Flokkur: Daglegt líf í Hallkelsstaðahlíð

16.11.2009 22:20

Glotthildur, Léttlindur og tanaðir hrútar.



Þetta er hún Glotthildur hún er þarna að kljást við vin sinn, frændi hennar Léttlindur er frekar þreyttur kallinn og geispar bara af lífi og sál.
Glotthildur er undan Glotta frá Sveinatungu og Sunnu en Léttlindur er undan Hróði frá Refsstöðum og Létt frá Hallkelsstaðahlíð sem er dóttir hennar Sunnu. Smá ættfræði.

Við hér í Hlíðinni erum búin að vera í djúpum skít í dag, sko í orðsins fyllstu merkingu. Það er nærri því búið að moka út úr litlu fjárhúsunum og vonandi klárast það á morgun.
Þá eru öll haughús á bænum tóm því Mummi mokaði út úr stóru fjárhúsunum áður en hann fór norður. Góð tilfinning í byrjun vetrar.
Yfirmokarinn mætti í morgun og síðan er allt búið að vera á fullu. Skúli hefur svo rokið öðru hvoru í að taka af og miðar því verki vel rúmlega 450 kindur búnar en svolítið margar eftir samt.
Allt hefur gengið vel en ég verð sennilega að bíða með að sýna ykkur myndir af lambhrútunum..................þeir fóru í smá sturtu. Svona ykkur að segja ekki þrifabað heldur meira svona brúnkumeðferð........................eða þannig.

Nú fer að styttast í að folarnir okkar sem eru á Hólum komi heim, prófin hjá nemendunum eru núna í vikunni og svo sýningin á laugardaginn. Ég bíð spennt eftir að sjá hvernig hefur til tekist. Ætla að mæta og sjá ef að Guð lofar.
En spenntust er ég nú að fá Sparisjóðinn minn heim og sjá hvort að hann hefur lært eitthvað sniðugt í Hólavistinni.

15.11.2009 22:14

Fannar og formið.



Á myndinni er hann Fannar að hugsa.............já Fannar að hugsa það var einmitt það sem ég efaðist um í stutta stund að hann gerði, eftir æsilegan eltingaleik um daginn.
Seinna hef ég komist að því að hann hugsar og er háklassa karlremba þessi elska.
Eins og sönn dekurrófa er hann í ,,sparihaust,, hólfinu sínu með besta vini sínum honum Dregli. Að undanförnu hafa verið að bætast í hópinn gripir sem að honum finnst sennilega vera fyrir neðan sína virðingu og því ákvað hann að stinga af. En hann átti fleiri kvennaðdáendur en hann hefur reiknað með svo að hann gat nú ekkert laumast öðruvísi en með hópinn á eftir sér. Til að gera langa sögu stutta þá sluppu Fannar og dömuhópurinn heim á tún þegar þangað var komið var hlaupið eins og villidýr fram og til baka. Í byrjun hélt ég að það væri nú örugglega á færi virðulegar húsfreyju að koma þeim til baka en fljóttlega kom í ljós að svo var ekki. Ég fór því heim og sótti Astrid og rukum við af stað fullvissar um að hafa sigurinn fljótt. Fannar var ánægður með athygglina og bætti enn í hlaupin, hinsvegar var farið að draga af fylgdardömunum og þær hættar að hafa við honum.
Þegar hér var komið við sögu voru fylgdardömurnar orðnar móðar og másandi en okkur Astrid var helst farið að hittna í hamsi.............jafnvel svo hressilega að ekki voru öll orðin sem fuku útí haustblíðuna falleg. Svo loksins þegar Fannar hafði hlaupið nægju sína og kannað alla króka og kima innan túngirðingar ákvað hann að rjúka sjálfur til baka í girðinguna. Langt á eftir honum í gegn um hliðið komu svo dömurnar hans sveittar og dasaðar. Að lokum komu svo aðrar dömur fúlar, tuðandi og pirraðar. Þá stóð þessi elska rétt fyrir innan hliðið og horfði á bæði hryssur og kellur með samúaðar svip sem sagði.............iss þið eru ekki í neinu formi hafið þið ekki verið á Hólum.

13.11.2009 00:01

Góð kennslusýning í frábærri reiðhöll og smá ,,ömmu,, knús.


