11.07.2014 23:00

Hvar er þurrkurinn ?

 

Jæja núna má sólin og þurrkurinn alveg fara að koma hingað í Hlíðina.

Við höfum náð að rúlla tæplega 300 rúllum í tveimur atlögum með rigninguna á hælunum.

Ef að allt gengur eftir þá eigum við eftir að rúlla ca 900 rúllum svo það er eins gott að það fari að rofa.

Ég ætla ekkert að ræða málninguna á húsinu, læt eins og það standi ekki til að mála.

Ætli húsamálningaþurrkurinn þetta árið sé ekki búinn ?

Landsmótið var líka svolítið blautt og á köflum var rokið á full mikilli ferð fyrir minn smekk.

Hestakosturinn var hreint frábær og óendanlega gaman að rifja hann upp, spá og spekulegra. Ungu hrossin voru einstaklega góð og eftirmynnileg. Á engan er hallað þó svo að ég nefni Konsert frá Hofi sem aðal aðalgripinn. Ótrúlega góður og fallegur gripur.

Mannlífið á Hellu var skemmtilegt reyndar eins og alltaf er á landsmótum. Það er alltaf jafn gaman að hitta vini og kunningja sem tilheyra þessum góða hópi hestamanna. Ekki skemmdi nú fyrir að hitta fjölmargt af því góða og skemmtilega fólii sem starfað hefur hér hjá okkur í Hlíðinni. Margir þeir sem við höfum kynnst í gegnum hestamennskuna og búa erlendis mæta á landsmót. Það urðu því fagnaðafundir þegar nokkrir góðir hópar komu hingað til okkar í Hlíðina. Það er alltaf gaman að fá ykkur hingað í heimsókn, skoða og ræða hesta og hestamennsku.

Já það er búið að vera líf og fjör í hesthúsinu svo maður tali nú ekki um fjallaferðir og stóðsmölun.

Takk fyrir komuna Per og fjölskylda, Tyra og fjölskylda og þið öll hin sem glödduð okkur með heimsóknum og samveru.

Þar sem að allar hryssur eru kastaðar hér á bæ er stóðhestafjörið komið af stað. Suðurlandið var staðurinn í gær en þangað var brunað með þrjár hryssur undir hesta. Þá eru sjö hryssur farnar undir stóðhesta og ólíkt því sem gert var í fyrra þá eru þær allar hjá sitt hverjum hestinum.

Já já ég treysti honum Ölni frá Akranesi fyrir fjórum góðum hryssum í fyrra og hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með það,

Nánar um stóðhestavalið þetta árið síðar, það var búið að valda næstum andvöku.

Vonandi bjóða næstu dagar uppá heyskap, sveitamarkað, hestastúss, góða gesti jafnvel langt að komna. Að ógleymdum veiðimönnum, göngugörpum og ævintýrum af bestu gerð.

Það er staðreynd að sólarhringurinn er alltaf að styttast, mánuðir og ár að skreppa saman.