Flokkur: Daglegt líf í Hallkelsstaðahlíð

09.08.2011 21:06

Réttar dagsetningar....já ég meina sko réttar.



Þessi fénaður hefur verið afar vinsæll hjá ungum gestum hér í Hlíðinni og fengið margar heimsóknir í sumar. Þó eru margir sem að vilja fá að hitta Golsu sem að var yfir heimalingur síðasta sumar en hún safnar kröftum og kílónum í fjallinu.

Ég smellti inn þessari mynd svona í tilefni af því að nú eru komnar dagsetningar fyrir réttirnar hjá okkur hér heima í haust. 
 
Smalamennskur, heimaréttir og fjör 16- 18 september og síðan á Skógarströndinni 24-25 september. Nánari útfærslur koma síðar en svona fyrir okkar sérstöku smalavelunnara er þetta gróft skipulag.

Hellingur af rúllum bættust við í dag og nú eru bara túnin sem að við köllum ,,inní hlíð,, eftir óslegin. Spurning hvort að þau tún bíð á meðan rúllusmölun fer fram ?





09.08.2011 00:11

Fallegur dagur



Þessar dömur máttu engan tíma missa við að bíta gras og fylla magnann.
Þarna eru Birta frá Lambastöðum dóttir Blæs frá Hesti og Fenju frá Árbakka, Ragna frá Hallkelsstaðahlíð dóttir Arðs frá Brautarholti og Tryggðar frá Hallkelsstaðahlíð og Ösp frá Lambastöðum dóttir Hreims frá Þúfu og Flugu frá Lambastöðum.

Enn einn skemmtilegi hestahópurinn kom hér í dag núna voru það Hólmarar, Helgfellingar og fylgdarlið. Nú er bara að leggja á með þeim á morgun og fylgja þeim eitthvað áleiðis.

Heyskapurinn gengur vel það sem af er allt komið í plast sem að við heyjum niður í sveit og hér heima klárast hver bletturinn af öðrum. Eigum þó töluvert óslegið en rúllufjöldinn fer samt að nálgast 900.

Hér á skrifborðinu hjá mér er rollubókin að verða ,,borðföst,, ég er að taka skorpur í því að skár vorupplýsingarnar inn en gengur á ýmsu. Forritið Fjárvís er eflaust bara gott en verður seint kallað heppilegt til notkunnar í lélegu netsambandi. Það rífur í mína þolinmæði að skrá upplýsingar um 700 kindur og þurfa að telja uppá minnsta kosti tuttugu á milli atriða.
Kannske verð ég orðin tamnin og stillt eftir þessa miklu æfingu í þolinmæði.

06.08.2011 00:43

Ljótar og fallegar Rebbasögur

Hún er ljót refasagan sem sögð er í Mogganum í dag en þar segir Sigurjón bóndi á Valbjarnarvöllum frá því þegar refur réðst á fullfrískt lamb og stórskaðaði það. Fleiri sögur voru raktar í blaðinu og eru þær allar á einn veg rebbi gerir skaða og óskunda í búfénaði.
Þessar sögur eru ekki ný sannindi fyrir okkur sauðfjárbændur því refum hefur stór fjölgað og verða sífellt grimmari og aðgangsharðari. Já og svo sannalega ekki bara í sumarhúsabyggðum eins og fjölmiðlum er svo tíðrætt um. Slæmar heimtur af fjalli og óútskýrð vanhöld hljóta að gefa til kynna að einhverjir ,,refir,, gangi lausir.
Ég held að tjónið sem refurinn veldur sé miklu meira en flestir gera sér grein fyrir, það á þá ekki bara við sauðfé heldur hefur fuglalíf á ákveðnum svæðum orðið fyrir miklum skaða.
Ekki er von á góðu í þessum málum á meðan hvorki er geta né vilji hjá sveitafélögum og ríki til að framfylgja þessum lögboðnu verkefnum þ.e.a.s eyðingu vargs.
Já þeir eru margir ,,refirnir,, sem herja á sauðfé og bændur um þessar mundir.

