26.07.2014 23:00

Nokkrar kátar hryssur.

 

Þessi elska skemmtir okkur oft og mikið verður dagurinn góður eftir reiðtúr á henni.

Hún er eiginlega að verða alveg uppáhalds hjá mér og reyndar fleirum.

Þarna eru þau Mummi í góðum gír.

Gangskör frá Hallkelsstaðahlíð 5. vetra gömul undan Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð og Adam frá Ásmundarstöðum.

 

 

Bára frá Lambastöðum er skemmtileg hryssa og mikið er hún stundum lík honum Gosa hálfbróður sínum.

Bára er 5 vetra undan Arði frá Brautarholti og Tinnu frá Lambastöðum.

 

 

Þessi hryssa Lyfting frá Hallkelsstaðahlíð er dóttir Gosa frá Lambastöðum og Upplyftingar frá Hallkelsstaðahlíð. Þarna er hún í léttri sveiflu hjá henni Astrid á góðum degi. Lyfting er 6 vetra gömul.

 

 

Framtíðarsýn frá Hallkelsstaðahlíð faðir er Gosi frá Lambastöðum og móðir Sunna frá Hallkelsstaðhlíð.

Á myndinni eru þær bara kátar hún og Astrid. Framtíðarsýn er 7 vetra gömul.

23.07.2014 23:53

Heyja.... heyja..... hey.....

Kátur frá Hallkelsstaðahlíð.

Það var ekki mikil rigning í dag................. og það náðist að rúlla nokkrum tugum af rúllum.

Já þetta er allt að koma og útlit fyrir að allur heyskapur klárist í rigningunni og þá er það bara sólbað þegar alvöru þurrkurinn kemur. Maður má nú láta sig dreyma í rigningunni. Annars batnar þetta ekkert við vælið, veðrið er gott og ca. 600 rúllur komnar í plast og ekkert hey hrakið.

Eftir langan og mikinn rúnnt um suðurlandið er ég alsæl með það græna sem komið er í rúllurnar hjá okkur. Greinilega ekki sjálfgefið á ná því svoleiðis. Já ég hef farið ansi víða í vikunni þó svo að ferðalagið teljist ekki til sumarfrís, og þó. Það er skemmtilegt að hitta hestafólk og stússast í hesta og þá sérstaklega hryssufluttningum. Koma við á bæjum ræða nýafstaðið landsmót og spekulegra í stóðhestum. Þetta er allavega meira gaman en að liggja í sólbaði. Ferðin var farin til að sækja hryssur sem lokið höfðu sínum stenfumótum við stóðhesta og fara með aðrar hryssur. Nú er bara að krossa fingur og vona að allt þetta flandur skili árangri og þær séu með folöldum. Sjö hryssum hefur verið haldið en aðeins ein komin heim með staðfestu fyli. Kolskör mín er komin heim með staðfest fyl undan honum Skýr frá Skálakoti. Ætli það verði ekki rauð hryssa ?

Við hér í Hlíðinni erum í óða önn að safna myndum af söluhrossum sem að vonandi birtast hér á næstunni.

Gott væri að fá aðeins meiri sól svona í eins og einn dag þá mundi nú eitthvað gerast.

Get samt upplýst að það eru nokkur býsna spennandi ;)

13.07.2014 22:35

Afrekin á knattspyrnuvellinum............

Mynd: Aðalsteinn Maron.

Þessi litli sjarmur var alveg til í að láta smella af sér mynd í góða veðrinu.

Kapteinn litli er að verða nokkuð taminn eftir tíðar heimsóknir okkar til Skútu mömmu hans. En eins og áður hefur margoft komið fram hér á síðunni þarf Skúta mikið eftirlit og er því aldrei höfð langt undan.

Sparisjóður hefur nú náð sér að mestu eftir hremmingarnar í vor og bíður þess nú með óþreyju að dömurnar (hryssurnar) hans mæti. Einkaritarinn hans settist við símann í dag og bauð hryssueigendunum að gjöra svo vel. Nú má sem sagt fjörið hefjast hjá kappanum, girðingin klár og allt til reiðu fyrir svallið.

Mummi og Astrid smelltu sér á Löngufjörurnar með hressum krökkum sem létu gamminn geisa í blíðunni. Ég tók aðeins bíltúr með hrossin þeirra og fékk að sjálfsögðu endalausa löngun til að verða bara eftir á Stakkhamri. Það er hreinlega alveg ómissandi að fara nokkra fjörutúra á ári. Veðrið var líka þannig að ekkert hefði verið betra en góður fjörusprettur.

En allt stendur þetta nú til bóta og ekkert að óttast því dagurinn í gær varð bara einstaklega vel heppnaður þó svo að ég færi ekki á fjörurnar.

Dalatúr með fulla kerru af hestum, sveitamarkaður og líflegt heimilishald með ansi mörgum þátttakendum er bara töff. Heyskapurinn fór líka á fullan skrið en bara í gær og dag, það er niðurskurður og ekki hægt að fá nema rúman sólarhring af þerri.

