18.08.2011 23:27

Dagur tvö og fjölgun í fjölskyldunni.



Einn enn Guðdómlegur dagur á Löngufjörum 17 stiga hiti, logn, sól og blíða ekki amalegt það. Sjáið þið færið og ekki á það nú eftir að versna þegar vestar dregur.

Við riðum frá Kolbeinsstöðum að Hömluholti í dag, gekk ferðin bara vel ,,stálum,, engum hesti svo vitað sé og bara allir kátir.
Þeir sem að voru ríðandi í dag Mummi, Skúli, Hrannar, Björg, Astrid, Þorgeir, Ásberg, Sigga, Axel, Bjarki og svo ég. Síðan komu Gísli bóndi í Hömluholti og Hafrún á móti okkur í Kolviðarnes.
Á morgun bætist svo heldur í hópinn svo að þetta verður heljar hersing sem að ríður að Tröðum á morgun.



Farið yfir Haffjarðará, sniðugt að vera á minnsta hrossinu í hópnum.

Þegar ég var á fljúgandi ferð á fjörunum í dag fékk ég skemmtilegt símtal það var frá mömmu sem var að tilkynna að Hrafnhildur systir og Fransisko hefðu eignast dóttir.
Að sjálfsögðu tók ég því þannig að þessi litla dama yrði efnileg hestakona þar sem að fréttirnar bárust til okkar á þessum stað. Nei nei engin óskhyggja ef að þið haldið það :)
Þá er bara að setja sig í stellingar og vera fyrirmyndar móðursystir, svaka virðulegur titill.

18.08.2011 00:05

Hestaferð..........dagur eitt og að auki örfréttir.



Myndgæðin ekki sérstök en stemmingin góð.........................bóndi úr Borgarfirðinum sennilega að reyna að koma á okkur böndum............eða hvað sýnist ykkur???

Jæja þá erum við komin af stað í árlega hestaferð og að sjálfsögðu er ferðinni heitið beint af augum. Við erum komin með ca 7-8 daga skipulag sem að vonandi breytis ekki stórvægilega.
Við fórum af stað um kl 19.00 og riðum niður að Kolbeinsstöðum með rúmlega 60 hross.
Þeir sem að riðu fyrsta áfangann voru Mummi, Skúli, Astrid, Hrannar , Björg, Þorgeir, Ísólfur, Arnar og ég.  Svenni var svo yfir trússarinn á bílnum, svo er líklegt að einhverjir skelli hestum á kerrur og komi og ríði einhverja daga með okkur. Bara gaman að því.
Við ríðum frá Kolbeinsstöðum að Hömluholti á morgun létt og fín dagleið sem að hæfir vel misþjálfuðum hestum og mönnum. Svo á föstudaginn eru það uppáhaldsfjörurnar sem sagt Hömluholt - Traðir. Þetta er jú sumarfrí er það ekki?

Á morgun verður myndavélin með í för svo að þið fáið kannske smá sýnishorn af ferðinni.

Af öðrum fréttum...................Rák er komin heim fylfull við Dyni frá Hvammi, Upplyfting er fylfull við Gosa frá Lambastöðum og Skúta er fylfull við spari Sparisjóði mínum.

Heyskapurinn gekk bara vel loksins þegar að hann byrjaði og ekki hefur oft verið heyjað allt í sama þurrkinum. Heyfengurinn er minni en venjulega þó úr hafi ræst, nákvæmar rúllu tölur liggja ekki fyrir að svo stöddu við lyklaborðið hjá mér.

Ég þarf svo við tækifæri að segja ykkur frá skemmtilegri kvennareið sem héðan var farin um síðustu helgi. Já heill floti af kellum sem að áttu góðan dag með reiðtúr í kringum Hlíðarvatn og grillveislu um kvöldið.

Ein frekar leiðinleg frétt því að hann Keli vinur minn og yfir músabani veiktist og dó um síðustu helgi. Ég veit ekki hvað kom fyrir en hann varð mikið veikur og hafði það ekki af.
Alltaf leiðinlegt að missa skemmtileg dýr af hvaða tegund sem þau eru, vona bara að honum gangi vel á músaveiðum ,,hinumegin,, en hans er sárt saknað.





09.08.2011 21:06

Réttar dagsetningar....já ég meina sko réttar.



Þessi fénaður hefur verið afar vinsæll hjá ungum gestum hér í Hlíðinni og fengið margar heimsóknir í sumar. Þó eru margir sem að vilja fá að hitta Golsu sem að var yfir heimalingur síðasta sumar en hún safnar kröftum og kílónum í fjallinu.

