04.09.2011 23:06
Snögg hringferð með LM nefndinni.
Þessa dagana erum við í Landsmótsnefndinni svokölluðu að ferðast um landið og kynna skýrsluna sem unnin var s.l vetur. Nefndin var skipuð til að fara yfir málefni landsmóta.
Í nefndinni voru auk mín Haraldur Þórarinsson, Laugardælum, Kristinn Guðnason, Árbæjarhjáleigu, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Kópavogi, Stefán Halraldsson, Húsavík og Birgir Óli, Selfossi. Við vorum fjögur úr nefndinni sem að brunuðum af stað á föstudaginn til þess að mæsta á fyrstu fundina. Ég lagði af stað héðan úr Hlíðinni um hádegið á föstudag og brunaði í bæinn þar sem að við Sveinbjörn hittumst. Síðan var ferðinni heitið austur fyrir fjall að Laugardælum þar sem að Haraldur kom í bílinn til okkar. Þá var að brunað í Árbæjarhjáleigu til að taka formann hrossabænda með okkur en hann var nýkominn heim úr smalamennsku þegar okkur bar að garði. Það á því vel við að fyrsta myndin á blogginu í dag sé af kynbótahrútunum hans. Eftir að hafa drukkið góðan kaffisopa með rjóma og jólaköku var stefnan tekin á Hornafjörð.
Eins og alltaf þegar maður ferðast með fróðum og skemmtilegum ferðafélögum verða sögurnar margar og góðar. Á leiðinni austur rifjaði Haraldur upp þegar nokkrir afreksmenn riðu frá Hornafirði að Selfossi árið 2009 og fóru yfir mörg helstu jökulfljót landsins.
Það fór hrollur um mig þegar hann var að segja frá því þegar þeir riðu yfir ósinn við Jökulsárlón og eins og þessi mynd sýnir þá er nú fátt notalegt við ,,Jökkluna,,
Svona var ósinn þegar við komum niður að staðnum þar sem að Haraldur og félagar riðu út í.
Það þorði enginn nema lögmaðurinn að mynda uppá grjótgarðinum enda er hann ýmsu vanur.
Þar sem að fréttir af óróa í Kötlu höfðu borist okkur til eyrna þá var bara gefið í og brunað beint í Freysnes. Þegar við komum þangað var kominn tími á kvöldmat, ekki var nú þorandi annað en að hafa mannskapinn saddan og sælan svona rétt fyrir fyrsta fund.
Ekki bar á neinum lambakjötsskorti þar og fengum við þessa fínu lambasteik sem að svo sannarlega gladdi hjörtu sauðfjárbændanna í hópnum og hinna líka.
Ekki skemmdi það svo fyrir að desertinn var coktelávexir að hætti ömmu með þeyttum rjóma.
Þær voru ekki amalegar móttökurnar sem að ég fékk í Hornafirðinum og einstaklega gaman að hitta fyrrverandi uppáhalds starfskraft. Hefðum þurft að spjalla miklu meira en vonandi kemur hann fljóttlega í heimsókn svo að við getum spjallað yfir dýrindis kvöldverði sem að sjálfsögðu væri heitt slátur með rófum og uppstúfi. (Sannur einkahúmor)
Fundurinn í Hornafirði var gagnlegur, góður og eins og þið sjáið bara skemmtilegur.
Við gistum svo á Höfn en vorum snemma á fótum morguninn eftir því að næsti fundur var á Egilsstöðum kl 11.00 og þangað er drjúgur akstur.
Þarna erum við á Djúpavogi og eins og þið sjáið þá er það rúmlega tveggja manna verk að taka olíu. Eins gott að Kristinn gat sagt þeim til...............................með kortið.
Það er alltaf gaman að kom að Egilsstöðum, þarna eru Kristinn og Jósef Valgarð að ræða málin.
........................og Haraldur kominn með þeim.
Þarna er hluti fundargesta á Egilsstöðum þau Gunnar, Jónas, Pétur, Marietta, Jósef og Gunnþórunn.
Ágætis fundur með líflegum umræðum en strax að honum loknum var haldið af stað til Akureyrar þar sem að fundur átti að hefjast kl 16.00
Við keyrðum sem leið lá til Akureyrar og um það leiti sem við brunuðum framhjá afleggjaranum að Grímsstöðum á fjöllum tókum við smá æfingu í kínversku............svona til vonar og vara.