Annars er þurrkur sennilega ofmetinn því það rigndi í gær en heyið þornaði samt. Kannske með góðu og illu.....hefst það.

Gönguhópar og veiðimenn voru tíðir gestir hér um helgina og á næstunni koma fleiri hestahópar hingað til okkar. Já já það er ekki bara umferð í 101 sko það er líka hér í Hlíðinni skal ég segja ykkur.

Þrátt fyrir líflega helgi náði ég einu stórafreki á minn mælikvarða nú undir kvöld. Haldið ekki að húsfreyjan hafi bara horft á heilan (næstum því) fótboltaleik í sjónvarpinu. Það sögðu mér fróðir menn og reyndar þulurinn líka að þetta væri úrslitaleikurinn á HM og auðvita trúi ég því. Mér fannst nú ferkar lítið gerast framan af leiknum fyrir utan smá fæting sem varla er orð á gerandi. Þetta var farið að minna mig á það þegar maður lendir í þeirri stöðu í smalamennsku að standa fyrir og bíða. Alltaf eitthvað alveg að fara að gerast en gerist ekki...... fyrr en enginn á von á því. Og þá kannske tapar maður bara af því eins og kom fyrir mig við seinni slagsmálin.

Ég hafði heyrt talað um að Messi væri besti knattspyrnumaður í heimi og treysti því alveg á að hann mundi skora og vinna. Því hélt ég að sjálfsögðu með honum. Var reyndar ekki viss um í hvoru liðinu hann væri en sá að ég gæti komist að því þegar hann mundi skora. Svo kom markið sem ég að sjálfsögðu fagnaði þangað til ég komst að því að sá sem skoraði var als ekki Messi. Ónei þar var á ferðinni ósköp sætt krútt frá Þýskalandi sem var ekki einu sinni í liði með Messanum.

Það sem eftir lifði leiks og undir framlengingunni líka einbeitti ég mér að því að ná áttum og þá sér í lagi að jafna mig á því að sennilega kæmist ég ekki að því hvernig Messi liti út. Sko mitt vit á fótbolta nær eingöngu til þess hvort að kapparnir líta vel út eða ekki. Ég legg ekki meira á mig.

Þar sem að engir fleiri leikmenn skoruðu varð ég engu nær um nöfn og nánari upplýsingar. Það var ekki fyrr en Angela Melker knúsaði krúttið sem skoraði meira en hina að ég var viss um að þjóðverjar hefðu sennilega unnið.

Þegar ég verð stór verð ég kannske fótboltabulla.

PS.  Hvað er leyfilegt að sýna marga grátandi kalla í sjónvarpinu án þess að setja á rauða merkið ???

13.07.2014 18:43

11.07.2014 23:00

Hvar er þurrkurinn ?

 

Jæja núna má sólin og þurrkurinn alveg fara að koma hingað í Hlíðina.

Við höfum náð að rúlla tæplega 300 rúllum í tveimur atlögum með rigninguna á hælunum.

Ef að allt gengur eftir þá eigum við eftir að rúlla ca 900 rúllum svo það er eins gott að það fari að rofa.

Ég ætla ekkert að ræða málninguna á húsinu, læt eins og það standi ekki til að mála.

Ætli húsamálningaþurrkurinn þetta árið sé ekki búinn ?

Landsmótið var líka svolítið blautt og á köflum var rokið á full mikilli ferð fyrir minn smekk.

Hestakosturinn var hreint frábær og óendanlega gaman að rifja hann upp, spá og spekulegra. Ungu hrossin voru einstaklega góð og eftirmynnileg. Á engan er hallað þó svo að ég nefni Konsert frá Hofi sem aðal aðalgripinn. Ótrúlega góður og fallegur gripur.

Mannlífið á Hellu var skemmtilegt reyndar eins og alltaf er á landsmótum. Það er alltaf jafn gaman að hitta vini og kunningja sem tilheyra þessum góða hópi hestamanna. Ekki skemmdi nú fyrir að hitta fjölmargt af því góða og skemmtilega fólii sem starfað hefur hér hjá okkur í Hlíðinni. Margir þeir sem við höfum kynnst í gegnum hestamennskuna og búa erlendis mæta á landsmót. Það urðu því fagnaðafundir þegar nokkrir góðir hópar komu hingað til okkar í Hlíðina. Það er alltaf gaman að fá ykkur hingað í heimsókn, skoða og ræða hesta og hestamennsku.

Já það er búið að vera líf og fjör í hesthúsinu svo maður tali nú ekki um fjallaferðir og stóðsmölun.

Takk fyrir komuna Per og fjölskylda, Tyra og fjölskylda og þið öll hin sem glödduð okkur með heimsóknum og samveru.

Þar sem að allar hryssur eru kastaðar hér á bæ er stóðhestafjörið komið af stað. Suðurlandið var staðurinn í gær en þangað var brunað með þrjár hryssur undir hesta. Þá eru sjö hryssur farnar undir stóðhesta og ólíkt því sem gert var í fyrra þá eru þær allar hjá sitt hverjum hestinum.