Ég smellti inn þessari mynd svona í tilefni af því að nú eru komnar dagsetningar fyrir réttirnar hjá okkur hér heima í haust. 
 
Smalamennskur, heimaréttir og fjör 16- 18 september og síðan á Skógarströndinni 24-25 september. Nánari útfærslur koma síðar en svona fyrir okkar sérstöku smalavelunnara er þetta gróft skipulag.

Hellingur af rúllum bættust við í dag og nú eru bara túnin sem að við köllum ,,inní hlíð,, eftir óslegin. Spurning hvort að þau tún bíð á meðan rúllusmölun fer fram ?





09.08.2011 00:11

Fallegur dagur



Þessar dömur máttu engan tíma missa við að bíta gras og fylla magnann.
Þarna eru Birta frá Lambastöðum dóttir Blæs frá Hesti og Fenju frá Árbakka, Ragna frá Hallkelsstaðahlíð dóttir Arðs frá Brautarholti og Tryggðar frá Hallkelsstaðahlíð og Ösp frá Lambastöðum dóttir Hreims frá Þúfu og Flugu frá Lambastöðum.

Enn einn skemmtilegi hestahópurinn kom hér í dag núna voru það Hólmarar, Helgfellingar og fylgdarlið. Nú er bara að leggja á með þeim á morgun og fylgja þeim eitthvað áleiðis.

Heyskapurinn gengur vel það sem af er allt komið í plast sem að við heyjum niður í sveit og hér heima klárast hver bletturinn af öðrum. Eigum þó töluvert óslegið en rúllufjöldinn fer samt að nálgast 900.

Hér á skrifborðinu hjá mér er rollubókin að verða ,,borðföst,, ég er að taka skorpur í því að skár vorupplýsingarnar inn en gengur á ýmsu. Forritið Fjárvís er eflaust bara gott en verður seint kallað heppilegt til notkunnar í lélegu netsambandi. Það rífur í mína þolinmæði að skrá upplýsingar um 700 kindur og þurfa að telja uppá minnsta kosti tuttugu á milli atriða.
Kannske verð ég orðin tamnin og stillt eftir þessa miklu æfingu í þolinmæði.

06.08.2011 00:43

Ljótar og fallegar Rebbasögur

Hún er ljót refasagan sem sögð er í Mogganum í dag en þar segir Sigurjón bóndi á Valbjarnarvöllum frá því þegar refur réðst á fullfrískt lamb og stórskaðaði það. Fleiri sögur voru raktar í blaðinu og eru þær allar á einn veg rebbi gerir skaða og óskunda í búfénaði.
Þessar sögur eru ekki ný sannindi fyrir okkur sauðfjárbændur því refum hefur stór fjölgað og verða sífellt grimmari og aðgangsharðari. Já og svo sannalega ekki bara í sumarhúsabyggðum eins og fjölmiðlum er svo tíðrætt um. Slæmar heimtur af fjalli og óútskýrð vanhöld hljóta að gefa til kynna að einhverjir ,,refir,, gangi lausir.
Ég held að tjónið sem refurinn veldur sé miklu meira en flestir gera sér grein fyrir, það á þá ekki bara við sauðfé heldur hefur fuglalíf á ákveðnum svæðum orðið fyrir miklum skaða.
Ekki er von á góðu í þessum málum á meðan hvorki er geta né vilji hjá sveitafélögum og ríki til að framfylgja þessum lögboðnu verkefnum þ.e.a.s eyðingu vargs.
Já þeir eru margir ,,refirnir,, sem herja á sauðfé og bændur um þessar mundir.

En ég ætla að deila með ykkur skemmtilegri Rebbasögu eða réttara sagt myndum.




Þessi Rebbi fékk að nota stofugólfið að eigin vild og var ekki til vandræða enda undir straungu eftirliti úrvals refaskyttu.
Að auki var hann bláeygður og blíðlyndur allavega svona á mynd...........




Rebbi heillaði mig upp úr skónum og kunni greinilega vel að meta gestagang og athygli.
Þarna er hann að undirbúa sýningu fyrir okkur, sjáið hvað hann er einbeittur á svipinn.



Þarna er Rebbi að stíga villtan dans við vatnsslönguna sem var eitt aðal leikfangið hans og sýningartækið.  Ekki vantaði tilþrifin og sjáið þið fótaburðinn sem er í heimsklassa ?
Já þessi Rebbi er flottur og það sem meira er hann lofði að gera ekki ursla og glæpi í sauðfé og fuglum.............allavega ekki hérna megin.

