01.07.2014 00:27

Nýjustu fréttir og myndir af nokkrum uppáhalds.

 

Álfadís frá Magnússkógum og Mummi að keppa í úrslitum í tölti á Oddanum.

Frábær hryssa sem nú er komin undir hann Múla frá Bergi.

 

Ég var að renna yfir nýlegar myndir og ákvað að smella inn nokkrum af uppáhalds hestunum sem eru reyndar svolítið margir.  Svo það fari ekki á milli mála þá er þetta bara byrjunin, margar fleiri myndir af góðum hestum er væntanlegar á síðuna.

 

Mynd Toni ljósmyndari í Búðardal.

Þetta er hann Óðinn frá Lambastöðum og Mummi í léttri sveiflu.

Stór og myndarlegur foli sem verður skemmtilegri með hverjum deginum.

 

 

 

Höfðinginn og vinur okkar Dregill frá Magnússkógum og Mummi á góðri stundu.

 

 

Þarna eru þær stöllur Astrid og Framtíðarsýn á notalegu tölti, alveg drauma reiðhestur þessi hryssa.

 

 

Og einstaklega mikið uppáhalds þessi elska enda Gustssonur.

Er hreinlega á háum stalli í mínum huga og verður þar.

 

 

Skemmtileg prímadonna hún ,,Korka,,  og með augu sem bræða allt.

Hef bara ekki séð svona falleg augu í nokkrum hesti áður.

 

Annars er það helst í fréttum héðan úr Hlíðinni að við náðum að heyja hátt á annað hundrað rúllur í þessum örþurki sem boðið var uppá. Kláruðum Melana og tókum aðeins hér heima líka.

Ekki hefði nú verið verra að ná að taka nýræktirnar á Steinholtinu líka en maður getur víst ekki beðið um allt.

Nú er verði að keyra heim rúllur eins og enginn sé morgun dagurinn.

Síðustu hryssurnar köstuð í gær, Sjaldséð átti gráa hryssu undan Sólon frá Skáney. Hún hefur hlotið nafnið Útséð frá Hallkelsstðahlíð.

Blika kastaði rauðri hryssu undan Gosa frá Lambastöðum, hún hefur hlotið nafnið Gletta frá Hallkelsstaðahlíð.

 

Síðasta kindin bar á þjóðhátíðardaginn 17 júní og hefur nú farið til fjalla, það var kindin Kúðhyrna.

Kúðhyrna heimtist ekki fyrr 22 janúar s.l en þá kom hún heim í hlað til minna góðu granna á Emmubergi.

Þegar ég sleppti henni út bað ég hana vinsamlegast að kom nú heim á réttum tíma og vera ekki til vandræða.

Ætla rétt svo að vona að hún standi við það.

 

Veiðin í Hlíðarvatni hefur verið góð það sem af er sumri og veiðimennirnir kátir með aflann. Við höfum aðeins veitt í net en þó vantar okkur þennan veiðieldmóð sem að Einar heitinn frændi minn hafið við veiðarnar.

Margir gönguhópar hafa farið hér um og von er á fleirum, flestir eru að ganga svo kallaða Þriggjavatnaleið.