Já já ég treysti honum Ölni frá Akranesi fyrir fjórum góðum hryssum í fyrra og hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með það,

Nánar um stóðhestavalið þetta árið síðar, það var búið að valda næstum andvöku.

Vonandi bjóða næstu dagar uppá heyskap, sveitamarkað, hestastúss, góða gesti jafnvel langt að komna. Að ógleymdum veiðimönnum, göngugörpum og ævintýrum af bestu gerð.

Það er staðreynd að sólarhringurinn er alltaf að styttast, mánuðir og ár að skreppa saman.

01.07.2014 00:27

Nýjustu fréttir og myndir af nokkrum uppáhalds.

 

Álfadís frá Magnússkógum og Mummi að keppa í úrslitum í tölti á Oddanum.

Frábær hryssa sem nú er komin undir hann Múla frá Bergi.

 

Ég var að renna yfir nýlegar myndir og ákvað að smella inn nokkrum af uppáhalds hestunum sem eru reyndar svolítið margir.  Svo það fari ekki á milli mála þá er þetta bara byrjunin, margar fleiri myndir af góðum hestum er væntanlegar á síðuna.

 

Mynd Toni ljósmyndari í Búðardal.

Þetta er hann Óðinn frá Lambastöðum og Mummi í léttri sveiflu.

Stór og myndarlegur foli sem verður skemmtilegri með hverjum deginum.

 

 

 

Höfðinginn og vinur okkar Dregill frá Magnússkógum og Mummi á góðri stundu.

 

 

Þarna eru þær stöllur Astrid og Framtíðarsýn á notalegu tölti, alveg drauma reiðhestur þessi hryssa.

 

 

Og einstaklega mikið uppáhalds þessi elska enda Gustssonur.

Er hreinlega á háum stalli í mínum huga og verður þar.

 

 

Skemmtileg prímadonna hún ,,Korka,,  og með augu sem bræða allt.

Hef bara ekki séð svona falleg augu í nokkrum hesti áður.

 

Annars er það helst í fréttum héðan úr Hlíðinni að við náðum að heyja hátt á annað hundrað rúllur í þessum örþurki sem boðið var uppá. Kláruðum Melana og tókum aðeins hér heima líka.

Ekki hefði nú verið verra að ná að taka nýræktirnar á Steinholtinu líka en maður getur víst ekki beðið um allt.

Nú er verði að keyra heim rúllur eins og enginn sé morgun dagurinn.

Síðustu hryssurnar köstuð í gær, Sjaldséð átti gráa hryssu undan Sólon frá Skáney. Hún hefur hlotið nafnið Útséð frá Hallkelsstðahlíð.

Blika kastaði rauðri hryssu undan Gosa frá Lambastöðum, hún hefur hlotið nafnið Gletta frá Hallkelsstaðahlíð.

 

Síðasta kindin bar á þjóðhátíðardaginn 17 júní og hefur nú farið til fjalla, það var kindin Kúðhyrna.

Kúðhyrna heimtist ekki fyrr 22 janúar s.l en þá kom hún heim í hlað til minna góðu granna á Emmubergi.

Þegar ég sleppti henni út bað ég hana vinsamlegast að kom nú heim á réttum tíma og vera ekki til vandræða.

Ætla rétt svo að vona að hún standi við það.

 

Veiðin í Hlíðarvatni hefur verið góð það sem af er sumri og veiðimennirnir kátir með aflann. Við höfum aðeins veitt í net en þó vantar okkur þennan veiðieldmóð sem að Einar heitinn frændi minn hafið við veiðarnar.

Margir gönguhópar hafa farið hér um og von er á fleirum, flestir eru að ganga svo kallaða Þriggjavatnaleið.

 

 

 

28.06.2014 11:23

Folöldin hans Ölnirs

 

Þessi flotti hestur fæddist um Jónsmessuna móðir er Rák frá Hallkelsstaðahlíð og faðir Ölnir frá Akranesi. Hún Astrid er eigandi folaldsins sem hlotið hefur nafnið Dani frá Hallkelsstaðahlíð.

Það var skemmtilega hugmynd að kalla hann Dani því hvað er betur við hæfi þegar eitthvað rautt og hvítt fæðist í eigu danskfæddrar dömu.

 

 

Þarna er hann Lokkur frá Hallkelsstaðahlíð nýfæddur. Lokkur er undan Létt frá Hallkelsstaðahlíð og Ölnir frá Akranesi, það síðast sem fæðist undan honum þetta árið hér í Hlíðinni.

 

 

Létt fer gjarnan eins hátt uppí fjall og hún getur þegar hún kastar en er samt róleg þegar komið er til hennar að skoða afkvæmið.