03.08.2011 23:47

Fréttnæmt nú eða ekki........



Kátur frá Hallkelsstaðahlíð fæddur 2009.
Faðir Auður frá Lundum, móðir Karún frá Hallkelsstaðahlíð.

Nú er Karún mín komin heim eftir góða heimsókn á suðurlandið með staðfest fyl undan Spuna frá Vestukoti. Þær hryssur sem að áttu pláss hjá Spuna voru sæddar í Sandhólaferju og síðan sendar heim á meðan beðið var eftir því hvort að þær hefðu haldið. Ég er svo heppin að eiga góða að nærri Sandhólaferju svo að ég þurfti ekki að brenna suður og sækja Karúnu fyrr en staðfest hafði verið að hún væri fylfull.  Jakob yfir sundmeistari í Ásakoti gleymdi hryssuna sem að var svo sannarlega í góðu yfirlæti nánast í garðinum. Takk kærleg Jakob og Arnheiður fyrir geymsluna á drottningunni henni bregður við að hafa ekki einkahólf þegar hún kemur heim.
Ferðina austur notuðum við til að fara með hana Gefn undir stóðhestinn Leikir frá Vakurstöðum. En Astrid okkar var svo heppin að vinna folatoll undir Leikir í happadrætti í vor og nú er bara að sjá hvort að henni verði að ósk sinni og fái hryssu næsta vor.

Í kvöld fékk ég fréttir að Klara vinkona okkar frá Lambastöðum hefði kastað jarpri hryssu undan Stíganda frá Stóra-Hofi. Það verður spennandi að sjá þessa nýju hryssu, til hamingju með gripinn Lambastaðabændur.

Nokkur hross frá okkur fluttu til nýrra heimkynna í vikunni og önnur bíða þess að fljúga til annara landa. Segið svo að það sé ekkert að gerast hér í fjöllunum.
Nánar um það síðar.

Heyskapurinn er kominn á fullt, allt komið í plast á Rauðamel, Melunum og kapparnir að rúlla í Haukatungu þessa stundina. Nú er bara að vona að það haldist þurrt í nokkra daga svo að heyskapurinn gangi fljótt og vel.
Þá er næst að huga að hestaferðinni sem að vonandi verður bæði til gagns og gamans.
Tamningar, smalatrimm, gleði og gaman en ekki síst að uppfylla afmælisgjöfina sem að við gáfum sauðburðarhjúunum okkar í fyrra. Hjúin urðu 80 ára á síðasta ári svo að það er nú alveg tímabært að koma þeim í alvöru hestaferð.
Já hestaferðir eru til margra hluta nytsamlegar.

Á næstunni er mikið framboð af kvennareiðum hér um slóðir spurning hvort það ég ekki bara rétt að ríða á milli þeirra? Reiðin í Dölunum verður á laugardaginn og svo hér þann 13 ágúst. Bara gaman að hittast og fara í smá reiðtúr þó svo að mér huggnist nú alltaf betur að hafa mannskapinn allan í bland.




31.07.2011 18:47

Hundalíf



Þarna eru vinirnir Ófeigur og Freyja tilbúin í leikinn góða ,,bandvitlaus,,
Eins og tryggir blogglesarar taka eftir er Freyja litla glænýr hundur hér í Hlíðinni, ættartala og sagan um hana kemur seinna.



Og þá hefst leikurinn sem á köflum verður strembinn og hættulegur...............



Þó koma ljúfir kaflar þar sem að leikurinn er nokkuð jafn.



,,Ófeigur nú verðum við að mæla rétt svo að þú hafir ekki lengri endann...........og svindlir,,



...........hahaha ég held að ég hafi leikið á Ófeig, sjáið þið ekki að ég er að teyma hann.




........O nú komst hann að því að ég var alveg að vinna.............vá hvað þú ert þungur Ófeigur.



En ég náði völdum aftur............iss sjáið hvað Ófeigur er aumur........smellti honum bak við þúfu og sigraði hann.............eða ekki.



En Ófeigur gefst aldrei upp.............sjáið þið úlfssvipinn á honum ??? Svolítið hættulegur.....



............ég skal ekki tapa fyrir þessum lúða.................ætlið þið ekkert að hjálpa mér ???



Já já alvöru harka að færast í leikinn.............enginn auka spotti leyfður hér.............litla freka Freyja.



Ófeigur við erum samt vinir er það ekki ????