En ég ætla að deila með ykkur skemmtilegri Rebbasögu eða réttara sagt myndum.




Þessi Rebbi fékk að nota stofugólfið að eigin vild og var ekki til vandræða enda undir straungu eftirliti úrvals refaskyttu.
Að auki var hann bláeygður og blíðlyndur allavega svona á mynd...........




Rebbi heillaði mig upp úr skónum og kunni greinilega vel að meta gestagang og athygli.
Þarna er hann að undirbúa sýningu fyrir okkur, sjáið hvað hann er einbeittur á svipinn.



Þarna er Rebbi að stíga villtan dans við vatnsslönguna sem var eitt aðal leikfangið hans og sýningartækið.  Ekki vantaði tilþrifin og sjáið þið fótaburðinn sem er í heimsklassa ?
Já þessi Rebbi er flottur og það sem meira er hann lofði að gera ekki ursla og glæpi í sauðfé og fuglum.............allavega ekki hérna megin.

03.08.2011 23:47

Fréttnæmt nú eða ekki........



Kátur frá Hallkelsstaðahlíð fæddur 2009.
Faðir Auður frá Lundum, móðir Karún frá Hallkelsstaðahlíð.

Nú er Karún mín komin heim eftir góða heimsókn á suðurlandið með staðfest fyl undan Spuna frá Vestukoti. Þær hryssur sem að áttu pláss hjá Spuna voru sæddar í Sandhólaferju og síðan sendar heim á meðan beðið var eftir því hvort að þær hefðu haldið. Ég er svo heppin að eiga góða að nærri Sandhólaferju svo að ég þurfti ekki að brenna suður og sækja Karúnu fyrr en staðfest hafði verið að hún væri fylfull.  Jakob yfir sundmeistari í Ásakoti gleymdi hryssuna sem að var svo sannarlega í góðu yfirlæti nánast í garðinum. Takk kærleg Jakob og Arnheiður fyrir geymsluna á drottningunni henni bregður við að hafa ekki einkahólf þegar hún kemur heim.
Ferðina austur notuðum við til að fara með hana Gefn undir stóðhestinn Leikir frá Vakurstöðum. En Astrid okkar var svo heppin að vinna folatoll undir Leikir í happadrætti í vor og nú er bara að sjá hvort að henni verði að ósk sinni og fái hryssu næsta vor.

Í kvöld fékk ég fréttir að Klara vinkona okkar frá Lambastöðum hefði kastað jarpri hryssu undan Stíganda frá Stóra-Hofi. Það verður spennandi að sjá þessa nýju hryssu, til hamingju með gripinn Lambastaðabændur.

Nokkur hross frá okkur fluttu til nýrra heimkynna í vikunni og önnur bíða þess að fljúga til annara landa. Segið svo að það sé ekkert að gerast hér í fjöllunum.
Nánar um það síðar.

Heyskapurinn er kominn á fullt, allt komið í plast á Rauðamel, Melunum og kapparnir að rúlla í Haukatungu þessa stundina. Nú er bara að vona að það haldist þurrt í nokkra daga svo að heyskapurinn gangi fljótt og vel.
Þá er næst að huga að hestaferðinni sem að vonandi verður bæði til gagns og gamans.
Tamningar, smalatrimm, gleði og gaman en ekki síst að uppfylla afmælisgjöfina sem að við gáfum sauðburðarhjúunum okkar í fyrra. Hjúin urðu 80 ára á síðasta ári svo að það er nú alveg tímabært að koma þeim í alvöru hestaferð.
Já hestaferðir eru til margra hluta nytsamlegar.