 Já það var sko hægt að segja að hún var fjölbreytt, fróðleg og skemmtileg kennslusýningin sem haldin var í stórglæsilegri nýrri reiðhöll vestlendinga í Borgarnesi.
Þórarinn Eymundsson tamningameistar FT stóð fyllilega undir væntingum og hélt 250 námfúsum nemendum vel við efnið í rúmlega tvo tíma. Þórarinn hafði meðferðis tvær hryssur sem að hann notaði við kennsluna önnur þeirra var gæðingurinn Þóra frá Prestbæ hin ung og efnileg Orradóttir. Að auki fékk hann svo í hendurnar hryssu Hamónu frá Söndum sem að hann hafði ekki áður séð og sýndi hvernig hann vildi vinna með hana og gaf ráð við áframhaldandi þjálfun. Virkilega gaman að fylgjast með vinnubrögðum hans.



Þær heppnuðust nú ekki allar vel myndirnar, svolítið erfitt að fá rétta birtu inní höll.



Þeir kunnu að sko að meta vöfflurnar þessir drengir...............



Það var þétt setið í stúkunni, verst hvað myndirnar eru dökkar. En höllin er alveg stórglæsileg og frábært skipulag og hönnun sérstaklega innandyra. 
Höllin á  örugglega eftir að nýtast vel. Innilega til hamingju allir þeir sem hlut eiga að máli.



Þá er að smella sér norður yfir fjöllin Þórarinn og Þóra ásamt aðstoðarfólkinu þeim Heiðrúnu og Pétri.



Ég og ,,ömmustelpan,, mín vorum líka orðnar þreyttar en urðum samt að knúsast svolítið áður en ég fór heim í Hlíðinna og hún í Reykholtsdalinn. Hún er heldur betur efnileg hestakona búin að skreppa á Hóla og mætir svo á kennslusýningu (svaf reyndar í vagninum sínum þangað til fólkið fór að klappa) en hefur örugglega lært eitthvað.

10.11.2009 22:19

Kennslusýning Þórarinn Eymundsson.... ekki missa af.....


Það hefur verið nóg um að vera hjá mér að undanförnu reyndar eins og stundum áður.
Síðasta föstudag sat ég aðalfund Félags hrossabænda sem haldinn var í Bændahöllinni og á laugardaginn fór ég á ráðstefnuna Hrossarækt 2009. Þetta voru góðir og gagnlegir viðburðir. Á laugardagskvöldið var svo farið á uppskeruhátíð hestamanna og þar var að sjálfsögðu mikið fjör eins og alltaf. Alltaf svo gaman að hitta hestamenn.

Sunnudagurinn var svo nýttur í það að reka inn lömbin og gera allt klárt fyrir aftekningu sem að hófst svo á mánudaginn. Reyndar vorum við svo ljónheppin að vera boðin í mat á sunnudagskvöldið hinumegin við fjallið. Voða notalegt að þurfa ekki að elda á svona kvöldum. Takk fyrir skemmtilega kvöldstund og gestrisni.

Í dag var svo haldið áfram að taka af og miðar verkinu bara vel. Alltaf er að bætast við og heimtast fé úr eftirleitum í gær var það útigenginn veturgamall hrútur, rolla og lamb.
Væri alveg til í að fá þennan fjölda daglega í einhvern tíma.

Á morgun stendur Félag tamningamanna í samstarfi við Hestamannafélagið Skugga fyrir kennslusýningu í nýju reiðhöllinni í Borgarnesi. Þar mun Þórarinn Eymundsson tamningameistari koma og kynna ýmiss vinnubrögð við tamningar og þjálfun.
Sýninginn hefst kl 20.00 og eru allir hjartanlega velkomnir.

sjá nánar á www.tamningamenn.is

05.11.2009 22:19

Sjaldséðir hvítir hrafnar.......



Það er erfitt að halda haus á þessum síðustu og verstu tímum svo það er gott að eiga góða að.

Hér í Hlíðinni hefur sést grár/hvítur hrafn nokkrum sinnum á síðustu vikum. Ég er sko ekki að tala um sjaldgæfan gest sem að ekki hefur komið í kaffi í langan tíma. Ó nei ekki aldeilis. Þið skulið nú lesa aðeins lengra ég er ekki alveg búin að tapa glórunni. Ég var búin að sjá hann nokkrum sinnum en þar sem að ég er nú enginn sérstakur fuglaspekingur og sé ekki vel þá þorði ég ekki að hafa orð á þessu í nokkra daga. En þegar aðrir hér á bæ fóru að færa þetta varlega í tal við mig örugglega jafn smeikir um glóru missir eins og ég , þá var rokið í nánari fuglaskoðun.
Í ljós kom að þetta er svo sannarlega hrafn og liturinn er grár/hvítur. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur enn ekki tekist að ná mynd af gripnum. Við Astrid erum báðar búnar að gera tilraunir til að mynda gripinn og var Mummi svo virkjaður í málið um síðustu helgi en honum varð ekkert frekar ágengt í málinu. Hrafninn er sem sagt eins og fræga fallega fólkið mikið fyrir að láta elta sig með myndavélina.