Á Akureyri var fundarsókn dræm en umræðurnar góðar og gaman að hitta hestamenn þar, hefði samt verið betra að fá fleiri á fundinn.
Fundinum lauk um kl 18.30 og var þá farið rakleiðis á flugvöllinn til að ná fyrstu ferð í bæinn sem varð reyndar ekki fyrr en kl 20.30
Þetta var skemmtilega ferð góðar og gagnlegar umræður sem að vekja vonandi fólk til umhugsunnar um landsmótsmál. Á næstunni verða svo fleiri kynningarfundir og að lokum verða svo málefni landsmóts tekin fyrir á formannafundi LH í byrjun nóvember.
Það var þreytt og syfjuð kona sem að brunaði úr Reykjavík heim í Hlíðina um miðnættið í gærkveldi, þökk sé Guðna Má á Ruv fyrir að hafa haldið henni vakandi.
01.09.2011 23:10
Vá bara kominn september........
Eins og alvöru íslenskum fjárhundi sæmir er Snotra farin að hugsa um leitir og réttir.
Verða þetta erfiðar leitir með vondum veðrum og basli eða sólríkar sælu stundir í fjallinu?
Spurning hvort að hún ,,ráði,, til sín svarta vini sína af border colleætt til að vaða í verkið?
Kannske ekki svo vitlaust að skoða það mál ?
Margt var afrekað hér í Hlíðinni í dag, bókhald, viðgerðir, girðingavinna, rúllufluttningar og að sjálfsögðu hestastúss og tamningar.
Bláberja atið mikla er hér í fullum gangi etið, sultað, hleypt, niðursoðið og saftað. Já algjör snild að eiga góða ,,berjatínu,, á góðum berjastað.
Og svo er þetta voða..........hollt.............með sykri og rjóma.
Framundan er margt spennandi um helgina....................vona samt að Katla kerlingin fari nú ekki að gjósa.
30.08.2011 23:17
Geiri kallinn.
Fyrir nokkru síðan var ég á ferðinni og smellti þá þessari mynd af honum ,,Geira,, kallinum.
Þetta er konungur fjallanna hér í Hlíðinni Geirhnjúkur sem að gnæfir yfir Hnappadalnum.
Það hafa margir gengið á fjallið í sumar og haft gaman af þó svo að aðeins taki það nú í að röllta upp.
Örlítill skafl er eftir þegar myndin er tekin en hann veður örugglega farinn um leitir.
Myndin er tekin af Heggsstaðamelunum.
Og þegar ég snéri mér við þá var það Gullborgin og Rauðakúlan gægðist aðeins upp fyrir hraunið. Smá tilbreyting frá öllum hestamyndunum.
Það var gestkvæmt í Hlíðinni þennan daginn, góðir gestir að skoða og sumir að sækja hross í tamningu. Við erum líka farin að huga að því að sleppa ungu tryppunum sem að hafa verið í þjálfun síðan í vetur og vor. Kominn tími á haustfrí fyrir þau nóg er þó eftir og enn bætist við á næstunni.
Varahlutir og viðgerðir...................æi nei við skulum ekkert vera að ergja okkur á því strax.
29.08.2011 23:39
Kellurnar í kellureið.
Hún Astrid okkar brunaði norður að Hólum í dag en þar er hún að hefja nám á fyrsta ári hrossabrautar.
Gangi þér allt í haginn Astrid, vonandi verður þetta bæði til gagns og gamans.
Myndin hér fyrir ofan var tekin í kvennareiðinni góðu af þeim stöllum Sirrý á Hjarðarfelli og Astrid.
Ég var fyrir nokkru búin að lofa myndum úr fínu kvennareiðinni sem að við kellurnar fóru í þann 13 ágúst s.l
Þarna brunar hersingin innað Hafurstöðum og eins og glöggir og kunnugir sjá þá er Hlíðarvatn horfið um stundarsakir úr Hafurstaðalandi.
Fyrsta áning var í túninu á Hafurstöðum, það fór bara vel um flesta eins og sjá má.
Svo var riðið suður fyrir Sandfell og niður með Draugagili þar sem að við stoppuðum og kallarnir komu færandi hendi til okkar.
