02.10.2009 21:51

Skúta fengin og Háskerðingur á morgun.


Er ekki græni liturinn alltaf notalegur???????????
Að minnsta kosti þegar slyddan þekur gluggann og vindurinn næðir,  já það er nú ekkert sérstök tilfinning að fara að smala Háskerðing á morgun. En rosalega verður það nú gaman ef að veðrið verður gott. Ég pannta logn, bjart og smá frost..........
Mér hefur alltaf fundist rollur og slydda passa illa saman þannig að veður eins og var í dag hér í Hlíðinni var sko ekki rolluvænt.
Ég verð nú að játa að ég er svolítið súr yfir því að hafa ekki getað þegið gott boð um að fara í stóðsmölun í Húnaþingi í dag. En það kemur dagur eftir þennan dag og þá verður sko tekið á því eins og þeir bröttu segja.

Á myndinni hér að ofan er dekur hrúturinn Snjall sem að á sér þann draum heitastan að fara til fjalla á sumrin. En Snjall er sparikind og alltaf til vandræða ef að hann fer í fjallið svo að hann eyddi sumrinu hér heima í túni. Ekki var nú ætlast til að hann kláraði kálið frá lömbunum svo að hér er Deila að berjast við glæpagengið snjalla.

Í dag voru sónarskoðaðar hryssurnar sem að voru hjá Glymi frá Skeljabrekku, þar var einmitt hún Skúta hans Mumma. Við höfðum beðið spennt eftir því að vita hvort að þetta síðsumarsskot hefði heppnast. Og heppnin var með að þessu sinni og sónaðist Skúta með 24 daga gömlu fyli. Skúta og litla Trilla Gaumsdóttir litu ljómandi vel út eins og við var að búast eftir dvölina á Eyri hjá þeim Lenu og Finni. Nú er bara að vona að allt gangi vel og ekki væri nú leiðinlegt ef að Skúta ætti þriðju hryssuna næsta vor.
Hann Einar í Söðulsholti var svo vinsamlegur að taka Skútu með sér heim því að við vorum í rollu stússi. Takk kærlega fyrir það Einar.
Núna eru bara tvær hryssur eftir að koma heim úr stóðhestagirðingum þær Tryggð og Spóla.

Ég var að skoða niðurstöðuna úr skoðanakönnunni hér á síðunni þær leiddu í ljós að 65% gesta lásu helst bloggið, 25% skoðuðu söluhrossin og 10% annað.
Þetta segir mér að ég ætti nú að fara að skrifa eitthvað gáfulegt og fjölga söluhrossunum.