Á næstunni er mikið framboð af kvennareiðum hér um slóðir spurning hvort það ég ekki bara rétt að ríða á milli þeirra? Reiðin í Dölunum verður á laugardaginn og svo hér þann 13 ágúst. Bara gaman að hittast og fara í smá reiðtúr þó svo að mér huggnist nú alltaf betur að hafa mannskapinn allan í bland.




29.07.2011 11:18

Skjónufélagið..........já sæll



Stofnfundur hins háæruverðuga Skjónufélags var haldinn hér í Hlíðinni þann 26 júlí 2011.
Engin stjórn var kjörin, algert þingræði !
Samþykkt að enginn fái inngöngu nema annar falli frá.
Stofngripurinn Zebra Skjóni kynntur og verður hann afhentur þeim félagsmanni sem á hæst dæmda skjótta hross ársins á hverju ári.
Niðurlag fundargerðar ,, neyttum matar og drykkjar í óhófi, hlógum okkur til óbóta,,

Á myndinni getið þið séð hvernig át, drykkja og hlátursköst geta útleikið annars gullfallegt fólk. Á næsta fundi verða myndatökur aðeins leyfðar í upphafi fundar ekki í lok samkvæmis eins og þarna.

Fyrir ykkur sem að þekkið ekki fólkið á myndinni..................

F.v aftari röð, Hulda Guðfinna framkvæmdastjóri okkar hestamanna FHRB. FT. Þristsfélagsins, Skjónufélagsins og verðandi meðlimur ferðafélagsins ,,Beint af augunn,,
.............og dæmir á heimsmeistaramótinu í Austurríki að sjálfsögðu í anda Skjónufélagsins.
Jón Ólafur, Kænumeistarakokkur, hestaíþróttadómari  með meiru og það mikilvægasta sambýliskraftur Erlu Guðnýjar.
Erla Guðný landsþekkt húsmóðir úr Garðabænum, uppáhalds verknámsneminn okkar frá Hólaskóla og aðalfulltrúi okkar Skjónufélagsfélaga í keppnisbrautinni á LM 2011.
Skúli bóndi, yfirskúrari, súpukokkur (Dísu) og nýórðinn skjónueigandi.
Mummi formaður útgerðarfélagsins Skútan ehf og væntanlegur skjónueigandi, er um þessar mundir ,,Skjónufélags starfsmaður í þjálfun,, og temur skjótta hryssu fyrir húsfreyjuna.

F.v neðri röð, Oddrún Ýr sérlegi LH fulltrúinn okkar og  næstum því verknámsneminn okkar, dæmdi í anda Skjónufélagsins á LM 2011.
Næst í röðinni er ,,hlátursútgrátin,, húsfreyjan með stofngripinn Zebra Skjóna.
Þórdís Anna væntanlegur sendiherra Skjónufélagsins í Þýskalandi, FT dugnaðarforkur, LH skvísa og bara uppáhalds Dísan okkar allra í Hlíðinni.
Astrid fyrrverandi Hvanneyrarskvísa, væntanleg Hólaskvísa og mikilvægur tengiliður okkar við konunglegt Danaveldi.



Glæsigripurinn Zebra Skjóni sem án efa verður mjög eftirsóttur á næstu árum.

Þar sem að félaginu hafa borist fjöldinn allur af umsóknum um aðild sem er ekki í boði að svo stöddu skal á það bent að leyfilegt er að stofna aldáendaklúbb..................Skjónufélagsins.
Æskilegt er að klúbburinn hafi fulltrúa frá sem flestum landshlutum.........

Myndasirpa frá fundinum mun birtast hér á síðunni um leið og húsfreyjunni gefst næði til að setja þær inn og eftir að þær hafa verið ritskoðaðar í smásjá félagsins.

 

09.07.2011 23:30

Dagurinn í dag.