Þarna eru t.d þrír hressir Einar bóndi í Söðulsholti, Halldór og Mummi.
Já, já þetta var bara gaman Einar, Guðný í Dalsmynni og Laufey húsfreyja á Stakkhamri.
Þarna leggur hópurinn af stað úr Draugagilinu og lét ekki á sig fá þó að lognið í Hnappadalnum færi svolítið hratt yfir.
Eins og þið sjáið var þema dagsins ,,RAUÐUR,, sumar klæddust rauðum fötum aðrir voru með rauðan varalit, nokkrir hestar voru venjufremur rauðskjóttir og jafnvel með tjull í stertinum.
Það var svolítið napurt þennan dag og eins gott að vera vel klæddur og helst í rauðu.
Svo var grillað um kvöldið á tjaldstæðunum í Hlíðinni og ég verð nú að segja ykkur það í trúnaði að ekki var hitastigið hátt sem að kellunum var boðið uppá við borðhaldið.
.............en það var samt gaman eins og sjá má.
Skál fyrir flottum kellum og góðum degi.
27.08.2011 22:37
jamm og já.
Andrúmsloftið hefur verið mjög afslappað í hestagirðingunum síðan við komum heim úr hestaferðinni góðu.
Á myndinni eru nokkur sparihross hérna við eldhúsgluggann hjá mér að að undirbúa sig fyrir nóttina. Baltasar, Ríkur, Krapi, Skriða og Proffinn.
Annars var fyrsti vinnudagurinn hjá hestunum eftir hestaferð í dag þ.e.a.s nokkrum af þeim.
Hópur af erlendum gestum kom hér og tók sér reiðtúr í blíðunni, hestarnir vour mjög ánægðir með að þetta var ekki nema tveggja tíma túr og hrósuðu happi að mér datt ekki í hug að taka annan átta daga hring. Já hestar hugsa ég sver það...................................
Á morgun eigum við svo von á góðum gestum sem koma til okkar að líta á hross.
Eftir góða daga í hestaferð var rokið af stað að keyra heim rúllur og til stóð að slá örlítið meira svona til að eiga örugglega nóg fyrir alla í vetur. En það verður að bíða í nokkra daga þar sem að ,,mánudagur,, búsins sagði stopp þ.e.a.s glæsigripurinn Claas Ares 657 sem er í sjálfteknu frí þar til viðeigandi varahlutir berast.
Já þessi elska er nú frekar heilsulaus verð ég að segja...............en heilsa er ekki öllum gefin.
Í gær var brunað með Kát minn suður að Kistufelli þar sem að hann skemmtir sér á meðal ógeltra glæsigripa næstu vikurnar. Hann hefur staðið í ströngu við að ,,skemmta,, hefðar hryssum sem að hafa komið hingað til hans í heimsókn.
Ég fór og skoðaði Léttlind og Blástur í leiðinni en þeir eru líka á Kistufelli hjá Tómasi bónda.
Þeir litu vel út eins og við var að búast feitir og pattaralegir.
Dimma var ekki fengin þegar sónað var frá litla ,,Glottanum,, svo að hún varð bara eftir hjá honum.
Það var líka í gær sem að Geirmundur KS vinur minn var að spila í samkomuhúsinu við Þverárrétt. Gaman hefði nú verið að skella sér á ball en skökum leti og dvínandi skemmtanafíknar sat ég heima þó með hálfum huga í gær en tómri hamingju þegar ég vakanaði í morgun.
25.08.2011 00:45
Dagur átta í hestaferðinni og sá síðasti.
Þá er það áttundi og síðasti dagurinn í hestaferðinni góðu.
Þarna erum við á heimleiðinni frá Bíldhóli og rétt að verða komin í Mjóadalinn.
Blíðan sveik ekki frekar en fyrri daginn og allt samkvæmt áætlun.
Þarna er að verða örstutt heim stóðið brunar niður Mjóadalinn í átt að Oddastöðum.
Já þetta var alveg snildar ferð í alla staði gott veður, gott fólk og góðir hestar og það sem mest er um vert og ekki sjálfsagt, allir komust heilir og glaðir heim bæði menn og hestar.
Síðasti spretturinn heim er alltaf sérstakur en þá fá hestarnir auka ,,hestöfl,, lifna við og leggja sig fram af öllum mætti.