31.07.2011 11:28

Lífleg vika



Augnablik......................

Þetta er dæmigerð mynd fyrir andrúmsloft síðustu viku.
Þarna eru Mummi og ein grá og góð í léttum dansi.

Já það var líflegt hér í vikunni og mikil umferð bæði manna og hesta hér um slóðir.
Nágrannar okkar hjá Hestamiðstöðin Söðulsholti komu hér ríðandi með stóran hóp, Grundfirðingar með sunnlennsku ívafi komu hér við, góðir gestir frá Þýskalandi í verslunarhugleiðingum, hópur af norðurlandinun og margir fleiri. Að ógleymdum hryssueigendum sem komið hafa með hryssur eða sótt hryssur hingað til okkar.
Góðir grannar komu svo ríðandi í gær og fengu smá fylgd úr hlaði að gömlum og góðum sið.
Nokkur tamningahross hafa farið heim og önnur komið í þeirra stað. Það er alltaf gaman að temja og kynnast hrossum undan nýjum stóðhestum sérstaklega er það skemmtilegt þegar við þekkju til hrossanna í gegnum móðurina. Kannske tamið hana eða eitthvað undan henni áður. Í vikunni var að fara heim hryssa undan Markúsi frá Langholtsparti sem var fyrsta Markúsarafkvæmið sem að við höfum tamið hér heima. Mummi var með fola undan honum í tamningaprófinu á öðru árinu á Hólum, það var flottur foli sem gekk mjög vel með.
Hryssan er bráðefnileg sérstaklega er ganglagið frábært, mjúk, hreingengi og flugrúm.
Nú er hryssan farin heim í frí þar sem að hún bætir við líkamlegum vexti og sinnir ,,bóklega,, þætti tamningarinnar.
Fyrsta afkvæmið sem að við temjum undan Aðli frá Nýja-Bæ er skemmtileg hryssa sem lofar góðu. Alltaf svo gaman að spá í ættir og uppruna þeirra hrossa sem hingað koma.

29.07.2011 11:18

Skjónufélagið..........já sæll



Stofnfundur hins háæruverðuga Skjónufélags var haldinn hér í Hlíðinni þann 26 júlí 2011.
Engin stjórn var kjörin, algert þingræði !
Samþykkt að enginn fái inngöngu nema annar falli frá.
Stofngripurinn Zebra Skjóni kynntur og verður hann afhentur þeim félagsmanni sem á hæst dæmda skjótta hross ársins á hverju ári.
Niðurlag fundargerðar ,, neyttum matar og drykkjar í óhófi, hlógum okkur til óbóta,,

Á myndinni getið þið séð hvernig át, drykkja og hlátursköst geta útleikið annars gullfallegt fólk. Á næsta fundi verða myndatökur aðeins leyfðar í upphafi fundar ekki í lok samkvæmis eins og þarna.

Fyrir ykkur sem að þekkið ekki fólkið á myndinni..................

F.v aftari röð, Hulda Guðfinna framkvæmdastjóri okkar hestamanna FHRB. FT. Þristsfélagsins, Skjónufélagsins og verðandi meðlimur ferðafélagsins ,,Beint af augunn,,
.............og dæmir á heimsmeistaramótinu í Austurríki að sjálfsögðu í anda Skjónufélagsins.
Jón Ólafur, Kænumeistarakokkur, hestaíþróttadómari  með meiru og það mikilvægasta sambýliskraftur Erlu Guðnýjar.
Erla Guðný landsþekkt húsmóðir úr Garðabænum, uppáhalds verknámsneminn okkar frá Hólaskóla og aðalfulltrúi okkar Skjónufélagsfélaga í keppnisbrautinni á LM 2011.
Skúli bóndi, yfirskúrari, súpukokkur (Dísu) og nýórðinn skjónueigandi.
Mummi formaður útgerðarfélagsins Skútan ehf og væntanlegur skjónueigandi, er um þessar mundir ,,Skjónufélags starfsmaður í þjálfun,, og temur skjótta hryssu fyrir húsfreyjuna.

F.v neðri röð, Oddrún Ýr sérlegi LH fulltrúinn okkar og  næstum því verknámsneminn okkar, dæmdi í anda Skjónufélagsins á LM 2011.
Næst í röðinni er ,,hlátursútgrátin,, húsfreyjan með stofngripinn Zebra Skjóna.
Þórdís Anna væntanlegur sendiherra Skjónufélagsins í Þýskalandi, FT dugnaðarforkur, LH skvísa og bara uppáhalds Dísan okkar allra í Hlíðinni.
Astrid fyrrverandi Hvanneyrarskvísa, væntanleg Hólaskvísa og mikilvægur tengiliður okkar við konunglegt Danaveldi.