Þarna er Stoltur frá Hallkelsstaðahlíð sonur Tignar minnar frá Meðalfelli og Alvars frá Brautarholti.
Hann er bleikálóttur eins og bróðir hans Fannar Gustsson og munaði mjóu að nafnið Fannar junior festist við hann.
Stoltur er fyrirmyndar fyrirsæta og leggur sig fram um að líta vel út á mynd.
Þann 5 júlí s.l fór hann með mömmu sinni til hans Ugga frá Bergi sem að er í girðingu hjá Jóa og Elku bændum á  Borg í Þykkvabæ.
Í þeirri sömu ferð sóttum við Kolskör að Minni-Völlum en hún hafði þá sónast með 21 dags gömlu fyli undan Arði frá Brautarholti. Þá var nú kella kát skal ég segja ykkur ,,léttstíg,, og brosandi.

Þann 4 júlí fór Létt með hann Léttstíg son sinn til Frakks frá Langholti sem að nú er í Fellsöxl. Frakkur heillaði mig mikið á landsmótinu og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu ferðalagi.

Það er mikið riðið út þessa dagana enda 3-4 að ríða út alla daga og þrátt fyrir blíðuna eru bændur hér í Hlíðinni farnir að þrá rigningu svo að einhver spretta verði hér í sumar.
En þangað til er tamið og þjálfað af miklum móð og nokkur söluhross að komast í gott form.
Húsfreyjan sólbrann svo á landsmóti að það hálfa væri nóg og með þessum sólríku dögum að undanförnu er hún farin að minna svolítið á mógolsótta kind þegar litið er í spegil.

Hópar koma og fara og það gera líka tamningahrossin, sem sagt líf og fjör í Hlíðinni.
Hópur af hrossum frá okkur eru nú í ferðum hjá góðum grönnum sem að ferja gesti úr svíaríki milli staða.

Í dag var svo stóðið rekið heim og góðir gestir og hesteigendur mættu til að líta á sína gripi.
Alltaf gaman að fá góða gesti í hesthúsið svo að maður tali nú ekki um í stóðsmölun.
Takk fyrir daginn hann var góður og skemmtilegur.




20.06.2011 22:18

Smá innskot..........



Á myndinni er hryssa undan Þríhellu frá Hallkelsstaðahlíð og Sporði frá Bergi sem að fæddist á sunnudaginn.

Rák er farin með Fjarka litla í girðingu til hans Dyns frá Hvammi, við vorum einmitt að sækja hana útí girðingu þegar að þessi litfagra dama var fædd.

Það eru þó nokkrar annir hjá stóðhestunum hér á bæ um þessar mundir, Kátur litli sonur Auðs frá Lundum og Karúnar er að reyna sig í ,,ræktunnarstarfinu,, og gengur bara bærilega.
Gosi hefur líka fengið heimsóknir og Sparisjóður á alltaf annríkt í þessum störfum.
Gamli Hlynur frá Lambastöðum er svo á leið í girðinguna sína og eins og hinir mun hann taka nýjum dömum fagnandi.
Þeir sem að hafa áhuga á að nota þessa kappa hafa bara samband við okkur hér í Hlíðinni.

Í dag var bara þolanlegt veður sem að er afar fréttnæmt þessa dagana sólskin og alveg stætt utandyra. Við rákum úr túninu og erum að manna okkur uppí að fara verja túnið eins og í venjulegu árferði. Kindurnar eru hinsvegar ekkert spenntar fyrir því að fara lengra til fjalla og beita öllum brögðum til að sleppa. Ekki eru þó allar kindur jafn heimakærar því að nokkrar flekkóttar eru mættar hingað í túnið og skarta appelsínugulum merkjum sem gefur til kynna að þetta séu vorboðar úr suðri.
Óvenju snemma á ferð og virka svolítið villtar blessaðar.
Hver veit nema þessar elskur hafi lesið Bændablaðið og misskilið eitthvað..................

18.06.2011 21:49

Randi Soldáns og Randi Holaker.



Þetta er Randi Soldánsdóttir frá Hallkelsstaðahlíð sem hér lætur sig dreyma um blíðu og gras í litlausum úthaga. Randi litla er undan Snör frá Hallkelsstaðahlíð og Soldán frá Skáney.

