Flokkur: Daglegt líf í Hallkelsstaðahlíð
04.11.2010 22:49
Glotthildur flutt og margt fleira.
Ungfrú Glotthildur Glottadóttir......................
Gleðifrétt úr Hlíðinni, nú hefur hún Glotthildur eignast nýjan eiganda og er flutt til Svíþjóðar.
Þó svo að það geti verið erfitt að kveðja góða gripi þá er gaman að geta komið sér upp góðum fulltrúum á erlendri grundu.
Ég efast ekki um að Glotthildur á eftir að verða sér og sínum til sóma í framtíðinni.
Til hamingju með Glotthildi Helen.
Nú er veturinn kominn hingað í Hlíðina og kom að sjálfsögðu á óvart eins og alltaf. Einhvern veginn er það alltaf svo að fleira er á dagskrá en hefst af eða er það bara svoleiðis hjá mér ?
Það er alltaf góð tilfinning hér á bæ þegar búið er að ganga frá kjöti og allt sláturstúss er að baki. Í gær var rekinn enda hnúturinn á það þetta árið og að sjálfsögðu komu okkar góðu hjálparhellur við sögu eins og síðustu árin. Takk fyrir hjálpina telpur.
Já það er frábært þegar þetta er frá og nú á bara hangikjötið eftir að fara í reyk en það ,,slakar,, nú á í pæklinum.
Næst á dagskrá er svo að fara að taka inn og klippa fé, lömb og hrútar eru komin inn.
Þessa dagana standa yfir róttækar rannsóknir á heimtum og eru niðurstöðurnar ekki góðar.
En kannske er þetta bara það sem að við sauðfjárbændur verðum að venja okkur við í framtíðinni ? Allavega hefur ekki verið smalað meira og betur hér um slóðir í langan tíma.
Og ekki getur talist líklegt að tófur verði veiddar á næstunni svona miðað við fréttirnar í gær.
Annars er áhugi á lambakjöti mjög mikill um þessar mundir og þá ekki bara hjá okkur, ESB og tófunni.
Lagannaverðir hafa jafnvel meiri áhuga á hvernig lambakjöti reiðir af eftir bílveltur en fólkinu sem ferðaðist með það.
Fyrsta spurning þegar einn mætti á staðinn......... er ,,það,, stimplað???? síðan hvernig hafið þið það ? ...........
Það er gott að við í þessum sveitum eigum ekki svona löggur.
Gamalt og gott.
Jæja hvaða bær í Kolbeinsstaðahreppi er þetta ???
Á næstunni ætla ég að setja hér inn gamlar og skemmtilegar myndir sem hafa verið skannaðar. Myndirnar eru af mannlífi í Hnappadal langt aftur á síðustu öld en sumar nýrri og ótrúlega fyndnar fyrir þá sem til þekkja.
02.11.2010 14:30
Tryggðarannáll
Á þessari mynd er Tryggð með son sinn Andra sem fæddur árið 2010.
Fréttir eru ekki alltaf skemmtilegar því miður en það er einmitt svoleiðis frétt sem að ég ætla að deila með ykkur núna.
Síðasta laugardag snögg veiktist hryssan mín hún Tryggð og þrátt fyrir að fljótt hafi verið brugðist við og allt gert til að bjarga henni tókst það ekki. Tryggð var önnur hryssan sem að fárveikist svona hjá okkur í haust en hryssan Bráðlát sem veiktist fyrst hresstist og hefur nú náð góðri heilsu. Ég verð að játa að hér á heimilinu er að verða mikið stress í gangi þar sem að eftirlitið hefur verið mjög gott og allt gert til að fyrirbyggja hrakfarir.
En svona er bara veruleikinn í dag góðir hesteigendur eins gott að halda vöku sinni.
Það var skrítin tilviljun að þegar ég kom heim frá reglubundnu eftirliti í folaldshryssuhópinn sl. föstudag var það í fyrsta sinn í langan tíma sem mér fannst allt vera í besta lagi.
Þessi skemmtilega mynd var tekin í vor þegar hryssurnar voru reknar heim og snyrtar.
Hrefna Rós frænka mín að fá lánaða mjúka lokka hjá Tryggð sem tók því með jafnaðargeði sem að var hennar helsta einkenni.
Hér eru ,,tryggir,, vinir og mæðgin Tryggð með son sinn og Hágangs frá Narfastöðum Trygg.