 

 

Kapteinn litli Skútu og Ölnirsson er orðinn stór og brattur, honum finnst þessir litlu bræður sínir ósköp barnalegir. Hann er núna kominn með mömmu sinni í hólfið hjá honum Káti mínum en þar verða lögð drög að nýjum vonum.

 

 

Nú er loksins komið nafn á þessa dömu en hún hefur hlotið nafnið Andvaka frá Hallkelsstaðahlíð.

Andvaka Ölnirs hljómar það bara ekki ljómandi vel ?

Þær mæðgur Karún og Andvaka láta sér fátt um finnast en húsfreyjan er mjög ánægð með nafnið.

Oft fæðast góðar hugmyndir á andvökunóttum og því trúi ég því staðfaslega að eitthvað gott hafi fæðst þegar sú litla fæddist.

Nú eru þær mæðgur komnar út að Bergi þar sem Karún hittir Múla frá Bergi sem vonandi er góður að búa til hryssur. Múli er undan Kappa frá Kommu og Minningu frá Bergi. Spennandi foli með 8.51 fyrir byggingu.

 

19.06.2014 21:31

Gleðin og allt hitt líka.

 

Þessa myndarlegu hryssu fékk ég undan henni Karúnu minni, faðirinn er Ölnir frá Akranesi. Sú litla hefur enn ekki fengið nafn enda skal vanda valið þegar uppáhaldið er annarsvegar. Hef fengið nokkrar uppástungur en engin þeirra hefur hitt í mark. Verð að drífa mig að nefna hana áður en hún fer af bæ með mömmu sinni til að hitta einhvern spari stóðhest.

 

 

Hér á myndinni er hann Hallkell frá Hallkelsstaðahlíð, faðir er Hersir frá Lambanesi og móðir Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð. Þessi garpur er sprækur og búinn að vera á harða hlaupum síðan hann fæddist. Nú er hann farinn með móður sinni í Steinsholt en þar er Kolskör á stefnumóti við hann Skýrr frá Skálakoti.

Vonandi gengur það samkvæmt áætlun og ég fæ hryssu næsta vor ;)

 

 

Þarna er hún Kveikja litla dóttir Þríhellu frá Hallkelsstaðahlíð og Stimpils frá Vatni nýfædd. Myndar folald sem komin er í Skipanes með móður sinni til að hitta Vita frá Kagaðarhóli.

 

 

Það var svo í morgun að hún Skúta kastaði jörpum hesti sem hlotið hefur nafnið Kapteinn frá Hallkelsstaðahlíð. Faðir hans er Ölnir frá Akranesi. Kapteinn er stór og myndarlegur hestur sem skartar hring í öðru auga, svona uppá punt. Já það er hreint ótrúlegt að hún Skúta sé búin að eignast tvö afkvæmi síðan hún veiktist. Skúta er undir daglegu eftirliti 365 daga á ári og er fóðruð á sérvöldu ,,góssi,, meiri hluta ársins. Hér á bæ telur það enginn eftir þó að smá snúningar séu í kringum þessa drottningu.

 

 

Hér sjáið þið augað fína sem gerir heilmikið fyrir hann Kapteinn litla.

 

 

Já það er eins gott að vera í sambandi þarna eru Mummi og Skúta sennilega að setja fréttirnar á fésbókina. Skúta eignaðist marga góða vini sem fylgdust með henni þegar hún var sem veikust, svo það er eins gott að ,,ritarinn,, hennar á fésinu standi sig í fréttafluttningnum. Mér sýnist samt á svipnum á Skútu að hún sé ekkert endilega að huga að fésvinum og velferð þeirra. Sonur hennar og grasið eru mun meira freistandi þennan daginn.

 

 

Þessi bíður bara eftir því að fá Ölnirsafkvæmi en Rák er ekki köstuð enn svo að Astrid verður bara að bíða. Snotra leggur henni lið við biðina og andlegan stuðning.

 

 

Það eru oft góðar stundir sem verða til í hestagirðingunum. Þarna eru spekingar að spjalla og hafa gaman saman, takið eftir brosinu sérstaklega á Snotru.

 

 

Þessar dömur stóðu sig bara nokkuð vel á Miðfossum um daginn. Snekkja fór í 1 verðlaun með 8.25 fyrir hæfileika og aðaleinkun uppá 8.13 og Gangskör fór í 8.08 fyrir hæfileika og aðaleinkun uppá 7.91. Nú er það bara í höndum eiganda Snekkju hvort að hún fer í folaldseignir eða aftur í dóm. Gangskör, eigandinn og þjálfarinn stefna óthrauð að því að hún nái fullri heilsu og smelli sér aftur í dóm. Hún á klárlega inni en alvarleg sýking og veikinda vesen hafa tafið hana á leiðinni til að vera ein af spari hryssum húsfreyjunnar.

 

 

Þarna er mynd af Gangskör og Jakobi í léttri töltsveiflu á Miðfossum. Mummi hefur þjálfað Snekkju og Gangskör en á Miðfossum sýndi lærimeistari hans Jakob Sigurðsson hryssurnar með glæsibrag eins og honum er einum lagið. Takk fyrir það Jakob.