Þegar Sveinbjörn frændi minn átti stórafmæli í fyrra komu þau Randi og Haukur í Skáney færandi hendi og gáfu honum toll undir Soldán sinn Aðalsson. Var farið með Snör til hans og þegar hryssan kastaði jarpri hryssu var Sveinbjörn ekki í vafa hvað hún ætti að heita.
Þannig að nú eru ,,Randiarnar,, tvær Soldáns og Holaker.

Í dag var brunað í Búðardal þar sem opið gæðingamót Hestamannafélagsins Glaðs fór fram í hávaða roki. Mikil þátttaka var á mótinu og magir góðir hestar og knapar öttu kappi.
Ljómandi gott mót það sem af er og vel að því staðið sérstaklega var gaman að fá í hendurnar flotta mótsskrá með hagnýtum upplýsingum. Mættu fleiri hestamannafélög taka dalamenn til fyrirmyndar í þessum málum, dalamenn stór sprik til ykkar frá mér.
Mummi fór með Dregil frá Magnússkógum og komst í úrslit í tölti og A flokki gæðinga.
Annars voru það hjónaleysin í Skáney sem að skoruðu best í dag og mæta því með hóp í úrslit á morgun. Bara spennandi keppni framundan á morgun.

Nú er að vellta vöngum yfir því hvaða hryssa á að fara undir Dyn frá Hvammi á morgun........

16.06.2011 22:18

Skjóttur........................



Glænýr hestur sem fæddist í dag undan Sporði frá Bergi og Létt frá Hallkelsstaðahlíð.

Nú eru fimm hryssur kastaðar Létt í dag, Dimma kastaði 12 júní og átti rauða hryssu undan Hlyni frá Lambastöðum og síðan eru það hinar sem að ég var búin að segja ykkur frá.
Ekki hefur allt farið að óskum hjá hryssunum en Kolskör mín lét fyli undan Arði frá Brautarholti um daginn. Sorglegt að tapa afkæmi en svona er þetta stundum.
Bót í máli er að Kolskör er komin til höfðingjans aftur og nú gengur vonandi allt að óskum.
Arður hefur heldur betur verið að gera það gott að undanförnu og er nú efstur stóðhesta með 1 verðlaun fyrir afkvæmi á LM 2011. Hann hefur skotist fram úr mörgun stórstjörnum sem að fengu mikla athyggli ungir og mættu mun fyrr í dóm en Arður sem að var slasaður og kom ekki fram fyrr en 7 vetra. En sem betur fer trúðu margir á hann og þar á meðal ég sem að hef verið dyggur aðdáandi frá því ég sá hann fyrst.
Svo höfum við líka haldið undir tvo bræður hans Aldur og Alvar.

Ég fór norður á Vindheimamela á mánudaginn að dæma landsmótsúrtöku þriggja hestamannafélaga í Skagafirði. Mörg góð hross öttu þar kappi og stóðu dómar frá því kl 10 um morguninn fram til kl 21. Sem sagt algjört dómamaraþon og mjög gaman.

Það er ekki hægt að setjast niður og skrifa öðruvísi en að nefna aðeins veðrið, já ég veit þetta er ekki skemmtilegt efni en hvenær kemur eiginlega sumarið þetta vorið????

Á morgun er 17 júní og þá vill maður nú hafa þokkalegt veður..............svona eins og í fyrra.



Í dag rákum við kindurnar út af túninu en fram að þessu höfum við bara látið fara smá hópa út í einu. Það er skemmst frá því að segja að þær vildu bara alls ekki fara og lái þeim hver sem vill. Í ljós komu tveir nýir heimalingar svo að nú eru þeir sex og eiga örugglega eftir að verða fleiri. Rúmlega tuttugu kindur er ennþá inni og er það sennilega met á 17 júní en vafasamt met. Sex kindur eru eftir að bera, ég er farin að halda að þær ætli að bíða alveg þangað til sumarið kemur í alvöru.