Þeir sem að riðu með í dag voru: Mummi, Skúli, Astrid, Arnar, Haukur, Randi og ég.
Það var hress og kátur hópur sem að settist til borðs hér í kvöld eftir velheppnaðan dag.
Já og vitið þið hvað ? Að sjálfsögðu vorum við að skipuleggja hestaferð í Borgarfjörðinn á næsta ári.
Þessi ferð verður lengi í minnum höfð enda urðu þeir bísna margir sem að komu með stutta spotta eða alla leið.
Þetta var afmælisferð fyrir Hrannar og Björgu sem að verða brátt áttatíu ára .............sko saman lagt, þetta var tamningaferð hjá okkur en síðast en ekki síst sumarfrís og skemmtiferðin okkar.
Takk fyrir samfylgdina, móttökurnar og öll skemmtilegheitin kæru vinir.
Þetta var svo gaman.
23.08.2011 22:28
Dagur sjö í hestaferðinni.
Dagur sjö í hestaferð......................liðið örmagna eða hvað ????
Nei það var nú ekki svoleiðis en bláberin voru ansi freystandi og forreiðarfólkið tók toll á leiðinni. Frábær dagur eins og allir hinir.
Við riðum frá Klungubrekku inn fyrir Litla-Langadal, yfir hjá Vörðufelli að Bíldhóli í dag.
Þarna erum við að leggja af stað upp úr Litla-Langadalnum, snillingurinn Baldursbrá frá Múlakoti kann leiðina betur en nokkur annar og er hér aðeins að laga stefnuna hjá ferðafélögunum.
Landslagið var fjölbreytt og leiðin sem svo oft var farin á árum áður skemmtileg.
Kindurnar voru í eftirlitinu og töldu stóðið sem að rann framhjá.
Þarna er Astrid með Rifu og Tralla Trillubörn í einum fallega áfangastaðnum í dag.
Þeir sem að riðu í dag voru: Mummi, Skúli, Astrid, Þorgeir, Arnar, Sæunn og ég.
Aðeins fækkaði í kvöld þegar að Sæunn og Þorgeir yfirgáfu okkur en nýjustu fregnir herma að við fáum góðan liðsauka á morgun.
22.08.2011 22:37
Dagur sex í hestaferð.
Dagur sex í hestaferðinni var nú með þeim betri verst að það gátu ekki allir verið með þennan daginn. Við riðum frá Skildi Álftafjörðinn að Klungubrekku veðrið gat varla verið betra skýjað, hlýtt og nærri því logn. Ég var búin að ímynda mér að vegurinn væri harður og leiðinlegur en það var nú öðru nær. Ofaníburðurinn er svo leirkenndur að það var mjög gaman að ríða eftir veginum sem að gaf eins konar fjöðrun. Landslagið var stór brotið og stórkostlegt, riðið þar sem hátt var niður í sjó og hamrar fyrir ofan okkur.
Hátt í sjötíu hross voru þæg en nokkuð áframgeng í rekstri.
Svenni yfirtrúss var að sjálfsögðu á staðnum með allt sem að vantar í hestaferð á pallinum.
Þarna er kaffitími í Álftafirðinum Svenni, Sæunn og Arnar að gæða sér á kræsingum.
Já það var líka afmælisveisla í hestaferðinni þennan daginn með vöflum og alskyns bakkelsi.
Þarna er tekið á því í átinu áður en við fórum af stað frá Skildi.
Þeir sem að riðu með í dag voru: Astrid, Þorgeir, Skúli, Mummi, Sæunn afmælisbarn, Arnar og ég. Svo að sjálfsögðu Svenni yfirtrúss á bílnum.
Á morgun verður svo riðið frá Klungubrekku að Bíldhóli.
21.08.2011 22:07
Dagur fimm í hestaferð
Fimmti dagurinn var góður dagur...................þessi mynd gæti heitið áfram veginn.
Þurftum að fara örstuttan sprett á malbikinu til að komast í náttstað.
Við riðum í dag frá Hjarðarfelli þar sem að hestarnir áttu góðan náttstað og að Skildi í Helgafellssveit. Farið var yfir Kerlingaskarð í blíðu og logni, örlítið var búið að ,,rykbinda,, fyrir okkur á leiðinni en við sluppum alveg við rigningu.