Fáséð frá Hallkelsstaðahlíð er dóttir Tryggðar og Baugs frá Víðinesi hún kom inn fyrir stuttu og er nú byrjuð í tamningu.
Tryggð var fædd árið 1994 undan Tign minni frá Meðafelli og Kjarval frá Sauðárkróki.
Afkvæmi Tryggðar eru: Vetur sonur Hlyns frá Lambastöðum, Flakkari sonur Nasa frá Lambastöðum, Ragna dóttir Arðs frá Brautarholti, Viðja dóttir Faxa frá Hóli, Fáséð dóttir Baugs frá Víðinesi, Tryggur sonur Hágangs frá Narfastöðum og Andri sonur Hlyns frá Lambastöðum sem sagt albróðir Veturs.
Já mörg er búmanns raunin en svona er lífið og við verðum að taka því.
27.10.2010 22:40
Karlremba í kvennafríi............
Á þessari mynd eru Rjóð og Góðlátur að ,,knúsast,, ætli Rjóð sé með permanet ????
Ég átti alveg eftir að segja ykkur frá kvennafríinu mínu það heppnaðist aldeilis vel.
Klukkan 14.25 á mánudaginn var ég í miklu ati sko í vinnunni, því var augljóst að mitt kvennafrí hefði gífurlegar afleiðingar. Það var því ekkert annað í stöðunni en að láta á verkfallsmáttinn reyna og taka þátt til að styðja góðan málstað okkar stelpnanna.
Ég horfði á klukkuna verða 14.24 og á ,,slaginu,, 14.25 lokaði ég augunum snéri mér í hring og var með þessari aðgerð ,,farin,, úr vinnunni.
Ég hélt áfram atinu en nú algjörlega í fríum og frjálsum tíma, eina sem breyttist var að nú var ég í ham já jafnréttisham.
Það eru nefninlega ekki allir sem að eiga þess kost að sameina áhugamálið sitt og vinnuna en það geri ég og tel það þvílík forréttindi og dekur. Það breytir samt ekki því að ég stend heilshugar með konum í þessari baráttu og verð bara öskureið þegar launamisréttið ber á góma. Hitt er svo annað mál að í sumum tilfellum eru konur að fara fram á forréttindi og rugla því saman við jafnréttisbaráttu. Það er á gráu svæði.
Á sunnudagskvöldið horfði ég á þátt um Vigdísi forseta þar sem meðal annars var rætt við karlana sem buðu sig fram til forseta á sama tíma og hún. Ég segi ykkur það í trúnaði mér varð illt, þvílík helv.... karlremba.
En Vigdís var flott og stóðst einhvern veginn alveg tímans tönn algjörlega öfugt við karlana.
Annars er ég komin útá hálan ís að skrifa um jafnréttismál það er nefninlega þannig að ég er smá karlremba en reyni að fara vel með það.
Ég vil elda og baka helst án afskipta..............
Mér finnst aftur á móti bara gott mál að karlarnir skúri og gangi í öll helstu heimilisverk jafnvel þó það búi kona á heimilinu.
En ég vil alltaf hafa kall við hendina þegar t.d skipta þarf um dekk og svoleiðis.
Þetta hefur ekkert með forréttindi að gera ef að þið haldið það.............þeir eru bara miklu betri í þessu og á þá ekki að leyfa þeim að njóta sín þessum elskum ??????
24.10.2010 20:30
LH þing, spennandi vika, fortamningar en ekki kvennafrí.
Það er alltaf gaman að hitta hestamenn víðsvegar af landinu spjalla til gagns og gamans og að auki skemmta sér saman. Boðið var uppá sýningu í nýju reiðhöllinni og þingslitafagnað á Oddvitanum, þar var veislustjórinn Reynir Hjartarson f.v Brávallabóndi. Hann brást ekki frekar en fyrri daginn og lét mann allt að því gráta úr hlátri. Svo skemmtilegt þegar að veislustjórarnir eru ekki ,,staðlaðir,, og fyrirséðir heldur hagmæltir húmoristar af Guðsnáð.