Ég var að fá fréttir frá henni Ansu okkar í Finnlandi og þar er sko vetur 30 cm djúpur snjór. Það er sko eins gott að þeir félagarnir Nasi og Pinni eru vanir Íslensku fjallaveðri.
Það er gott fyrir þig Ansu að venja þig við snjó og vetur sérstaklega ef að þú kemur heim til Íslands og ferð í Háskólann á Hólum.emoticon

Í dag var tekinn smá hringur í eftirleit en ekkert fannst nema skruddur sem að höfðu stungið af út af túninu og voru að reyna að laumast til fjalla. Þær eru skrítnar þessar kindur ef að þær eiga að vera uppí fjalli þá koma þær í túnið en ef að þær eiga að vera á túninu þá er sjálfsagt að stinga af.

Það er ýmislegt á döfinni næstu daga en nánar um það síðar.

28.10.2009 22:54

Rjúpnavinir og aðrir kunningjar................



Hnappadalurinn hefur uppá margt að bjóða.............................

Það er með ólíkindum hvað ,,kunningjahópurinn,, stækkar rosaleg hér í Hlíðinni þegar rjúpnatíminn nálgast. Síminn hringir, það bætist í pennavinahópinn á netinu og  maður eignast jafnvel nýja kunningja þegar maður fer í búðina. Suma þekkir maður vel aðra svolítið og suma bara ekki neitt. Annars er ég nú ómannglögg svo að þetta er kannske allt saman misskilningur. Ég fékk til dæmis skemmtilegt símtal í kvöld þá hringir í mig maður sem að hafði verið náinn vinur, vinar löngu látins frænda míns. Já þetta hljómar nú ekki mjög  skírt en svona var það nú samt. Hann hafði mikinn áhuga á að endurnýja þessi tengsl og vináttu (sem fyrst allavega fyrir helgi). Ég hef nú alls ekkert á móti því að kynnast nýju fólki nema síður sé en það væri óneytanlega skemmtilegra að dreifa því svona á lengri tíma.
En til að taka af öll tvímæli þá er málum þannig háttað hér í Hlíðinni að sérvaldir og löngu ráðnir vaskir sveinar sjá um öll rjúpnamál hér. Þeir skiptast samviskusamlega á og eru á ferðinni flesta rjúpnadaga. Þetta eru geðprýðismenn en geta orðið viðskotaillir ef að einhverjir eru að þvælast á ,,þeirra,, svæði svo að það er enginn ástæða til að ergja þá að óþörfu. emoticon

27.10.2009 22:47

Eitthvað svo kindalegt.



Hér koma myndir frá rúningskeppninni í Búðardal, þarna er bjartasta von okkar Kolhreppinga í rúningi. Þetta er hann Þórður í Mýrdal sem að varð í öðru sæti í flokknum ,,minna vanir,, svo hér fyrir neðan er næsti ættliður.....................



...................Gísli bóndi í Mýrdal sem varð í öðru sæti í aðal keppninni eftir harða baráttu við Julio Cesar frá Hávarðsstöðum meistarann frá því fyrra.
Það var gaman að fylgjast með þessari keppni og mjög líklegt að fleiri verði með á næsta ári.

Í gær og í dag höfum við skoðað og yfirfarið hverja einustu kind, kannað hvernig lömbum hún hefur skilað og hvort að heilsufarið sé ekki ákjósanlegt. Þetta gerum við alltaf á haustin til að hafa sem besta yfirsýn og ganga úr skugga um að engin kind verði sett á vetur nema hún standist þetta tékk. Einnig er þetta gott tækifæri til að finna út hvaða kindur vantar enn af fjalli. Öll númer eru borin saman við bækurnar og þannig sést hvaða kindur eru óheimtar.
Á morgun fara svo síðustu lömbin og sláturskindurnar norður á Sauðárkrók. Alltaf svo gott þegar allt þetta sláturstúss er afstaðið.
Heimtur eru betri en í fyrra en samt vantar ennþá nokkra tugi af fjalli. Á næstu dögum set ég upp Tigergleraugun og tel saman hvað raunverulega vantar af fjalli.

