20.10.2010 21:24

Ekkert væl...............



Þarna er stóðið að njóta október blíðunnar suður á Eyrum við Djúpadalsá, þannig að þessi mynd heitir ,, Stóðið á Eyrunum,, hljómar samt svolítið tvírætt.

Í dag fóru á þriðja hundað lömb í sitt hinsta ferðalag norður í Skagafjörð, afgangurinn fer svo í næstu viku. Stanslausar eftirleitir hafa verið hér síðustu daga og alltaf fækkar þeim kindum sem vantar af fjalli en samt ekki nóg.



Þessi grákollótti gripur heitir Hallkell frá Hallkelsstaðahlíð.
Í dag flutti hann til nýrra eiganda sinna þar sem honum er ætlað stórt hlutverk á sviði kynbóta. Eins gott að hann verði sér og sýnum til sóma í framtíðinni.
Lambhrútarnir eru komnir inn og endanlegt val fer fram í næstu viku.

Fyrsti kaldi dagur haustsins var í dag eða það fannst mér en kannske var það bara of lítill svefn og snjórinn í fjöllunum sem að framkölluðu þessa tilfinningu?
Þá er það bara upp með föðurlandið og lopapeysuna og ekkert væl.