Kolskör er undan Karúnu eins og Sjóðurinn. Og á þessum myndum er það Mummi sem ríður þeim öllum enda ,,rændi,, ég þessari uppsetningu frá honum.
Við höfum tamið nærri því þrjátíu hross undan Gusti frá Hóli í gegnum árin og hafa mörg þeirra verið í miklu uppáhaldi hjá okkur.
Bara að Glotti Gustsson hefði nú stoppað lengur á landinu góða.
Veðurfregnir............
Bylur frá því s.l nótt og ekkert lát á honum, færðin á milli íbúðarhúss og útihúsa mjög vafasöm. Tveir bílar stopp á leiðinni.......mikill fjöldi m.v íbúafjölda............hljómar þetta ekki eins og við búum í höfuðborginni ???
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
05.03.2013 22:18
Vetur
Þessar er miklar vinkonur eftir góða samveru síðustu vikurnar, þetta eru þær Tyra og Sigling.
Nú er Tyra farin aftur til Svíþjóðar eftir að hafa verið hérna hjá okkur í nokkrar vikur.
Við þökkum Tyru fyrir frábæra samveru með bestu óskum um velgengni í skólanum.
Það væri svo sannarlega gaman að fá þig aftur til okkar.
Já síðustu vikur hafa verið skemmtilegar og líflegar í hestamennskunni enda var þá gott veður. Mikið þjálfað og tamið hér í Hlíðinni.
Nú er aftur á móti kominn harður vetur með frosti, kulda og roki. Birrr....
Hún Becky sem er hjá okkur var að óska eftir snjó og vetri þegar hún kom spurning hvort við ættum ekki að semja við hana að vanda valið á þessum óskum sínum :)
Veðrið var þannig í dag að við ákváðum bara að rjúka í það að taka af kindunum. Gott að nota svona veður í það enda ekki pláss fyrir alla að ríða út inni í einu. Það var því slökkt á viftunum og gert svolítið notalegt í fjárhúsunum þannig að kindunum yrði ekki mikið um.
Alltaf nóg að gera í sveitinni.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
25.02.2013 22:13
Glottandi
Þarna eru Astrid og Glottasonurinn góði Glymur frá Hofsstöðum í Garðabæ að leika sér.
Á laugardaginn var sýning hjá annars árs nemum Háskólans á Hólum en þá sýndu þau hrossin sem þau hafa verið að þjálfa að undanförnu. Glymur var í grunnþjálfun hjá Astrid og í miklu uppáhaldi hjá henni, þau stóðu sig með mikilli prýði í prófinum.
Vinir okkar í Garðabænum eiga Glym og eiga þau örugglega eftir að hafa gaman af gripnum.
Glymur er bara öruggur með sig á ísilögðum vellinum á Hólum en nemendurnir sýndu hrossin bæði úti og inni.
Ég er mikill Glotta aðdáandi og ekki svíkur þessi kappi frekar en við var að búast, bara spennandi.
Astrid kom heim í helgarfrí en brunar svo aftur norður til að klára loka törnina á sínu öðru ári á Hólum. Svo eftir páska er það verknám fram í júní en það tekur hún á góðum stað í Borgarfirðinu. Styttra að skreppa heim þaðan en alla leið frá Hólum.
Ég og aðstoðardömurnar mína skruppum á KB mótaröðina í Borgarnes á laugardaginn.
Alltaf gaman að sjá hross og sjá hvernig staðan er í hestamennskunni.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
21.02.2013 22:00
Assan
Þessa skemmtilegu mynd fékk ég um daginn en hún er af Össu ,,okkar,, og Sören Madsen.
Myndin er tekin á Danska meistarmótinu 2001 en þar kepptu þau í tölti með góðum árangri.
Assa var í miklu uppáhaldi hjá Sören enda fyrsti keppnishesturinn hans. Assa var undan Fáfni frá Fagranesi og Trillu en Assa fórst því miður fyrir nokkru síðan.
Á myndinni finnst mér hún nokkuð lík Skútu systur sinni sem er ein af okkar uppáhalds.
Ég vil benda ykkur á að þið getið skoðað síðuna hjá honum Sören með því að smella á nafnið hans hér í tenglasafninu á síðunni.
Enn er blíða hér í Hlíinni og frábært útreiðaveður sem vel var nýtt í dag eins og reyndar alla síðustu viku. Fyrirmyndarhestur dagsins var Bára litla frá Lambastöðum, dóttir Arðs frá Brautarholti og Tinnu frá Árbakka.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir