26.07.2014 23:00
Nokkrar kátar hryssur.
|
||||||
Þessi elska skemmtir okkur oft og mikið verður dagurinn góður eftir reiðtúr á henni. Hún er eiginlega að verða alveg uppáhalds hjá mér og reyndar fleirum. Þarna eru þau Mummi í góðum gír. Gangskör frá Hallkelsstaðahlíð 5. vetra gömul undan Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð og Adam frá Ásmundarstöðum.
|
23.07.2014 23:53
Heyja.... heyja..... hey.....
Kátur frá Hallkelsstaðahlíð. |
Það var ekki mikil rigning í dag................. og það náðist að rúlla nokkrum tugum af rúllum. Já þetta er allt að koma og útlit fyrir að allur heyskapur klárist í rigningunni og þá er það bara sólbað þegar alvöru þurrkurinn kemur. Maður má nú láta sig dreyma í rigningunni. Annars batnar þetta ekkert við vælið, veðrið er gott og ca. 600 rúllur komnar í plast og ekkert hey hrakið. Eftir langan og mikinn rúnnt um suðurlandið er ég alsæl með það græna sem komið er í rúllurnar hjá okkur. Greinilega ekki sjálfgefið á ná því svoleiðis. Já ég hef farið ansi víða í vikunni þó svo að ferðalagið teljist ekki til sumarfrís, og þó. Það er skemmtilegt að hitta hestafólk og stússast í hesta og þá sérstaklega hryssufluttningum. Koma við á bæjum ræða nýafstaðið landsmót og spekulegra í stóðhestum. Þetta er allavega meira gaman en að liggja í sólbaði. Ferðin var farin til að sækja hryssur sem lokið höfðu sínum stenfumótum við stóðhesta og fara með aðrar hryssur. Nú er bara að krossa fingur og vona að allt þetta flandur skili árangri og þær séu með folöldum. Sjö hryssum hefur verið haldið en aðeins ein komin heim með staðfestu fyli. Kolskör mín er komin heim með staðfest fyl undan honum Skýr frá Skálakoti. Ætli það verði ekki rauð hryssa ? Við hér í Hlíðinni erum í óða önn að safna myndum af söluhrossum sem að vonandi birtast hér á næstunni. Gott væri að fá aðeins meiri sól svona í eins og einn dag þá mundi nú eitthvað gerast. Get samt upplýst að það eru nokkur býsna spennandi ;) |
13.07.2014 22:35
Afrekin á knattspyrnuvellinum............
Mynd: Aðalsteinn Maron. |
Þessi litli sjarmur var alveg til í að láta smella af sér mynd í góða veðrinu. Kapteinn litli er að verða nokkuð taminn eftir tíðar heimsóknir okkar til Skútu mömmu hans. En eins og áður hefur margoft komið fram hér á síðunni þarf Skúta mikið eftirlit og er því aldrei höfð langt undan. Sparisjóður hefur nú náð sér að mestu eftir hremmingarnar í vor og bíður þess nú með óþreyju að dömurnar (hryssurnar) hans mæti. Einkaritarinn hans settist við símann í dag og bauð hryssueigendunum að gjöra svo vel. Nú má sem sagt fjörið hefjast hjá kappanum, girðingin klár og allt til reiðu fyrir svallið. Mummi og Astrid smelltu sér á Löngufjörurnar með hressum krökkum sem létu gamminn geisa í blíðunni. Ég tók aðeins bíltúr með hrossin þeirra og fékk að sjálfsögðu endalausa löngun til að verða bara eftir á Stakkhamri. Það er hreinlega alveg ómissandi að fara nokkra fjörutúra á ári. Veðrið var líka þannig að ekkert hefði verið betra en góður fjörusprettur. En allt stendur þetta nú til bóta og ekkert að óttast því dagurinn í gær varð bara einstaklega vel heppnaður þó svo að ég færi ekki á fjörurnar. Dalatúr með fulla kerru af hestum, sveitamarkaður og líflegt heimilishald með ansi mörgum þátttakendum er bara töff. Heyskapurinn fór líka á fullan skrið en bara í gær og dag, það er niðurskurður og ekki hægt að fá nema rúman sólarhring af þerri. Annars er þurrkur sennilega ofmetinn því það rigndi í gær en heyið þornaði samt. Kannske með góðu og illu.....hefst það. Gönguhópar og veiðimenn voru tíðir gestir hér um helgina og á næstunni koma fleiri hestahópar hingað til okkar. Já já það er ekki bara umferð í 101 sko það er líka hér í Hlíðinni skal ég segja ykkur. Þrátt fyrir líflega helgi náði ég einu stórafreki á minn mælikvarða nú undir kvöld. Haldið ekki að húsfreyjan hafi bara horft á heilan (næstum því) fótboltaleik í sjónvarpinu. Það sögðu mér fróðir menn og reyndar þulurinn líka að þetta væri úrslitaleikurinn á HM og auðvita trúi ég því. Mér fannst nú ferkar lítið gerast framan af leiknum fyrir utan smá fæting sem varla er orð á gerandi. Þetta var farið að minna mig á það þegar maður lendir í þeirri stöðu í smalamennsku að standa fyrir og bíða. Alltaf eitthvað alveg að fara að gerast en gerist ekki...... fyrr en enginn á von á því. Og þá kannske tapar maður bara af því eins og kom fyrir mig við seinni slagsmálin. Ég hafði heyrt talað um að Messi væri besti knattspyrnumaður í heimi og treysti því alveg á að hann mundi skora og vinna. Því hélt ég að sjálfsögðu með honum. Var reyndar ekki viss um í hvoru liðinu hann væri en sá að ég gæti komist að því þegar hann mundi skora. Svo kom markið sem ég að sjálfsögðu fagnaði þangað til ég komst að því að sá sem skoraði var als ekki Messi. Ónei þar var á ferðinni ósköp sætt krútt frá Þýskalandi sem var ekki einu sinni í liði með Messanum. Það sem eftir lifði leiks og undir framlengingunni líka einbeitti ég mér að því að ná áttum og þá sér í lagi að jafna mig á því að sennilega kæmist ég ekki að því hvernig Messi liti út. Sko mitt vit á fótbolta nær eingöngu til þess hvort að kapparnir líta vel út eða ekki. Ég legg ekki meira á mig. Þar sem að engir fleiri leikmenn skoruðu varð ég engu nær um nöfn og nánari upplýsingar. Það var ekki fyrr en Angela Melker knúsaði krúttið sem skoraði meira en hina að ég var viss um að þjóðverjar hefðu sennilega unnið. Þegar ég verð stór verð ég kannske fótboltabulla. PS. Hvað er leyfilegt að sýna marga grátandi kalla í sjónvarpinu án þess að setja á rauða merkið ??? |
11.07.2014 23:00
Hvar er þurrkurinn ?
|
Jæja núna má sólin og þurrkurinn alveg fara að koma hingað í Hlíðina. Við höfum náð að rúlla tæplega 300 rúllum í tveimur atlögum með rigninguna á hælunum. Ef að allt gengur eftir þá eigum við eftir að rúlla ca 900 rúllum svo það er eins gott að það fari að rofa. Ég ætla ekkert að ræða málninguna á húsinu, læt eins og það standi ekki til að mála. Ætli húsamálningaþurrkurinn þetta árið sé ekki búinn ? Landsmótið var líka svolítið blautt og á köflum var rokið á full mikilli ferð fyrir minn smekk. Hestakosturinn var hreint frábær og óendanlega gaman að rifja hann upp, spá og spekulegra. Ungu hrossin voru einstaklega góð og eftirmynnileg. Á engan er hallað þó svo að ég nefni Konsert frá Hofi sem aðal aðalgripinn. Ótrúlega góður og fallegur gripur. Mannlífið á Hellu var skemmtilegt reyndar eins og alltaf er á landsmótum. Það er alltaf jafn gaman að hitta vini og kunningja sem tilheyra þessum góða hópi hestamanna. Ekki skemmdi nú fyrir að hitta fjölmargt af því góða og skemmtilega fólii sem starfað hefur hér hjá okkur í Hlíðinni. Margir þeir sem við höfum kynnst í gegnum hestamennskuna og búa erlendis mæta á landsmót. Það urðu því fagnaðafundir þegar nokkrir góðir hópar komu hingað til okkar í Hlíðina. Það er alltaf gaman að fá ykkur hingað í heimsókn, skoða og ræða hesta og hestamennsku. Já það er búið að vera líf og fjör í hesthúsinu svo maður tali nú ekki um fjallaferðir og stóðsmölun. Takk fyrir komuna Per og fjölskylda, Tyra og fjölskylda og þið öll hin sem glödduð okkur með heimsóknum og samveru. Þar sem að allar hryssur eru kastaðar hér á bæ er stóðhestafjörið komið af stað. Suðurlandið var staðurinn í gær en þangað var brunað með þrjár hryssur undir hesta. Þá eru sjö hryssur farnar undir stóðhesta og ólíkt því sem gert var í fyrra þá eru þær allar hjá sitt hverjum hestinum. Já já ég treysti honum Ölni frá Akranesi fyrir fjórum góðum hryssum í fyrra og hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með það, Nánar um stóðhestavalið þetta árið síðar, það var búið að valda næstum andvöku. Vonandi bjóða næstu dagar uppá heyskap, sveitamarkað, hestastúss, góða gesti jafnvel langt að komna. Að ógleymdum veiðimönnum, göngugörpum og ævintýrum af bestu gerð. Það er staðreynd að sólarhringurinn er alltaf að styttast, mánuðir og ár að skreppa saman. |
01.07.2014 00:27
Nýjustu fréttir og myndir af nokkrum uppáhalds.
Álfadís frá Magnússkógum og Mummi að keppa í úrslitum í tölti á Oddanum. Frábær hryssa sem nú er komin undir hann Múla frá Bergi. |
||||||||||
Ég var að renna yfir nýlegar myndir og ákvað að smella inn nokkrum af uppáhalds hestunum sem eru reyndar svolítið margir. Svo það fari ekki á milli mála þá er þetta bara byrjunin, margar fleiri myndir af góðum hestum er væntanlegar á síðuna.
|
28.06.2014 11:23
Folöldin hans Ölnirs
|
||||||||
Þessi flotti hestur fæddist um Jónsmessuna móðir er Rák frá Hallkelsstaðahlíð og faðir Ölnir frá Akranesi. Hún Astrid er eigandi folaldsins sem hlotið hefur nafnið Dani frá Hallkelsstaðahlíð. Það var skemmtilega hugmynd að kalla hann Dani því hvað er betur við hæfi þegar eitthvað rautt og hvítt fæðist í eigu danskfæddrar dömu.
|
19.06.2014 21:31
Gleðin og allt hitt líka.
|
||||||||||||||||||||
Hér á myndinni er hann Hallkell frá Hallkelsstaðahlíð, faðir er Hersir frá Lambanesi og móðir Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð. Þessi garpur er sprækur og búinn að vera á harða hlaupum síðan hann fæddist. Nú er hann farinn með móður sinni í Steinsholt en þar er Kolskör á stefnumóti við hann Skýrr frá Skálakoti. Vonandi gengur það samkvæmt áætlun og ég fæ hryssu næsta vor ;)
|
04.06.2014 09:00
Af refum, kosningum, Spuna og lífinu í Hlíðinni
|
||||||||||||||||||||||||||
Það er bannað að taka morgungöngu innan um lambféð með skipulagða árás í huga. Þessi rebbi fékk svo sannarlega að reyna það og tríttlar nú um í grænu högunum hinumegin. Svona fyrir þá sem hugsanlega eru viðkvæmir fyrir myndum af þessu tagi. Fáið ykkur sæti lokið augunum og hugsið ykkur að launaumslagið ykkar sé fullt en skyndilega kemur refur og byrjar að borða alla fimmþúsundkallana. Já já það eyðist sem af er tekið.
|
26.05.2014 14:09
Enn er það Hólaferð til að sjá flott reiðkennaraefni.
|
||||||||||||||||||||||
Það var full ástæða til að fagna þegar hún Astrid okkar útskrifaðist sem Bs reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Þarna fagnar hún með foreldrunum og Mummanum. Fannar óskaði sérstaklega eftir að fá alveöru prófílmynd. Til gamans má geta þess að Astrid er tíundi ,,Hólaneminn,, okkar. Já við erum búin að vera svo heppin að fá að hafa þessa frábæru krakka hjá okkur. Það er ákveðin reynsla sem bæst hefur í reynslubankann við að sjá krakkana fara í gegnum skólann og upplifa stemminguna. Gleði og sorgir sem fylgja ströngu námi er góður skóli fyrir unga fólkið sem oftast kemur bara sterkara til leiks. Ég er ekki í vafa hvað ég mundi gera ef að ég væri ungur hestaáhugamaður í dag. Hólar væri málið en gott væri að hafa hraustan kropp og reynda sál. Frábært nám, fagmennska og fróðleikur en eins og í öllu sem viðkemur tamningum verður að fara vel með sálartetrið bæði hjá hesti og knapa. Innilega til hamingju Astrid og allir þessir flottu krakkar sem voru að ljúka náminu ykkar.