 

 

Gangskör mín er stórbrotin persóna og fer ekki alltaf troðnar slóðir en kjarkinn vantar ekki. Hún lét sig ekki muna um að liggja á gluggunum þegar húsfreyjan var í afslöppun á þjóðhátíðardaginn.

Lætur sér ekkert óviðkomandi, já svona er víst eftirlitsiðnaðurinn í dag.

 

 

Gæðum heimsins er misskipt og ekki eru allir jafn heppnir það er víst. Sparisjóðurinn minn er einn af þeim sem alveg þarf að hafa fyrir sínu en geðprýðin og gæfan munu án efa sigra að lokum. Nú stendur þessi elska í stíunni sinni og bíður þessa að mega fara út að sinna skyldustörfum. Þessi gleðigjafi húsfreyjunnar slasaðist um miðjan maí og á enn í þeim meiðslum. Hann og húsfreyjan ætluðu svo sannalega ekki að vera í þessu stússi um há bjargræðistímann.

En okkar tími mun koma sannið þið til.

Það er huggun harmi gegn að afkvæmin hans sem verið er að temja gleðja um þessar mundir meira en flest annað. Og hryssurnar sem bíða eftir honum...... já þær eru tilhlökkunarefni.... fyrir Sjóðinn.

 

Speki dagsins:

Að gleðjast með góðum er gott en væla með vondum vont.

 

 

 

 

04.06.2014 09:00

Af refum, kosningum, Spuna og lífinu í Hlíðinni

 
 

 

Það er bannað að taka morgungöngu innan um lambféð með skipulagða árás í huga. Þessi rebbi fékk svo sannarlega að reyna það og tríttlar nú um í grænu högunum hinumegin. Svona fyrir þá sem hugsanlega eru viðkvæmir fyrir myndum af þessu tagi. Fáið ykkur sæti lokið augunum og hugsið ykkur að launaumslagið ykkar sé fullt en skyndilega kemur refur og byrjar að borða alla fimmþúsundkallana. Já já það eyðist sem af er tekið.

 

 

Gamla refaskyttan var ánægð með veiði tamningamannsins sem verður sennilega að rifja upp kúrekataktana og vera búinn hatti og byssu í morgunreiðtúrnum. Vopnið sem notað var er riffill sem áður var í eigu Gústavs heitins Gústavssonar sem var refaskytta hér fyrir nokkrum áratugum. Hann var í miklu sambandi hingað vestur og beið þess með óþreyju að skotin yrði tófa með byssunni. Hann náði ekki að lifa það en hann lést fyrir nokkrum vikum. Ég hef samt fulla trú á að hann hafi fylgst með og fagni nú á öðrum stöðum að rebbi valsi ekki hér um meir. Mummi skaut rebba fyrir ofan Þrepin sem kölluð eru, svona fyrir þá sem til þekkja.

 

 

Þarna er hún Marie að skoða rebba enda ekki á hverjum degi sem að hægt er að skoða þá í svona miklu návígi.

 

 

Þessi létu sér fátt um finnast þegar það rigndi sem mest í gær og fengu sér bara blund á hestasteininum fyrir utan eldhúsgluggann. Það er alveg spurning hvort að lömbin séu að finna tilfinninguna hvernig það er að búa í blokk ? Þetta er hestasteinn sérvalinn úr Tálknafirði sem aldrei er kallaður annað en Marinó.

 

 

Frá refaveiðum að kosningum, kella var ánægð með útkomu sinna manna í Borgarbyggð. Svo að það er bara góð viðbót við annars gott vor með blíðu, grasi og vonandi gæfu. Sauðburðurinn er að verða búinn en síðustu kindurnar láta aðeins bíða eftir sér og nokkrar ,,vandræða,, kindur er eftir inni. Þær ættu bara að vita hvað bíður þeirra þegar þær fara út.

Maron vinnumaðurinn okkar fór í smá frí eftir aðal sauðburðartörnina en er væntanlegur fljóttlega.

Þau stóðu sig eins og hetjur nýja sauðburðarfólkið okkar hann og Marie.

Við fengum líka frábæra hjálp frá fullt af góðu fólki sem létti undir með okkur í sauðburðinum enda líflegt þegar hátt í 700 kindur bera og rúmlega 30 hross á járnum. Svo er dásamlegt að fá góðar ,,inni,, konur á þessum tíma sem sjá til þess að veisla er á matmálstímum. Takk fyrir alla hjálpina þið sem eruð okkur svo dýrmæt.

Folaldshryssurnar láta heldur betur bíða eftir sér en ekki er svo mikið sem ein þeirra köstuð.

Þær vita sennilega sem er að miklar vangavelltur eru í gangi varðandi val á stóðhestum og því bara best að taka því rólega.