Glæsigripurinn Zebra Skjóni sem án efa verður mjög eftirsóttur á næstu árum.

Þar sem að félaginu hafa borist fjöldinn allur af umsóknum um aðild sem er ekki í boði að svo stöddu skal á það bent að leyfilegt er að stofna aldáendaklúbb..................Skjónufélagsins.
Æskilegt er að klúbburinn hafi fulltrúa frá sem flestum landshlutum.........

Myndasirpa frá fundinum mun birtast hér á síðunni um leið og húsfreyjunni gefst næði til að setja þær inn og eftir að þær hafa verið ritskoðaðar í smásjá félagsins.

 

25.07.2011 22:52

Á morgun er skjóttur dagur



Á morgun verður  stofnfundur Skjónufélagsins haldinn við hátíðlega athöfn hér í Hlíðinni.
Af því tilefni er skjótt myndaþema með blogginu í dag......................þarna er yfirgrillarinn á Fáséð minni.
Já það verður gaman að hitta Skjótta liðið og gera eitthvað skemmtilegt..........kannske verða myndatökur leyfðar..................og myndir birtar síðar.



Þessi er alveg........................Auðséð frá Hallkelsstaðahlíð.

Í dag var brunað með hryssur á heimaslóðir sem að höfðu verið hér í ýmsum erindagjöðum.

Nokkrar voru hér í heimsókn hjá stóðhestum aðrar í tamningu og sumar í hestaferðinni góðu. Nú fer að styttast í sónarskoðun hjá nokkru hryssum sem að hafa farið af bæ undir stóðhesta og nú er bara að bíða með tilheyrandi spenningi eftir útkomunni þar.
Skyldi vera gæðingur á leiðinni undan Dyn frá Hvammi, Ugga frá Bergi, Spuna frá Vestukoti ????  Kemur í ljós.................bara búið að staðfesta fyl í Kolskör undan Arði frá Brautarholti.

 

24.07.2011 23:29

Góður dagur



Þessar dömur voru forvitnar þegar ég hitti þær í fjallinu fyrir stuttu............
Sú jarpa er Randi frá Hallkelsstaðahlíð en hin er Krakaborg frá Hallkelsstaðahlíð.



Krakaborg er undan Þríhellu frá Hallkelsstaðahlíð og Sporði frá Bergi.



Randi er undan Soldán frá Skáney og Snör frá Hallkelsstaðahlíð, hér eru æfingar í gangi sem auka örugglega gangfimi og lipurð.

Í gær riðum við með gestunum okkar frá Stakkhamri að Hömluholti, ferðin gekk vel og fjaran var frábær. Mig er strax farið að hlakka til þegar við förum aftur á fjörurnar innan skamms.
Annars gekk nú á ýmsu áður en við fórum af stað að heiman í gær. Gönguhópur einn af mörgum lagði á fjöllin frá okkur um hádegisbilið. Um miðjan daginn birtist svo lögreglan og sjúkrabíll hér á hlaðinu. Kom þá í ljós að einn af göngugörpunum hafði fengið brjóstverk og þurfti á hjálp að halda. Var því rokið af stað til fjalla á jeppum og fjórhjóli sem að flutti læknir og lögreglu til sjúklingsins. Aðstæður voru þannig að ákveðið var að kalla til þyrlu sem að kom eftir ótrúlega stuttan tíma og lenti á svokölluðum lærri bekk í Rögnumúla.
Var sjúklingurinn fluttur suður og er vonandi á batavegi.

Það var gestkvæmt í Hlíðinni um helgina og ansi líflegt hestar og hryssur komu og fóru.
Hestaferða og gönguhópar fóru hjá og margt fleira skemmtilegt í gangi.

Nú er bara að fara undirbúa Skjónufélagshittinginn sem verður hér á þriðjudaginn.........

23.07.2011 11:23

Fjörurnar og Rómeó - Júlía.



Fjörurnar er alltaf jafn skemmtilegar og ekki er nú verra að fá blíðu af bestu gerð þegar þær eru riðnar. Í gær riðum við frá Tröðum að Stakkhamri með góðum erlendum gestum.
Síðan er stefnan tekin á meiri fjörureið í dag frá Stakkhamri að Hömluholti.
Aðla fjöruferðinn okkar er svo eftir og verður væntanlega farin um miðjan ágúst með rekstri og fjöri. Hver vill þá vera með ???