Loksins er búið að laga ruglið sem var á síðunni en ég á enn eftir að bæta inn tenglum sem að duttu út. Verð að fara að gefa mér tíma til að dekra við síðuna og bæta meiri upplýsingum inn.

22.10.2009 22:05

Púddufátækt og fleira



Á myndinni er góður höfðingi að njóta veður blíðunnar við húsvegginn hér í Hlíðinni.

Í gær var brunað í bæinn til að fara á kennslusýningu hjá Antoni Páli Níelssyni reiðkennara.
Sýningin var samstarfsverkefni Félags tamningamanna og Hestamannafélagsins Gusts sýningin heppnaðist mjög vel og var aðsóknin góð um 200 manns. Á næstunni verða fleiri svona viðburðir á vegum FT og ýmislegt spennandi framundan.
Eftir sýninguna var svo litið við hjá afmælisbarninu í Garðabænum og þar var náttúrulega þessi fína terta á boðstólnum. Takk fyrir mig Erla mín.

Það var líka rokið til fjalla í eftirleit og árangurinn var bara nokkuð góður rúmlega 20 kindur. Já það var ekki sérstaklega gott færið síðasta laugardag þegar við smöluðum svo það var nauðsynlegt að fara í tiltekt.

Ég hef verið að forvitnast um folana okkar sem eru í námi á Hólum þá Baltasar, Vörð og Fjórðung (sko ekki Mumma og Helga) þeir eru bara að standa sig vel og gera það vonandi áfram. Ég er orðin svolítið spennt að sjá þá og bíð eftir sýningunni.
Svo verður nú gaman að hitta Sjóðinn sinn aftur og sjá hvað hann hefur lært.

Annars er ég í frekar slæmum málum því að hænur búsins eru komnar í verkfall. Ég held að þær séu að mótmæla kreppunni eða ríkisstjórninni og hafi ákveðið að þær væru orðnar alltof gamlar til að verpa. Alltaf þessi æskudýrkun hjá kvennþjóðinni. Ég er orðin svo vön stórum sveitaeggjum með dökkri rauðu að ég fæ næstum klíu og klúðra öllum kökuuppskriftum þegar ég brýt lítil og náföl Bónus egg saman við degið.
Sem sagt mig vantar hænur...............................



19.10.2009 22:28

Örlögin ráðin...............



Kindastússið endalausa........................

Þið sem eruð að bíða eftir hestafréttum héðan úr Hlíðinni verðið að bíða í nokkra daga í viðbót því nú um stundir er ég sauðfjárbóndi. En törnin fer nú að klárast og á morgun fara héðan um 300 lömb í sitt síðasta ferðalag. Hér var tekin ærleg sveifla í gær vigtað og valið fram á harða kvöld og eitt er víst valið var erfitt. Í morgun mætti svo Lárus ráðunautur með sónarinn skoðaði og stigaði fjöldann allan af lömbum. Niðurstaðan varð 1oo lífgimbrar og 8 lífhrútar. Svo á eitthvað eftir að heimtast úr fjallinu og þá bætist hugsanlega eitthvað við fjöldann. Kröfurnar fara vaxandi með hverju árinu og margir góðir gripir verða að fara.
Góður hópur af lífgimbrum skiptu um eigendur í dag og vona ég að þær eigi eftir að verða nýjum eigendum til ánægju og  ræktendum sínum til sóma.
Það er ekki grín að vera hrútur frekar en karlmaður það skal ég segja ykkur. Það reyndu 19 lambhrútar í dag þegar þeir fóru í gegnum nákvæma skoðun Lárusar ráðunauts og annara sjálfskipaðra ,,sérfræðinga,, (sérvitringa) hér í Hlíðinni.
Eins og áður sagði hafði forvalið (prófkjörið) farið fram en nú voru það kosningarnar.
Eftir fyrst umferð var ljóst að einungið 12 ættu möguleika miðað við þær kröfur sem upp voru settar. Kröfurnar voru meðal annars....... meira en 82 stig frá Lárusi, góðar mæður, ennþá betri feður, fegurð og fönguleiki að áliti ,,sérfræðinganna,, og síðast en ekki síst að hafa náð tökum á því að heilla húsfreyjuna og tryggja sér hennar velvilja. Stundum reynst vel. Markmiðið var að lífhrútarnir yrðu 4 eða kannske 6 svo að niðurskurðurinn hélt áfram.
Tölur voru skoðaðar og gripir metnir fram og til baka. Baráttan harnaði og ég er sannfærð um að hjartað var farið að slá hratt í vini mínum Sindra Kveikssyni þegar endanlegur dómur var kveðinn upp.
Fyrstur til að fá rauðamerkið í ennið sem þýðir líf var hrútur undan Fannari frá Ytri-Skógum snotur hrútur með bara þó nokkrar níur. Síðan voru það tveir synir Dökkva frá Hesti sem báðir eru svartir og einn bróðir í viðbót sem er hvítur. Dökkvi kom afar vel út hér á bæ.
Mókollur sonur Mókolls frá Borgarfelli kom næstur 60 kg hlunnkur sem landaði 84 stigum og getur verið stolltur af því að vera eini kollótti hrúturinn sem valinn var úr lömbunum þetta árið. Þróttur frá Staðarbakka átti einn son í þessum hópi sem var virkilega jafn og góður og skoraði vel.
Það sem gerir sauðfjárrækt m.a skemmtilega er það að leggja sig fram um að þekkja gripina og sérstöðu hvers og eins í það væri frábært að hafa endalausan tíma en svo er nú ekki. Ein fullorðin kind er hér í hópnum sem ég hef alla tíð haft miklar mætur á en þetta er kind sem að Einar heitinn móðurbróðir minn valdi til lífs eitt haustið og líklega sú síðasta sem hann valdi. Kindin Snjóka klikkaði ekki frekar en fyrri daginn og kom með gullgóðan 84 stiga hrút sem að ég er viss um að Einari hefði líkað.
Nú eruð þið örugglega orðin alveg viss um að ég kunni ekki að telja....................en ég verð að segja ykkur að svo er nú ekki, heldur eru fjöldamarkmiðin bara fokin útí veður og vind.
Og það sem meira er................ ég á að sjálfsögðu eftir að nefna einn gripinn sem að fékk náð fyrir augum allra í dag en það er enginn annar en Sindri Kveiksson. Hann raðaði á sig góðum stigum og stóð undir væntingum en ef að einhver efast um einhvern gæði hans þá hefur hann alltaf fullgilda afsökun..............................hann var rekinn úr kálinu.