Við rifjuðum upp sögnuna af skessunni og heyrðum glænýja sögu af draug sem að er stundum á ferli þarna uppi. Eins gott að ekki var þoka eða myrkur þá hefðu kannske einhverjir orðið smeikir.
Þessar dömur voru búralegar þegar myndavélin var á ferðinni Sæunn bóndi á Steinum og Astrid.
Kerlingaskarðið er skemmtileg leið og gaman að fara hana í friði og ró með góðu fólki og hestum. Þessi hross voru aðeins að laumast af leið.
Þeir voru slakir í dag þessir kappar, hér eru málin rædd og hugsanlega krufin til mergjar.
Mummi og Haukur Skáneyjarbóndi.
Þessi var aftur á móti djúpt hugsi og hefur örugglega verið komin langt með að skipuleggja margar hestaferðir á næstu árum. Eins gott ég fái stundum að fara með........
Þessi tvö kvísluðust á og voru í einhverju leynimakki og Krapinn fékk ekki einu sinna að vita neitt. Hlýtur að vera hernaðarleyndarmál.................en Muggur brosir.
Við fengum einn góðan sveitunga og ferðafélaga frá fyrri árum til að ríða með okkur í dag en það var hann Hjalti Oddsson sem að eitt sinn bjó á Höfða og síðar á Vörðufelli.
Það var gaman að fá Hjalta í hópinn aftur og að sjálfsögðu var leiðsögnin góð.
Takk kærlega fyrir okkur Hjalti.
Í dag riðu þessir með: Mummi, Skúli, Astrid, Björg, Hrannar,Þorgeir, Arnar, Sæunn, Laufey, Anna, Hjalti, Randi, Haukur og ég.
Á morgun ríðum við frá Skildi að Klungubrekku, falleg leið sem að fáir í hópnum hafa riðið.
21.08.2011 00:50
Dagur fjögur
Dagur fjögur var eins og hinir dagarnir í hestaferðinni algjör snild, það er bara ólýsanleg tilfinning að ríða á fjörunum í svona færi og veðri.
Það getur enginn ímyndað sér það nema hafa prófað og þeir sem að eru í hestamennsku og hafa ekki prófað verða að gera eitthvað í því.
Við riðum frá Tröðum í Stakkhamar þar sem að við fengum ríðandi móttökunefnd þegar við vorum að nálgast bæinn. Áðum svo drjúga stund í Stakkhamri spjölluðum við bændur og riðum svo að Hrísdal. Í Hrísdal fengum við góðar mótttökur og eftir skemmtilegt spjall var riðið að Hjarðarfelli þar sem við geymum hestana í nótt.
Ég hef ekki áður riði leiðina frá Stakkhamri í Hjarðarfell en þetta er skemmtileg leið og með því að fá leyfi hjá honum Ástþóri í Dal að ríða yfir túnfótinn í Dal er þetta bara frábært.
Takk fyrir góðar mótttökur og ánægjuleg samskipti ágætu sveitungar bæði í minni sveit og annara.
Ströndin er bara falleg.....................
...................og mjúk undir fæti.
Og þessir sóluðu sig vel áður en að þeir fóru á fjörurnar.
Hjarðafellsfjölskyldan fjölmennti í hópinn í dag þarna eru Gunnar, Sigríður og Kristín.
Björg í símanum..................hefur sennilega stungið Hrannar af enda á Rík mínum sem bara yngist með degi hverjum í ferðinni.
Það var örtröð á ,,Svennabar,, þegar við stoppuðum enda heitt í veðri og sólstrandarstemming.
Að sjálfsögðu er boði uppá gleðidrykki öðru hvoru þessi græni fíni sem að Skáneyjarbóndinn er að þamba nefnist ,,pressaðir framsóknarmenn,,
......................honum fannst þeir (framsóknarmennirnir) súrir.
Villtu í nefið ? ................... ,,Villtu í nefið vinur minn,,
Þeir sem að riðu með í dag Mummu, Skúli, Astrid, Hrannar, Björg, Þorgeir, Ísólfur, Arnar, Ásberg, Axel, Stefán Logi, Randi, Haukur, Sirrý, Gunnar, Harpa, Kristín, Laufey og aðstoðarkona, Guðný Margrét, Borghildur og ég.