Reyndar er Astrid búin að fá eitt folald en það er fætt á Skáney, hryssa undan gæðingnum Þyt frá Skáney og Prúð frá Skáney. Hún fór að skoða gripinn og kom alsæl heim enda ekki annað hægt með Þytsdóttir ;)

Ég fór og dæmdi Landsmótsúrtöku hjá Hestamannafélaginu Spretti um síðustu helgi.

Hestakosturinn var afbragðs góður og alveg ljóst að einhverjir fulltrúar Spretts eiga eftir að komast langt á landsmótinu. Spuni frá Vestukoti er mér alveg ógleymanlegur undir stjórn Þórðar Þorgeirssonar á Landsmótinu þegar hann kom fyrst fram. Ekki varð aðdáun mín minni þegar hann mætti til leiks hjá Spretti s.l laugardag, þvílíkur gæðingur og nú undir öruggri stjórn Þórarins Ragnarssonar. Mörg önnur hross eru mér ofarlega í huga og ekki síst hvað börn og unglingar eru glæsilega ríðandi. Ég veðja á að Sprettur komi sterkur inn á LM 2014.

 

 

Litlar frænkur mættu til að skoða sauðburðinn en þarna er Fríða María búin að hitta vinkonu sína hana Marie.

 

 

Fríða eldri skellti sér í sveitina og er þarna með vinkonunum enda er bara heilsusamlegt fyrir dömur á níræðisaldri að koma í fjárhúsin.

 

 

Íris Linda og Botni að taka stöðu mála.

 

 

Þú ert sko flottasta lamb sem ég hef séð.

 

 

................... en ég er nú svolítið smeik við þig þegar þú jarmar svona hátt.

 

 

Svandís Sif og Halldór voru hress í sauðburðarfjörinu.

 

 

Eins gott að líta eftir öllu hjá ykkur................ Svandís Sif efnilega sauðburðarkona.

 

 

Þegar maður verður þreyttur þá er bara að labba með ömmu Svandísi í Stellukaffi í gamla húsið.

 

 

Ragnar frændi minn sem nú býr í Brákarhlíð kom auðvita og skoðaði lömbin og tók stöðuna í sauðburðinum. Það er alveg ótrúlegt hvað hann þekkir og man þegar hann kemur í fjárhúsin. ,, Er þessi með þrjú lömb einu sinni enn og núna botnótt,, eða ,,kemur þessi með annan lífhrút,, Já þeir sem eru einu sinni bændur þeir verða það alltaf. Það er hægt að taka manninn úr sveitinni en ekki sveitina úr manninum. Það er víst.

Á myndinni hér fyrir ofan er Svandís Sif að máta gleraugun og spjalla við Ragnar þegar hún heimsótti hann í Brákarhlíð.

Eins og þið vitið þá hefur ekki gefist mikill tími til að setja inn fréttir og myndir en af nægu er að taka.

Vonandi hefst eitthvað af í þeim efnum á næstunni en nokkur hundruð myndir og annað efni bíða á kanntinum.

 

 

 

 

 

26.05.2014 14:09

Enn er það Hólaferð til að sjá flott reiðkennaraefni.

 

Það var full ástæða til að fagna þegar hún Astrid okkar útskrifaðist sem Bs reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Þarna fagnar hún með foreldrunum og Mummanum. Fannar óskaði sérstaklega eftir að fá alveöru prófílmynd. Til gamans má geta þess að Astrid er tíundi ,,Hólaneminn,, okkar. Já við erum búin að vera svo heppin að fá að hafa þessa frábæru krakka hjá okkur. Það er ákveðin reynsla sem bæst hefur í reynslubankann við að sjá krakkana fara í gegnum skólann og upplifa stemminguna. Gleði og sorgir sem fylgja ströngu námi er góður skóli fyrir unga fólkið sem oftast kemur bara sterkara til leiks. Ég er ekki í vafa hvað ég mundi gera ef að ég væri ungur hestaáhugamaður í dag. Hólar væri málið en gott væri að hafa hraustan kropp og reynda sál. Frábært nám, fagmennska og fróðleikur en eins og í öllu sem viðkemur tamningum verður að fara vel með sálartetrið bæði hjá hesti og knapa. Innilega til hamingju Astrid og allir þessir flottu krakkar sem voru að ljúka náminu ykkar.

 

Það voru 11 nemendur sem útskrifuðust á laugardaginn.

 

Það er alltaf hátíðleg stund þegar reiðkennaraefnin klæðast FT jakkanum í fyrsta sinn. Þarna bíða þau hvít eins og englar eftir því að formaður FT Sússana Ólafsdóttir klæði þau í jakkann.

 

Formaður FT og gjaldkeri voru mættar til að klæða reiðkennaraefnin í jakkann. Brosmildar að vanda þessar dömur.

 

Astrid komin í jakkann með góðri aðstoð formannsins.

 

Hamingjuknús.

 

Mette yfirreiðkennari á Hólum og Astrid kátar með daginn.

 

Pósað á móti sólinni í Hjaltadalnum.

 

 

Astrid með drengina Fannar og Mumma.