Mér sýnist að við þurfum ekkert að hugsa um heyskap á næstunni svo það verður bara riðið út af fullum krafti í ,,blíðunni,, enda veitir ekki af nóg er á listanum.

07.06.2011 18:46

Karún mín köstuð og smá væl með............



Karún frá Hallkelsstaðahlíð með son sinn og Alvars frá Brautarholti.

Já hún er svolítið sniðug sú gamla þegar hún á jarpa hesta þá flýtir hún á sér og kastar öllum að óvörum uppí fjalli.  Eða það mætti allavga halda það, kannske er hún búin að frétta að flestir hrossaræktendur vilja fá hryssur og verður því hálf feimin kellingin.
En þessum kappa var vel fagnað og boðinn velkominn í þennan kalda harða heim.
Nafnavalið er erfitt og enn ekki komið nafn í loftið sem að samþykki hefur hlotið hjá eigandanum.
Mummi kallar hann Lífeyrissjóð og finnst það í rökréttu framhaldi af nafni bróður hans sem heitir Sparisjóður.

Í gær var byrjað að bera á og hefur það ekki verið gert svona seint í mörg ár allt útaf hundleiðinlegu tíðarfari. Það eru öll vorverk gerð í kuldagalla og eins og þið sjáið á myndinni þá er úthagi grár og gugginn.
Og til að kóróna skemmtilegheitin í veðrinu verð ég að segja ykkur að ég var að marka út lambfé áðan í hörku haggli og sliddu sem að allt í einu var boðið uppá með sólinni.
Ég rígheld í bullandi jákvæðni og held því fram að það sem ekki drepur það herðir.
Verð þó að deila með ykkur að ég stórefast um að heyskapurinn trufli landsmótsfara, að flagið spretti úr sér, að lömbin verði stór í haust og að kartöflurnar verði í matinn um verslunarmannahelgi.

04.06.2011 00:14

Örfréttir.

Kuldi og hundleiðinlegt veður..................æi nei við skulum ekkert vera að ergja okkur á því, heldur hlakka til blíðunnar sem að kemur bráðum og verður lengi.

Sauðburðurinn alveg að verða búinn aðeins 16 kindur eftir og allir gemlingar búnir en vafasamt met var slegið hér þann 1 júní þegar hátt í tvöhundruð kindur voru inni ennþá.
Sprettan hefur gengið afar hægt og er úthagi ljótur svo að það var með blóðbragð í munni sem að við settum ca 70 kindur með lömbum uppí fjall í gær.

Ekki hafa fleiri hryssur kastað og varla von á fleiri folöldum fyrr en í júní en þá bætist vel í hópinn.
Tamningahross koma og fara en í gær bættist einn þriggja vetra kappi í hópinn sem kom til að eyða sumrinu hér í fjallinu. Gullfallegur brúnsokkóttur sonur Þrists frá Feti sem stoppar aðeins við í hesthúsinu til að læra guðsótta og góða siði svo að honum verði vel af fjallaloftinu.
Nú fara hestaleiguhestarnir að koma heim úr fjallinu taka smá þjálfunnarprógram og hefja síðan störf fljóttlega. Eins bætast við hestar sem koma í sölu og framhaldsþjálfun.

Veiðitímabilið hefur farið hægt af stað enda veðrið ekki verið eins og veiðimenn óska sér.
En um helgina lítur út fyrir að nokkrir veiðimenn muni freista gæfunnar og mæta á vatnsbakkann. Vonandi get ég sagt ykkur aflatölum eftir helgina.

27.05.2011 01:52

Vorið er komið...........vonandi.



Þarna sjáið þið hann Fjarka Þristson með mömmu sinni Rák frá Hallkelsstaðahlíð.