Það er gaman að segja frá því að ég held að sauðfjárræktaráhugi hestamanna sé í sögulegum hæðum. Þetta kom meðal annars fram í því að þeir sem buðu sig fram til setu í stjórn samtakanna tíunduðu fjáreign sína og jafnvel fjárhundakost og töldu með því að þeir ættu greiðari leið til metorða. Og viti menn í flestum tilfellum báru sauðfjár og fjárhundaeigendur sigur úr bítum. Reyndar var fjöldi bústofns misjafn en þetta segir okkur að hestamenn vilja sjá ,,bændur,, af ýmsum gerðum í forsvari fyrir samtökin.
Í dag var svo brunað heim í yndislegu veðri, fyrst var það jólasnjórinn á Akureyri, svo sólin í Skagafirðinum, strekkingurinn í Hrútafirðinum og Svooooo blíðan í Hlíðinni. Hahaha.
Takk fyrir samveruna kæra hestafólk.
Það er stundum slæmt að geta ekki verið á tveimur stöðum í einu, ég hefði svo viljað vera í Búðardal um helgina. Þar var boðið uppá sviðaveislu, rúningskeppni, Hvanndalsbræður, Geirmund og margt fleira.
En ég sendi fulltrúa með myndavél og mun því setja inn myndir við fyrsta tækifæri.
Nú fer í hönd spennandi vika eins og reyndar allar vikur hjá mér þar sem tekin verða inn fleiri tryppi, skoðaðir stóðhestar, seldir og keyptir hrútar, tekið á móti gestum og margt fleira.
Síðan er Mumminn að skipuleggja fortamningarnámskeið sem að verður á næstunni svo að endilega sendið honum póst ef að þið hafið áhuga. [email protected]
Kvennafrídagurinn...............það er efni í nýtt blogg af minni hálfu.
20.10.2010 21:24
Ekkert væl...............
Þarna er stóðið að njóta október blíðunnar suður á Eyrum við Djúpadalsá, þannig að þessi mynd heitir ,, Stóðið á Eyrunum,, hljómar samt svolítið tvírætt.
Í dag fóru á þriðja hundað lömb í sitt hinsta ferðalag norður í Skagafjörð, afgangurinn fer svo í næstu viku. Stanslausar eftirleitir hafa verið hér síðustu daga og alltaf fækkar þeim kindum sem vantar af fjalli en samt ekki nóg.
Þessi grákollótti gripur heitir Hallkell frá Hallkelsstaðahlíð.
Í dag flutti hann til nýrra eiganda sinna þar sem honum er ætlað stórt hlutverk á sviði kynbóta. Eins gott að hann verði sér og sýnum til sóma í framtíðinni.
Lambhrútarnir eru komnir inn og endanlegt val fer fram í næstu viku.
Fyrsti kaldi dagur haustsins var í dag eða það fannst mér en kannske var það bara of lítill svefn og snjórinn í fjöllunum sem að framkölluðu þessa tilfinningu?
Þá er það bara upp með föðurlandið og lopapeysuna og ekkert væl.
19.10.2010 00:31
Fyrirmyndarbændur.
Það hafðist ýmislegt af um síðustu helgi hér í Hlíðinni, auðvitað með hjálp góðra vina og ættingja. Við erum búin að smala og smala og smala meira síðustu daga, árangurinn hefur verið þokkalegur en betur má ef duga skal.
Nýjar tölur munu liggja fyrir næsta kvöld en þá fer fram allt að því endanlegt val á líflömbum. Bara fjör og rekið inn upp úr miðjum degi.
Já það var harðsnúið lið sem að mætti til okkar um helgina, sumir voru liðtækir í sláturgerð en aðrir í smalamennsku.
Það er alltaf svo góð tilfinning þegar slátrið er búið og komið í frystikistuna.
Því miður gafst ekki tími til að mæta á hrútasýninguna á laugardaginn svo að ég verð bara að halda áfram að skoða mína. Annars er ég í miklum hrútakaupahugleiðingum sem að ég segi ykkur betur frá síðar.
Já ef að þið haldið að hestakaup séu bara skemmtileg þá eigið þið mikið ólært.........
Ekki er nú alltaf upplífgandi að hlusta á fréttirnar í útvarpinu en ég heyrði þó eina afar ánægjulega í dag. Sveitungar mínir bændur í Tröð eru annað árið í röð með afurðahæðsta kúabú landsins. Til hamingju með það Steini og Rannveig.
Enginn hestur var hreyfður í dag svo að ég tilnefni bara fyrirmyndar bændur dagsins í staðinn, að sjálfsögðu Traðarbændur.
15.10.2010 22:14
Fleiri lömb................