Myndir af gripunum koma fljóttlega inná síðuna og þá er ykkar að dæma hvort valið var rétt.

17.10.2009 22:14

Hver verða örlög Sindra Kveiks???

 Það er orðið langt síðan ég hef gefið mér tíma til að setjast niður og færa ykkur fréttir héðan úr Hlíðinni. Síðasta vika var erilsöm í meira lagi og því lítið um skriftir og vangavelltur.
Á mánudaginn var fundur hjá okkur í stjórn Félags tamningamanna og á þriðjudaginn var síðan fundur í Fagráði í hrossarækt. Þetta voru góðir fundir og ýmislegt í farvatninu á báðum vígstöðum.
Vil ég minna ykkur á að Anton Páll Níelsson reiðkennari verður með sýnikennslu í Reiðhöll  Hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi næsta miðvikudag þann 21 október. Ég hef farið á sýnikennslu hjá honum áður og það var alveg frábært svo að þið verðið að koma og kíkja.

Vitið þið hvað? kella bara búin að gera slátrið fyrir þetta árið. Við mæðgur og harðsvírað aðstoðarfólk tókum okkur til og gerðum ein 23 slátur. Tilfinningin er frábær þegar þetta er búið en breytir ekki því að það er meira kjötstúss eftir á þessu heimili.

Hann Salómon er snillingur á því hefur aldrei leikið nokkur vafi í mínum huga, já og flestra annara líka. Þegar ég kom heim úr smalamennskunni í kvöld hafði hann lagt sitt af mörkum í sláturstússinu. Já hann aðstoðar mig við ýmislegt þessi höfðingi. Verkefna röðunin er svolítið öðruvísi hjá honum en mér ég legg mig fram um að ganga frá öllu kjötinu og borða það síðan en hann borðar helminginn og ætlar að ganga frá restinni síðar.
Þessi munur getur svo sem stafað af því að mínir skrokkar eru svolítið stærri en hans og hann leggur mun meira á sig við að veiða sína skrokka en ég mína.
Það eru jú ekki til nein músasláturhús ennþá.............................

