09.07.2011 23:30

Dagurinn í dag.Þarna er Stoltur frá Hallkelsstaðahlíð sonur Tignar minnar frá Meðalfelli og Alvars frá Brautarholti.
Hann er bleikálóttur eins og bróðir hans Fannar Gustsson og munaði mjóu að nafnið Fannar junior festist við hann.
Stoltur er fyrirmyndar fyrirsæta og leggur sig fram um að líta vel út á mynd.
Þann 5 júlí s.l fór hann með mömmu sinni til hans Ugga frá Bergi sem að er í girðingu hjá Jóa og Elku bændum á  Borg í Þykkvabæ.
Í þeirri sömu ferð sóttum við Kolskör að Minni-Völlum en hún hafði þá sónast með 21 dags gömlu fyli undan Arði frá Brautarholti. Þá var nú kella kát skal ég segja ykkur ,,léttstíg,, og brosandi.

Þann 4 júlí fór Létt með hann Léttstíg son sinn til Frakks frá Langholti sem að nú er í Fellsöxl. Frakkur heillaði mig mikið á landsmótinu og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu ferðalagi.

Það er mikið riðið út þessa dagana enda 3-4 að ríða út alla daga og þrátt fyrir blíðuna eru bændur hér í Hlíðinni farnir að þrá rigningu svo að einhver spretta verði hér í sumar.
En þangað til er tamið og þjálfað af miklum móð og nokkur söluhross að komast í gott form.
Húsfreyjan sólbrann svo á landsmóti að það hálfa væri nóg og með þessum sólríku dögum að undanförnu er hún farin að minna svolítið á mógolsótta kind þegar litið er í spegil.

Hópar koma og fara og það gera líka tamningahrossin, sem sagt líf og fjör í Hlíðinni.
Hópur af hrossum frá okkur eru nú í ferðum hjá góðum grönnum sem að ferja gesti úr svíaríki milli staða.

Í dag var svo stóðið rekið heim og góðir gestir og hesteigendur mættu til að líta á sína gripi.
Alltaf gaman að fá góða gesti í hesthúsið svo að maður tali nú ekki um í stóðsmölun.
Takk fyrir daginn hann var góður og skemmtilegur.