Á morgun ríðum við svo frá Hjaraðarfelli og yfir Kerlingarskarð meira um það síðar.
19.08.2011 21:16
Dagur þrjú og nafn á litlu frænku.
Dagur þrjú í hestaferð var snildin ein eins og við var að búast, veðrið, hitinn, fólkið og hestarnir. Dýrðarinnar dásemd í orðsins fyllstu merkingu sjáið bara svipinn á frænda litla.
Við byrjuðum í Hömluholti en þar var þessi mynd tekin af liðinu áður en við fórum af stað.
Þarna er ,,óreglu,, liðið okkar.......nei djók þau eru alvega að hætta, spurning hvort að þau verði hætt á morgun?
Þarna er strollan að lesta sig við Skógarnes.
Vá hvað þetta er alltaf gaman.......................
Stefnan tekin á sjálfan Snæfellsjökul........................eins gott að stóðið stoppi...........
Eitthvað grín í gangi ..............Hrannar nýfertugi og Randi Skáneyarfrú kampakát í Stakkhamarsnesinu.
,, Sólstrandargæi,,........................það er í góðu lagi að vera ssssólstrandargæi...............í hestaferð.
Þarna er hluti af ferðafélögunum að slaka á þegar komið var að Tröðum.
Þeir sem að riðu í dag voru Mummi, Skúli, Astrid, Hrannar, Björg, Þorgeir, Ásberg, Sigga, Axel, Bjarki, Arnar, Randi, Haukur, Steinunn og ég. Síðan fylgdu Gísli og Hafrún okkur frá Hömluholti. Og vitið það hvað sennilega bætist í hópinn á morgun en þá ríðum við fjörurnar til baka og síðan upp að Hjarðarfelli.
Litla frænka mín hefur fengið nöfn og þau ekki af verri endanum daman heitir Fríða María.
Til hamingju með nöfnin flottu kæra frænka.
18.08.2011 23:27
Dagur tvö og fjölgun í fjölskyldunni.
Einn enn Guðdómlegur dagur á Löngufjörum 17 stiga hiti, logn, sól og blíða ekki amalegt það. Sjáið þið færið og ekki á það nú eftir að versna þegar vestar dregur.
Við riðum frá Kolbeinsstöðum að Hömluholti í dag, gekk ferðin bara vel ,,stálum,, engum hesti svo vitað sé og bara allir kátir.
Þeir sem að voru ríðandi í dag Mummi, Skúli, Hrannar, Björg, Astrid, Þorgeir, Ásberg, Sigga, Axel, Bjarki og svo ég. Síðan komu Gísli bóndi í Hömluholti og Hafrún á móti okkur í Kolviðarnes.
Á morgun bætist svo heldur í hópinn svo að þetta verður heljar hersing sem að ríður að Tröðum á morgun.
Farið yfir Haffjarðará, sniðugt að vera á minnsta hrossinu í hópnum.
Þegar ég var á fljúgandi ferð á fjörunum í dag fékk ég skemmtilegt símtal það var frá mömmu sem var að tilkynna að Hrafnhildur systir og Fransisko hefðu eignast dóttir.
Að sjálfsögðu tók ég því þannig að þessi litla dama yrði efnileg hestakona þar sem að fréttirnar bárust til okkar á þessum stað. Nei nei engin óskhyggja ef að þið haldið það :)
Þá er bara að setja sig í stellingar og vera fyrirmyndar móðursystir, svaka virðulegur titill.
18.08.2011 00:05
Hestaferð..........dagur eitt og að auki örfréttir.
Myndgæðin ekki sérstök en stemmingin góð.........................bóndi úr Borgarfirðinum sennilega að reyna að koma á okkur böndum............eða hvað sýnist ykkur???
Jæja þá erum við komin af stað í árlega hestaferð og að sjálfsögðu er ferðinni heitið beint af augum. Við erum komin með ca 7-8 daga skipulag sem að vonandi breytis ekki stórvægilega.
Við fórum af stað um kl 19.00 og riðum niður að Kolbeinsstöðum með rúmlega 60 hross.
Þeir sem að riðu fyrsta áfangann voru Mummi, Skúli, Astrid, Hrannar , Björg, Þorgeir, Ísólfur, Arnar og ég. Svenni var svo yfir trússarinn á bílnum, svo er líklegt að einhverjir skelli hestum á kerrur og komi og ríði einhverja daga með okkur. Bara gaman að því.