Í gær byrjuðum við að smala aftur og einu sinni enn nú skal fjallið hreinsað. Veðrið var vægt til orða tekið ógeðslegt rok og rigning en það var hlýtt bara svo ég nefni eitthvað jákvætt. Við komum heim með þó nokkuð margt fé þrátt fyrir veðrið. Í dag var svo lagt í seinni herferðina með fullt af góðum aðstoðar smölum. Færið og veðrið var nokkuð gott hér niðri en þegar komið var inná fjall og Djúpadal var færðin slæm. Snjór sem hnoðaðist í hófa og útsýnið mjög lítið. Stemmingin var ljómandi góð og jólalögin glumdu í hausnum á mér alla leið heim. ,,Snjókorn falla,, og mörg fleiri.
En okkur varð nokkuð ágengt og komum heim með góðan hóp sem verður rekinn inn á morgun og dreginn í sundur.
Á morgun verður líka farið í það vandasama verk að velja líflömbin svona gróft forval nokkurs konar prófkjör. Þá verða góðu Tiger gleraugun sett upp og gripirnir skoðaðir og metnir hverjir eru hæfir til að fara í sónarskoðun á mánudaginn.
Þá kemur í ljós hvernig kynbótahrúturinn Sindri Kveiksson spjarar sig kannske fær hann ,,prófkjörsráð,, hjá nafna sínum og sleppur í gegn um forvalið. Ef að hann lendir í basli með forvalið hefur hann góða afsökun......................hann var rekinn úr kálinu í sumar.
Mókollur vinur Sindra er sjarmatröll og sæðingur eins og hann, hver verða örlög hans????
Nánar um það síðar................................

10.10.2009 13:49

Er fokið í flest skjól??



Á þessari mynd er gullið mitt hún Karún að kljást við unga Gosadóttir sem heitir því framsýna nafni Framtíðarsýn. Þær nutu saman veðurblíðunnar á dögunum og lögðu sig fram um að kynnst nánar. Hryssurnar eru ánægðar með að vera komnar á hauststaðinn sinn en voru samt svolítið öfundsjúkar þegar Skúta og litla Trilla fengu einhverja sér meðferð í sliddunni.
Þær vor teknar og settar í skjól sem er ofan, neðan og allt í kring sem sagt inn á meðan versta veðrið gekk yfir. Það er munur að vera uppáhalds þegar maður er bara eins og hálfsmánaða.

Veðrið þessa dagana er hreint ekki eins dásamleg eins og við fengum í réttarstússið um síðustu helgi, þegar ég einmitt tók fullt af myndum sem ég hef nú sett inná ,,myndaalbúm,,
Okkur hefur verið boðið uppá leiðinda rok og stundum sliddu en megum kannske þakka fyrir að fá ekki aftakaveður eins og víða annars staðar.



Þarna er hann Kynbótakollur hann fer á níunda vetur sem er nú nokkuð hár aldur í hrútaheimi. En takið eftir hann er ekki eins og þið kallarnir........hann er sko ekki að verða skollóttur þó að aldurinn færist yfir. Reyndar eru nú eyrun farin að vísa full mikið til jarðar, en hvað um það sjarmatröll á sinn hátt.

Nú fer að styttast í kindastúss hér heima fyrst verða það smalamennskur og eftirleitir svo val  á líflömbum og förgunarkindum. Mér finnst alltaf gaman að raga í fé spá og spekulegra skoða afkvæmi og rekja ættir. Þegar ég var lítil þá var dagurinn sem að lífgimbrarnar voru valda einn af þeim bestu þó svo að allar væntingar um líflömb stæðust ekki.
Nú bíð ég spennt eftir því að sjá hvernig ,,kynbótagripurinn,, Sindri kemur af fjalli einnig verður gaman að sjá Mókoll já og ýmsa fleiri. Það er ekki bara hrossaræktin sem er skemmtileg.
Það hefur verið að heimtast fé hér jafnt og þétt síðan í fyrstu leit en engin nákvæm talning farið fram. Við erum bara búin að senda lömb í förgun einu sinni í haust það var eftir fyrstu leit sem fóru 501 lamb. Fyrir þá sem hafa áhuga á meðalvigt þá var ég nokkuð sátt  en hefði að sjálfsögðu viljað hafa hana hærri en flokkunin var góð. Meðalvigtin var meira en 15 kg en minna en 20 kg og reiknið þið nú......
Annars höfum við gert mikla skissu undanfarin ár þegar við höfum verið að setja 5-600 lömb í fyrstu förgun. Við hefðum átt að setja bara þessi 100 þyngstu og hafa svo nótuna með meðalvigtinni til sýnis allt haustið.
Hver skoðar dagsetningu þegar kílóafjöldinn er stórkostlegur?

