24.10.2010 20:30

LH þing, spennandi vika, fortamningar en ekki kvennafrí.

Ég var að koma heim frá Akureyri þar sem landsþing hestamanna var haldið í boði Hestamannafélagsins Léttis. Gott þing og málefnaleg umræða um margvisleg málefni hestamanna.  Ég vil benda ykkur á að fara inná síðu LH sem er tengill hér á síðunni til að skoða mál og afgreiðslu þeirra. Eins var Eiðfaxi á staðnum og gerði þinginu góð skil.
Það er alltaf gaman að hitta hestamenn víðsvegar af landinu spjalla til gagns og gamans og að auki skemmta sér saman. Boðið var uppá sýningu í nýju reiðhöllinni og þingslitafagnað á Oddvitanum, þar var veislustjórinn Reynir Hjartarson f.v Brávallabóndi. Hann brást ekki frekar en fyrri daginn og lét mann allt að því gráta úr hlátri. Svo skemmtilegt þegar að veislustjórarnir eru ekki ,,staðlaðir,, og fyrirséðir heldur hagmæltir húmoristar af Guðsnáð.
Það er gaman að segja frá því að ég held að sauðfjárræktaráhugi hestamanna sé í sögulegum hæðum. Þetta kom meðal annars fram í því að þeir sem buðu sig fram til setu í stjórn samtakanna tíunduðu fjáreign sína og jafnvel fjárhundakost og töldu með því að þeir ættu greiðari leið til metorða. Og viti menn í flestum tilfellum báru sauðfjár og fjárhundaeigendur sigur úr bítum. Reyndar var fjöldi bústofns misjafn en þetta segir okkur að hestamenn vilja sjá ,,bændur,, af ýmsum gerðum í forsvari fyrir samtökin.
Í dag var svo brunað heim í yndislegu veðri, fyrst var það jólasnjórinn á Akureyri, svo sólin í Skagafirðinum, strekkingurinn í Hrútafirðinum og Svooooo blíðan í Hlíðinni. Hahaha.
Takk fyrir samveruna kæra hestafólk.

Það er stundum slæmt að geta ekki verið á tveimur stöðum í einu, ég hefði svo viljað vera í Búðardal um helgina. Þar var boðið uppá sviðaveislu, rúningskeppni, Hvanndalsbræður, Geirmund og margt fleira.
 En ég sendi fulltrúa með myndavél og mun því setja inn myndir við fyrsta tækifæri.

Nú fer í hönd spennandi vika eins og reyndar allar vikur hjá mér þar sem tekin verða inn fleiri tryppi, skoðaðir stóðhestar, seldir og keyptir hrútar, tekið á móti gestum og margt fleira.
Síðan er Mumminn að skipuleggja fortamningarnámskeið sem að verður á næstunni svo að endilega sendið honum póst ef að þið hafið áhuga. [email protected]

Kvennafrídagurinn...............það er efni í nýtt blogg af minni hálfu.