Þessi mynd er tekin þegar verið var að flytja fé heim úr annari Vörðufellsrétt í tveggja hæða rollustrætónum okkar. Já hún er heldur betur notuð hestakerran.
Ég er nú alltaf að reyna að vera jákvæð til þess að þið gefist ekki uppá að lesa fréttirnar mínar. Nóg er nú af leiðinlegum fréttum um basl og erfiðleika í þjófélaginu þó ekki sé verið að bæta á það.
En verð samt að hvísla því að ykkur að ég er hundfúl yfir heimtunum á sauðfé hér á bæ.
Þegar þetta er skrifað vantar okkur um 100 lömb af fjalli sem er mun meira en venjulega, sömu sögu er að segja af bæjum hér í kring.
En helgin verður notuð til að smala og fara í eftirleitir til að reyna að koma þessu í betra horf, en við eigum að farga næst á miðvikudaginn.
Hugsið ykkur bara hvað ég verð jákvæð og jafnvel skemmtileg þegar nýjar tölur berast og óheimtu fé fækkar. Svo að við tölum nú ekki um þegar og ef að Sindri Kveiksson skilar sér.
Um helgina stendur líka til að búa til slátur, verða það við mæðgur með ,,meiru,, sem að ráðumst í það. Spurning um að taka heimildamyndir? eða ekki.............
Í dag hafðist loksins af að taka upp allar kartöflur í Hlíðinni, þokkaleg uppskera og að mestu ófallið kál. Já það er gott að búa í fjöllunum.
Bara svo að það sé á hreinu....................það er ekki bannað að skrifa í gestabókina.
13.10.2010 23:48
Svona var 10.10.10 og fundavikan mikla.
Svona var nú dagurinn 10.10.10 hér í Hlíðinni, ekki sem verst.
Sunnudagurinn fór í réttarstúss og fjárfluttninga eins og svo margir dagar að undanförnu.
Helsta sauðfjártengda áhyggjuefni húsfreyjunnar um þessar mundir er það að uppáhalds kynbótagripurinn Sindri Kveiksson er enn ekki kominn í leitirnar. Á sunnudaginn komu þeir garpar Mókollur Mókollsson og Dimmir Dökkvason heim og voru vonir bundnar við að Sindri væri í þeirra félagsskap en svo var ekki.
Nú er bara að vona að Sindri hafi ekki farið sér að voða og skili sér heim hið fyrsta.
Á mánudaginn var svo brunað í bæinn til að mæta á fund í Landsmótsnefnd LH sem hefur fundað nokkuð stíft að undanförnu þar sem að nú styttis í landsþing en þá á nefndin að hafa lokið störfum.
Um kvöldið var svo fundur hjá stjórn Félags tamningamanna þar er ýmislegt á döfinni og upplagt að fylgjast með á www.tamningamenn.is
Á þriðjudaginn var það svo fundur í Fagráði í hrossarækt en þar voru mörg mál á dagskrá m.a val á Ræktunarbúi ársins.
Fundargerðir fagráðs getið þið lesið á www.bondi.is undir hrossarækt - fagráð.
Í dag miðvikudag var svo fundur vegna undirbúnings Menntaráðstefnu sem haldin verður á Hólum næsta sumar.
Já óhætt að segja að þetta hafi verið fundavikan mikla og mikið er nú langt síðan ég hef stoppað svona lengi í höfuðborginni.
Á næstu dögum ?.................já það er sko ýmislegt sem að liggur fyrir hér í Hlíðinni.
08.10.2010 22:23
Bleikir.
Það var bleikur dagur í dag og margir klæddust bleiku til að leggja góðu málefni lið.
Ég gleymdi mér og tók ekki þátt svo að ég verð að sýna lit og reyna að klóra í bakkann.
Í tilefni dagsins eru sem sagt tveir bleikir hestar á bloggmyndinni minni, annar reyndar bleikálóttur og svo einn grá til að lífga uppá.
Mitt framlag til bleikaátaksins með von um að mér fyrirgefist gleymskan.
Mér liggur við að segja ,,að sjálfsögðu var sumarblíða hér í dag,, en það er kannske hroki ?
En það var allavega gott veður eins og oft hefur gerst á síðustu misserum.
Dagurinn fór meðal annars í það að stækka girðinguna hjá folaldshryssunum sem að nú eyða haustinu hér heima. Þær voru ánægðar með hlunnindin en finnst það held ég svolítið skrítið að fá ekki að vera í fjallinu á þessum árstíma.