Eitt er það sem farið er að banka óþægilega á undirmeðvitund húsfreyjunnar......SLÁTURGERÐ mér finnst það nokkuð ljóst að ég verði að gera eitthvað í því í næstu viku.


05.10.2009 22:41

Hryssurnar í hausthagann.



Í dag fóru hryssurnar í haustgirðinguna sína þannig að það voru síðustu forvöð fyrir þær að príla. Þær tóku smá æfingu fyrir sig og sín folöld eins og þið sjáið hér á myndinni.
Þarna röllta þær og afkvæmin í halarófu eftir Syllunum eins og þessi staður er kallaður.
Það var gaman að sjá folöldin aftur eftir nokkrar vikur í fjallinu, sum höfðu stækkað mikið en aðal breytingin á öðrum var að núna voru þau orðin loðin og lubbaleg.



Þarna er hún Fáséð mín Baugsdóttir að rekja spor..............hvert ætli þau liggji????

Ég setti inn svolítið af nýjum myndum frá þessum góða degi inná ,,albúm,, flipann hér á síðunni. Myndasafnið var samt ekki eins mikið og ég ætlaði því myndavélin varð batterýlaus áður en að við komum í girðinguna og einnig áður en að allar hryssurnar voru komnar í hópinn. Bæti úr því við fyrsta tækifæri.

04.10.2009 21:35

Spá.......halda......vona....og stundum.......verða viss.




Máninn fullur fer um heiminn.....................................og tyllir sér á Geirhnjúkinn.

Það var yndislegt veður í dag sama hvort það var á Skógarströndinni eða í Hnappadalnum.
Ég tók margar fallegar myndir sem koma inná almbúnin mín á næstunni.

Í gær fórum við í leit inná Skógarströnd þar voru leitir á Háskerðingi, Grásteinsfjalli og síðan í Stóra og Litla-Langadal. Veðrið var gott en færið var nú ekkert sérstakt þungt og snjóföl.
Ég verð að játa að skógur, lyng og sina bjóða ekki uppá skemmtilegt göngufæri þegar svo snjór hefur bæst við. Allt gekk þetta nú samt ljómandi vel með hjálp góðra hunda og fjórhjóla. Var fénu safnað saman og rekið í réttargirðinguna við Ósrétt og gleymt þar þangað til í morgun þegar það var réttað í blíðunni.



Hér er aðeins tekið á þjóðmálunum ekki veitir af....................
Albert, Ásbjörn, Helga, Sveinbjörn og Jóel.



Það voru skemmtilegar andstæður í litunum hér í Hlíðinni eins þið sjáið, meira af því þegar ég hef sett inn fleiri myndir.

Eftir að Ósrétt var búin var smalað hér útí hlíð og síðan farið í Hraunholt þar sem féð var rekið inn. Við heimtum þó nokkuð margt fé í dag og eru heimtur að batna dag frá degi.
Eitt af mínum uppáhalds sparilömbum kom í dag, það er hvít gimbur undan afburðagóðri kind sem ég hef mikla mætur á. Þegar hún fæddist í vor var ég næstum ákveðin í að þetta yrði kynbótagripur sem mjög líklega yrði fyrir valinu þegar kæmi að vali á líflömbum. Þá leyfði ég mér bara að vona núna er ég viss.
Þið sem að ekki stundið eða hafið áhuga á búfjárrækt verðið að vita að það er þetta sem er svo gaman við þetta allt saman.
Spá............halda...........vona..........og stundum.......verða viss.

02.10.2009 21:51

Skúta fengin og Háskerðingur á morgun.


Er ekki græni liturinn alltaf notalegur???????????
Að minnsta kosti þegar slyddan þekur gluggann og vindurinn næðir,  já það er nú ekkert sérstök tilfinning að fara að smala Háskerðing á morgun. En rosalega verður það nú gaman ef að veðrið verður gott. Ég pannta logn, bjart og smá frost..........
Mér hefur alltaf fundist rollur og slydda passa illa saman þannig að veður eins og var í dag hér í Hlíðinni var sko ekki rolluvænt.
Ég verð nú að játa að ég er svolítið súr yfir því að hafa ekki getað þegið gott boð um að fara í stóðsmölun í Húnaþingi í dag. En það kemur dagur eftir þennan dag og þá verður sko tekið á því eins og þeir bröttu segja.

Á myndinni hér að ofan er dekur hrúturinn Snjall sem að á sér þann draum heitastan að fara til fjalla á sumrin. En Snjall er sparikind og alltaf til vandræða ef að hann fer í fjallið svo að hann eyddi sumrinu hér heima í túni. Ekki var nú ætlast til að hann kláraði kálið frá lömbunum svo að hér er Deila að berjast við glæpagengið snjalla.