 

Nemendurnir héldu skemmtilega sýningu þar sem þau sýndu brot úr þeim prófum sem þau hafa tekið á síðustu þremur árum. Á myndinni er Fannar að smella sér uppá kassa sem í þessu tilfelli á að vera útsýnisstaður yfir smalasvæðið. Hvergi smeikur og til í allt enda alinn upp í fjöllunum.

 

 

Kíkt á kindurnar í Hjaltadalnum.

 

Góður dagur á Hólum enn fleiri myndir fljóttlega hér á heimasíðunni.

19.05.2014 11:54

Mikið um að vera

 

Þessi tvö Astrid okkar og Fannar frá Hallkelsstaðahlíð stóðu sig vel á föstudaginn þegar þau tóku lokaprófið saman á Hólum. Þarna sjást þau setja lokapunktinn með góðum skeiðspretti. Það verður nú gaman að fá þau heim í næstu viku. Til hamingju með þetta bæði tvö.

Sauðburður er enn í fullum gangi þó svo að aðeins hafi hægt á enda mátti það nú alveg. Tæplega 150 kinur eru eftir að bera svo nú fer þetta að fjara út smá saman. Nóttin í nótt var sú kaldasta í langan tíma og ekki laust við að venjulegt sauðburðarveður væri í boði. Við eru orðin svo góðu vön síðustu vikurnar. Ég held samt að ég hafi ekki markað jafn snemma út í jafn mikið gras og þetta vorið. Það var allavega settur sérstakur kraftur í að klára að slóðadraga um helgina og á næstu dögum er það svo áburðurinn á.

Sveinbjörn frændi minn og Sigurður í Hraunholtum voru að rifja upp góð vor og komust að því að 1964 hefði verið gott en þó mun blautara en þetta vorið. Ég gat ekki blandað mér í þá umræðu þar sem ég var enn í húfuskotti Guðs eins og sagt var.

Fylfullu hryssurnar eru komnar á sinn vanalega köstunarstað sem er hólf við gamla bæinn. Þar er auðvellt að fylgjast með þeim allan sólarhringinn. Karún mín kastar alltaf í fyrra fallinu svo nú eru tíðar heimsóknir til hennar. Hún eins og Skúta, Rák og Létt eiga allar von á afkvæmum undan gæðingnum Ölni frá Akranesi. Kolskör er fylfull eftir Hersi frá Lambanesi sem var einmitt að gera það gott í kynbótasýningu í morgun.

Þríhella er með afkvæmi undan Stimpli frá Vatni, Sjaldséð undan Sólon frá Skáney og Blika undan vini mínum Gosa frá Lambastöðum. Bara spennandi tímar framundan á fæðingadeildinni.

 

15.05.2014 12:45

Það er gott að lúlla

 

Á þessum árstíma er svefn munaður hjá sauðfjárbændum og eins gott að nýta allar stundir sem gefast. Við frænkurnar Fríða María og ég fengum okkur smá kríu eftir matinn. Annars gengur sauðburðurinn bara vel og óbornar kindur innan við 300. Þurrt er það sem af er degi svo að nú verður markatöngin sett á flug. Fyrstu gemlingarnir fóru á Steinholtstúnið í fyrra kvöld og markið er sett á að koma slatta út í dag. Ein af spari kollunum mínum bara fjórum lömbum í gær og tvílemdu gemlingarnir bera hver af öðrum.

 

 

Margir góðir gestir hafa litið við hjá okkur í sauðburðinum t.d þessi fyrrum sauðburðar og tamningakona. Ég laumaðist til að fá þessa fínu mynd að ,,láni,, en þarna er stund milli stíða hjá Hörpu og Móra. Þessi elska var hjá okkur í fyrra vor og sumar en ætlar að sinna flugfreyjustörfum í sumar. Já það er gott að eiga einhvern að í sem flestu atvinnugreinum og mikið held ég að tamningar séu fín reynsla áður en farið er að tjónka við flugdólga.

Hér syngjum við eins og vera ber ,, Ég fell hvork í freistni né gildrur ég fell bara fyrir flugfreyjum,,

Baggalútur er alveg með etta ;)

 

 

14.05.2014 20:25

Júró og sauðburður

 

Kindurnar hafa aldrei byrjað sauðburðinn með þvílíkum krafti og þetta árið. En þegar þetta er skrifað eru lambanúmerin komin hátt á fimmtahundraðið. Það hefur ekki gerst fyrir miðjan maí áður. Við hleytum til rúmlega viku fyrr en venjulega og sennilega hefur myndast ,,múgæsinur,, meðal hópsins. Hverjar verða fyrstar út á græna grasið ??? Það var eins gott að fá góðan mannskap til aðstoðar um síðustu helgi. Þarna eru spekingar að spjalla á jötubandinu Halldór, Hrannar og Sveinbjörn taka stöðuna.