Við ríðum frá Kolbeinsstöðum að Hömluholti á morgun létt og fín dagleið sem að hæfir vel misþjálfuðum hestum og mönnum. Svo á föstudaginn eru það uppáhaldsfjörurnar sem sagt Hömluholt - Traðir. Þetta er jú sumarfrí er það ekki?
Á morgun verður myndavélin með í för svo að þið fáið kannske smá sýnishorn af ferðinni.
Af öðrum fréttum...................Rák er komin heim fylfull við Dyni frá Hvammi, Upplyfting er fylfull við Gosa frá Lambastöðum og Skúta er fylfull við spari Sparisjóði mínum.
Heyskapurinn gekk bara vel loksins þegar að hann byrjaði og ekki hefur oft verið heyjað allt í sama þurrkinum. Heyfengurinn er minni en venjulega þó úr hafi ræst, nákvæmar rúllu tölur liggja ekki fyrir að svo stöddu við lyklaborðið hjá mér.
Ég þarf svo við tækifæri að segja ykkur frá skemmtilegri kvennareið sem héðan var farin um síðustu helgi. Já heill floti af kellum sem að áttu góðan dag með reiðtúr í kringum Hlíðarvatn og grillveislu um kvöldið.
Ein frekar leiðinleg frétt því að hann Keli vinur minn og yfir músabani veiktist og dó um síðustu helgi. Ég veit ekki hvað kom fyrir en hann varð mikið veikur og hafði það ekki af.
Alltaf leiðinlegt að missa skemmtileg dýr af hvaða tegund sem þau eru, vona bara að honum gangi vel á músaveiðum ,,hinumegin,, en hans er sárt saknað.
09.08.2011 21:06
Réttar dagsetningar....já ég meina sko réttar.
Þessi fénaður hefur verið afar vinsæll hjá ungum gestum hér í Hlíðinni og fengið margar heimsóknir í sumar. Þó eru margir sem að vilja fá að hitta Golsu sem að var yfir heimalingur síðasta sumar en hún safnar kröftum og kílónum í fjallinu.
Ég smellti inn þessari mynd svona í tilefni af því að nú eru komnar dagsetningar fyrir réttirnar hjá okkur hér heima í haust.
Smalamennskur, heimaréttir og fjör 16- 18 september og síðan á Skógarströndinni 24-25 september. Nánari útfærslur koma síðar en svona fyrir okkar sérstöku smalavelunnara er þetta gróft skipulag.
Hellingur af rúllum bættust við í dag og nú eru bara túnin sem að við köllum ,,inní hlíð,, eftir óslegin. Spurning hvort að þau tún bíð á meðan rúllusmölun fer fram ?
09.08.2011 00:11
Fallegur dagur
Þessar dömur máttu engan tíma missa við að bíta gras og fylla magnann.
Þarna eru Birta frá Lambastöðum dóttir Blæs frá Hesti og Fenju frá Árbakka, Ragna frá Hallkelsstaðahlíð dóttir Arðs frá Brautarholti og Tryggðar frá Hallkelsstaðahlíð og Ösp frá Lambastöðum dóttir Hreims frá Þúfu og Flugu frá Lambastöðum.
Enn einn skemmtilegi hestahópurinn kom hér í dag núna voru það Hólmarar, Helgfellingar og fylgdarlið. Nú er bara að leggja á með þeim á morgun og fylgja þeim eitthvað áleiðis.
Heyskapurinn gengur vel það sem af er allt komið í plast sem að við heyjum niður í sveit og hér heima klárast hver bletturinn af öðrum. Eigum þó töluvert óslegið en rúllufjöldinn fer samt að nálgast 900.
Hér á skrifborðinu hjá mér er rollubókin að verða ,,borðföst,, ég er að taka skorpur í því að skár vorupplýsingarnar inn en gengur á ýmsu. Forritið Fjárvís er eflaust bara gott en verður seint kallað heppilegt til notkunnar í lélegu netsambandi. Það rífur í mína þolinmæði að skrá upplýsingar um 700 kindur og þurfa að telja uppá minnsta kosti tuttugu á milli atriða.
Kannske verð ég orðin tamnin og stillt eftir þessa miklu æfingu í þolinmæði.