|
19.05.2014 11:54
Mikið um að vera
|
Þessi tvö Astrid okkar og Fannar frá Hallkelsstaðahlíð stóðu sig vel á föstudaginn þegar þau tóku lokaprófið saman á Hólum. Þarna sjást þau setja lokapunktinn með góðum skeiðspretti. Það verður nú gaman að fá þau heim í næstu viku. Til hamingju með þetta bæði tvö. Sauðburður er enn í fullum gangi þó svo að aðeins hafi hægt á enda mátti það nú alveg. Tæplega 150 kinur eru eftir að bera svo nú fer þetta að fjara út smá saman. Nóttin í nótt var sú kaldasta í langan tíma og ekki laust við að venjulegt sauðburðarveður væri í boði. Við eru orðin svo góðu vön síðustu vikurnar. Ég held samt að ég hafi ekki markað jafn snemma út í jafn mikið gras og þetta vorið. Það var allavega settur sérstakur kraftur í að klára að slóðadraga um helgina og á næstu dögum er það svo áburðurinn á. Sveinbjörn frændi minn og Sigurður í Hraunholtum voru að rifja upp góð vor og komust að því að 1964 hefði verið gott en þó mun blautara en þetta vorið. Ég gat ekki blandað mér í þá umræðu þar sem ég var enn í húfuskotti Guðs eins og sagt var. Fylfullu hryssurnar eru komnar á sinn vanalega köstunarstað sem er hólf við gamla bæinn. Þar er auðvellt að fylgjast með þeim allan sólarhringinn. Karún mín kastar alltaf í fyrra fallinu svo nú eru tíðar heimsóknir til hennar. Hún eins og Skúta, Rák og Létt eiga allar von á afkvæmum undan gæðingnum Ölni frá Akranesi. Kolskör er fylfull eftir Hersi frá Lambanesi sem var einmitt að gera það gott í kynbótasýningu í morgun. Þríhella er með afkvæmi undan Stimpli frá Vatni, Sjaldséð undan Sólon frá Skáney og Blika undan vini mínum Gosa frá Lambastöðum. Bara spennandi tímar framundan á fæðingadeildinni.
|
15.05.2014 12:45
Það er gott að lúlla
|
||
Á þessum árstíma er svefn munaður hjá sauðfjárbændum og eins gott að nýta allar stundir sem gefast. Við frænkurnar Fríða María og ég fengum okkur smá kríu eftir matinn. Annars gengur sauðburðurinn bara vel og óbornar kindur innan við 300. Þurrt er það sem af er degi svo að nú verður markatöngin sett á flug. Fyrstu gemlingarnir fóru á Steinholtstúnið í fyrra kvöld og markið er sett á að koma slatta út í dag. Ein af spari kollunum mínum bara fjórum lömbum í gær og tvílemdu gemlingarnir bera hver af öðrum.
|
14.05.2014 20:25
Júró og sauðburður
|
||||||||||||||||
Kindurnar hafa aldrei byrjað sauðburðinn með þvílíkum krafti og þetta árið. En þegar þetta er skrifað eru lambanúmerin komin hátt á fimmtahundraðið. Það hefur ekki gerst fyrir miðjan maí áður. Við hleytum til rúmlega viku fyrr en venjulega og sennilega hefur myndast ,,múgæsinur,, meðal hópsins. Hverjar verða fyrstar út á græna grasið ??? Það var eins gott að fá góðan mannskap til aðstoðar um síðustu helgi. Þarna eru spekingar að spjalla á jötubandinu Halldór, Hrannar og Sveinbjörn taka stöðuna.
|
12.05.2014 21:38
Trilla Gaums komin heim og uppá búið tamningafólk
|
||||||
Þarna eru þær stöllur Astrid og Trilla Gaums og Skútudóttir, þær hafa verið á Hólum í vetur en nú er Trilla komin heim og Astrid væntanleg eftir tvær vikur. Þjálfunin hefur gengið vel og Trilla er bara bráð efnileg hryssa.
|
08.05.2014 13:31
Stuðið í Hlíðinni.
|
||||||||||||||||
Það er fátt dásamlegra en að sjá sólina koma upp og það í blíðu og hita. Ekki er svo mikið síðra að sjá hana setjast en það er kannske orðið full mikið af því góða ef að maður sér hana aftur koma upp. Sko á sama ,,deginum,, En stuttar ,,kríur,, að hætti sauðfjárbóndans bæta allt upp og virka jafnvel sem dýrasta fegrunaraðgerð. Þennan sólríka morgun áttum við Salómon svarti góðar stundir við leik og störf í fjárhúsunum. Læt liggja á milli hluta hvort var að leika og hver var að starfa, er ekki stundum sagt að vinnan eigi að vera leikur ?
|