Framundan eru frekari smalamennskur með margskonar hrossaívafi og fjöri.
Speki dagsins verður því engin þar sem við erum sífellt að koma af fjöllum.
07.10.2010 21:52
Hollenskur gestur og smá speki.
Þessi dama á myndinni hér að ofan heitir Fáséð frá Hallkelsstaðahlíð, hún er fædd árið 2007 og því komin heim og til stendur að byrja að temja hana á næstunni.
Í þessum árgangi eru hross undan Baugi frá Víðinesi, Glym frá Skeljabrekku, Krafti frá Bringu, Glotta frá Sveinatungu, Óð frá Brún, Gosa og Hlyn frá Lambastöðum.
Bara spennandi.
Veðrið í dag var yndislegt og sérlega skemmtilegt að ríða út og njóta lífsins.
Já ekki amalegt að vera að temja og þjálfa á þessum árstíma í svona blíðu og hita.
Fjögur heiðurs tryppi fóru til síns heima í dag og taka sér frí eftir strangt nám á síðustu vikum.
Fyrirmyndarhestur dagsins ????? Ó jú það eru þessir fyrirmyndar nemendur sem að fóru heim í dag.
Við hér í Hlíðinni fengum óvænta og skemmtilega heimsókn í morgun þegar að Hollensk kona kom hér fótgangandi af fjöllum ofan. Hún hafði lagt upp úr Hörðudalnum á sunnudaginn og ætlaði sér að ganga hér um svæðið fram á næsta laugardag.
Þessi gönguferð var sem sé farin að hennar sögn til að hreinsa sál og líkama og njóta um leið kyrrðar og náttúru fjallanna. Enginn sími, engin klukka bara hún sjálf með tjald og svefnpoka.
Konan sagði mér að hér í fjöllunum væri hreint loft, tært vatn og góðir straumar sem að virkuðu eins og heilnæmustu lækningameðferðir. Hér væri paradís.
Þegar hún var farin röllti ég út hnykklaði vöðvana og andaði djúpt............það er draumur að vera í paradís. Skrítið að maður þurfi alltaf einhvern langt að kominn til að rifja það upp.
Sumt fólk er alltaf að segja speki en aðrir segja aldrei neitt af viti.................
Í mínum huga er speki það sem sagt er og situr eftir í huga manns lengi og lætur mann hugsa.
Speki dagsins ,,aflaðu þér vina meðan þú þarfnast þeirra ekki,,
Þetta fékk mig til að hugsa hvað með þig ?
05.10.2010 15:36
Fyrsta haustveðrið.
Alveg týnd...........eða næstum því Þjóhátíð vildi ekki láta taka mynd af sér og laumaðist bak við mömmu sína.
Fyrsta alvöru haustveðrið er komið og þó hitinn eru nú heldur meiri en venjulega á þessum tíma árs svo það er víst engin afsökun að væla yfir því.
En manni bregður samt við og lætur eins og þetta komi á óvart.
Á laugardaginn var brunað í Víðidalstungurétt til að sýna sig og sjá aðra.
Þar var saman kominn fjöldi fólks sem að átti góðan dag í blíðunni, hrossin voru að vísu færri en venjulega þar sem að ekki ráku allir á fjall vegna hestapestarinnar.
Það var gaman að hitta mannskapinn og þá sérstaklega Mariu, Ericu, Susanna og Evu Lenu sem komu langt að til að mæta í réttirnar.
Ég setti myndaalbúm hér inná síðuna með svipmyndum af mannlífinu.
Á sunnudaginn var það svo Ósréttin á Skógarströndinni, stanslaust réttarfjör þessa dagana.
Nú standa yfir mínar vísindarannsóknir á rollubókunum sem eiga að skila niðurstöðum um hversu margt fé vanti af fjalli.
Eins og ,,sönnum,, vísindamanni sæmir birti ég niðurstöðuna seint og kannske aldrei en vona það besta og viðurkenni ekki það versta.
Nú styttist í að við smölum stóðinu heim og byrjum að temja þriggja vetra tryppin.
Alltaf svo gaman að kynnast nýjum hestum og sjá hvað þau hafa uppá að bjóða.
01.10.2010 23:25
Hér sé stuð já rollustuð.