 

 

Þessi kann nú tökin á kústinum, bara betra að vera ekki fyrir. Já hún Þóranna sá til þess að allir Júróaðdáendur og Pollapönkarar gátu horft á keppnina með góðri samviksu.

 

 

Þessi kann nú tökin í sauðburðinum og er bráðefnilegur sauðfjárkvíslari. Þarna er Björg að taka frá óborna tvílembu.

 

 

Ungfrú Hefna Róa var liðtæk við að venja undir og láta lömb drekka hjá geðvondum kindum.

 

 

Maður getur nú orðið þreyttur í sauðburðinum og þá er nú gott að halla sér á kaffistofunni.

 

 

Marie fékk smá aðstoð frá þessum flotta ungherra í hesthúsinu. Hún Marie er heldur betur búin að standa sig frábærlega, dugleg og skemmtilega stelpa. Já svo erum við komin með einn góðan aðstoðarmann og saman hafa þau staðið sig mjög vel. Maí er ekki léttur mánuður hér í Hlíðinni sauðburður á fullu, tamningar og þjálfun einnig á fullu skriði.

Við eru alltaf ótrúlega heppin með þetta góða starfsfólk, það er dýrmætt.

 

 

Fulltrúar Danmerkur voru svolítið spenntir þegar söngvakeppnin var á dagskrá.

 

 

..................og spennan magnast..................

 

 

Það mætti halda að Danmörk hefði unnið...................en þær eru bara svona hressar Astrid og Marie.

 

 

12.05.2014 21:38

Trilla Gaums komin heim og uppá búið tamningafólk

 

Þarna eru þær stöllur Astrid og Trilla Gaums og Skútudóttir, þær hafa verið á Hólum í vetur en nú er Trilla komin heim og Astrid væntanleg eftir tvær vikur. Þjálfunin hefur gengið vel og Trilla er bara bráð efnileg hryssa.

 

 

Þær taka hér flugið enda var sól og blíða í Hjaltadalnum.

 

Smellti svo myndum hér af þessum krúttum.

 

 

Þessi er tekin þegar þau voru á leið á árshátíðina hjá Hólaskóla.

08.05.2014 13:31

Stuðið í Hlíðinni.

 

Það er fátt dásamlegra en að sjá sólina koma upp og það í blíðu og hita. Ekki er svo mikið síðra að sjá hana setjast en það er kannske orðið full mikið af því góða ef að maður sér hana aftur koma upp. Sko á sama ,,deginum,, En stuttar ,,kríur,, að hætti sauðfjárbóndans bæta allt upp og virka jafnvel sem dýrasta fegrunaraðgerð. Þennan sólríka morgun áttum við Salómon svarti góðar stundir við leik og störf í fjárhúsunum. Læt liggja á milli hluta hvort var að leika og hver var að starfa, er ekki stundum sagt að vinnan eigi að vera leikur ?

 

 

Kátir fuglar syntu á vatninu og við fegnum að heyra mörg tóndæmi frá fuglakórnum góða sem æfir nú af miklum mó. Já svona morgnar kosta eða eru allavega gulli dýrmætari.

 

 

Eftir allar annirnar er góður morgunverður nauðsynlegur, það var bara annað okkar sem var myndatöku fært. Hinn aðilinn frekar úfinn og ljótur.

 

 

Þessar stelpur létu sig ekki muna um að tríttla í fjárhúsin og taka stöðuna. Bara hressar og kátar unglingsstúlkur Lóa 84 ára og Maddý 79. Já já aldur er að mestu hugarfar.

 

 

Það er dýrmætt að hafa góðan mannskap þegar hátt í 700 eru á fæðingadeildinni. Marie og Mummi að redda málunum í gemlingakrónni.

 

Þarna er hún Marie með mógolsótta gimbur undan Stera og Golsusyninum Loðmundi.

 

 

Golsuflekkótt krútt að pósa með Marie.

 

 

Þarna eru afkvæmi Grámanns, ég var sérlega ánægð að fá þarna móbotnóttan hrút og gráa gimbur. Þessi hafa fengið viðeigandi merki í númerabókinn.

 

 

Grasið sprettur og því ekki seinna vænna en að klára slóðadráttinn. Í gær fóru fullorðnu hrútarnir í sumarfrí, þeir fóru með ,,nesti og nýja skó,, suður á Hafurstaðatún. Óðum styttist í að lambfé fari útá tún og geldfé hefur gist sína síðustu nótt inni þennan veturinn. Sauðburður byrjaði af fullum krafti mun fyrr en ég átti von á eða kannske var ég bara búin að vonast eftir að þær yrðu rólegri. Allar vaktir sem voru skiplagðar af mikilli nákvæmni fóru úr böndunum og svefninn er núna bara munaður.

Það hefur sko verið nóg að gera fyrir alla alltaf. En það er jákvætt að þetta klárast þá bara fyrr og ekki getum við kvartað yfir gróðurleysi það sem af er.

Sennilega hafa aldrei verið bornar jafn margar kindur í Hlíðinni 8 maí.