19.10.2009 22:28

Örlögin ráðin...............Kindastússið endalausa........................

Þið sem eruð að bíða eftir hestafréttum héðan úr Hlíðinni verðið að bíða í nokkra daga í viðbót því nú um stundir er ég sauðfjárbóndi. En törnin fer nú að klárast og á morgun fara héðan um 300 lömb í sitt síðasta ferðalag. Hér var tekin ærleg sveifla í gær vigtað og valið fram á harða kvöld og eitt er víst valið var erfitt. Í morgun mætti svo Lárus ráðunautur með sónarinn skoðaði og stigaði fjöldann allan af lömbum. Niðurstaðan varð 1oo lífgimbrar og 8 lífhrútar. Svo á eitthvað eftir að heimtast úr fjallinu og þá bætist hugsanlega eitthvað við fjöldann. Kröfurnar fara vaxandi með hverju árinu og margir góðir gripir verða að fara.
Góður hópur af lífgimbrum skiptu um eigendur í dag og vona ég að þær eigi eftir að verða nýjum eigendum til ánægju og  ræktendum sínum til sóma.
Það er ekki grín að vera hrútur frekar en karlmaður það skal ég segja ykkur. Það reyndu 19 lambhrútar í dag þegar þeir fóru í gegnum nákvæma skoðun Lárusar ráðunauts og annara sjálfskipaðra ,,sérfræðinga,, (sérvitringa) hér í Hlíðinni.
Eins og áður sagði hafði forvalið (prófkjörið) farið fram en nú voru það kosningarnar.
Eftir fyrst umferð var ljóst að einungið 12 ættu möguleika miðað við þær kröfur sem upp voru settar. Kröfurnar voru meðal annars....... meira en 82 stig frá Lárusi, góðar mæður, ennþá betri feður, fegurð og fönguleiki að áliti ,,sérfræðinganna,, og síðast en ekki síst að hafa náð tökum á því að heilla húsfreyjuna og tryggja sér hennar velvilja. Stundum reynst vel. Markmiðið var að lífhrútarnir yrðu 4 eða kannske 6 svo að niðurskurðurinn hélt áfram.
Tölur voru skoðaðar og gripir metnir fram og til baka. Baráttan harnaði og ég er sannfærð um að hjartað var farið að slá hratt í vini mínum Sindra Kveikssyni þegar endanlegur dómur var kveðinn upp.
Fyrstur til að fá rauðamerkið í ennið sem þýðir líf var hrútur undan Fannari frá Ytri-Skógum snotur hrútur með bara þó nokkrar níur. Síðan voru það tveir synir Dökkva frá Hesti sem báðir eru svartir og einn bróðir í viðbót sem er hvítur. Dökkvi kom afar vel út hér á bæ.
Mókollur sonur Mókolls frá Borgarfelli kom næstur 60 kg hlunnkur sem landaði 84 stigum og getur verið stolltur af því að vera eini kollótti hrúturinn sem valinn var úr lömbunum þetta árið. Þróttur frá Staðarbakka átti einn son í þessum hópi sem var virkilega jafn og góður og skoraði vel.
Það sem gerir sauðfjárrækt m.a skemmtilega er það að leggja sig fram um að þekkja gripina og sérstöðu hvers og eins í það væri frábært að hafa endalausan tíma en svo er nú ekki. Ein fullorðin kind er hér í hópnum sem ég hef alla tíð haft miklar mætur á en þetta er kind sem að Einar heitinn móðurbróðir minn valdi til lífs eitt haustið og líklega sú síðasta sem hann valdi. Kindin Snjóka klikkaði ekki frekar en fyrri daginn og kom með gullgóðan 84 stiga hrút sem að ég er viss um að Einari hefði líkað.
Nú eruð þið örugglega orðin alveg viss um að ég kunni ekki að telja....................en ég verð að segja ykkur að svo er nú ekki, heldur eru fjöldamarkmiðin bara fokin útí veður og vind.
Og það sem meira er................ ég á að sjálfsögðu eftir að nefna einn gripinn sem að fékk náð fyrir augum allra í dag en það er enginn annar en Sindri Kveiksson. Hann raðaði á sig góðum stigum og stóð undir væntingum en ef að einhver efast um einhvern gæði hans þá hefur hann alltaf fullgilda afsökun..............................hann var rekinn úr kálinu.

Myndir af gripunum koma fljóttlega inná síðuna og þá er ykkar að dæma hvort valið var rétt.