Nú hefur Mummi tekið ákvörðun um undir hvaða stóðhest Skúta skuli fara þetta árið.
Ég er nú svolítið ánægð með ákvörðunina fyrir hönd þess útvalda sem er Sparisjóðurinn minn. Skúta er uppáhaldið hans Mumma svo að greinilegt er að hann metur Sjóðinn minn mikils. Svo er bara að bíða og sjá hvað út úr þessu kemur.

Rómeó og Júlía.....................nei, nei Skúta og Sparisjóður.......................



Júlía...........Skúta..........



Rómeó...................Sparisjóður...............



...............er alveg að koma.....................



..................og nú eru frekari myndatökur bannaðar.........næsti þáttur í óperunni.

20.07.2011 14:52

Flotta Fleytan ,,flýtur,, á tölti.



Fleyta frá Hallkelsstaðahlíð, móðir Skúta frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Stígandi frá Stóra-Hofi.




Eins gott að hafa skrefin stór svo að mamma fari ekki á undan mér..................



Og drífa sig....................



Já, já svolítið reffileg líka...............



Úff það er heitt.................



Og lyfta svolítið líka.............




Mamma............er þetta ekki að verða gott hjá okkur ?????

19.07.2011 13:26

Hlíðin mín fríða og ýmislegt fleira.



Hlíð frá Hallkelsstaðahlíð fædd árið 2007.
Faðir Glymur frá Innri- Skeljabrekku og móðir Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð.

Það kom rigning hér í gær sem að klárlega er aðal frétt vikunnar enda sama og ekkert rignt í margar vikur. Grasið lifnaði, brúnin léttist á bændunum og meira að segja fiskarnir tóku stökk í vatninu. Svo er bara að vona að einhver meðalvegur sé til í úrkomustjórnun og að það rigni ekki stanslaust fram á haust. Við erum ekkert farin að heyja en óðum fer nú að styttast í það.


Skúta hans Mumma kastaði þann 16 júlí s.l  merfolaldi undan Stíganda frá Stóra- Hofi. Hryssan hefur hlotið nafnið Fleyta og bætist það með í ,,bátaflotann,, hjá kappanum.
Mummi hefur ákveðið undir hvaða stóðhest Skútan á að fara en nánar um það síðar.

Á föstudaginn var brunað vestur á Þingeyri við Dýrafjörð til að dæma gæðingamót hjá Hestamannafélaginu Stormi. Þetta var glæsilegt afmælismót hjá þeim og margir góðir hestar.
Mér eru afar minnistæðir synir Óðs frá Brún sem að voru mjög áberandi á þessu móti flestir aðeins 5 vetra gamlir. Ræktandi þessara fola er Árni bóndi á Laugabóli við Arnarfjörð.
Aðstaðan hjá þeim Stormsmönnum er hreint frábær ný reiðhöll, góður völlur og flottar útreiðaleiðir. Það var mjög gaman að koma á þetta mót og ekki sveik nú blíðan á vestfjörðunum frekar en fyrri daginn þegar ég er þar á ferðinni.
Innilega til hamingju með afmælið Stormarar og takk fyrir góðar móttökur.

Mikil umferð hesta og gönguhópa hefur verið hér um uppá síðkastið og þó nokkuð af veiðimönnum sem að hafa bara verið kátir með aflann. Sjá gestabók hér á síðunni.

Ég er ekki búin að gleyma hvað ég ætlaði að koma inn upplýsingum um mörg söluhross á næstunni og er svo sannarlega að reyna að standa mig.

15.07.2011 09:11

Kátur kátur og góð veiði í Hlíðarvatni í Hnappadal.



Það er blíða í Hlíðinni sem að allir kunna að meta...............nema kannski grasið.



.............hann Kátur er að minnsta kosti kátur og hamdist varla inná mynd hjá mér.

Kátur er tveggja vetra sonur hennar Karúnar frá Hallkelsstaðahlíð og Auðs frá Lundum.

Karún fór þann 13 júlí í Sandhólaferju undir gæðinginn hann Spuna frá Vestukoti svo nú er bara að bíða og vona að úr því verði eitthvað skemmtilegt.

Eins og áður sagði er blíða og tilvalið veður til útilegu, veiðin hér í Hlíðarvatni hefur verið góð og nokkrir stórir og flottir fiskar voru færðir hér á land í vikunni.
Tjaldstæðin eru klár svo að við hlökkum til að sjá ykkur.