Sumir eru monntnari en aðrir............Þjóðhátíð Glymsdóttir og Skútu á góðum degi.
Það er búið að vera ansi líflegt hér í Hlíðinni að undanförnu. Á miðvikudaginn rákum við lömbin inn og vigtuðum, fjörið náði nú aðeins inná fimmtudaginn því að við vorum ekki búin fyrr en kl 3 um nóttina. Svo á fimmtudagsmorguninn mættu Lárus ráðunautur og Magnús aðstoðarmaður hans til að sóna og stiga lömbin sem að við höfðum valið úr.
Við vorum svo heppin að fá þrjá aðstoðarmenn svo að þetta skotgekk.
Endirinn varð svo sá að við skildum eftir 12 hrúta og 90 gimbrar sem að fengu viðunandi gæðastimpil og bíða nú örlaga sinna. Við eigum eftir að heimta nokkuð mörg lömb svo að samkeppnin um pláss í líflambakrónni er hörð.
Ég var nokkuð sátt við útkomuna en á nú eftir að liggja í vangavelltum þegar um hægist læt samt flakka smá upplýsingar um þá hrúta sem enn ,,sitja,, heima.
Smá fyrir forfallna sauðfjárspekinga.
Við skildum eftir þrjá syni Rafts sem að allir stiguðust yfir 84 stig. Einn þeirra er nær öruggur lífhrútur, sá er með 9 fyrir bak og malir og 8,5 fyrir samræmi. Annar hefur sér til ágætis að vera með 18 fyrir læri og að auki nokkrar 8,5 ur. Sá þriðji er kannske bestur allavega jafnastur.................og ekki skemmir nú fyrir að móðirin er innundir hjá húsfreyjunni.
Það voru líka skildir eftir þrír synir Bolla og þar voru mörkin 84,5 stig. Gráborni á líka ansi skemmtilegan gráan son sem að stigaðist vel og ekki má nú gleyma svarta koll okkar sem er sonur Mókolls og raðar inn spennandi lömbum.
Undan svartakoll sem reyndar heitir Orri er grákollóttur hrútur sem að stigaðist mjög vel og hefur nú verið seldur suður í Borgarfjörð. Hann hlaut það fína nafn Hallkell frá Hallkelsstaðahlíð. Til hamingju með gripinn Toddi og Tobba.
Móbotnóttur Grábotnason bíður stolltur nýrra eigenda en hann kom út með 84 stig.
Þessi ,,draumaprins,, er sonur Orra Mókollssonar og ef að þið haldið að hann sé bara liturinn þá er það algjör misskilningur því hann hefur meðferðis fullt af stigum.
Nú eru hestamennirnir sem að eru ekkert inní sauðfjárræktinni alveg orðnir ruglaðir.........hann er sko ekki undan Orra frá Þúfu þessi ónei heldur Orra hrút frá Hallkelsstaðahlíð:)
Ég gæti rakið heilan helling í viðbót af sauðfjárfréttum en læt þetta duga í bili, seinna koma gimbra vangavellturnar.
PS er ennþá sátt við meðalvigtina eftir þau 165 lömb sem að fóru í gær, þá eru 567 lömb farin og eins gott að vera bara ánægður allavega þangað til næsta sending fer og lækkar meðalvigtina.
27.09.2010 20:37
27 september 2010
Hér er mynd sem tekin var í leitunum yfir Hafurstaði og Hlíðarvatn.
Myndin er tekin af Skálarhyrnunni.
Myndgæðin eru ekki sérstök þar sem að vélin er ,,imbi,, en myndin sýnir samt hversu lítið er í Hlíðarvatni.
Við eigum fullt af myndum sem að teknar voru í leitunum sem að ég á eftir að koma hér inná síðuna.
Þessi mynd er aftur á móti tekin af Hlíðarmúlanum.
Í dag slepptum við nokkrum ráðsettum smalahestum sem lokið hafa störfum í haust, nóg er samt eftir og rúmlega 30 á járnum. Mér finnst þetta alltaf skemmtilegur tími til að ríða út og vinna í ungum tryppum tala nú ekki um þegar svona vel viðrar.
Já í dag var 14 stiga hiti og blíða hér í Hlíðinni.