Í dag voru sónarskoðaðar hryssurnar sem að voru hjá Glymi frá Skeljabrekku, þar var einmitt hún Skúta hans Mumma. Við höfðum beðið spennt eftir því að vita hvort að þetta síðsumarsskot hefði heppnast. Og heppnin var með að þessu sinni og sónaðist Skúta með 24 daga gömlu fyli. Skúta og litla Trilla Gaumsdóttir litu ljómandi vel út eins og við var að búast eftir dvölina á Eyri hjá þeim Lenu og Finni. Nú er bara að vona að allt gangi vel og ekki væri nú leiðinlegt ef að Skúta ætti þriðju hryssuna næsta vor.
Hann Einar í Söðulsholti var svo vinsamlegur að taka Skútu með sér heim því að við vorum í rollu stússi. Takk kærlega fyrir það Einar.
Núna eru bara tvær hryssur eftir að koma heim úr stóðhestagirðingum þær Tryggð og Spóla.

Ég var að skoða niðurstöðuna úr skoðanakönnunni hér á síðunni þær leiddu í ljós að 65% gesta lásu helst bloggið, 25% skoðuðu söluhrossin og 10% annað.
Þetta segir mér að ég ætti nú að fara að skrifa eitthvað gáfulegt og fjölga söluhrossunum.





01.10.2009 19:54

Viðja fundin, bræður í vanda, Kraftur og Tóti góðir.


Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað þið sjáið á þessari mynd.............ó jú þetta er hún Viðja sem var búin að vera týnd alveg síðan í október í fyrra. Ég var meira að segja búin að stroka nafnið hennar af hrossavitsblaðinu mínu en sem betur fer ekki búin að skrá hana dauða í Worldfeng. Viðja er þriggja vetra hryssa undan henni Tryggð minni og Faxa frá Hóli hún hvarf í október í fyrra og erum við búin að leita mikið. Ég var orðin sannfærð um að hún væri dauð og varð því ekki lítið ánægð þegar hún kom fram hjá honum Halldóri í Syðstu-Görðum. Viðja leit mjög vel út spik feit og hefur stækka helling, greinilega gott að vera í vist hjá honum Halldóri. Takk fyrir það.
Þegar Viðja kom heim var henni smellt beint inní hesthús og verður byrjað að temja hana fljóttlega. Já stundum gerast skemmtilegir hlutir.

Í gær fór ég á frumsýningu á myndinni ,,Kraftur síðasti spretturinn,, sem sýnd er í eina viku í Kringlubíói. Ég skemmti mér ljómandi vel og mæli hiklaust með því að fara og sjá þessa mynd. Hún er skemmtileg, tilfinningaþrungin og gefur fólki annað sjónarhorn á ýmsa þætti hestamennskunnar. Innslag bóndans í Kýrholti er tær snild, ég er enn að hugsa um það hversu mikill sannleikur var í orðum hans og ekki skemmdi fyrir að flétta köldum húmor saman við. Verð að játa að ég rúmlega brosi útí annað þegar ég hugsa um morgunvandræði verðbréfasalans sem hann vitnaði í. Ekki spurning skellið ykkur á myndina og munið að þið þurfið ekkert að vera forfallnir hestamenn til að hafa gaman af myndinni, þó það sé að sjálfsögðu ekki verra.
Áður en ég sá myndina var mér lofað gæsahúð, brosi og tárum..........það stóðst og ég notaði það allt.
Svo er ég líka rosalega ánægð að hafa eignast hryssu undan Krafti og bíð eftir að hún komist á tamningaaldur.

Eftir afrek síðustu helgar hjá þeim bræðrum Ófeigi og Þorra þar sem þeir snæddu úlpu húsfreyjunnar var ráðist í framkvæmdir. Nú hefur verið komið upp búrum í þvottahúsinu sem hýsir kappana þegar þeir eru ekki við löglega vinnu. Ófeigur er þokkalega sáttur með nýja híbýlið en Þorri er hundfúll vildi fá stærð svona meira í anda ársins 2007 og viðbrögðin eru þau að rétt sé að vera ekkert að koma heim í þessa holu.
Húsráðendur eru alsælir með framkvæmdirnar en bræðurnir eru frekar súrir og kenna ríkisstjórninni um vandann eins og sjálfsagt er.

Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Skeggi Stælsson bara skemmtilegur.