Já vorið er sennilega komið allavega eru komin tvö folöld, hestur undan Þristi frá Feti og Rák frá Hallkelsstaðahlíð. Óskin var að fá jarpskjótta hryssu undan Þristi en raunin var brúnn hestur. Ég er samt harla ánægð með gripinn og tel að gæðin verði bara ennþá meiri fyrst að ekkert púður fór í litinn. Held bara aftur undir Þristinn og kanna hvort að ég fái ekki skjótta hryssu sem að t.d gæti heitið Hulda.
Snör átti jarpa hryssu sem hlotið hefur nafnið Randi frá Hallkelsstaðahlíð en Sveinbjörn frændi minn fékk þennan fína toll undir Soldán frá Skáney í afmælisgjöf í fyrra og er nú einni glæsihryssu ríkari.

Ekki kasta fleiri hryssur alveg á næstunni en það styttist samt í fleiri folöld.

Sauðburðurinn er langt kominn en óvenju margt fé er ennþá inni miðað við dagatalið.
Veðrið hefur verið einstaklega leiðinlegt og þó svo að maður geti ekki vælt þar sem að við sluppum við öskfall er þetta tíðarfar hundfúllt.
Við höfum fengið góða aðstoð frá fjölmörgum í sauðburðinum og eflaust margir farið örþreyttir heim eftir ,,helgarfrí,, í sveitinni.



Ekki hefur allt aðstoðarfólkið verið hátt í loftinu.........................



Og Botnuflekka er mjög ofarlega á vinsældarlistanum.................enda gullfalleg og litfríð.

Pálína mín sem að brá sér af bæ til að bæta forustustofninn er heldur betur að standa sig og bara móflekkóttum hrúti og svartflekkóttri gimur í fyrradag.
Þarf að mynda gripina við fyrsta tækifæri.

Eins og þið hafið séð hefur ekki verið mikill tími til að sitja við ,,bloggskrif,, en nú verður farið í það verkefni að standa sig betur við það.

21.05.2011 12:43

Enginn heimsendir



Glæsilegar mæðgur þær Sylvía Sigurbjörnsdóttir og Fríða Hildur Steinarsdóttir.

Í gær var brunað norður að Hólum til að vera við útskrift hjá flottu Hólakrökkunum.
Sylvía hélt uppteknum hætti og sópaði til sín öllum verðlaunum sem í boði voru fyrir nemendur á þriðja ári. Sannarlega flottur fagmaður á ferð sem að sló einkunnamet við skólann og hefur alla burði til að slá fleiri góð og mikilvæg met í framtíðinni.
Ekki gekk þó allt eins og helst var á kosið og þrátt fyrir góðan dag skyggði það á að Fannar og Gosi eru báðir úr leik í bili sökum meiðsla. Það gerir það að verkum að Mummi fer ekki í lokapróf fyrr en síðar í sumar.
Það er alltaf hátíðleg stund að mæta þarna norður og klæða nýútskrifaða reiðkennara í FT jakkana.
Innilega til hamingju með áfangann ég veit að þið verðið sjálfum ykkur til mikils sóma í framtíðinni og það er fyrir mestu.

Síðustu vikur hafa verði stembnar í meira lagi þar sem að veðrið er í illum ham og lítið sem ekkert hægt að setja út af lambfé. Enda er ástandið þannig í húsunum núna að hvert sem að litið er má sjá lambfé.
Sauðburðurinn hefur gengið þokkalega en þónokkuð er ennþá eftir að bera.
Við höfum fengið góðan liðstyrk við sauðburðinn sem heldur betur munar um.
Ég hef enn ekki gefið mér tíma til að fara með myndavélina en það kemur að því.

Að lokum ekki hefur bólað neitt á heimsendi hér en við búum nú á mörkum hins byggilega heims svo að það kemur kannske að því......................

09.05.2011 10:02

Vorið góða



Hniðja litla Tignar og Sparisjóðsdóttir skoðar heiminn með Geirhnjúkinn í baksýn.