Dagleg skoðunarferð í folaldagirðinguna var skemmtileg í dag allt í ró og næði gott veður og folöldin bara nokkuð hress. Flest þeirra eru fljót að koma og skoða þessi furðuverk þegar við komum og setjumst á þúfu. Athygglivert að fylgjast með hvað þau eru mismunandi framfærin og hvernig framkoma þeirra hvert við annað er. Ekki ósvipað krakkahóp sum eru hress og kát önnur þung og hafa hreinlega ekki eins gaman af lífinu.
25.09.2010 22:30
Laufskálarétt........nei nei það er ekkert gaman :(:(
Nei nei mig langaði ekkert í Laufskálarétt..............allavega fór ég ekki þetta árið en stefni staðföst á næsta ár. Já maður getur ekki verið á mörgum stöðum í einu því er nú ver, en ég sendi fulltrúa svo að þetta er í góðu lagi.
Í dag var réttað í Vörðufellsrétt, við hér í Hlíðinni fengum rétt um hundrað kindur. Skilamenn úr Kolbeinssstaðahreppi gamla voru 7 sem að allir höfðu með sér voldug fluttningatæki sem öllu voru fyllt og rúmlega það því að við fórum tvær ferðir.
Skemmtileg rétt og fullt af fólki sem að átti góðan dag á Skógarströndinni.
Myndavélin gleymdist en sem betur fer átti ég mynd sem að tekin var í Mýrdalsrétt af þeim feðgum Jóel og Jóngeiri á Bíldhóli.
Spekingslegir þarna feðgarnir.
Þessa mynd tók ég líka í Mýrdalsrétt þarna er hreppstjórafrúin að fylgjast með hvort að allt fari ekki vel fram.
Þeir eru búralegir þarna þessir höfðingjar sem skoðuðu mannlífið í Mýrdalsréttinni.
Haukur á Snorrastöðum og Sveinbjörn í Hlíð.
Svo eru hér fleiri heimildarmyndir frá réttarhaldinu í Hlíðinni um síðustu helgi.
Þarna er Borgarnesdeildin öflug að vanda....................
Og enn fleiri heimildir og margar eftir ég reyni að týna þær hér inn við tækifæri, það verður gaman að skoða þessar eftir nokkur ár.
Þó svo að ég sé hundfúla yfir því að hafa ekki komist í Laufskálarétt í dag þá verð ég örugglega ánægð með það á morgun.
24.09.2010 01:42
Skútan heim og leyndarmálið okkar.
Þessi mynd heitir ,,Hópdrykkja,, hljómar kannske ekki vel en ef að þið skoðið nánar þá er það ekki mjög áfengt sem drukkið er heldur hreint og tært Hlíðarvatn.
Bara svo að það fari ekkert á milli mála þá hef ég sett inn nýjar myndir hér á síðuna sem teknar voru í réttunum. Vonandi eru allir sáttir við þessa birtingu enda allar myndir innan velsæmismarka. Eina sem að ég hafði áhyggjur af er það hvort að allir hafi nú verði vel til hafðir og ferskir. Mér sýndist allir þola samanburð nema þá helst húsfreyjan en hún er ýmsu vön svo þetta sleppur.
Eins og áður sagði fóru 402 lömb í slátur frá okkur í fyrra dag, hér hefur verið beðið eftir því að vigtartölurnar kæmu í hús. Að sjálfsögðu er alltaf spenningur að fá fyrstu tölur já svona eins og í kosningunum. Ég hef séð á fésbókinni að það er misjafnt hvort að fólk birtir þessar tölur en ég hef talið mér trú um að þeir einir birti tölurnar sem að eru þokkalega ánægðir með tölurnar. Ég er enn að spá í hvort að okkar tölur séu nógu góðar til birtingar, er ekki alveg viss. En þar sem að þið eruð nú orðvör og vel innrætt þá læt ég þær flakka og sjáið til svona okkar á milli. Meðalvigt á 402 lömbum 15,83 kg og einkun fyrir gerð 9,1.
Í gær sóttum við Skútu og Þjóhátíð sem að voru hjá Stíganda frá Stórahofi í Jaðri hjá Krissu og Agga. Klara vinkona mín frá Lambastöðum var þar líka með sitt folald og tókum við hana með heim. Eins og vænta mátti þá voru báðar hryssurnar fylfullar og í mjög góðu standi.
Takk fyrir góða þjónustu Jaðarsbændur.
Og þá eru allar hryssur komnar heim frá stóðhestum og viti menn allar hafa þær sónast fengnar.