Nú fer spennan að aukast og biðin eftir  folöldunum að styttast, tvær hryssur eru komnar í eftirlitshólfið góða. Það eru hryssurnar Rák frá Hallkelsstaðahlíð sem er fylfull við Þristi frá Feti og Snör frá Hallkelsstaðahlíð sem er fylfull við Soldáni frá Skáney. Þeim til halds og trausts verður svo hún Tign mín frá Meðafelli sem nú er fylfull við Alvari frá Brautarholti.

Sauðburðurinn er kominn vel af stað og u.þ.b helmingur af þeim kindum sem að sæddar voru eru bornar. Vonandi eiga fleiri eftir að bætast við. Það var mjög skrítið að fyrstu 12 kindurnar sem að báru úr sæðingunum voru kollóttar en hlutfall þeirra á móti hyrndum er ca. 20 %.  Ég varð himinlifandi í gær þegar fæddust tveir hrútar undan Kveik frá Hesti en Sindri minn sem að ekki kom af fjalli í fyrra var einmitt undan honum. Verða þessir tveir skoðaðir með betri gleraugunum í haust með von um jákvæða umsögn Lárusar ráðanauts.
Að sjálfsögðu hafa þessir gripir fengið nöfn sem að eru Svarti-Sindri og Sindri 2.

Eldri hrútarnir og geldar kindur voru settar út í gær, gemlingarnir bíða samt enn eftir fleiri og lengri grænum stráum.
Rúllan er skammt undan svo að ekki væsir um sparikindurnar og geldféð.

Biðin ótrúlega eftir lambamerkjunum heldur áfram og virðist ætla að vera nærri því árviss viðburður. Nýfæddu lömbin eru því farin að minna óþægilega á ,,kvikmyndastjörnur,, úr Dalalífi, rauð, blá og Guð veit hvað.
Eins gott að úr rætist hið fyrsta svo að húsfreyjan glati ekki síðustu glórunni.

Fulgalífið er í algjörum blóma hér við gluggann minn lóan kvakar og stelkurinn flytur Salómon svarta baráttusöng með þakklæti fyrir vel unnin næturstörf alveg heim að húsi.
Tjaldurinn, spóinn og endurnar sem að ég reyndar elska ekki mikið (þær fljúga uppúr skurðunum og fæla hrossin) eru öll mætt á svæðið en krían er ekki komin svo vitað sé.
Ég heyrði fyrst í hrossagauknum þetta vorið í suðaustri, er það ekki nokkuð gott ?
Er það ekki sælu og auðnugaukur ? Eða er ég eitthvað að ruggla ?



08.05.2011 08:47

Noregur heitur og kaldur.



Já það var gott veðrið í Grimstad laugardaginn 30 apríl þegar ég var þar að dæma.



Á mótinu voru margir góðir hestar þarna eru t.d Hárekur frá Vindási og Stikill frá Skrúð.



Um kvöldið var mér svo boðið í heimsóknir m.a á flottan veitingastað þar sem að gestirnir geta notið veðurblíðunnar og rennt fyrir fisk í leiðinni.
Mér fannst þetta nokkuð góð hugmynd sem að við gætum kannske nýtt okkur en sjarminn dofnaði svolítið þegar mér varð hugsað til þess hversu fáir svona dagar væru í boði.



En þær voru margar góðu hugmyndirnar í Noregi..............ég get örugglega sett upp hundabar þó ekki væri annað.



Ó já það getur nú líka orðið svalt við dómstörfin þó í Noregi sé..........en þessi kunni sko á það.



Þessi mynd er tekin snemma á sunnudaginn áður en að seinni blíðan ,,skall,, á hér í Grimstad.
Dómararnir Jenne og Birgitta með góðum ritara.

Smelli svo inn fleiri myndum í albúmin þegar nettengingin er bertri.